16.7.20

Super Soco TC reynsluakstur - Líður hljóðlaust áfram veginn


Eitt af þeim rafhjólum sem fáanleg eru í dag eru Super Soco rafhjólin sem seld eru í Elko. Bílablaðamanni Fréttablaðsins bauðst að prófa einn slíkan grip á dögunum og þar sem gripurinn er skráður sem létt bifhjól var slegið til. Við fengum í hendurnar Super Soco TC rafhjólið og fengum afnot af því í hálfan mánuð sem gaf gott tækifæri til að reyna alla þætti þess sem samgöngumáta.

Það fyrsta sem vekur athygli við hjólið er hversu létt það er. Lithium rafhlaðan er að vísu ekki stór en gefur hjólinu drægi uppá allt að 100 km sem verður að teljast vel viðunandi. Þeir sem sest hafa á rafdrifin mótorhjól kannast við að þyngd rafhlöðunnar er oft það sem maður tekur fyrst eftir svo er ekki farið um Super Soco TC. Uppgefinn hleðslutími hjólsins er 6-7 klukkustundir sem þýðir að auðvelt er að fullhlaða það á meðan á einum vinnudegi stendur.



Þegar hjólið er sett í gang hljómar það eins og tölvuleikur en þegar ekið er af stað er það nánast hljóðlaust. Það eina sem heyrist er þyturinn í vindinum og hjólið er furðu fljótt að ná 45 kílómetra hámarkshraða sínum. Auðvelt er að ráða við hjólið ef maður passar sig á tiltölulega snöggu viðbragði frá gjöfinni þegar tekið er af stað. Hjólið er lipurt, ekki bara fyrir það hversu létt það er, heldur einnig hvernig það er sett upp. Ferill framhjóls er stuttur sem þýðir að það er létt í stýri. Það eina sem truflaði aksturinn var sú staðreynd að þegar slegið er af gjöfinni virkar það svipað og þegar kúplað er á hjóli með brunahreyfli. Við það tapast aðeins jafnvægi í kröppum beygjum og þess háttar án þess að það sé eitthvað hættulegt.



Eitt af því sem vekur athygli við hjólið er hverslu vel það er búið. Það er með vökvastýrðum diskabremsum sem virka ágætlega en þær eru án hemlalæsivarnar. Fjöðrunarkerfi er gott og þá sérstaklega að framan þar sem eru verklegir Upside Down demparar. Mælaborð er stafrænt og sýnir meðal annars hraða og drægi, en hægt er að stilla á þrju mismunandi aflstig. Ekki finnst mikill munur á þeim í afli en á fullhlöðnu hjólinu er drægi, 100, 80 eða 60 km eftir hvaða aflstig er valið. Það segir sig eiginlega sjálft að maður velur lengsta drægið því munurinn á afli er varla teljanlegur. Þegar hjólið er stöðvað og slökkt á því er eins gott að gera það í réttri röð, því að annars fer hvimleið þjófavörn að væla. Ekki má slökkva á hjólinu og setja það svo á standarann því þá fer þjóðfavörnin í gang, og því þarf að dlökkva á því alveg í lokin. Þurfti að venjast þessu dáldið fyrir einhvern sem vanur er að gera þetta á bensínhjóli þar sem drepið er á því fyrst.

Kannski er verðið það besta við hjólið því að Super Soco TC kostar aðeins 370.000 kr. Það er næstum helmingi ódýrara en góð skellinaðra kostar. Ekki er sanngjarnt að bera hjólið saman við rafmagnsvespur því að TC hjólið er meira eins og mótorhjól. Hægt er að fá Super Soco rafmagnsvespu en þær kosta frá 265.000 kr. sem er svipað eða örlítið dýrara en hjá flestum samkeppnisaðilum.

Super Soco bjóða líka uppá hjól sem eru sambærleg að afli og 125 rúmsentimetra bensínhjól, og verða brátt fáanleg hérlendis. Þar sem TC hjólið er skráð eins og skellinaðra þarf að borga af því tryggingar, sem ekki þarf að gera sérstaklega ef um hjól með 25 km hámarkshraða er að ræða. Það verður að teljast ósanngjarnt þar sem að óskráðu hjólin mega aka hvar sem er án trygginga, réttinda ökumanns eða skráningar.


Stafrænt mælaborðið sýnir drægi og ástand rafhlöðu og hraðamælirinn er hefðbundinn að gerð.
Kostir: Létt í akstri, hljóðlátt, vel búið
Gallar: Jafnvægi þegar slegið er af, lítill munur á aflstigum

Super Soco TC
Skráning Létt bifhjól, flokkur II
Hámarkshraði 45 km/klst
Hámarkstog 170 Newtonmetrar
Rafkerfi 72V
Rafgeymir 45 Amperstundir
Drægi 60-100 km
Hleðslutími 6,5 – 7,5 klst
L/B/H 1.963/710/1.047 mm
Þyngd 150 kg


Njáll Gunnlaugsson
12.6.2020
https://www.frettabladid.is/

9.7.20

Vélhjólafólk vottaði Finni og Jóhönnu virðingu sína


Útför hjónanna Jóhönnu Sigríðar Sigurðardóttur og Finns Einarssonar var gerð frá Lindakirkju í Kópavogi í dag kl. 13.

