26.7.12

BMW G650 Sertao mótorhjól (2012)

BMW G650 Sertao Fullbúið með töskum
og upphitiuðum handföngum. Myndir / HLJ

 Með fyrirmyndar ABS bremsubúnaði


Fátt finnst mér skemmtilegra en að keyra gott mótorhjól á góðviðrisdögum og ekki hefur það verið afleitt sem af er sumri, enda hef ég verið duglegur að „mótorhjólast“.
Mótorhjólainnflytjandinn Reykjavík Motor Center bauð mér
að prófa nýtt mótorhjól af gerðinni BMW G650 Sertao, en það er með 652 cc einsstrokks vél sem á að skila 48 hestöflum og er 175 kg (fullt af
bensíni 192 kg.). Hjólið er með 21 tommu framgjörð og 17 tommu afturgjörð sem gerir það jafnvígt á malarvegum og á malbiki.


ABS bremsubúnaður til fyrirmyndar


Hjólið sem ég prófaði var að fara sem leiguhjól til Biking Viking hjólaleigunnar og var því útbúið með farangurstöskum og veltigrind sem aukabúnaði. Ég ók hjólinu um 80 km við misjafnar aðstæður og fátt sem kom mér á óvart, þó verð ég að hæla tæknimönnum hjá BMW fyrir hversu langt þeir eru komnir í þróuninni á ABS bremsubúnaðinum í hjólinu. BMW var einn af fyrstu  framleiðendum mótorhjóla til að koma með ABS bremsubúnað í mótorhjól í kringum 1992. Fyrst virkaði þetta einfaldlega ekki í beygjum og á möl, en nú 20 árum seinna má rífa í frambremsu í lausamöl án þess að eiga á hættu að splundrast beint á hausinn. Ég gerði nokkrar tilraunir á þessu á mismunandi hraða og alltaf var útkoman svipuð. Ég tók ABS bremsurnar af og prófaði að bremsa
með og án þeirra og á 30 km hraða stoppaði ég 11 fetum fyrr án ABS en með því (ég vil benda á að ég tel mig hafa þokkalega kunnáttu til mótorhjólaaksturs og bremsuhæfileika eftir 30 ár á mótorhjóli). ABS bremsur eru góðar á þessu hjóli, sérstaklega fyrir byrjendur, en þegar maður venst hjólinu mæli ég með því að ökumaðurinn reyni sig áfram án þeirra (sérstaklega á möl).

Grófur gangur

Gangurinn er svolítið grófur í mótornum, enda 1650 cc stimpill sem skilar tæpum 50 hestöflum og minnir hljóðið í mótornum í hægagangi óneitanlega á gamla Deutz d15 traktorinn sem til var í minni sveit þegar ég var strákur. Að keyra mótorhjól með svona stórar töskur er í fyrstu svolítið skrítið, en venst strax. Þó getur verið leiðigjarnt að vera með topptöskuna í miklum vindi ef maður er einn á
hjólinu, en með farþega og topptösku er betra að keyra hjólið.

Stillanleg fjöðrun

Fjöðrunin er stillanleg og hægt að breyta stillingu á afturdemparanum á ferð, sem er gott ef fram undan er malarkafli.

Eyðir um 4-5 lítrum á hundraðið 

Bensíneyðslan er ekki mikil, en mér sýndist ég hafa farið með innan við 4 lítra af bensíni á þessum 80
km sem ég keyrði hjólið og gæti trúað að meðaleyðslan á 100 km væri nálægt 4-5 lítrum á hundraðið. Lokaniðurstaða er að BMW G650 Sertao er ekta hjól til brúks fyrir flesta vegi í íslensku vegakerfi,
semsagt mótorhjól til að nota

Góð kaup

Verðið á Sertao er lægra en ég bjóst við, en án taskna er það um 2.100.000. Ég mæli þó eindregið
með því að menn kaupi töskur og veltigrind undir mótorinn og bæti þar með tæpum 200.000 krónum við, en hjólið sem ég prófaði var með
svoleiðis útbúnaði og kostar rétt um 2,3 „millur“ (persónulegt mat: góð kaup á mótorhjóli til almenns brúks).


Bændablaðið 
26.07.2012

20.6.12

Lögreglan leitar ökumanns sem stakk af

Ökumaður sem flúði vettvang þegar lögreglumaður féll af bifhjóli í gær er enn ófundinn.

