30.4.13

Minnaprófið stækkar

Í sumum tilvikum er Harley Davidson 883
 skráð minna en 47 hestöfl en samkvæmt
hestaflabekksmælingu er það 46,6 hestöfl.
 Taka skal fram að vissara er að skoða
skráningarskírteini í vafatilfellum.

Breytingar á mótorhjólaprófum skv. ESB

Hinn 19. janúar síðastliðinn tók gildi ný reglugerð sem byggist á þriðju ökuréttindalöggjöf Evrópusambandsins. Breytingar þessar eru gerðar til að samræma ökupróf í allri Evrópu til að tryggja frjálsan flutning og akstur milli landa og gerir ökuskírteini úr einu landi ESB eða EES gild í öllum öðrum löndum þess. Breytingarnar eru mestar í flokki mótorhjóla en þar er kominn nýr flokkur sem kallast A2 og tekur hann við af flokki sem hét lítið mótorhjól áður og miðaðist við 34 hestöfl (25 kW).

Hámarksaflið 47 hestöfl 

Hér er rétt að útskýra þennan flokk aðeins betur því að hann veldur talsverðum ruglingi og skoða hvaða hjól falla í þennan nýja flokk, en hann er nú miðaður við 47 hestöfl (35 kW) sem er töluverð breyting. Eins og sjá má af töflunni er hámarksafl mótorhjóla í A2-flokki nú komið í 47 hestöfl en sum mótorhjól má fá með svokölluðu innsigli til að ná niður afli í þetta tiltekna hámark. Þó má ekki samkvæmt löggjöfinni minnka afl hjóls í þessum flokki um meira en helming, þannig að 100 hestafla hjól getur ekki fengið innsigli og farið í 47 hestöfl sem dæmi. Til að átta sig betur á þessu hefur bílablaðið sett saman stuttan lista með hjólum sem falla undir þennan flokk og inniheldur hann einnig hjól sem eru með löglegu innsigli samkvæmt þessum A2-flokki. Aðeins er minnst á þau hjól sem eru annaðhvort seld á Íslandi eða hafa komið hingað á undanförnum árum.

Falla í A2-flokkinn

 Þegar þessar tölur eru skoðaðar er auðvelt að sjá að nokkuð mörg mótorhjól sem áður voru flokkuð sem stór mótorhjól falla í A2-flokkinn. Önnur breyting á réttindaflokkunum er sú að núna má taka réttindi í A2-flokk á hvaða aldri sem er svo lengi sem viðkomandi hefur náð 19 ára aldri. Þetta þýðir að einhver sem telur að hjól eins og ofangreind dugi sér þarf þá ekki að taka full réttindi strax og getur einfaldlega valið að taka þennan flokk fyrst. Mun það eflaust henta mörgum að taka próf í þessum flokki þar sem kennsluhjól í honum geta verið talsvert minni en fyrir full réttindi.
njall@mbl.is
MORGUNBLAÐIÐ
 30.4.2013

23.4.13

HONDA MÓTORHJÓL – GÆÐI OG GOTT VERÐ

Hlynur Pálmason, sölustjóri bifhjóla hjá Bernhard


Bernhard í Vatnagörðum 24-26 hefur flutt inn Honda-mótorhjól í hálfa öld. Honda er þekkt fyrir gæðiog góða endingu. Mótorhjólamenning Íslendinga hefur þroskast mikið undanfarin ár.

Í fyrra voru fimmtíu ár síðan Bernhard hóf innflutning á Honda-mótorhjólum og því óhætt að segja að innanhúss sé að finna mikla þekkingu á merkinu. „Við erum með afar breiða línu af Honda-mótorhjólum. Allt frá fimmtíu kúbika torfæruhjólum fyrir sex ára krakka og upp úr,“ segir Hlynur Pálmason, sölustjóri bifhjóla hjá Bernhard. Hann segir mótorhjólamenningu Íslendinga hafa tekið stórstígum framförum á síðustu árum. „Þetta hefur breyst úr því að vera helgaráhugamál hjá þröngum hópi í að hjól eru notuð sem alhliða ferðatæki í vinnu, leik og ferðamennsku.“
Hlynur segir vinsælustu hjólin í dag vera ferðahjól. „Við finnum fyrir aukinni eftirspurn eftir hjólum sem eru bæði fyrir malbik og malarvegi og sem komast út fyrir hefðbundna vegi,“ útskýrir hann og bendir á að Bernhard bjóði upp á breiða línu í ferðahjólum enda algengt að pör stundi  hjólaferðamennsku saman og jafnvel heilu fjölskyldurnar líka

