4.3.20

Rafmögnuð Hringferð Snigla og Orku Náttúrunnar

Í ágúst 2019 Sniglar fóru hringferð um landið og kynntu rafmagnsbifhjól sem spennandi kost í samgöngum framtíðarinnar.

Hér er myndband sem var tekið í túrnum


2.3.20

Tætum og Tryllum úr Sniglafréttum 1987

Það skeði hér um daginn að Svenni Guðmunds (sveinbarnið) sem er kominn með óskaplegan áhuga á grasmótorum bauð mér upp í nýju fasteignina sína sem er hesthús fyrir ein 9. stykki með öllu tilheyrandi. Orkugeymslu fyrir mótorana og girðingu sem er full af for og skít og öðrum ófögnuði.
Nú , þegar uppeftir er komið sýnir Svenni mér þenna þá líka flotta grasfák, einn að tölu, sem mér sýnist nú vera bara eins og aðrir grasmótorar. Hann hafði fjórar lappir, með rosa hófum á sem notar víst til að ganga á og sparka í saklaust fólk með. Svo var á honum haus með einu pari af augum sem hann horfði með í gegnum lufsulegan hártopp sem var efst á hausnum. Þá var á honum eitt par eyru til að beislið tolldi betur á honum , eða svo sagði Svenni. Gripurinn hafði víðar og tilkomumiklar nasir sem hann notaði til að fnæsa með þegar maður bauð honum brauð. Stórann og myndalegan munn hafði hann sem passaði fyrir járnmjél og svona hálft rúgbrauð.    Þessi grasmótor var svo með fax, en það er lufsulegt hár sem spretta úr hálsinum. Einnig hafði hann maga, rass og tagl, en Svenni sagði að á svona skepnum sé kviður en ekki magi.
Mér er nú sama hvað Svenni segir, ég er viss um að inn í þessum kvið er magi.
Nú svo ég lýsi þessu stolti sveinbarnsins þá notaði hann rassinn til að reka við í hvert skipti sem maður kom nálægt. Taglið var þarna eitthvað í sambandi við hnakkinn og til að slá mann í andlitið þegar maður nálgaðist hann aftan frá.
Þegar Svenni var búinn að kynna mig fyrir þessum grasfáki sínum, sem mér sýndist nú ekki sýna neinn fögnuð, var ákveðið að ég skyldi nú fá að prófa, en þá gat ég ekki betur séð en fákfjandinn færi í fýlu, því eyrum löfðu eins og á hundi en samt toldi beislið.
Svenni varð nú hinn vígreifasti og losaði gripinn og varð nú hið mesta fjör í fasteigninni við að ýta gripnum út í forina fyrir utan.
Var sett á hann sæti mikið með hangandi petölum (fótstigum), það er víst kallað ístað á þessum grasmótorasófum. Ég hugðist nú vippa mér á bak og steig í petalann (ístaðið) en fákfjandinn tekur eitt danspor með þeim afleiðingum að ég stingst á höfuðið í forina, og ér ég velti mér við blasti naflinn á grasmótornum við mér, og Svenni skellihlæjandi hinu meginvið hann og segir mér að ég verði að halda í stýrið (tauminn) svo hann fari ekki af stað.
Eftir þessa kennslustund vippaði ég mér á bak og hugðist sniglast af stað, en þá byrjar fákhróið að sýna göngu æfingar þarna á staðnum og hreinlega tölti í sömu sporunum með tilheyrandi vaggi og veltum uns ég var orðinn sjóveikur sjálfur togarajaxlinn.
Stóð þetta brambolt í skepnunni í um það bil 30 míutur, með alls konar hoppi og skoppi þar til hann snarstoppaði og fékk sér að kúka. Þá var mér nóg boðið snaraðist af baki, og viti menn ég var með bullandi sjóriðu og fákfjandinn nýbúinn að gefa skít í mína reiðmennsku.

NEI, grasmótorar eru sko ekki fyrir minn smekk.
Ætli ég kjósi ekki frekar að snúa upp á rörið og þeysa á öðru hundraðinu um borg og bý.
Svenni má eiga alla grasmótora fyrir mér.


Heiddi No 10  
Sniglafréttir 3 árg, mars -apríl 1987