 Lögreglan leitar vitna að atvikinu sem varð skömmu fyrir klukkan hálffjögur. Þar var lögreglumaður á bifhjóli að veita ökumanni á svörtu mótorhjóli eftirför. Lögreglumaðurinn, sem var á norðurleið, missti stjórn á hjólinu sínu á móts við Kópavogslæk og hafnaði utan vegar, austanmegin. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en reyndist ekki alvarlega slasaður.

Þeir sem urðu vitni að slysinu, og/eða geta veitt upplýsingar um ökumann svarta mótorhjólsins, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.

Ökumaður svarta mótorhjólsins er hvattur til að gefa sig fram. Talið er að hjólið (racer) sem hann var á sé mögulega af gerðinni Yamaha R1 árgerð 2004-2008 eða Kawasaki ZX-10R Ninja árgerð 2006 eða 2007. Á því eru líklega rauðar strípur eða stafir. Ökumaðurinn var í túbugalla, sennilega svörtum að lit.
Vísir 

20. júní 2012 

28.5.12

Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messu


Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messuÞað var tals­vert annað yf­ir­bragð yfir messu í Digra­nes­kirkju í kvöld en venju­lega, en þar fór fram svo­kölluð mótor­hjóla­messa. Í kirkj­unni voru leður­klædd­ir mótor­hjóla­menn og utan við kirkj­una var röð glæsi­legra mótor­hjóla.

Mótor­hjóla­messa hef­ur verið hald­in í Digra­nes­kirkju síðustu ár. Séra Gunn­ar Sig­ur­jóns­son er áhugamaður um mótor­hjól, en hann átti frum­kvæði að þess­um mess­um.

Í frétta­til­kynn­ingu frá Digra­nes­kirkju seg­ir að mess­an sé al­vöru messa, með pré­dik­un og alt­ar­is­göngu. „Það er ekk­ert slegið af í helgi­hald­inu, þó svo um­búnaður­inn sé sveipaður létt­leika og prest­arn­ir (sem verða að vera mótor­hjóla­fólk) eru bún­ir sama klæðnaði.“  Leður og Gor­etex sé því „viðeig­andi” klæðnaður.

Mótor­hjóla­mess­an er einnig sam­starfs­verk­efni Þjóðkirkju og Hvíta­sunnu­kirkj­unn­ar og hafa prest­ar frá báðum þess­um kirkju­deild­um ann­ast helgi­hald.

Mótor­hjóla­mess­an hófst í Digra­neskirkju árið 2006 þegar 115 manns komu til messu á 55 vélfák­um. Mótor­hjóla­mess­unni hef­ur auk­ist fylgi milli ára. Árið 2007 komu 240 manns á 170 hjól­um. Árið 2008 yf­ir­fyllt­ist kirkj­an (sem tek­ur 320 manns) með 380 ridd­ur­um göt­unn­ar á 230 fák­um. Ári síðar (2009) komu 402 mótor­hjóla­menn í messu þannig að þetta stefn­ir í stórviðburð á þessu ári enda löngu búið að sprengja allt rými sem ann­ars hæf­ir fyr­ir venju­leg­ar mess­ur.

 mbl | 28.5.2012 | 21:56 | 
23.4.12

MÓTORHJÓL ER SJÁLFSAGÐUR HLUTUR


Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og selur úrval aukabúnaðar og fylgihluta. Nýlega opnaði Nítró verslun í Garðabæ. Áhugi almennings á mótorhjólum hefur aukist síðustu árin.

Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og býður upp á mikið úrval aukabúnaðar og fylgihluta fyrir eigendur mótorhjóla og fjórhjóla. Nýlega opnaði Nítró glæsilega verslun í rúmgóðu og björtu húsnæði í Kirkjulundi 17 í Garðabæ. Ragnar Ingi Stefánsson, sölustjóri hjá Nítró, segir nýja húsnæðið rúmgott og skemmtilegt þar sem viðskiptavinir geti nú skoðað mikið úrval hjóla og fylgihluta í þægilegu umhverfi. „Fyrst og fremst erum við umboðsaðili fyrir Kawasaki-hjól af öllum stærðum og gerðum, auk þess höfum við umboð fyrir sæþotur frá Kawasaki. Znen-vespurnar hafa verið áberandi á götunum en vinsældir þeirra hafa verið miklar síðustu árin. Einnig er Nítró með umboðið fyrir HiSun-fjórhjól frá Kína en þar er verðið sölupunkturinn. Við bjóðum einnig upp á
mikið úrval af göllum, hjálmum, skóm auk vara- og aukahluta fyrir flestar hjólategundir.“
Hann segir áhuga almennings á mótorhjólum hafa aukist mikið undanfarin tíu til fimmtán ár. „Það hefur orðið mikil hugarfarsbreyting meðal Íslendinga á síðasta áratug. Í dag viðurkenna flestir þetta sem sjálfsagðan hlut, að eiga mótorhjól, fjórhjól eða vespu svo dæmi séu tekin. Enda hefur fjöldi vélknúinna hjóla aukist mjög mikið á þessum tíma. Við sjáum það til dæmis á sölutölum yfir vespur en við seljum hundruð vespa á hverju ári sem bæði ganga fyrir bensíni og rafmagni. Vespurnar ná 25 km hraða og þær þarf ekki að skrá né taka próf á og svo bjóðum við öflugri 45 km vespur og enn stærri fyrir þá sem það vilja. “


