3.12.15

Konan sem sigraði karlana

Vikudagur 3.des 2015

Halldóra Vilhjálmsdóttir, þriggja barna móðir og leikskólakennari í Eyjafjarðarsveit, varð á dögunum fyrsta  konan í 41 árs sögu Bílaklúbbs Akureyrar til að vera valin akstursíþróttamaður ársins en félagið er það fjölmennasta sinnar tegundar á landinu. Halldóra segir mótorsport ekki vera karlaíþrótt og vonast til þess að með útnefningunni sé hún að ryðja veginn betur fyrir konur sem hafa áhuga á akstursíþróttum. Vikudagur settist niður með Halldóru og spjallaði við hana um mótorsportið ,staðalímyndir og fleira.

"Það var kominn tími á að kona fengi þessa nafnbót og ég er vonandi að ryðja brautina fyrir aðrar" segir Halldóra sem varð íslandsmeistari í 200 m götuspyrnu F-hjóla á árinu. " Þetta er mikill heiður og viðurkenning fyrir mig, að það sé litið þannig á að minn árangur að ég eigi þetta skilið. Sérstaklega þar sem ég er fyrsta konan sem er valin. Sú staðalímynd að mótorsport sé bara fyrir karlmenn hefur verið viðloðandi lengi en raunin er sú að þeta er ekkert frekar karlasport fremur en það sé kvennmannsverk að skúra.
Við erum alltof föst í staðalímyndum og þurfum að taka af okkur svuntuna og koma okkur út úr þessari þröngsýni. Það að keppa á mótorhjólum eða torfærubílum er ekki bundið við karlmenn " segir Halldóra.

Kom þér valið á óvart?

"Já það gerði það að hluta til, sérstaklega að vera tilnefnd. Það fór fram kosning á netinu þar sem ég var með afgerandi forystu. Ég fékk svo símtal frá fomanni Bílaklúbbsins þar sem ég ver beðin að mæta á lokahófið sem ein af þeim tilnefndu. Stjórnin átti eftir að kjósa og gillti 50% á móti netkostningunni. Miðað við netkostninguna var ég kominn með þumalputtann hálfa leið upp en maður vissi þó aldrei hvernig endanleg niðurstaða yrði."

Var eina stelpan á skellinöðru

Halldóra var 15 ára þegar hún fékk skellinöðru í fyrsta sinn og þá var ekki aftur snúið. " Þegar ég var að byrja að keyra skellinöðru sem unglingur þótti þetta mjög skrítið. Ég var eina stelpan í bænum í þessu sporti á þeim tíma og var litin hornauga. Ég var alltaf að hjóla með strákunum og var ein af þeim.
  Ég fann ekkert mikið fyrir fordómum en eflaust voru þeir til staðar og eru enn. En ég var alltaf

