4.7.12

Þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi

Þór­ar­inn Karls­son var á leiðinni í grill­veislu ásamt tveim­ur vin­um sín­um þegar líf hans um­turnaðist á nokkr­um sek­únd­um. Þeir voru all­ir á mótor­hjól­um og í full­um rétti þegar bíl úr gagn­stæðri átt var ekið í veg fyr­ir þá. Þór­ar­inn lenti á bíln­um og kastaðist eft­ir göt­unni, lenti á kant­steini og flaug af hon­um eina 3 metra þar sem hann kút­velt­ist og endaði á höfðinu.
Slysið varð vorið 2007 á gatna­mót­um við Reykja­nes­braut og var dæmi­gert að mörgu leyti, þar sem ökumaður ger­ir ekki ráð fyr­ir mótor­hjóli og ekur fyr­ir það. Al­geng­asta teg­und mótor­hjóla­slysa eru árekstr­ar á gatna­mót­um, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Rann­sókn­ar­nefnd um­ferðarslysa, og í lang­flest­um til­fell­um lend­ir þar sam­an hjóli og bíl. Vand­inn ligg­ur því ekki síður hjá öku­mönn­um bíla, þegar þeir gleyma að taka til­lit til mótor­hjóla í um­ferðinni.
Til­gangs­laust að vera reiður
Þór­ar­inn tví­kjálka­brotnaði, viðbeins­brotnaði og hand­leggs­brotnaði báðum meg­in. Mjaðmakúl­an vinstra meg­in fór í gegn­um mjaðmagrind­ina og vinstri ökkl­inn fór í sund­ur. Rif­bein sem brotnuðu stung­ust í gegn­um lung­un á hon­um og slagæð fór í sund­ur. Þór­arni var haldið sof­andi í önd­un­ar­vél í rúm­ar þrjár vik­ur og út­skrifaðist 6 mánuðum eft­ir slysið eft­ir þrot­lausa end­ur­hæf­ingu á Grens­ás­deild, en rætt var við sjúkraþjálf­ara þar sem unnu með Þór­arni á Mbl.is í gær.
Áverk­arn­ir sem Þór­ar­inn hlaut voru svo al­var­leg­ir að ótrú­legt má heita að hann lifi, enda seg­ist Þór­ar­inn þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi og ekki tjái að velta sér upp úr því sem hann hafi misst. „Það er enda­laust hægt að vera sár og reiður út í lífið, en maður tap­ar sjálf­um sér og öðrum á því að gera það. Slys­in ger­ast og aum­ingja maður­inn sem lenti í því að fara fyr­ir hjól og gera mann örkumla, það er á sam­visk­unni hans allt hans líf."
Breytt­ur maður vegna heilaskaða
Þór­ar­inn hef­ur náð markverðum bata eft­ir slysið, en mun hins­veg­ar aldrei ná sér að fullu. Hann er með lamaða hægri hönd og með stöðuga verki, en þeir áverk­ar sem erfiðast hef­ur reynst að læra að lifa með sjást þó ekki utan á hon­um, því þeir urðu inni í höfðinu á hon­um. Þór­ar­inn seg­ist hafa grín­ast með heilaskaðann fyrst og ekki gert sér grein fyr­ir hvað hann háir hon­um mikið.
Hann á erfitt með að skipu­leggja, muna hluti, finna orð og tala í sam­hengi. Hann seg­ist í fyrsta skipti hafa kynnst því að til sé nokkuð sem heiti and­leg þreyta. „Að gera ekk­ert er leiðin­legt, en svo ef maður fer að reyna að rembast og segja „ég get þetta al­veg" þá kemst maður að því að það er ekki svo­leiðis. Raun­veru­leik­inn er ekki að geta, held­ur að tak­ast á við lífið eins og það er. En það var svo­lítið erfitt fyr­ir mig fyrst að biðja um hjálp." Skaði á fram­heila olli per­sónu­leika­breyt­ing­um, sem hann skynj­ar að vísu ekki sjálf­ur, en hans nán­ustu hafa sagt hon­um það. Hann hef­ur í kjöl­farið m.a. starfað með Hug­ar­fari, fé­lagi fólks með áunn­inn heilaskaða.
Mun fleiri mótor­hjól í um­ferðinni
Marg­falt fleiri mótor­hjól eru í um­ferðinni í dag en fyr­ir ára­tug. Þannig voru 2.279 mótor­hjól skráð árið 2000, en árið 2011 voru þau 9.922 tals­ins. Það er 440% aukn­ing. Á sama tíma fjölgaði mótor­hjóla­slys­um um 230%, sam­kvæmt töl­um frá Um­ferðar­stofu. 32 slösuðust eða lét­ust á mótor­hjóli árið 2000, en 107 árið 2008 sem var metár að þessu leyti. Sem bet­ur fer hef­ur þó dregið úr al­var­leg­ustu slys­un­um, og í fyrra voru þau 74 tals­ins. Hér má sjá kort yfir öll bana­slys í um­ferðinni á Íslandi und­an­far­in 5 ár.
Árið 2007, þegar Þór­ar­inn varð fyr­ir slys­inu, urðu marg­ir mótor­hjóla­menn fyr­ir sams­kon­ar slys­um. Tveir þeirra létu lífið. Þetta varð til þess að Um­ferðar­stofa réðst í aug­lýs­inga­her­ferðina „Fyr­ir­gefðu, ég sá þig ekki", til að hvetja til meiri aðgát­ar gagn­vart mótor­hjól­um. Síðan hef­ur dregið úr al­var­leg­ustu slys­un­um. Ein­ar Magnús Magnús­son, upp­lýs­inga­full­trúi Um­ferðar­stofu, seg­ir að reynsla og viðhorf hafi áhrif og ár­ang­ur­inn megi m.a. þakka því að veg­far­end­ur séu nú orðnir van­ari mótor­hjól­um í um­ferðinni.
Dýr­keypt að gleyma sér eitt augna­blik
Þór­ar­inn tel­ur þó að fólk mætti vera enn meðvitaðra. „Þegar þetta er komið í praks­is og maður er í um­ferðinni, þó að viðhorfið sé að líta tvisvar og allt það þá koma þessi til­felli, að fólki vilji drífa sig til að ná rauða ljós­inu. Það eru alltaf svona smá augna­blik í um­ferðinni þar sem fólk gleym­ir sér eða er bara í sín­um eig­in heimi."



