23.4.13

HONDA MÓTORHJÓL – GÆÐI OG GOTT VERÐ

Hlynur Pálmason, sölustjóri bifhjóla hjá Bernhard


Bernhard í Vatnagörðum 24-26 hefur flutt inn Honda-mótorhjól í hálfa öld. Honda er þekkt fyrir gæðiog góða endingu. Mótorhjólamenning Íslendinga hefur þroskast mikið undanfarin ár.

Í fyrra voru fimmtíu ár síðan Bernhard hóf innflutning á Honda-mótorhjólum og því óhætt að segja að innanhúss sé að finna mikla þekkingu á merkinu. „Við erum með afar breiða línu af Honda-mótorhjólum. Allt frá fimmtíu kúbika torfæruhjólum fyrir sex ára krakka og upp úr,“ segir Hlynur Pálmason, sölustjóri bifhjóla hjá Bernhard. Hann segir mótorhjólamenningu Íslendinga hafa tekið stórstígum framförum á síðustu árum. „Þetta hefur breyst úr því að vera helgaráhugamál hjá þröngum hópi í að hjól eru notuð sem alhliða ferðatæki í vinnu, leik og ferðamennsku.“
Hlynur segir vinsælustu hjólin í dag vera ferðahjól. „Við finnum fyrir aukinni eftirspurn eftir hjólum sem eru bæði fyrir malbik og malarvegi og sem komast út fyrir hefðbundna vegi,“ útskýrir hann og bendir á að Bernhard bjóði upp á breiða línu í ferðahjólum enda algengt að pör stundi  hjólaferðamennsku saman og jafnvel heilu fjölskyldurnar líka

Hjól við allra hæfi

Hlynur segir helstu kosti Honda-bifhjólanna vera gæði og gott verð. „Honda er einn stærsti vélaframleiðandi í heimi og gæðin eru því í góðu lagi. Þá leggjum við hjá Bernhard mikinn metnað í að bjóða gott verð og mikið úrval af hjólum,“ upplýsir Hlynur. Hann segir öryggið einnig í fyrirrúmi enda leggi Honda mikið upp úr öryggisbúnaði á mótorhjólin sín. „Þeir voru til dæmis fyrstir til að hanna loftpúða á mótorhjól. Þá eru flestar gerðirnar sem í boði eru fáanlegar með ABS-hemlakerfi,“ segir Hlynur og bætir við að Bernhard sé með hjól við allra hæfi. „Hvort sem um er að ræða byrjendur eða lengra komna, þá eigum við rétta hjólið.“ Starfsmenn Bernhard búa yfir mikilli reynslu  og aðstoða fólk eftir bestu getu. „Þegar fólk er að kaupa sér hjól reynum við að greina áhugasvið þess og þarfir. Það er misjafnt eftir hverju fólk er að leita og við reynum að benda því í rétta átt hvað varðar stærð og afl.“ Verðið á mótorhjólunum frá Honda þykir gott. „Ný fullvaxin götuhjól er hægt að fá hjá okkur frá 1.099.000 krónum. Svo erum við líka með eldri módel, svokölluð eftirársmótorhjól, á
tilboðsverði og því hægt að gera góð kaup.“

Vespur í stað bíla

Fólk er í meiri mæli farið að nota vespur til að komast á milli staða að sögn Hlyns. „Bæði er þetta skemmtilegur lífsstíll en auk þess er þetta afskaplega praktískur ferðamáti,“ segir hann og nefnir sem dæmi að hægt sé að kaupa hjól sem eyði ekki nema 2,1 lítra á hundraði. „Við erum að selja 125  kúbika vespur og fólk er margt hvert farið að kaupa slík hjól í staðinn fyrir aukabíl á heimilið,“ segir Hlynur en þeir sem kaupa slík hjól eru iðulega fólk sem komið er yfir tvítugt. „Fjölskyldufólk nýtir vespuna oft í staðinn fyrir bíl númer tvö og sparar þannig heilmikið í rekstrarkostnað.“ Bernhard býður upp á vesputilboð um þessar mundir sem hljóðar upp á 569
þúsund krónur. „Þetta hjól, Honda PCX 125, er búið skemmtilegri og umhverfisvænni tækni sem kallast stopp/start tækni  líkt og í tvinnbílum. Þegar þú stoppar hjólið á ljósum drepur það á vélinni  eftir þrjár sekúndur og ræsir sig sjálfkrafa þegar þú gefur í til að fara af stað.“