12.11.15

Mike Hailwood

Mike Hailwood

Hver man ekki eftir ofangreindum kappakstursökumanni mótorhjóla, ef ekki þá hafa menn hugsanlega gleymt að lesa um mótorhjól svona almennt (smá grín). Mike Hailwood er og verður besti hjólaökumaður heimsins og eflaust segja margir hvað með alla hina sem keppt hafa á undan og eftir að Mike dó, eins og t.d. Giacomo Agostini sem reyndar Mike keppti við í mörg skipti, eða Doohan, Valentino Rossi, Phil Read o.fl. o.fl. Það verður að skoða þetta í réttu samhengi og miða einnig við hvaða hjólum menn voru að keppa á. En Mike var einn af þessum mönnum sem bara settist uppá hjólið sem nota átti í viðkomandi kappakstur og ók af stað, varð yfirleitt nr. eitt nema eitthvað bilaði. Af hverju var hann kallaður The bike, jú hann gat ekið öllu með stæl. Hann var ekkert mikið fyrir að kvarta yfir hinu og þessu, það bara reyndi á hans eiginleika. Hann var af ríku fólki komin og pabbi hans keypti allt það besta í mótorhjólaheiminum í upphafi fyrir hinn unga son, en gamli maðurinn hafði einnig keppt í kappakstri á sínum yngri árum, en þegar Mike var að vaxa úr grasi rak pabbi hans mótorhjólaumboð. Mike byrjaði á minibike á grasflötum nærri heimili sýnu, mjög svo ungur.  Mike reyndi fyrir sér á menntabrautinni en hætti fljótlega, fór síðan að vinna hjá pabba gamla og síðan hjá Triumph firmanu. Vegna ríkidæmis  Mikes eða réttara sagt pabba hans, varð það miklu erfiðara fyrir Mike að sanna sig í upphafi fyrir öllum hinum sem nær alltaf komu úr fátæku umhverfi. En það tók Mike yfirleitt ekki langan tíma að sanna sig, bæði á brautinni sem utan hennar, því hann var talin með skemmtilegri mönnum=hrókur alls fagnaðar og aldrei nein "prímadonna". Mike var fæddur 2. Apríl 1940 og dó í bílslysi ásamt dóttur sinni 23. mars 1981 aðeins fjörtíu ára gamall. Hvenær hófst svo saga hans á kappakstursbrautum heimsins jú á því herrans ári 1957 og þá á Oulton Park og var hann rétt orðin 17 ára, náði þá strax ellefta sæti. Strax á árinu 1958 vann hann sinn fyrsta kappakstur þá þolaksturskeppni í Thruxton 500. Hann hélt áfram að taka menn í nefið, en síðan kom að því að Honda menn sáu til Mikes og hann fór að keppa fyrir þá árið 1961. Og strax sama ár var Mike fyrsti maðurinn í sögunni til að vinna þrjá kappastra á Isle of Mann þegar hann vann í 125cc, 250cc og líka 500cc flokknum. Hann hefði líka unnið fjórða kappaksturinn ef keðja hefði ekki slitnað á 350cc AJS hjólinu hans hefði ekki slitnað. Það var síðan sama ár eða 1961 að Mike Hailwood varð 250cc heimsmeistari á fjögurra strokka Hondu. Árið eftir gekk Mike til liðs við MV Augusta og varð heimsmeistari með þeim fjögur ár í röð í 500cc flokknum. Síðan fór Mike aftur til Honda  og vann fjóra heimsmeistaratitla í viðbót í 250cc og 350cc flokkunum. Framagreint er bara hluti af því á þessum árum sem hann vann, t.d. árið 1965 vann hann Hutchinson 100  kappaksturinn á Silverstone á BSA Lightning Clubman svo það þurfti ekki Hondu til að vinna. En þessi kappakstur fór fram í mígandi rigningu og þarna sló hann við t.d. Triumph Bonneville verksmiðju "preppuðu" hjólunum. Meðalhraði Mike í þessari keppni var 134 km/klst.

