13.8.15

Mikil upplifun að vera „ættleidd" í Uzbekistan


 Austfirðingarnir Unnur Sveinsdóttir og Högni Páll Harðarson greina frá ævintýralegu mótorferðalagi sínu í bókinni Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu sem væntanleg er í haust.


Hvað er það sem fær venjulegt fólk á miðjum aldri til að pakka á mótorhjólin sín tjaldinu, núðlupakka og naríum til skiptanna og hjóla af stað út í hinn stóra heim?

Að aka 30 þúsund kílómetra og heimsækja 20 lönd á 147 dögum. Hverskonar sjálfspíningarhvöt er þarna að verki þegar ferðamáti flestra jafnaldranna er þægilegur fólksbíll með hjólhýsi eða Boeing 757 á vel skipulagða sólarströnd?

Þessum spurningum ásamt fjölmörgum öðum leitast þau Unnur og Högni við að svara í bókinni sem verður um 130 blaðsíður, ríkulega myndskreytt og lýsir í léttum dúr hvernig miðaldra millistéttarhjón frá Íslandi takast á við allar þær ófyrirsjáanlegu uppákomur sem fimm mánaða ferðalag af þessu tagi getur haft í för með sér.

Unnur og Högni nýta sér hópfjármögnunarsíðuna Karolinafund til þess að gera útgáfuna möguleika og nánar má lesa um verkefnið þeirra hér.


Fyrirheitnalönd

Það var í fyrrasumar sem þau Unnur og Högni héldu í ferðalagið mikla. Unnur segir hugmyndina að ferðinni hafa grafið um sig hjá þeim lengi.

„Mongolía og þessi lönd sem við heimsóttum eru nokkurskonar „fyrirheitnalönd" þeirra sem stunda mótorhjólaferðamennsku af þeirri sort sem við gerum. Þau eru framandi, heillandi og fögur auk þess að vera mikil áskorun að takast á við, því vegakerfi margra þeirra er mjög langt frá því sem við þekkjum sem þjóðvegi og þar er ekki almennur túrismi. Þetta eru sem sagt mjög „orginal" lönd. Svo eru tungumálin áskorun útaf fyrir sig því í flestum þessarra landa er lítil enskukunnátta og skrifmál á dulmáli.

Þegar fólk er með tvær ástríður – annars vegar ferðalög og hins vegar mótorhjól þá verður til einhverskonar galdur þegar þessu tvennu er blandað saman. það er ólíkt öllu öðru að ferðast á mótorhjóli því samskipti við fólk í þeim löndum sem ferðast er um verða meiri en ef farið er um í bíl. Öll tenging við umhverfið verður svo miklu meiri og sjálfur aksturinn verður líka áhugaverður og skemmtilegur öfugt við það sem margir upplifa í bifreið."



Árs undirbúningur


Unnur og Högni hófu markvissan undirbúning heilu ári fyrir brottför, með umsóknum um vegabréfsáritanir, yfirhalningu hjóla og viðlegubúnaðar, kortlagningu ferðaleiðar og því að læra rússneska stafrófið.

„Fyrsta hugmyndin var að hjóla hringinn í kringum hnöttinn. Við féllum frá henni þegar við áttuðum okkur á tímanum og kostnaðinum sem því fylgdi að flytja hjólin yfir Kyrrahafið til Bandaríkjanna og svo yfir Atlantshafið og heim, auk þess sem okkur fannst Mið-Asía miklu meira spennandi heldur en Bandaríkin til að hjóla í.



Við gerðum grófa ferðatilhögun og reiknuðum út hvað við þyrftum að hjóla á hverjum degi, vorum með nokkra punkta sem okkur langaði að skoða en að öðru leyti lifðum við bara frá degi til dags.

Við vorum náttúrulega alltaf að fara eitthvað, ekki bara að keyra út í bláinn. Við hittum fólk á leiðinni sem fannst þetta alveg galin ferð – að eiga enga gistingu bókaða fyrirfram og þurfa daglega að finna út úr hvaða leið ætti að fara milli staða. Stundum var það líka pínu „skerí", þegar GPS tækið var kortlaust, vegir

illa- eða ekkert merktir og enginn enskumælandi.


Við notuðum mikið Booking.com, sérstaklega áður en við komum inn í borgir. Þá gátum við borið saman verð og aðstöðu á gistihúsum fyrirfram og átt pantað þegar inn í borgina kom. Það sparar bæði mikinn tíma og peninga að geta gengið að ódýrum gististað vísum en þurfa ekki að byrja að leita þegar inn í ókunnuga borg er komið og enda á Holtinu eða einhverju álíka," segir Unnur.


Hver dagur ákveðinn hápunktur



Aðspurð um hápunkt ferðarinnar svarar Unnur; „Hér seturðu okkur í bobba. Hver og einn dagur var ákveðinn hápunktur með nýjum uppgötvunum og upplifunum.