Aukahlutir, fjármögnun og viðgerðir

 Bernhard býður upp á mikið úrval aukahluta á hjólin sín. Þá hefur fyrirtækið yfir að ráða fullkomnu bifhjólaverkstæði í Vatnagörðunum. Fjármögnun á bifhjólum á ekki að vera vandamál að sögn Hlyns. „Við aðstoðum fólk við það en í dag er hægt að fá tiltölulega háa fjármögnun á hjól,“ útskýrir hann. Þá séu tryggingar á hjól einnig orðnar sanngjarnari í dag en áður. Inntur eftir vinsældum mótorhjóla svarar Hlynur að gríðarleg aukning hafi orðið í mótorhjólasölu fyrir hrun. „Árið 2007 vorum við að selja hátt í fimm hundruð hjól á ári. Eftir hrun dró mikið úr sölunni en við bindum vonir við að þetta sé að breytast og okkur finnst sem áhuginn sé að glæðast á ný.“ Bernhard ehf. frumsýnir 2013 árgerðirnar af Honda-hjólum á sýningunni „allt á hjólum“ í Fífunni 4.-5. maí næstkomandi.
Fréttablaðið
23.4.2013

9.4.13

Mótorhjól er Fíkn

Félagar í ferðalok þeir Gunnar Friðriksson, Kristófer Sæmundsson,
Lúðvík Aðalsteinn Þorsteinsson og Sæmundur Guðmundsson.
Seinnipart vetrar tóku fjórir Íslendingar sig saman og pökkuðu ofan í töskur fyrir einn hjólatúr. Hjólatúrinn var reyndar lengra í burtu en hjá flestum því ferðinni var heitið til Indlands þar sem þeir höfðu leigt sér Royal Enfield 500- hjól í tvær vikur. Þrír þeirra eru ekki óvanir mótorhjólum því þeir keyra þau tugi þúsunda kílómetra árlega í starfi sínu sem mótorhjólalöggur.

   En hvað fær menn sem vinna við að keyra mótorhjól til að fljúga yfir hálfan hnöttinn til að hjóla langar vegalengdir? Viðmælandi okkar, Kristófer Sæmundsson, var snöggur til svars: „Mótorhjól eru fíkn. Fyrir tveimur árum fórum við einnig saman til Bandaríkjanna og hjóluðum Route 66 á Harley Davidson-hjólum.“

Bilanir á fyrsta leggnum

   Kristófer var aldursforsetinn í hópnum en samstarfsmenn hans, Gunnar Friðriksson og Lúðvík Aðalsteinn Þorsteinsson, eru einnig alvanir hjólum. Sæmundur „bílasali“ Guðmundsson var sá fjórði og var hann fenginn til að sjá um prúttið sem er alvanalegt á þessum slóðum. 

   „Við lögðum af stað frá Íslandi 1. febrúar, sem var í lok ferðamannatímans þarna úti. Flogið var beint til Mumbai þar sem við vorum fjórar nætur á meðan verið var að gera allt klárt. Umferðin þarna var alveg hræðileg og strax á leiðinni frá flugvellinum á hótelið hugsaði maður bara í hvað við værum eiginlega komnir.“ 

   GPS vísaði veginn

   Þegar þeir félagarnir fóru að sækja Royal Enfield-hjólin bilaði eitt þeirra strax, fór ekki í gang og tók smástund að koma því í gagnið aftur. Var þeim fylgt áleiðis út úr miðborginni en þótt GPS væri með í för náðu þeir að villast strax. 

    ast strax. „Við höfðum þó af fyrir rest að komast út úr borginni og við hjóluðum frá Mumbai í suður eftir þjóðvegi 76 til Goa, sem var mjög skemmtileg leið og góðir vegir. Við vorum fjóra daga niður til Goa og gistum á þeim hótelum sem við fundum á leiðinni. Sama hjólið bilaði reyndar aftur á miðri leiðinni en þá fór bensíndælan í því. Við fundum viðgerðarmann til að hjálpa okkur en hann sagði okkur að bensíndælan væri ekki til og næsti staður til að fá hana væri 150 km í burtu, í Goa. Við neyddumst því til að draga það með öðru mótorhjóli langleiðina niðureftir.“