 Eflaust er Hailwood þekktastur fyrir alla sýna vinninga í TT keppnum á Isle of Man (eða Manarkappaksturinn eins og ég las nýlega í nýrri Íslenskri mótorhjólabók), því þegar árið 1967 gekk í garð hafði Mike unnið þarna tólf sinnum, en frægsta keppni hans var eflaust sú á árinu 1967 þegar hann og Agostini áttust við í Senior TT, en endaði með því að Mike vann, meðalhraði hans voru 175.05 km/klst. og það met stóð í ein átta ár, þessa keppni vann hann á Hondu RC181. Áður en lengra er haldið þá hætti Mike að keppa á mótorhjólum og sneri sér að kappakstri bíla og gerði góða hluti þar bæði í Formúlu Eitt og World Sport Cars, vann t.d. árið 1972 Formúlu tvö Evrópu titilinn og komst á pall árið 1969 í 24 tíma keppni Le Mans, lesa má betur á internetinu um afrek Mike í bifreiðakappakstri, en hann hætti að keppa á bílum árið 1974 eftir að hafa slasast nokkuð mikið í keppni í þýska Grand Prix í Nurburghringnum. En Mike var sko ekki hættur því 3. Júní 1978 kom hann til baka og keppti aftur í Isle of Man TT hjólakappakstrinum, þá búin að vera hættur í ellefu ár. Hann var orðin 38 ára og nær allir töldu að hann ætti engan möguleika á verðlaunasæti eftir svo langa fjarveru. Hann fékk hjól frá Ducati umboði í Manchester sem hét Sports Motorcycles, hjólið var Ducati 900SS með feringum og Mike kom öllum á óvart nema þeim sem þekktu hann og vann kappaksturinn með stæl, við gífurlegan fögnuð áhorfenda. Hann kom aftur árið á eftir í sömu keppni og ók þá "tútattara " Suzuki RG500 og vann. Mætti síðan síðar þessa helgi á sama hjóli í Unlimited Classic keppina og slóst um fyrsta sætið við Alex nokkurn George sem ók 1100 Hondu og þar munaði aðeins tveim sekúndum á milli þeirra félaga en Alex vann. Eftir að Mike hætti keppni þá opnaði hann Hondu umboð í Birmingham í Englandi og hét það Hailwood and Gould (Rodney Gould einnig kappaksturhetja). Það var síðan sunnudaginn 21. Mars 1981 að Mike var að aka með börnum sínum tveimur þeim Michelle og David og á leiðinni að ná sér í fisk og franskar, þegar ökumaður stórar vörubifreiðar tók ranga ákvörðun og ók í veg fyrir Mike, dóttir hans Michelle lést samstundis en Mike og sonur hans voru fluttir á sjúkrahús þar sem Mike lést tveimur dögum síðar af meiðslum sínum, hann var 40 ára gamall, sonur hans David slapp með smávægileg meiðsli. Þess má geta að ökumaður vörubifreiðarinnar var aðeins sektaður um 100 pund. Sagan segir að Mike hefði sagt konu sinni sem og spákonu einni að hann myndi deyja 40 ára gamall í bifreiðaslysi og þá ekki í kappakstri. Saga Mike "The bike" lifir góðu lífi og er margt gert til að minnast hans t.d. árleg Mike Hailwood Memorial Run í mars á hverju ári frá fyrrverandi Norton verksmiðjunum í Birmingham. Hailwood vann 76 Grand Prix kappakstra og komst 112 sinnum á pall í þeim kappakstri, 14 Isle of Man TT, 9 heimsmeistaratitla ofl. ofl. ofl. Ducati heiðraði minningu hans með því að smíða Ducati 900ss Hailwood replicu og voru seld um 7000 þannig hjól, Ducati endurtók reyndar leikinn aftur nokkuð mörgum árum síðar. Margt annað hefur verið gert til að minnast þessa heiðurs-manns t.d. var hann heiðursfélagi í AMA Motorcycle Hall of Fame árið 2000 og ári síðar International Motorsports Hall of Fame og minning hans lifir um ókomin ár.



Stolið og stílfært af netinu:  Óli bruni

 Þetta er sko alvöru mótorhjólagæji.

3.11.15

Atvikið á Sepang brautinni hefur sett keppnistímabilið í MotoGP í uppnám

 

Er úti um titilvonir Valentino Rossi?

Atvikið á Sepang brautinni hefur sett keppnistímabilið í MotoGP í uppnám

Klukkan 15:11 að staðartíma sunnudaginn 25. október síðastliðinn gerðist atvik á Sepang brautinni sem breytti öllu keppnistímabilinu í MotoGP og setti allt á annan endann fyrir síðustu keppnina í Valencia sem fram fer um næstu helgi. Heimsmeistarinn Marc Marques og fyrrverandi heimsmeistarinn Valentino Rossi, sem er í forystu í stigakeppninni í ár, höfðu barist af hörku um þriðja sætið í keppninni þegar Marquez þröngvar sér upp að vinstri hlið Rossi skömmu fyrir krappa hægri beygju. Rossi að því er virðist hægir aðeins á sér til að fá Marquez til að hætta við atlöguna en þegar hann gerir það ekki tekur Rossi sig til og rekur fótinn í stýrið á hjóli Marquez sem fellur við. Vegna atviksins eru Rossi dæmd þrjú refsistig og þar sem hann var með eitt refsistig á bakinu þarf hann því að ræsa aftastur í síðustu keppninni með aðeins sjö stiga forystu í heimsmeistarakeppninni. Aðalkeppninautur hans Jorge Lorenzo mun að öllum líkindum ræsa af fremstu rásröð enda er hann að keppa þar á sínum heimavelli, og verður því við ramman reip að draga fyrir aumingja Rossi.

