Mótorhjólaheimurinn

17.4.17

Stórsýning Rafta og Fornbílafjelagsins verður 13. maí



Hin árlega stórsýningu Bifhjólafjelagsins Rafta og Fornbílafjelags Borgarfjarðar í Brákarey í Borgarnesi verður laugardaginn 13. maí klukkan 13 til 17. 

Sýningin hefur fyrir margt löngu skapað sér verðugan sess meðal áhugafólks um bíla og mótorhjól. Þessi dagar er til að mynda sá sem margir viðra fáka sína fyrst úr vetrargeymslunni. Af þeim sökum má sjá hundruði óvenjulegra ökutækja á ferðinni og á leið í Borgarnes.

„Það er góðæri í landinu þannig að við höfum aldrei fengið jafn marga sýningaraðila til að verða með okkur og nú. Þeir verða alls 16 talsins. Þetta er bæði hjólaumboð, útivistaraðilar og sölufólk með verkfæri og vörur af ýmsu tagi. Fjórhjól og sexhjól verða fyrir bændur og búalið auk t.d. smurefna og efna til að hreinsa ryð og lakk,“ segir Unnar Bjartmarsson sem undirbýr nú hátíðina af krafti ásamt fleirum Röftum og fornbílafélögum. Unnar segir að Hilmar Lúthersson Snigill númer eitt verði í Raftaheimilinu með brot af þeim hjólum sem hann hefur gert upp um ævina, en þau eru orðin æði mörg og gaman að geta heiðrað karlinn aðeins. Þá er Latabæjarökutækin komin í Borgarnes og verða þau til sýnis. Á vel við að þau séu komin í Borgarnes þar sem Magnús Scheving íþróttaálfur og frumkvöðull sleit barnsskónum. „Camaro verður 50 ára á árinu og munum við að sjálfsögðu halda upp á það. Svifnökkvi verður á Borgarfirðinum þennan dag og mun hann taka með sér farþega á rúntinn. Háfjara er um klukkan 13:30 svo það verða kjöraðstæður til að kynna nökkvann bæði á sjó og sandi,“ segir Unnar.

Hann segir að sjálfsögðu vonast við til þess að veðrið verði gott svo fornbílar og mótorhjól flykkist til þeirra í Borgarnes, það sé eiginlega partur af sýningunni líka. „Við höfum verið að reyna að breikka flóruna á sýningunni til þess að fólk sjái eitthvað nýtt og ferskt á hverju ári. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis en kaffi og vöfflusala verður á staðnum,“ segir Unnar. Aðstaða klúbbanna í Brákarey er sífellt að batna enda töluverð vinna búin að fara fram. Unnar segir mörg handtök þó eftir fram á sýningardag en kveðst hlakka til góðs dags.

Skessuhorn 17 apríl 2017