Óútreiknanleg umferð

Í Goa voru þeir með fast aðsetur í fjóra daga og hjóluðu út frá borginni, mest í suður. „Því næst fórum við með vesturströndinni aftur til baka í norður, en það var langskemmtilegasti hluti leiðarinnar. Þar varstu bara kominn í alvörusveit. Við settum okkur það að leiðarljósi að hjóla ekki í myrkri en einn daginn gekk okkur þó illa að finna hótel svo að við hjóluðum fram í myrkur. Þann dag vorum við alls tólf tíma á ferðalagi en samt fórum við bara um 200 kílómetra sem segir manni mikið hvernig vegirnir og leiðirnar þarna voru,“ segir Kristófer og heldur áfram: 

   „Á köflum leið manni eins og við værum að keyra eftir árfarvegi, slík var upplifunin. Þótt við fengjum góða vegi inn á milli sem buðu upp á meiri hraða vissi maður aldrei hvað tók við eftir næstu beygju eða blindhæð. Það gat verið vörubíll sem var með sprungið dekk á miðjum veginum, eða rúta að taka fram úr öðrum bíl á móti, eða þess vegna fullt af beljum eins við rákumst á.“

Báru hjólin um borð

   Á norðurleiðinni meðfram ströndinni þurftu þeir félagar að taka fimm ferjur á leið sinni. 
   „Þrjár þeirra voru það sem við mundum telja eðlilegar, nokkurs konar prammar þar sem hægt var að keyra um borð. Síðustu tvær voru hins vegar þannig að bera þurfti hjólin um borð. Þarna var megnið af umferðinni á mótorhjólum og þess vegna var þetta eðlilegur flutningsmáti þótt ferjurnar væru ekki beint gerðar fyrir svona flutninga. Við sáum allt í fimm á einu mótorhjóli, en það var fjölskyldufaðir með fjögur börn á hjólinu. Þegar við komum fyrst héldum við að Royal Enfield hlyti að vera algengasta hjólið þarna en því var nú ekki að heilsa. Þarna voru bara forstjórar og fyrirmenn sem áttu Royal Enfield. Þessi hjól minntu mann á gamlan Deutz-traktor úr sveitinni, maður heyrði svona einn smell við og við þegar mótorinn snerist. En það var gott tog í þessum hjólum þótt tilfinningin væri eins og maður væri kominn 50 ár aftur í tímann.“

Fullt af ævintýrum

Kristófer mælir samt með því við hvern sem er að prófa svona ævintýri og ekki þurfti mikið fé til að hafa það gott á leiðinni. „Fátæktin var samt alveg gríðarleg þarna og þegar maður er kominn heim getur maður ekki skilið hvað fólk er að kvarta.“

   Þeir félagar eru strax farnir að skipuleggja næstu ferð en vilja þó ekki láta uppi hvert förinni er heitið. Eflaust verður hún þó full af ævintýrum eins og þessi.

njall@mbl.is 
Morgunblaðið 9.4.2013

4.4.13

MÓTORHJÓLASAFN ÍSLANDS

Mótorhjólasafn Íslands, að Krókeyri á Akureyri, var stofnað 20. desember árið 2007 til minningar um Heiðar Þ.Jóhannsson sem lést sunnudaginn 2. júlí 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi. 

Slysið varð í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla sem haldið var að Hrífunesi. Heiðar, eða Heiddi eins og hann var ætíð kallaður, var af flestum bifhjólamönnum á Íslandi talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. Heiðar hafði í mörg ár safnað mótorhjólum og
hjólatengdum munum og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Heiðar lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Stofnum Mótorhjólasafns Íslands er til minningar um Heiðar og mun á safninu vera starfrækt sérstök minningardeild þar sem hjól og munir hans verða sýndir og varðveittir.

Safnið

 Á hjóladögum á Akureyri sumarið 2008 var tekin fyrsta skóflustungan að glæsilegri 800 fermetra byggingu á Akureyri undir safnið. Notaðar voru tíu samanhlekkjaðar skóflur við gjörninginn en þær voru mannaðar níu mönnum ásamt Heiðari sjálfum (í anda) á þeirri tíundu. Í dag á safnið tæplega fimmtíu mótorhjól og mikinn fjölda af hjólatengdum munum og ljósmyndum sem spanna alla sögu mótorhjólsins á Íslandi.

Starfsemin

Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og þau áhrif sem hann hafði á hjólamenningu  landsmanna. Auk hefðbundinnar safnastarfsemi er hugmyndin að skapa athvarf fyrir hjólafólk hvort heldur sem það eru Akureyringar eða annað hjólafólk á ferð um landið. Meðal þess sem starfrækt  verður í tengslum við Mótorhjólasafn Íslands er minjagripasala, ráðstefnu- og veislusalur, vetrargeymsla á hjólum, sölusýningar og samstarf við umboð, þrifaðstaða fyrir hjól, kaffitería, umferðarfræðsla, námskeið og fundaraðstaða ásamt öðrum hugsanlegum jaðarrekstri.