Var atvikið réttlætanlegt?

En hvernig gerir nífaldur heimsmeistari eins og Rossi svona afdrifarík mistök, gæti einhver spurt? Rossi hafði nokkru áður sakað Marquez um að keppa gegn honum en fyrir Lorenzo, því að eftir slakt gengi í byrjun tímabilsins á Marquez ekki lengur von á þriðja titlinum í röð.
Lorenzo er samlandi Marquez en Rossi er frá Ítalíu, en frá báðum löndum koma oft blóðheitir keppnismenn. Það má heldur ekki gleyma því að þótt Marquez eigi ekki lengur von á titli er hann fyrst og fremt keppnismaður og fær borgað fyrir að vinna keppnir. Keppnin í ár stendur einnig á milli Honda og Yamaha og þar sem að þeir kepptu um þriðja sætið snerist keppnin ekki síst um það hvort liðið hefði tvö hjól á verðlaunapalli. Marquez hafði eins og áður sagði gert harða atlögu að Rossi og þeir höfðu skipst á forystu fram og til baka og aldrei meira en hjóllengd á milli þeirra. Fyrir þá sem á horfðu varð þessi hanaslagur þess valdandi að neglur voru nagaðar niður í kviku og lamið í sófaborð af öllu afli. Stuttu fyrir atvikið storkaði Marquez honum mikið og Rossi brást við með því að veifa eins og einhver sem lendir í að svínað sé á hann í umferðinni. Þessir leikrænu tilburðir höfðu engin áhrif á Marquez sem hélt uppteknum hætti og eftir á hafa sumir sagt að Rossi hafi verið í rétti að sparka til Marquez eftir þessar atlögur. Vandamálið fyrir Rossi var bara eins og hann veit best sjálfur að það eru reglur í MotoGP keppninni eins og öðrum keppnum og ásamt dómurunum með reglugerðarbókina voru hundruð milljóna áhorfenda að fylgjast með í beinni útsendingu. Jú, að vísu hafði Marquez rekið höfuðið í rassinn á Rossi skömmu áður og hvað var þá að því að Rossi ræki fótinn aðeins í hann? Málið var einfaldlega það að Rossi hægði á sér fyrir beygjuna og leit á Marquez á meðan og tekur svo þá ákvörðun að sparka í hann. Þegar atvikið er skoðað í þessu samhengi verður ásetningurinn augljós og Rossi verður því að sætta sig við þá niðurstöðu að byrja aftastur í Valencia.

Ekki öll von úti

Rossi getur þó átt nokkra möguleika ennþá og ef hann nær sjötta sæti. Til dæmis þarf Lorenzo að verða í öðru af efstu tveimur sætunum til að vinna heimsmeistarakeppnina. Rossi hefur áður þurft að ræsa aftarlega og unnið sig upp í efstu sæti svo að spennan fyrir áhangendur Rossi og Lorenzo er gífurleg. Hvað liðsmenn Honda gera til að hafa áhrif á þann slag verður að koma í ljós en Pedrosa og Marquez hafa eflaust fengið þá skipun að vinna efstu tvö sætin í sárabætur fyrir slakt gengi á árinu. Marquez á brautarmetið í Valencia og Pedrosa hefur oftast unnið þar keppni. Það stefnir því í mikla veislu næstkomandi sunnudag en keppnin verður meðal annars sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 og hefst dagskráin klukkan 12:50 að íslenskum tíma.
Hér má sjá í hvaða sæti Valentino Rossi þarf að lenda á móti Jorge Lorenzo til að hampa heimsmeistaratitlinum:
Lorenzo fyrstur, Rossi annar
Lorenzo annar, Rossi þriðji
Lorenzo þriðji, Rossi sjötti
Lorenzo fjórði, Rossi níundi
Lorenzo fimmti, Rossi ellefti
Lorenzo sjötti, Rossi tólfti
Lorenzo sjöundi, Rossi þrettándi
Lorenzo áttundi, Rossi fjórtándi
Lorenzo níundi, Rossi fimmtándi 

njall@mbl.is

Framtíðin í mótorhjólum?