Öll hefðbundin þjónusta


Ragnar segir þróunina í hugarfari hérlendis vera í sömu átt og víða erlendis. „Það að vera á mótorhjóli þykir bara sjálfsagður hlutur en ekki bara fyrir þröngan hóp fólks. Nú þykir flestum sjálfsagt að ferðast um á vespum, mótorhjólum og fjórhjólum um landið.“ Nítró býður upp á fjölbreytt úrval slithluta í mótorhjól, fjórhjól og farartæki en er einnig með umboð fyrir fleiri þekkt og öflug vörumerki eins og til dæmis Givi-töskur, gler- og veltigrindur. „Við erum auðvitað eina búðin hérlendis sem selur orgínal vara- og slithluti í Kawasaki. Síðan bjóðum við upp á gott úrval vara-, slit- og aukahluta fyrir flest önnur hjólamerki. Hingað geta eigendur flestra hjóla sótt alla hefðbundna
þjónustu.“ Nýjasta tryllitækið hjá Nítró er ZZR 1400 Kawasakimótorhjól sem er hraðskreiðasta mótorhjólið í heiminum í dag að sögn Ragnars. „Um er að ræða 200 hestafla græju frá Kawasaki. Hámarkshraði hjólsins er vel yfir 300 km á klukkustund. Við munum afhenda fyrsta hjólið eftir nokkra daga.“ Viðgerðarþjónusta Nítró er mjög öflug og skipuð góðum og vel þjálfuðum starfsmönnum. „Við verðum með fjóra menn á verkstæðinu í sumar og getum þannig veitt eigendum ólíkra tegunda vélknúinna hjóla, ekki bara Kawasaki-hjóla, úrvalsþjónustu. Að sama skapi erum við með auka- og slithluti fyrir öll merki. Þú kemur bara með hjólið í hús og við græjum málið.“Nánari upplýsingar um vörur Nítró má finna www.nitro.is og á Fésbókinni.
DV 23. apríl 2013

8.3.12

MEÐ MÓTORHJÓLIÐ AÐ ÁHUGAMÁLI

Enginn vafi leikur á því að samfélagið vill taka höndum saman í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það birtist í ýmsum myndum. Á Alþingi hafa þingmenn allra flokka lýst vilja til samstöðu í þessari baráttu og mér virðast fjölmiðlar einnig hafa vaknað til lífsins en sumir þeirra áttu til að birta "hetjuviðtöl" við stórhættulega brotamenn. Úr þessu hefur dregið, enda á maður sem meiðir annað fólk ekkert skylt við hetju.

Einn glæpahópanna, sem hefur verið hvað mest til umræðu, notar mótorhjól sem eitt ef sínum kennitáknum. En þótt þessir menn séu á mótorhjólum er ekki þar með sagt að allt mótorhjólafólk sé af sama sauðahúsi. Þvert á móti þá hefur fjöldi fólks ástríðufullan áhuga á mótorhjólum og hefur bundist samtökum við sína líka um þetta áhugamál. Þannig eru margir mótorhjólaklúbbar í landinu. Þeir sem fylla þeirra raðir vilja ekkert af hrottum og glæpamönnum vita og svíður sárt að vera ruglað saman við misindismenn.

Mér var sagt af einum slíkum klúbbi sem var að skipuleggja sumarferðina og panta gistingu fyrir hópinn. Þegar á daginn kom að um mótorhjólaklúbb var að ræða var dyrum lokað. Enga gistingu að fá!