Hollvinafélag safnsins – Tían 

Í janúar árið 2007 var Bifhjólaklúbburinn Tían stofnuð og er hún hollvinafélag  safnsins. Tían hefur í dag um 260 meðlimi sem tilbúnir eru til að leggja fram vinnu, aðstoð og að stuðla að uppbyggingu og hagsmunum safnsins. Margir félagsmenn Tíunnar og aðrir velunnarar safnsins hafa boðist til að lána safninu hjól og aðra gripi til varðveislu eða á einstakar sýningar. Mótorhjólasafn Íslands er sjálfseignarstofnun sem ætlað er að standa undir rekstri safnsins og annarri starfsemi. 

19.3.13

Öndvegisbílar í rúm 80 ár


Audi-safnið í Ingolstadt

Um það bil 60 km norður af München er borgin Ingolstadt sem kölluð hefur verið borg Audi-bílanna. Stór hluti borgarbúa vinnur fyrir Audi, hvort sem það er í hinum risastóru verksmiðjum Audi í austurhluta hennar eða öðrum deildum fyrirtækisins. Hópur íslenskra blaðamanna var þar á dögunum að reynsluaka nokkrum Audi-bílum og gafst þá tækifæri til að skoða samsetningu á Audi A3-bílum í verksmiðjunni en því miður mátti ekki taka myndir á staðnum. Nóg mátti hins vegar smella af inni á glæsilegu farartækjasafni Audi þar við hliðina á

Saga hringjanna

Audi-merkið sem samanstendur af fjórum hringjum táknar uppruna merkisins í öðrum bíla- og mótorhjólamerkjum. Hringirnir standa fyrir Audi, Horch, DKW og Wanderer og merkja sameiningu þessara framleiðenda árið 1932. Horch merkið var stofnað árið 1899 af August Horch, en hann vann áður hjá Carl Benz og er einn af forfeðrum bílsins. Horch yfirgaf fyrirtækið árið 1909 og stofnaði
þá Audi-merkið, en nafnið fékk hann með því að þýða Horch nafnið yfir á latínu. Wanderer-merkið hóf framleiðslu á mótorhjólum árið 1902 og fyrsta bílinn þeirra kom árið 1913. DKW byrjaði sem framleiðandi aukahluta í farartæki en árið 1922 kom fyrsta mótorhjólið frá þeim á markað
en DKW átti eftir að verða einn stærsti mótorhjólaframleiðandi fyrirstríðsáranna á aðeins nokkrum árum. Fyrsti bíllinn frá þeim kom á markað árið 1928.

Framleiddu mótorhjól og lúxusbíla

Eins og áður sagði sameinuðust þessi fjögur merki 29. júní 1932, Wanderer-merkið var reyndar aðeins tekið yfir að hluta en bíladeild þess fór undir Audi-samsteypuna. Eftir sameininguna var Audi næststærsti bílaframleiðandi í Þýskalandi. Hvert merki var gert ábyrgt fyrir framleiðslu og sölu mismunandi gerða og stærða, DKW fyrir mótorhjól og smábíla, Wanderer fyrir millistærðarbíla, Audi
byggði stærri millistærðarbíla og Horch framleiddi lúxusbíla. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru verksmiðjur samsteypunnar í Chemnitz og Zschophau herteknar af herjum Sovétríkjanna og voru bútaðar niður í minni einingar. Yfirmenn Audi fluttu til Bæjaralands og stofnuðu merkið á ný í Ingolstadt árið 1949. Fyrstu farartækin sem runnu af færibandinu vestan nýju landamæranna voru 
DKW-mótorhjól og litlir sendibílar, knúin tvígengismótorum. Fyrsti bíllinn með fjórgengisvél kom árið 1965 og var þá Audi nafnið tekið upp aftur af því tilefni. Sama ár keypti Volkswagensamsteypan Audi merkið. Fjórum árum seinna sameinaðist Audi öðru stóru merki, NSU í Neckarsulm. NSU var heimsfrægt fyrir mótorhjólaframleiðslu og framleiddu á tímabili fleiri mótorhjól en nokkur annar framleiðandi í heiminum. NSU hóf framleiðslu bíla árið 1958 sem stóð allt til 1977 þegar síðasti NSU bíllinn var framleiddur. Eftir það voru bílar aðeins framleiddir undir merkjum Audi og árið 1985 var nafni fyrirtækisins einfaldlega breytt í Audi AG og höfuðstöðvarnar fluttar frá Neckarsulm til Ingolstadt. Bíla- og mótorhjólasafn Audi í Ingolstadt var opnað árið 2000 og sýnir sögu þessara merkja sem hér hafa verið nefnd ásamt sýningum frá mótorsportdeild fyrirtækisins og hugmyndabíla Audi. Reglulega er skipt út farartækjum þannig að sá sem heimsækir safni í dag gæti séð allt önnur farartæki þar á næsta ári.
njall@mbl.is
MORGUNBLAÐIР
19.03.2013