Hjól við allra hæfi

Hlynur segir helstu kosti Honda-bifhjólanna vera gæði og gott verð. „Honda er einn stærsti vélaframleiðandi í heimi og gæðin eru því í góðu lagi. Þá leggjum við hjá Bernhard mikinn metnað í að bjóða gott verð og mikið úrval af hjólum,“ upplýsir Hlynur. Hann segir öryggið einnig í fyrirrúmi enda leggi Honda mikið upp úr öryggisbúnaði á mótorhjólin sín. „Þeir voru til dæmis fyrstir til að hanna loftpúða á mótorhjól. Þá eru flestar gerðirnar sem í boði eru fáanlegar með ABS-hemlakerfi,“ segir Hlynur og bætir við að Bernhard sé með hjól við allra hæfi. „Hvort sem um er að ræða byrjendur eða lengra komna, þá eigum við rétta hjólið.“ Starfsmenn Bernhard búa yfir mikilli reynslu  og aðstoða fólk eftir bestu getu. „Þegar fólk er að kaupa sér hjól reynum við að greina áhugasvið þess og þarfir. Það er misjafnt eftir hverju fólk er að leita og við reynum að benda því í rétta átt hvað varðar stærð og afl.“ Verðið á mótorhjólunum frá Honda þykir gott. „Ný fullvaxin götuhjól er hægt að fá hjá okkur frá 1.099.000 krónum. Svo erum við líka með eldri módel, svokölluð eftirársmótorhjól, á
tilboðsverði og því hægt að gera góð kaup.“

Vespur í stað bíla

Fólk er í meiri mæli farið að nota vespur til að komast á milli staða að sögn Hlyns. „Bæði er þetta skemmtilegur lífsstíll en auk þess er þetta afskaplega praktískur ferðamáti,“ segir hann og nefnir sem dæmi að hægt sé að kaupa hjól sem eyði ekki nema 2,1 lítra á hundraði. „Við erum að selja 125  kúbika vespur og fólk er margt hvert farið að kaupa slík hjól í staðinn fyrir aukabíl á heimilið,“ segir Hlynur en þeir sem kaupa slík hjól eru iðulega fólk sem komið er yfir tvítugt. „Fjölskyldufólk nýtir vespuna oft í staðinn fyrir bíl númer tvö og sparar þannig heilmikið í rekstrarkostnað.“ Bernhard býður upp á vesputilboð um þessar mundir sem hljóðar upp á 569
þúsund krónur. „Þetta hjól, Honda PCX 125, er búið skemmtilegri og umhverfisvænni tækni sem kallast stopp/start tækni  líkt og í tvinnbílum. Þegar þú stoppar hjólið á ljósum drepur það á vélinni  eftir þrjár sekúndur og ræsir sig sjálfkrafa þegar þú gefur í til að fara af stað.“

Aukahlutir, fjármögnun og viðgerðir

 Bernhard býður upp á mikið úrval aukahluta á hjólin sín. Þá hefur fyrirtækið yfir að ráða fullkomnu bifhjólaverkstæði í Vatnagörðunum. Fjármögnun á bifhjólum á ekki að vera vandamál að sögn Hlyns. „Við aðstoðum fólk við það en í dag er hægt að fá tiltölulega háa fjármögnun á hjól,“ útskýrir hann. Þá séu tryggingar á hjól einnig orðnar sanngjarnari í dag en áður. Inntur eftir vinsældum mótorhjóla svarar Hlynur að gríðarleg aukning hafi orðið í mótorhjólasölu fyrir hrun. „Árið 2007 vorum við að selja hátt í fimm hundruð hjól á ári. Eftir hrun dró mikið úr sölunni en við bindum vonir við að þetta sé að breytast og okkur finnst sem áhuginn sé að glæðast á ný.“ Bernhard ehf. frumsýnir 2013 árgerðirnar af Honda-hjólum á sýningunni „allt á hjólum“ í Fífunni 4.-5. maí næstkomandi.
Fréttablaðið
23.4.2013

4.4.13

MÓTORHJÓLASAFN ÍSLANDS

Mótorhjólasafn Íslands, að Krókeyri á Akureyri, var stofnað 20. desember árið 2007 til minningar um Heiðar Þ.Jóhannsson sem lést sunnudaginn 2. júlí 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi. 

