2.10.14

Ökuþórinn Soichiro Honda

Ökuþórinn | Soichiro Honda

Ómenntaður sveimhugi með fullkomnunaráráttu

 

Frumherjinn Soichiro Honda.

Stofnandi Honda er um margt einkennilegur maður og saga fyrirtækisins sem ber nafn stofnandans ber þess merki.

Saga Honda hófst þegar Soichiro Honda tók yfir gamla og svo til ónýta verksmiðju sem fengið hafði að kenna á því í seinni heimsstyrjöldinni sem þá var nýlokið.
Honda hafði ekki nein sérstök plön um það hvað hann ætlaði að gera við hana.
Fyrst reyndi hann að smíða vélvæddan vefstól sem gengi fyrir Rotary-vél. Því næst reyndi hann að fjöldaframleiða sandblásna glugga og síðan þök í bíla úr bambus.
Er hann rakst á nokkra tveggja strokka mótora á skrautlegum lager verksmiðjunnar fékk hann hugmynd. „Ég ætla að smíða mótorhjól.“

Sveimhugi sem tolldi hvergi
Soichiro Honda var mikill draumóramaður, fæddur árið 1906. Hann flakkaði úr einu vélsmíðastarfinu í annað og virtist eiga erfitt með að festa rætur.
Hann vann reyndar einnig sem barnfóstra, sem keppnisökumaður og bruggari. Meira að segja konan hans sagði að hann væri töframaður í því að sneiða hjá alvöruvinnu. Hann hafði þó tileinkað sér mikla þekkingu á vélum, mótorhjólum og bílum þess tíma við vinnu á verkstæði á sínum yngri árum. Honda virtist loks hafa fundið sína hillu er hann hóf smíði mótorhjólanna. Hann breytti mótorunum á þann hátt að þeir gengju fyrir terpentínu. Mótorhjólin seldust fljótt eins og heitar lummur þar sem stríðshrjáð þjóðin hafði ekki aðgang að bensíni, hvað þá einstaklingsfarartækjum, né almenningssamgöngum. Vélarnar sem til voru í verksmiðjunni kláruðust fljótt og hann hófst handa við að smíða sína eigin.

Soichiro Honda (f. miðju) tyllir sér undir stýri á keppnisbíl. óhætt er að segja að líf hans hafi hverfst um akstur og ökutæki. Fólksbílasaga Honda, sem spannar nær 40 ár, er glæsileg.

Á markað í Bandaríkjunum 1950
Árið 1947 kom fyrsta mótorhjólið úr verksmiðju hans sem var algerlega smíðað þar. Það var eitt og hálft hestafl og var kallað skorsteinninn þar sem það mengaði ógurlega og lyktin eftir því. Árið 1949 var Honda búinn að smíða mótorhjól með stálgrind og dempara á báðum hjólum sem komst á 80 km hraða.
Ári seinna kynnti Honda Cub-hjólið, sem var eftirlíking af Vespa-létthjólinu ítalska og varð það sérstaklega vinsælt af kvenfólki og fyrsta hjól Honda sem var selt í Bandaríkjunum.

Smíði bíla hefst
Fljótlega upp úr 1960 fór Honda að fikta við smíði smávaxinna bíla og sportbíla fyrir keppnisbrautir. Það var þó ekki fyrr en 1973 sem Honda fór fyrir alvöru að taka þátt í sölu bíla með tilkomu fyrsta Honda
Civic-bílsins. Vél bílsins var svo góð, eyddi svo litlu og mengaði svo lítið að hún komst gegnum mengunarpróf í Bandaríkjunum án þess að hafa hvarfakút. Því varð bíllinn gífurlega vinsæll vestanhafs og ekki
skemmdi fyrir að bensínverð rauk einmitt upp þar um þetta leyti.

Söluhæsti bíllinn í Bandaríkjunum
Árið 1976 kom Honda svo fram með talsvert stærri bíl, Accord, og varð hann enn vinsælli í Bandaríkjunum og hefur selst þar í ógnarmagni síðan. Honda Accord var söluhæsti bíllinn í Bandaríkjunum árið 1989.
Stefna Honda hefur ávallt verið að smíða eyðslugranna og umhverfisvæna bíla án þess að fórna getu þeirra og hækkandi eldsneytisverð undangenginna áratuga hefur enn aukið á velgengni Honda.
Soichiro Honda dó árið 1991 úr lifrarbilun 84 ára gamall. Hann var forstjóri Honda til 1973, en var aðalráðgjafi fyrirtækisins til 1983. Honda var ómenntaður maður sem fullkomnaði framleiðsluvöru sína með því að gera, að eigin sögn, óteljandi mistök og læra af þeim. Hann réð almennt ekki starfsfólk með mikla menntun og taldi hana hafa hindrandi áhrif á sveigjanleika þess.

finnurorri@gmail.com
Morgunblaðið 2.10.2014

20.9.14

Vetrarstarf Tíunnar

Í vetur verða fundir fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði eins og verið hefur undanfarinn ár.  Fyrir hvern fund verður tilkynnt hvar hann verður og hvað verður um að vera á honum.

Einnig styttist í haustógleðina okkar, og verður dagsetning og staðsetning tilkynnt síðar.