11.3.13

Vélhjólaklúbburinn fær leyfi fyrir fleiri æfingasvæði

Vélhjólaklúbburinn fær leyfi fyrir fleiri æfingasvæði


Beiðni Vélhjólaklúbbs Skagafjarðar um endurnýjun á leigusamningi til 25 ára á svæði því sem sveitarfélagið hefur úthlutað klúbbnum undir starfsemi sína var tekið fyrir á fundi byggðarráðs í síðustu viku. Þykir mikilvægt fyrir klúbbinn að fá samninginn samþykktan svo klúbburinn geti haldið áfram að byggja upp starfsemi sína til framtíðar.
Einnig óskaði klúbburinn eftir því að fá leyfi til æfinga á eftirfarandi svæðum sem landeigendur hafa gefið samþykki sitt fyrir. Æfingasvæði fyrir ísakstur á Miklavatni í landi Gils, æfingasvæði motocross í landi Kjartanstaðakots og æfingasvæði fyrir enduro í landi Fagragerðis.

Umhverfis- og samgöngunefnd tók erindið fyrir á 83. fundi sínum og bókaði eftirfarandi ”Umhverfis- og samgöngunefnd mælir með endurskoðun og framlengingu leigusamnings til 25 ára en með gagnkvæmu uppsagnarákvæði eftir 5 ár. Nefndin hefur ekki athugasemdir við leyfisveitingu á umbeðnum svæðum til æfingaaksturs.“

Byggðarráð samþykkti erindið og felur sveitarstjóra að ganga frá samningi til 25 ára með gagnkvæmu uppsagnarákvæði á 5 ára fresti.

Feykir.is 
11.3.2013

14.2.13

Hjól sem lætur ekki fara lítið fyrir sér


Þeir sem eiga peninga í pokavís og hafa smitast af mótorhjóladellu geta auðvitað ekki sætt sig við að vera á venjulegu verksmiðjuframleiddu vélhjóli.

Eins gaman og það er að vera á huggulegum Harley eða kröftugri  Hayabúsu þá gengur ekki að láta sjá sig á svona alþýðlegum hjólum meðan hægt er að finna eitthvað enn betra. Ríka og fræga fólkið pantar hjólin sín hjá bandaríska framleiðandanum Confederate Motors.

Í bænum Birmingham í Alabama leynist eitt framúrstefnulegasta mótorhjólafyrirtæki sem finna má. Var reksturinn stofnaður árið 1991 og hefur síðan fest sig í sessi (ef utan er skilið gjaldþrot árið 2001 og endurvakning árið 2003) sem framleiðandi hjóla sem virðast nánast fengin beint úr vísindaskálsögum.

Kosta hjólin á við litla íbúð. Ódýrasta módelið er Hellcat sem kostar 55.000 dali á meðan t.d. R131 Fighter kostar frá 100.000 dölum og verður að sérpanta. Þegar litið er yfir viðskiptavinalistann rekur þar hver stórstjarnan aðra. Hjartaknúsarinn huggulegi Brad Pitt sést t.d. gjarnan þeytast um á Confederate-hjólinu sínu, Bruce Springsteen er með sitt hjól í bílskúrnum líka, Steven Tyler úr Aerosmith sömuleiðs og knattspyrnukempan David Beckham svo aðeins séu nokkrir nefndir.

Eins og vera ber er enginn skortur á kröftum en það eru ekki hestöflin sem gera hjólin frá Confederate Motors svona sérstök heldur útlitið. Virðist sem hefðirnar séu til þess gerðar að brjóta þær og útkoman skemmtilega tröllsleg farartæki sem verka á líkamann eins og væn sprauta af testósteróni.
Nánar má skoða hjólin á www.confederate.com

Morgunblaðið 2013
ai@mbl.is