Þór­ar­inn var á mótor­hjóli á leið í grill­veislu þegar ekið var í
veg fyr­ir hann. Ljós­mynd/Þ​ór­ar­inn Karls­son
Þessi litlu augna­blik geti verið dýr, eins og Þór­ar­inn fékk sjálf­ur að reyna. „Ég skildi ekki hvað slys og áhætta er fyrr en ég var sjálf­ur bú­inn að lenda í þessu. Það er í sjálfu sér ekki slysið sjálft, það tek­ur bara ein­hverj­ar sek­únd­ur, en það eru af­leiðing­arn­ar sem fólk er að berj­ast við í mörg, mörg ár. Og það er ekki bara mann­eskj­an sem slasast sem lend­ir í þessu, held­ur allt fólkið í kring sem upp­lif­ir þetta með manni."
Þór­ar­inn bend­ir á að um­ferðarslys séu eins og öf­ugt lottó. Nokkuð sem eng­inn vilji lenda í, en eng­inn reikni held­ur með því. Hann tel­ur að besti hugs­un­ar­hátt­ur­inn í um­ferðinni sé eins og ann­ars staðar, að koma fram við ná­ung­ann eins og sjálf­an sig. Eng­inn breytt hegðun fólks nema það sjálft. „Ég breyti þér ekki, þú breyt­ir þér."


Þór­ar­inn var á mótor­hjóli á leið í grill­veislu þegar ekið var í veg fyr­ir hann. Ljós­mynd/Þ​ór­ar­inn Karls­son


Marg­falt fleiri mótor­hjól eru í um­ferðinni í dag en fyr­ir ára­tug og árið 2007 urðu mörg sams­kon­ar slys og Þór­ar­inn varð fyr­ir.