Slysið varð í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla sem haldið var að Hrífunesi. Heiðar, eða Heiddi eins og hann var ætíð kallaður, var af flestum bifhjólamönnum á Íslandi talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. Heiðar hafði í mörg ár safnað mótorhjólum og
hjólatengdum munum og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Heiðar lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Stofnum Mótorhjólasafns Íslands er til minningar um Heiðar og mun á safninu vera starfrækt sérstök minningardeild þar sem hjól og munir hans verða sýndir og varðveittir.

Safnið

 Á hjóladögum á Akureyri sumarið 2008 var tekin fyrsta skóflustungan að glæsilegri 800 fermetra byggingu á Akureyri undir safnið. Notaðar voru tíu samanhlekkjaðar skóflur við gjörninginn en þær voru mannaðar níu mönnum ásamt Heiðari sjálfum (í anda) á þeirri tíundu. Í dag á safnið tæplega fimmtíu mótorhjól og mikinn fjölda af hjólatengdum munum og ljósmyndum sem spanna alla sögu mótorhjólsins á Íslandi.

Starfsemin

Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og þau áhrif sem hann hafði á hjólamenningu  landsmanna. Auk hefðbundinnar safnastarfsemi er hugmyndin að skapa athvarf fyrir hjólafólk hvort heldur sem það eru Akureyringar eða annað hjólafólk á ferð um landið. Meðal þess sem starfrækt  verður í tengslum við Mótorhjólasafn Íslands er minjagripasala, ráðstefnu- og veislusalur, vetrargeymsla á hjólum, sölusýningar og samstarf við umboð, þrifaðstaða fyrir hjól, kaffitería, umferðarfræðsla, námskeið og fundaraðstaða ásamt öðrum hugsanlegum jaðarrekstri.

Hollvinafélag safnsins – Tían 

Í janúar árið 2007 var Bifhjólaklúbburinn Tían stofnuð og er hún hollvinafélag  safnsins. Tían hefur í dag um 260 meðlimi sem tilbúnir eru til að leggja fram vinnu, aðstoð og að stuðla að uppbyggingu og hagsmunum safnsins. Margir félagsmenn Tíunnar og aðrir velunnarar safnsins hafa boðist til að lána safninu hjól og aðra gripi til varðveislu eða á einstakar sýningar. Mótorhjólasafn Íslands er sjálfseignarstofnun sem ætlað er að standa undir rekstri safnsins og annarri starfsemi. 

19.3.13

Öndvegisbílar í rúm 80 ár


Audi-safnið í Ingolstadt

Um það bil 60 km norður af München er borgin Ingolstadt sem kölluð hefur verið borg Audi-bílanna. Stór hluti borgarbúa vinnur fyrir Audi, hvort sem það er í hinum risastóru verksmiðjum Audi í austurhluta hennar eða öðrum deildum fyrirtækisins. Hópur íslenskra blaðamanna var þar á dögunum að reynsluaka nokkrum Audi-bílum og gafst þá tækifæri til að skoða samsetningu á Audi A3-bílum í verksmiðjunni en því miður mátti ekki taka myndir á staðnum. Nóg mátti hins vegar smella af inni á glæsilegu farartækjasafni Audi þar við hliðina á

Saga hringjanna

Audi-merkið sem samanstendur af fjórum hringjum táknar uppruna merkisins í öðrum bíla- og mótorhjólamerkjum. Hringirnir standa fyrir Audi, Horch, DKW og Wanderer og merkja sameiningu þessara framleiðenda árið 1932. Horch merkið var stofnað árið 1899 af August Horch, en hann vann áður hjá Carl Benz og er einn af forfeðrum bílsins. Horch yfirgaf fyrirtækið árið 1909 og stofnaði
þá Audi-merkið, en nafnið fékk hann með því að þýða Horch nafnið yfir á latínu. Wanderer-merkið hóf framleiðslu á mótorhjólum árið 1902 og fyrsta bílinn þeirra kom árið 1913. DKW byrjaði sem framleiðandi aukahluta í farartæki en árið 1922 kom fyrsta mótorhjólið frá þeim á markað
en DKW átti eftir að verða einn stærsti mótorhjólaframleiðandi fyrirstríðsáranna á aðeins nokkrum árum. Fyrsti bíllinn frá þeim kom á markað árið 1928.