Þetta kann að vera einangrað tilvik en segir okkur tvennt. Annars vegar er þetta vitninsburður um að fólk vill ekkert með þá hafa sem hugsanlega tengjast glæpum og er það vel. Hins vegar - og er það verra - getur sú hætta skapast að fólk sé haft fyrir rangri sök. Það má alls ekki gerast og er mikilvægt að á sama tíma og við gefum þeim rauða spjaldið sem meiða annað fólk, gætum við þess að setja ekki undir sama hattinn heiðarlegt fólk sem ekki má vamm sitt vita. Það á við um þorra þess fólks sem hefur mótorhjólið að áhugamáli.
Fimmtudagur, 8. mars 2012

29.2.12

Varð ástfanginn af fyrsta hjólinu sextán ára

 

Jón Ásgeir Hreinsson hefur hafið útgáfu mótorhjólatímarits

Þetta er ákveðinn kúltúr sem tengist svokölluðum kaffi-racerum og strætisrökkum, eins og við köllum Street Tracker á íslensku,“ segir Jón Ásgeir Hreinsson sem hafið hefur útgáfu mótorhjólatímaritsins Kickstart. „Á þessum hjólum er það ekki endilega aflið sem skiptir máli heldur útlitið og „performansinn“. Þarna eru menn á 400 til 600 kúbika hjólum í staðinn fyrir 1.000 til 1.200 kúbika. Svo er stíllinn í kringum þessi hjól mjög skemmtilegur. Rockabilly tengist þessu mikið og þetta er svona pínu afturhvarf til fortíðar en samt gert á fallegri máta en gert var á sjöunda áratugnum þegar þessi stíll varð vinsæll. Þetta er kúltúr sem lítið hefur farið fyrir hér heima en maður hefur fylgst meðerlendis og mig langaði að kynna betur.“
Fyrsta tölublað Kickstart er komið út, 74 blaðsíður af fjölbreyttu efni sem tengist hjólunum. „Þetta verða þrjú blöð á ári,“segir Jón Ásgeir " í febrúar, júní og október. júníblaðið kemur út 16. júní og verður með léttu „patríót“- þema.“
Jón Ásgeir segist alltaf hafa verið með hjóladellu en hann hafi hins vegar ekki haft efni á því að kaupa sér hjól fyrr en um fimmtugt. „Mótorar og mótorhjól hafa alltaf heillað mig. Fyrsta hjólið sem ég varð ástfanginn af sá ég sextán ára gamall. Það var Harley Davidson Sporter og þegar ég varð fimmtugur keypti ég mér þannig hjól. Það er nefnilega oft þannig að menn eru að láta gamlan draum rætast um miðjan aldur þegar þeir loksins hafa fjárráð til að leyfa sér það.“
Snýst allt lífið meira og minna um mótorhjól? „Nei, nei, ekki alveg. Ég er grafískur hönnuður og sit við tölvu alla daga, endalaust að reyna að finna  upp á einhverju nýju og fara ótroðnar slóðir, en með mótorhjólinu heima í skúr kemst maður í hálfgerða hugleiðslu. Þar er mekanismi sem einungis er hægt að setja saman á einn veg, annars virkar hann ekki. Það er svakaleg hvíld.“
Þessi hugleiðing Jóns Ásgeirs leiðir óhjákvæmilega hugann að hinni frægu bók Zen and the Art of Motorcycle Maintenance en hann segist þó aldrei hafa lesið hana enda sé hún drepleiðinleg. „Hins vegar er önnur bók, sem ég fjalla einmitt um í Kickstart, Jupiter‘s Travels eftir Ted Simon sem lýsir frábærlega vel hugarástandinu sem maður kemst í. Þetta er pínulítið eins og að vera á hestbaki, nema hvað þú ræður algjörlega för. Það er alveg á hreinu að hjólið tekur ekki af þér völdin.“
Meðal annars efnis í Kickstart má nefna ferðasögu fjögurra félaga sem fóru á mótorhjólum frá Berlín til Prag og aftur til baka. „Þetta var óskaplega skemmtilegt ferðalag og pottþétt að maður á eftir að  gera þetta aftur,“ segir Jón Ásgeir. „Þetta var dálítill riddarafílingur. Það fara fjórir karlar af stað á hjólunum sínum og eiga heiminn. Í næsta blaði verður líka ferðasaga þar sem Árni Jónsson, sem
býr í Kaliforníu, lýsir ferðalagi sem hann fór um Argentínu.“
 Meðal annars efnis í blaðinu má nefna ítarlegar kynningar á kaffi-racerum og strætisrökkum, viðtöl við tónlistarmanninn Smutty Smiff og myndlistarmanninn Erling T. V. Klingenberg og fleira og fleira. Hægt er að gerast áskrifandi á heimasíðunni kickstart.is eða kaupa blaðið í Kickstart, Vesturgötu 12 í Reykjavík eða í Mótorhjólasafninu á Akureyri. 
fridrikab@frettabladid.is

Fréttblaðið
29.02.2012