Mbl.is/​Elín Esther
4.7.2012

20.6.12

Lögreglan leitar ökumanns sem stakk af

Ökumaður sem flúði vettvang þegar lögreglumaður féll af bifhjóli í gær er enn ófundinn.

 Lögreglan leitar vitna að atvikinu sem varð skömmu fyrir klukkan hálffjögur. Þar var lögreglumaður á bifhjóli að veita ökumanni á svörtu mótorhjóli eftirför. Lögreglumaðurinn, sem var á norðurleið, missti stjórn á hjólinu sínu á móts við Kópavogslæk og hafnaði utan vegar, austanmegin. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en reyndist ekki alvarlega slasaður.

Þeir sem urðu vitni að slysinu, og/eða geta veitt upplýsingar um ökumann svarta mótorhjólsins, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.

Ökumaður svarta mótorhjólsins er hvattur til að gefa sig fram. Talið er að hjólið (racer) sem hann var á sé mögulega af gerðinni Yamaha R1 árgerð 2004-2008 eða Kawasaki ZX-10R Ninja árgerð 2006 eða 2007. Á því eru líklega rauðar strípur eða stafir. Ökumaðurinn var í túbugalla, sennilega svörtum að lit.
Vísir 

20. júní 2012 

28.5.12

Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messu


Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messu



Það var tals­vert annað yf­ir­bragð yfir messu í Digra­nes­kirkju í kvöld en venju­lega, en þar fór fram svo­kölluð mótor­hjóla­messa. Í kirkj­unni voru leður­klædd­ir mótor­hjóla­menn og utan við kirkj­una var röð glæsi­legra mótor­hjóla.

Mótor­hjóla­messa hef­ur verið hald­in í Digra­nes­kirkju síðustu ár. Séra Gunn­ar Sig­ur­jóns­son er áhugamaður um mótor­hjól, en hann átti frum­kvæði að þess­um mess­um.

Í frétta­til­kynn­ingu frá Digra­nes­kirkju seg­ir að mess­an sé al­vöru messa, með pré­dik­un og alt­ar­is­göngu. „Það er ekk­ert slegið af í helgi­hald­inu, þó svo um­búnaður­inn sé sveipaður létt­leika og prest­arn­ir (sem verða að vera mótor­hjóla­fólk) eru bún­ir sama klæðnaði.“  Leður og Gor­etex sé því „viðeig­andi” klæðnaður.

Mótor­hjóla­mess­an er einnig sam­starfs­verk­efni Þjóðkirkju og Hvíta­sunnu­kirkj­unn­ar og hafa prest­ar frá báðum þess­um kirkju­deild­um ann­ast helgi­hald.

Mótor­hjóla­mess­an hófst í Digra­neskirkju árið 2006 þegar 115 manns komu til messu á 55 vélfák­um. Mótor­hjóla­mess­unni hef­ur auk­ist fylgi milli ára. Árið 2007 komu 240 manns á 170 hjól­um. Árið 2008 yf­ir­fyllt­ist kirkj­an (sem tek­ur 320 manns) með 380 ridd­ur­um göt­unn­ar á 230 fák­um. Ári síðar (2009) komu 402 mótor­hjóla­menn í messu þannig að þetta stefn­ir í stórviðburð á þessu ári enda löngu búið að sprengja allt rými sem ann­ars hæf­ir fyr­ir venju­leg­ar mess­ur.

 mbl | 28.5.2012 | 21:56 | 








23.4.12

MÓTORHJÓL ER SJÁLFSAGÐUR HLUTUR


Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og selur úrval aukabúnaðar og fylgihluta. Nýlega opnaði Nítró verslun í Garðabæ. Áhugi almennings á mótorhjólum hefur aukist síðustu árin.

Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og býður upp á mikið úrval aukabúnaðar og fylgihluta fyrir eigendur mótorhjóla og fjórhjóla. Nýlega opnaði Nítró glæsilega verslun í rúmgóðu og björtu húsnæði í Kirkjulundi 17 í Garðabæ. Ragnar Ingi Stefánsson, sölustjóri hjá Nítró, segir nýja húsnæðið rúmgott og skemmtilegt þar sem viðskiptavinir geti nú skoðað mikið úrval hjóla og fylgihluta í þægilegu umhverfi. „Fyrst og fremst erum við umboðsaðili fyrir Kawasaki-hjól af öllum stærðum og gerðum, auk þess höfum við umboð fyrir sæþotur frá Kawasaki. Znen-vespurnar hafa verið áberandi á götunum en vinsældir þeirra hafa verið miklar síðustu árin. Einnig er Nítró með umboðið fyrir HiSun-fjórhjól frá Kína en þar er verðið sölupunkturinn. Við bjóðum einnig upp á
mikið úrval af göllum, hjálmum, skóm auk vara- og aukahluta fyrir flestar hjólategundir.“
Hann segir áhuga almennings á mótorhjólum hafa aukist mikið undanfarin tíu til fimmtán ár. „Það hefur orðið mikil hugarfarsbreyting meðal Íslendinga á síðasta áratug. Í dag viðurkenna flestir þetta sem sjálfsagðan hlut, að eiga mótorhjól, fjórhjól eða vespu svo dæmi séu tekin. Enda hefur fjöldi vélknúinna hjóla aukist mjög mikið á þessum tíma. Við sjáum það til dæmis á sölutölum yfir vespur en við seljum hundruð vespa á hverju ári sem bæði ganga fyrir bensíni og rafmagni. Vespurnar ná 25 km hraða og þær þarf ekki að skrá né taka próf á og svo bjóðum við öflugri 45 km vespur og enn stærri fyrir þá sem það vilja. “


Öll hefðbundin þjónusta


Ragnar segir þróunina í hugarfari hérlendis vera í sömu átt og víða erlendis. „Það að vera á mótorhjóli þykir bara sjálfsagður hlutur en ekki bara fyrir þröngan hóp fólks. Nú þykir flestum sjálfsagt að ferðast um á vespum, mótorhjólum og fjórhjólum um landið.“ Nítró býður upp á fjölbreytt úrval slithluta í mótorhjól, fjórhjól og farartæki en er einnig með umboð fyrir fleiri þekkt og öflug vörumerki eins og til dæmis Givi-töskur, gler- og veltigrindur. „Við erum auðvitað eina búðin hérlendis sem selur orgínal vara- og slithluti í Kawasaki. Síðan bjóðum við upp á gott úrval vara-, slit- og aukahluta fyrir flest önnur hjólamerki. Hingað geta eigendur flestra hjóla sótt alla hefðbundna
þjónustu.“ Nýjasta tryllitækið hjá Nítró er ZZR 1400 Kawasakimótorhjól sem er hraðskreiðasta mótorhjólið í heiminum í dag að sögn Ragnars. „Um er að ræða 200 hestafla græju frá Kawasaki. Hámarkshraði hjólsins er vel yfir 300 km á klukkustund. Við munum afhenda fyrsta hjólið eftir nokkra daga.“ Viðgerðarþjónusta Nítró er mjög öflug og skipuð góðum og vel þjálfuðum starfsmönnum. „Við verðum með fjóra menn á verkstæðinu í sumar og getum þannig veitt eigendum ólíkra tegunda vélknúinna hjóla, ekki bara Kawasaki-hjóla, úrvalsþjónustu. Að sama skapi erum við með auka- og slithluti fyrir öll merki. Þú kemur bara með hjólið í hús og við græjum málið.“Nánari upplýsingar um vörur Nítró má finna www.nitro.is og á Fésbókinni.
DV 23. apríl 2013

2.4.12

Hjólandi nornir á Norðurlandi




 75 konur mynda MC Nornir     --------    Segjast vel geta kallað sig MC-klúbb


MC Nornir er mótorhjólaklúbbur á Norðurlandi sem samanstendur einungis af konum. Klúbburinn var stofnaður 7. janúar 2009 og í dag eru um 75 meðlimir í honum. „Ég tók mótorhjólapróf árið 2007 og var síðan boðið að ganga í klúbbinn,“ segir Hrönn Arnheiður Björnsdóttir, formaður MC Norna.