Framleiddu mótorhjól og lúxusbíla

Eins og áður sagði sameinuðust þessi fjögur merki 29. júní 1932, Wanderer-merkið var reyndar aðeins tekið yfir að hluta en bíladeild þess fór undir Audi-samsteypuna. Eftir sameininguna var Audi næststærsti bílaframleiðandi í Þýskalandi. Hvert merki var gert ábyrgt fyrir framleiðslu og sölu mismunandi gerða og stærða, DKW fyrir mótorhjól og smábíla, Wanderer fyrir millistærðarbíla, Audi
byggði stærri millistærðarbíla og Horch framleiddi lúxusbíla. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru verksmiðjur samsteypunnar í Chemnitz og Zschophau herteknar af herjum Sovétríkjanna og voru bútaðar niður í minni einingar. Yfirmenn Audi fluttu til Bæjaralands og stofnuðu merkið á ný í Ingolstadt árið 1949. Fyrstu farartækin sem runnu af færibandinu vestan nýju landamæranna voru 
DKW-mótorhjól og litlir sendibílar, knúin tvígengismótorum. Fyrsti bíllinn með fjórgengisvél kom árið 1965 og var þá Audi nafnið tekið upp aftur af því tilefni. Sama ár keypti Volkswagensamsteypan Audi merkið. Fjórum árum seinna sameinaðist Audi öðru stóru merki, NSU í Neckarsulm. NSU var heimsfrægt fyrir mótorhjólaframleiðslu og framleiddu á tímabili fleiri mótorhjól en nokkur annar framleiðandi í heiminum. NSU hóf framleiðslu bíla árið 1958 sem stóð allt til 1977 þegar síðasti NSU bíllinn var framleiddur. Eftir það voru bílar aðeins framleiddir undir merkjum Audi og árið 1985 var nafni fyrirtækisins einfaldlega breytt í Audi AG og höfuðstöðvarnar fluttar frá Neckarsulm til Ingolstadt. Bíla- og mótorhjólasafn Audi í Ingolstadt var opnað árið 2000 og sýnir sögu þessara merkja sem hér hafa verið nefnd ásamt sýningum frá mótorsportdeild fyrirtækisins og hugmyndabíla Audi. Reglulega er skipt út farartækjum þannig að sá sem heimsækir safni í dag gæti séð allt önnur farartæki þar á næsta ári.
njall@mbl.is
MORGUNBLAÐIР
19.03.2013

11.3.13

Vélhjólaklúbburinn fær leyfi fyrir fleiri æfingasvæði

Vélhjólaklúbburinn fær leyfi fyrir fleiri æfingasvæði


Beiðni Vélhjólaklúbbs Skagafjarðar um endurnýjun á leigusamningi til 25 ára á svæði því sem sveitarfélagið hefur úthlutað klúbbnum undir starfsemi sína var tekið fyrir á fundi byggðarráðs í síðustu viku. Þykir mikilvægt fyrir klúbbinn að fá samninginn samþykktan svo klúbburinn geti haldið áfram að byggja upp starfsemi sína til framtíðar.
Einnig óskaði klúbburinn eftir því að fá leyfi til æfinga á eftirfarandi svæðum sem landeigendur hafa gefið samþykki sitt fyrir. Æfingasvæði fyrir ísakstur á Miklavatni í landi Gils, æfingasvæði motocross í landi Kjartanstaðakots og æfingasvæði fyrir enduro í landi Fagragerðis.

Umhverfis- og samgöngunefnd tók erindið fyrir á 83. fundi sínum og bókaði eftirfarandi ”Umhverfis- og samgöngunefnd mælir með endurskoðun og framlengingu leigusamnings til 25 ára en með gagnkvæmu uppsagnarákvæði eftir 5 ár. Nefndin hefur ekki athugasemdir við leyfisveitingu á umbeðnum svæðum til æfingaaksturs.“

Byggðarráð samþykkti erindið og felur sveitarstjóra að ganga frá samningi til 25 ára með gagnkvæmu uppsagnarákvæði á 5 ára fresti.

Feykir.is 
11.3.2013

5.2.13

Draumasamkoma mótorhjólamannsins 2013

Hafsteinn Emilsson við eigin fák
og að sjálfsögðu með íslenska fánann
 á hjólinu eins og á Bikeweek.

  Draumasamkoma mótorhjólamannsins

Daytona Bikeweek - skipulagðar ferðir Íslendinga á sýninguna síðastliðin 10 ár.