Mótorhjólatæknin frá Yamaha

Tokyo Motor Show er sýning sem snýst um að sýna nýjustu tækni í heimi farartækja og þess vegna snýst hún ekki einungis um bíla, heldur líka mótorhjól og stundum jafnvel vélmenni lika. Yamaha sýndi okkur inní alla þessa heima á sýningunni því að Yamaha frumsýndi ekki aðeins sinn fyrsta bíl heldur einnig þríhjóla sportmótorhjól og vélmenni sem getur keyrt alvöru keppnishjól.

Vélmennið veitir innsýn

Motobot er sjálfvirkt vélmenni sem getur tekið ákvarðanir og er hannaður til að ráða við akstur mótorhjóls, sem er ekkert smáverkefni fyrir tæknimenn Yamaha. Motobot er ekkert fyrir að keyra lítil æfingarhjól og lætur ekkert minna duga en aðeins breytt Yamaha R1M. Stefnan er að hann geti ekið óbreyttu hjóli á keppnisbraut á meira en 200 km hraða. Í fréttatilkynningu frá Yamaha segir að verkefnið að láta vélmenni stýra mótorhjóli sé óendanlega flókið og krefst mikillar nákvæmni á mörgum sviðum. Með þessu næst fram innsýn í alla þætti mótorhjólaaksturs og þar af leiðandi meiri árangur í tæknilegum öryggisbúnaði mótorhjóla sem við gætum farið að sjá innan tíðar í framleiðsluhjólum. Hvort vélmennið verður farið að ögra Valentino Rossi til keppni fljótlega verður þó að koma í ljós.

Með gripið í beygjurnar 
Motobot er vélmenni sem er hannað AFP
til að ráða við akstur mótorhjóls.

Þríhjóla MT-09 var einnig frumsýnt í Tokyo en það kallast reyndar MWT-9 en það stendur fyrir Multi-Wheel. Með því að hafa tvö framhjól í fullri stærð á það að hafa enn meira grip í beygjum en venjulegt mótorhjól. Hjólið er með þriggja strokka 850 rsm vél og útlitslega virðist hjólið jafnvel vera tilbúið til framleiðslu. Fjöðrunin er mjög slaglöng til að geta leyft framhjólunum að halla mikið enda var þróunarheiti þess „Cornering Master“ eða meistari beygjunnar.

MBL 3.11.2015
njall@mbl.is

5.10.15

Myndband af því þegar Conor færði Gunnar Nelson mótorhjól

Gunnar Nelson fékk Harley Davidson-mótorhjól í afmælisgjöf frá Dana White, forseta UFC bardagasambandsins og bardagakappanum Conor McGregor í sumar.


Harley Davidson hefur birt myndband á Facebook sem sýnir þegar Conor gaf Gunnari hjólið á afmælisdaginn hans í Las Vegas. Bundið var fyrir augun á Gunnari sem gjörsamlega trylltist úr spennu þegar hann sá mótorhjólið.

Myndbandið má sjá hér
Fréttatíminn
5.10.2015

29.8.15

Ríkasti leikari Indlands fékk lánað mótorhjól Kópavogsbúa

 
Krystian á hjólinu sem um ræðir. Til hægri má sjá Shakrukh Khan.VÍSIR/KRYSTIAN/GETTY

Kópavogsbúinn Krystian Sikora lánaði indverskri stórstjörnu Kawasaki mótorhjólið sitt fyrir tökur á Bollywood myndinni Dilwale sem fram fara hér á landi um þessar mundir. Stjarnan er Shahrukh Khan en samkvæmt The Richest er hann næstríkasti leikari heims. Hann er því ríkasti leikari Indlands.