Allir velkomnir 

Hrönn segir áhuga sinn á mótorhjólum vera ástæðuna fyrir að hún gekk í klúbbinn. Tilgangur klúbbsins er „að koma konum saman og hafa gaman,“ segir Hrönn. „Ég hef alltaf haft áhuga á mótorhjólum en ég var orðin 36 ára þegar ég tók prófið. Þessi klúbbur er hugsaður sem stuðningur fyrir konur sem hafa kannski áhugann en hafa ekki þorað að taka skrefið til fulls, taka próf og fá sér hjól. Síðan er þetta hugsað sem félagsskapur fyrir konur sem eru með próf og hjól til að koma saman.“ Hrönn segir engin skilyrði önnur fyrir inngöngu en þau að viðkomandi hafi áhuga á mótorhjólum. „Hinar sem eru ekki komnar með próf, koma stundum með okkur í ferðir en eru þá bara á bílum eða sitja aftan á hjólum hjá öðrum. Það eru auðvitað allir velkomnir.“


Æfa sig í þrautabrautum

 MC Nornir leggja mikið upp úr forvörnum og njóta stuðnings ökukennara fyrir norðan sem fer reglulega yfir öryggisatriði með konunum. „Við höfum notið góðs af því að Valdimar Þór Viðarsson ökukennari hefur komið til okkar á sérstökum forvarnardegi og sett upp þrautabraut sem við getum fengið að spreyta okkur á og liðkað okkur aðeins fyrir sumarið. Hann aðstoðar okkur og segir okkur til ef þess þarf. Hann hefur einnig verið með okkur einu sinni í viku í um sex skipti í æfingaakstri og þá förum við í sérstaka braut og fáum að æfa okkur.


Bandarískir kvenhjólaklúbbar fyrirmyndir 

Hrönn segist ekki hafa fundið fyrir fordómum að undanförnu eftir að umfjöllun um MC-klúbba á borð við Hells Angels og Outlaws varð hávær, en segir jafnframt að sumir klúbbar hafi fett fingur út í það að þær kalli sig MC-klúbb, en einhverjir vilja meina að það standi fyrir „Mens Club“. „Það er þessi misskilningur um að MC standi fyrir „Mens Club“, en við höfðum samband við AMA eða American Motorcycle Association og þeir sögðu það að MC stæði bara fyrir „Motorcycle Club“ eða mótorhjólaklúbb. Það má segja að við séum búnar að liggja í heimildavinnu frá 2009. Við vitum því að það eru margir bandarískir kvenmótorhjólaklúbbar sem bera MC í sínu nafni, eru með heilt bakmerki og borga sín félagsgjöld. Við teljum þær vera okkar fyrirmyndir.“ 


Vilja bera heilt bakmerki

 MC Nornir bera armmerki á sínum fatnaði sem er þeirra einkennismerki, það er þó hugur í þeim að taka upp heilt bakmerki. „Við höfum hugsað okkur í ár að móta skýrari stefnu í klúbbnum og taka upp bakmerki, en merki klúbbanna segir til um hvernig klúbburinn er uppbyggður. Heilt merki segir til um að þetta sé selskaps eða fjölskylduklúbbur. Svo eru tveggja búta merki sem getur staðið fyrir ýmiss konar uppbyggingu klúbbsins. Loks eru til þriggja búta merki og það bera þessir hefðbundnu mótorhjólaklúbbar, með ströngu reglunum og inntökuskilyrðunum.“ Að sögn Hrannar bera samtök á borð við Hells Angels einsprósentu merki ásamt þriggja bútamerki, en þetta eins prósentu merki merkir að þeir séu útlagar og skeri sig frá öðrum mótorhjólaklúbbum. „Þá erum við komin í það sem misskilningurinn liggur í því það eru yfirleitt bara „Mens Club“.