Finnur og Jóhanna létust í mótorhjólaslysi á Vesturlandsvegi þar sem hann liggur um Kjalarnes, sunnudaginn 28. júní og hefur talsverð umræða skapast í kjölfar slyssins um ástand vega á Íslandi, sérstaklega með tilliti til öryggis mótorhjóla. Nýlagt og að virðist vitlaust blandað malbik er talið hafa átt þátt í slysinu.

Mótorhjólaklúbburinn HOG Chapter Iceland stóð heiðursvörð í jarðarförinni og fjölmargt vélhjólafólk vottaði þeim Jóhönnu og Finni virðingu sína. Ljósmyndari frá Torgi var á svæðinu og tók meðfylgjandi myndir. Var þetta að hans sögn falleg og tilfinningaþrungin stund.






Á.B.S. 
DV
9. júlí 2020

Hjóladagar 17-19 júlí


ATH Skráning í matinn í veisluna í 

Kjarnaskógi er hjá Trausta í Síma 8495755.



Dagskráin

Perla Eyjafjarðar ?

5.7.20

Landsmót Bifhjólamanna 2020

Þá er landsmóti bifhjólamanna lokið þetta árið en fór það fram á Laugarbakka í Miðfirði 


 Þetta var mitt fyrsta en klárlega ekki það síðasta landsmót sem ég mun fara á. Önnur eins gleði og ánægja hef ég bara ekki orðið vitni að fyrr og hef ég farið á margar útihátíðir í gegnum árinn. Hvar sem litið var voru bifhjólamenn að hafa gaman, hvort sem það var að skemmta sér eða öðrum.


 Skipuleggjendur þessa móts eiga hrós skilið fyrir mótið frá A til Ö. Allt stóð eins og stafur á bók hjá þeim, frá minnsta smáræði sem skiptir stóru máli ss rafmagnið á tjaldsvæðinu eða veitingarnar í veitingarsölunni. Allt heppnaðist hjá þeim. Á fimmtudagskvöldið var mótið sett og opnaði Húnabandið á mótið með snillar spilamennsku og fjölbreyttu lagavali og var fólk almennt mjög ánægt með þeirrar framlag.

Á föstudeginum sáu hinar rómuðu WC Rónatúttur um Rónatúttuleikana og voru fjölbreytt keppnisatriði bæði fyrir einstaklinga sem og hópa. 


  •  Þjóðhátíð 
  • Laugarvegshlaup 
  • Samfélags fjarlægðarglíma 
  • Skíðaganga 
  • Geordjögoss 
 Seinna um kvöldið var svo komið að hinni einu sönnu landsmótssúpu og var hún að þessu sinni a la Kalla og má segja að önnur eins súpa hafi bara ekki verið brugguð. Þvílík kraftakjötsúpa sem hún galdraði fram. Kvöldinu var svo slúttað með Huldumönnum sem lyftu þakinu á félagsheimilinu þegar allir tóku undir í gömlu Gildru slögurunum.

 Á laugardeginum voru aðal Rónatúttuleikarnir og voru keppnisatriðin að venju ansi fjölbreytt.


  •  Snigilinn 
  • Prjónkeppni 
  • Tunnudráttur 
  • Haus á staur 
  • Hringekja 
  • Búningakeppni 
 Síðar um kvöldið var svo Landsmótsgrillið og var það svo sannarlega hátíðarkvöldverður,
Því-lík-veisla.

Verðlaunaafhending fór svo fram ásamt orðuveitingum og að sjálfsögðu happadrætti þar sem voru fjöldinn allur af stórglæsilegum vinningum. 
Strax á eftir komu á sviðið Volcanova sem að hituðu upp fyrir Vintage Caravan sem áttu svo sannarlega stórleik eins og þeim er von og vísa. 

 Sunnudagurinn var tekin rólega en landsmótinu var slitið formlega um hádegi og var fólk í umvörpum að pakka og taka sitt saman, kveðjast og þakka fyrir sig og sína. 

 Tekið skal fram að alla helgina var allstaðar handspritti og sápur og slíkt vantaði ekki á salernum.
 Mótorhjólafólk á heiður skilið með umgengni því hvergi var rusl að sjá alla helgina og sáust menn hjálpa hverjum öðrum ef á þurfti að halda ss við að tjalda eða með mótorhjólin sín sem og bíla.

 Ég þakka kærlega fyrir mig og klárlega mun ég mæta á næsta landsmót í Húnaveri sem haldið verður dagana 1 – 4 júlí 2021. 

 Kær kveðja – 
Valur S Þórðarson 

Landsmótsmerkin fást á Mótorhjólasafninu þar er opið 13-17 á sumrin