Því fylgdi reyndar mikil geðshræring að koma yfir landamærin milli Rússlands og Mongólíu. Þar var ákveðnum áfanga náð og okkur fannst að ævintýrið væri að byrja fyrir alvöru. Það var líka mikil upplifun að vera „ættleidd" og veitt gisting í húsagarði í Usbekistan fyrstu nóttina okkar í landinu. Líka magnað að hjóla í Tajikistan og horfa yfir Pamírána yfir til Afganistan og reyna að gera sér í hugarlund

hvernig daglegt líf fólks þar er.


En fólkið á leiðinni? „Það var töluvert búið að hræða okkur fyrirfram á öllum glæpamönnunum sem biðu eftir okkur sakleysingjunum ofan af Íslandi. Í stuttu máli hittum við enga svoleiðis. Hins vegar hittum við helling af indælu fólki sem vildi allt fyrir okkur gera og margir komu til okkar að fyrra bragði og buðu fram aðstoð ef það væri eitthvað sem ætti eftir að koma uppá síðar í ferðinni. Við hittum líka dásamlega sérvitringa – sjálfsagt álíka og okkur sjálf – sem voru í svipuðum ferðalögum og við, jafnvel enn lengri. Fólk sem hafði verið á ferðinni jafnvel árum saman og átti bókstaflega heima á motorhjólinu sínu eða reiðhjólinu. Ætli helsti lærdómur ferðarinnar sé ekki; treystu heiminum fyrir þér. Hann er alveg traustsins verður."



Framhaldið veltur á sölu bókarinnar

Hvaða ævintýri er svo næst á dagskrá hjá hjónunum hjólandi? „Það veltur svolítið á sölunni á bókinni. Við höfum heitið okkur því að ef hún skilar hagnaði verður honum varið óskiptum til frekari mótorhjólaferðalaga. Lengdin á þeim ræðst þá af því fjármagni sem við höfum úr að spila. Við eigum helling eftir að skoða í heiminum sem er stór, gríðarlega áhugaverður og fullur af áskorunum," segir Unnur að lokum.



Höfundur: Kristborg Bóel Steindórsdóttir • Skrifað: .


23.7.15

SÝNING UM KONUR OG MÓTORHJÓL

ÁHUGAMÁLIÐ Jónína Baldursdóttir er duglegað hjóla
 og hefur átt þátt 
í að skipuleggja nokkrar ferðir á
vegum Tíunnar, 
Bifhjólaklúbbs Norðuramts, og er
nýkjörin 
stjórnarmeðlimur þar.  MYND/EINKASAFN
MÓTORHJÓLASAFN
Myndir af konum á mótorhjólum, sögubúta og ýmsa muni sem minna á tengsl kvenna og mótorhjóla má finna á sýningu sem stendur yfir í Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri í sumar.

Þessi sýning kom þannig til að stjórn Mótorhjólasafnsins óskaði eftir því að konuklúbbarnir á Akureyri tækju að sér að búa til sýningu í tilefni af hundrað ára kosningaafmæli kvenna,“ segir Ragnhildur Arna Hjartardóttir sem heldur utan um sýninguna Konur og mótorhjól, sem var opnuð í Mótorhjólasafni Íslands þann 14. júní og stendur til 30. ágúst.
Ekki reyndist þrautalaust að safna saman munum og upplýsingum fyrir slíka sýningu enda hefur saga íslenskra mótorhjólakvenna ekki verið skráð. „Við hóuðum saman hópi af konum og vorum sex í nefnd. Við vorum með lítið fé á milli handanna en biðluðum til mótorhjólakvenna um allt land að senda okkur myndir,  upplýsingar og muni,“ segir Ragnhildur.
 Á sýningunni er að finna fjöldann allan af myndum en einnig ýmsar upplýsingar, sögur og muni. „Við komumst að því með góðri hjálp að fyrsta konan sem átti mótorhjól á Íslandi var Helga Níelsdóttir ljósmóðir árið 1939.
Hún notaði það til að aka til vinnu, en gafst reyndar fljótt upp á því þar sem þungt var að vera á því og af því að vegir voru að mestu malarvegir þurfti hún iðulega að skipta um alklæðnað eftir hverja ferð vegna ryks og drullu. Síðan er vitað um aðra konu rétt eftir stríð sem var á hjóli sem hún fékk hjá hernum. Lítið er vitað um fleiri konur fyrr en stelpur fóru að vera á skellinöðrum á áttunda áratugnum og síðan þegar konur fóru að sjást meira á hjólum á níunda áratugnum,“ upplýsir Ragnhildur. Hún segir þróunina hraðari upp á síðkastið. „Konur á öllum aldri eru farnar að láta gamlan draum rætast og taka mótorhjólapróf sem er frábært.“

Litlar tölulegar upplýsingar eru til um konur og mótorhjól. „Við vitum þó að frá 1980 hafa 2.930 konur verið skráðar eigendur þungra bifhjóla.“ Við erum með myndir og brot úr sögu, mótorhjól og klúbbatengdan fatnað. Svo erum við með konur í mótorhjólalögreglunni. Guðrún
Jack var svo dásamleg að lána okkur hluta af fatnaði og myndir af sér og upplýsingar. Sýningin Konur og mótorhjól er opin alla daga frá kl. 10 til 17.