Daytona Bikeweek er tíu daga samkoma mótorhjólaáhugamanna sem haldin var fyrst árið 1937 á Daytona Beach í Flórída. Hafsteinn Emilsson er öllum hnútum kunnugur í Daytona enda hefur hann ekki misst af Bikeweek frá 1996 og er því að fara núna í 18. skiptið í röð. Hafsteinn segir að þessar ferðir hafi verið mjög vinsælar hjá Íslendingum og þeir hafi fjölmennt þangað um árabil. Fjöldinn er æði misjafn, allt frá tólf og upp í 45 manns, en í fyrra voru þeir 28 talsins og það stefnir í svipaðan fjölda í ár. Þátttakendur eru konur jafnt sem karlar og á aldrinum frá 18 til 82 ára, en allir með sama áhugamálið, mótorhjól.

Íslenski fáninn á hjólunum 

Þátttakendur hafa bæði valið sér að fara á eigin vegum og nýta sér skipulagða ferð þar
Mörg forvitnileg mótorhjól ber
fyrir augu á Daytona Bikeweek.
sem flugið, gistingin og farastjórn er innifalin og eru þeir reyndar fleiri. Síðustu tíu árin hefur Icelandair boðið upp á sérferðir á  Daytona Bikeweek undir fararstjórn Hafsteins.
Eftir Bikeweek-dagana efnir Hafsteinn ávallt til tveggja daga hjólaferðar um Flórída á Harley Davidson-hjólum. Er þá farið mest um sveitir í miðfylkinu þar sem umferð er lítil og fallegir smábæir. „Þá er íslenski fáninn alltaf á hjólunum og það hefur oft komið fyrir að við erum stoppuð af Íslendingum sem búsettir eru í Flórída eða fyrrverandi hermönnum sem voru á Íslandi sem spyrja okkur hvort við séum frá Keflavík eða Reykjavík. Þeir vilja síðan allt fyrir okkur gera,“ segir Hafsteinn.

Ein stærsta mótorhjólasýning í heimi

Daytona Bikeweek er ein stærsta mótorhjólasamkoma og sýning á heimsvísu, eins og allt
sem bandarískt er. Á Bikeweek koma saman um sex hundruð þúsund mótorhjólaáhugamenn árlega. Hver sá sem framleiðir eitthvað tengt mótorhjólum lætur sig ekki vanta með sýningarbás þar, hvort sem um er að ræða mótorhjól, aukahluti fyrir mótorhjól, mótorhjólafatnað, smurolíur, hnakka, spegla, gleraugu eða hvers konar fylgihluti. Allar tegundir af hjólum er að finna til sýnis og sölu; torfæruhjól, þríhjól, hippahjól og kappaksturshjól. Í fyrra keyptu tveir Íslendingar mótorhjól á sýningunni, svo ferðin er stundum ekki bara farin til að svala forvitninni, heldur með kaup í huga.

Keppnir og sölubásar

Daytona er álíka fjölmenn og Reykjavík og í annarri viku marsmánaðar ár hvert fyllist bærinn af mótorhjólum og hjólafólki. Vinsælt er t.d. að rölta niður aðalgötu bæjarins þar sem sölubásar eru við hvert fótmál og sýningar á hverju götuhorni. Síðustu ár hefur ásókn seljenda verið svo mikil að sýningar og sölubásar hafa verið settir upp í nærliggjandi bæjum eins og Ormond Beach. Þar er líka að finna mótorhjólaverslunina Bruce Rossmeyer Harley Davidson sem er stærsta Harley-verslun og -umboð í heimi. J & P þar við hliðina er með alla hugsanlega aukahluti fyrir mótorhjól og allan hlífðarfatnað. Það er einnig keppt á mótorhjólum í Daytona og ýmsar keppnir fara fram þá tíu daga sem Bikeweek stendur yfir. Eru þær flestar haldnar á International Speedway-kappakstursbrautinni í
Daytona. Þar má sjá Motorcross- og Super Race-keppnir flesta daga. Við Speedway er stór markaður með notuð hjól og varahluti í gömul hjól. Þar er bæði gaman og fróðlegt að skoða og tala við þá sem þar eru með sölubása. Hafsteinn segir að enn séu laus sæti í ferðina á Daytona Bikeweek, sem er átta daga ferð og kostar 153 þúsund krónur með öllu.
Fréttablaðið
 5.02.2013