„Þau vildu hjól í þessum lit,“ útskýrir Krystian en hjólið er eins og sjá má af meðfylgjandi myndum appelsínugult. „Þetta er eina ganghæfa Kawasaki hjólið í þessum lit á landinu. Það voru tvö en ég held að hitt sé ekki lengur í lagi. Þau vildu fá þennan lit og mig grunar að það sé vegna þess að kjóllinn á stelpunni sem var í myndinni var í þessum lit. Auk þess sem þetta er frábær litur sem kontrast við svarta sandinn.“


Krystian ók á hjólinu til Víkur síðasta fimmtudag og hitti þar Khan og aðra í upptökuteyminu. Hringt hafði verið í hann snemma um morguninn og hann kominn á staðinn eftir hádegi. Hlutirnir gerast því greinilega hratt á Bollywood-öld. Krystian var á tökustað í um fjóra tíma á meðan stórleikarinn prófaði hjólið og tók upp senurnar. „Hann var bara rosa kúl,“ segir Krystian spurður um hvernig það hafi verið að hitta leikarann. „Ég vissi reyndar ekkert hver þetta var, ef ég hefði séð hann úti á götu hefði ég haldið að þetta væri bara venjulegur náungi. Hann og leikstjórinn voru svölustu gæjarnir þarna, ekki með neina stjörnustæla eða neitt.“
Hér má sjá leikarann og hjólið í miðjum tökum.



Hjólið vakti lukku Rukh Khan en hann fylgdist með Krystian keyra það áður en hann settist sjálfur á bak. „Svo var hann að keyra hjólið þó að það væru ekkert tökur. Æfði sig smá en það er greinilegt að hann kann að keyra mótorhjól. Enda á hann ábyggilega nokkur sjálfur miðað við hversu ríkur hann er,“ segir Krystian.

Það var áhugavert að fylgjast með tökum á þessari Bollywood mynd en Krystian segir þetta hafa verið öðruvísi en nokkuð sem maður átti að venjast. „Það má kannski segja að sé öðruvísi kúl þarna úti heldur en hér á landi. Það var verið að taka upp tónlistaratriði og lagið er ekki eins og maður er vanur að heyra, stórskrýtnir tónar fyrir okkur. En þetta var bara gaman, gaman að fylgjast með þessari framleiðslu og sjá allar þessar stjörnur.“
Hjólið tók sig vel út á Sólheimasandi.


29. ágúst 2015

20.8.15

Óður til mótorhjólamenningar


Rokk af gamla skólanum mun dynja í miðbænum og mótorhjólakempur þenja vélarnar.

Mótorhjólamenn hafa lengi verið áberandi á Menningarnótt. Þar sýna þeir sig og sjá aðra og bregða oft á leik með skemmtilegum uppátækjum.
Þeir sem hafa gaman af huggulegum mótorhjólum og þykir fátt fallegra en þegar rymurinn í ótal púströrum blandast saman við hljóminn af rafmagnsgítar ættu að leggja leið sína í Naustin, milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis. Þar hefur skapast hefð fyrir því að efna til Reykjavik Custom Bike Show þar sem blandast saman sýning á sérdeilis fögrum breyttum mótorhjólum og vænn skammtur af hörðu rokki sem fær hárin til að rísa.

Sigurþór Hallbjörnsson, eða Spessi eins og hann er oftast kallaður, og Halldór „Dóri“ Grétar Gunnarsson standa fyrir þessum viðburði.

Afrakstur vetrarins

„Segja má að þessi uppákoma sé tækifæri til að sýna afrakstur allrar þeirrar vinnu sem átti sér stað í bílskúrum mótorhjólaeigenda veturinn áður. Langt er liðið á mótorhjólasumarið og ekki seinna vænna að sýna hvernig menn hafa breytt og fegrað hjá sér mótorhjólin, og hvaða fáka þeim tókst að smíða frá grunni,“ segir Spessi.
Saga Reykjavik Custom Bike Show nær allt aftur til ársins 2009. Spessi segir að hátíðinni hafi verið valinn þessi staður því að Naustin megi kalla aðalrokkgötu landsins, með landsins fremstu rokkbari og -klúbba allt um kring. Stóru sviði er stillt upp þvert yfir götuna og úrvali fallegra mótorhjóla raðað upp svo að gestir og gangandi geta virt þau vandlega fyrir sér.

„Þriggja manna dómnefnd velur annars vegar flottasta sérsmíðaða hjólið og hins vegar flottasta mikið breytta hjólið,“ segir Spessi og bætir við að á meðan dómnefndin beri saman bækur sínar stígi einvalalið tónlistarmanna á svið. „Við eigum von á hljómsveitinni Erik, með Danna Pollock í forystuhlutverki. Síðan mætir hljómsveitin 3B; Bitter Blues Band, og Kontinuum sem lýsa má sem draumkenndu þungarokksbandi. Verður þarna spilað alvöru rokk af gamla skólanum.“

Raunar dreifir atburðurinn úr sér langt út fyrir Naustin. Segir Spessi að mótorhjól hafi aðgang að Tryggvagötunni ef ekið sé eftir ákveðinni leið. Þar geti mótorhjólamenn lagt fákum sínum og oft hafi 100-150 hjól hafa verið á staðnum. „Klukkan 14 stundvíslega biðjum við alla þá sem eru á mótorhjólum að setja hjólin sín í gang og þenja vélarnar vel, til minningar um það mótorhjólafólk sem fallið hefur frá. Þegar drunurnar fylla Tryggvagötuna byrjar hljómsveitin Erik tónleikana með gítarsurgi og látum, rokki og róli, og keppast mótorhjólakapparnir og rokkhetjurnar við að yfirgnæfa hver aðra með hávaða,“ lýsir Spessi og bætir við að um mergjað augnablik sé að ræða sem enginn vilji missa af.

Heillandi fagurfræði

Að sögn Spessa er Reykjavík Custom Bike Show viðburður þar sem allir eru velkomnir. Þar heldur mótorhjólafólk eins konar ættarmót og þeir sem áhugasamir eru um mótorhjólalífsstílinn geta fengið að skoða og spyrja spurninga. Greinilegt er að í mörgum blundar mótorhjólakarl eða -kona, og jafnvel ef fólk kærir sig ekki um að þeysa eftir þjóðveginum með vindinn í andlitið kunna margir að meta fagurfræðina sem einkennir fallegt mótorhjól. Segir Spessi að þessi áhugi sjáist meðal annars á vinsældum bandarískra sjónvarpsþátta þar sem sagt er frá alls kyns uppátækjum á mótorhjólaverkstæðum.
Sjálfur kveðst Spessi hafa fallið kylliflatur árið 1980 þegar hann í bríaríi skellti sér í bíó í London og horfði á mótorhjólamyndina Easy Rider. „Þessi draumkennda þjóðvegamynd var ólík öllu sem ég hafði áður séð, og sex árum síðar tókst mér að kaupa mitt fyrsta mótorhjól, sem var Kawasaki 650. Auðvitað langaði mig í Harley en það var ekki komið að því. Nokkrum árum seinna keypti ég mér minn fyrsta Harley og fór að fikra mig nær draumnum sem ég sá í Easy Rider-myndinni forðum,“ segir Spessi söguna. „Lét ég á endanum smíða fyrir mig hjól hérna á Íslandi og tveimur árum seinna, árið 2008, lét ég smíða fyrir mig mótorhjól í Las Vegas og hjólaði á því frá Vegas og til Sturgis, þar sem haldið er stærsta mótorhjólamót í heimi. Síðan þá hef ég hjólað mikið í Ameríku og bjó ég ásamt fjölskyldunni í Kansas árin 2011-12 til að upplifa og rannsaka mótorhjólakúlturinn.“

Um þessar mundir vinnur Spessi að heimildarmynd um amerísku mótorhjólamenninguna í félagi við Bergstein Björgúlfsson og segir hann að útkoman eigi að verða eins konar vegamynd.

ai@mbl.is
20. ágúst 2015