29.2.12

Varð ástfanginn af fyrsta hjólinu sextán ára

 

Jón Ásgeir Hreinsson hefur hafið útgáfu mótorhjólatímarits

Þetta er ákveðinn kúltúr sem tengist svokölluðum kaffi-racerum og strætisrökkum, eins og við köllum Street Tracker á íslensku,“ segir Jón Ásgeir Hreinsson sem hafið hefur útgáfu mótorhjólatímaritsins Kickstart. „Á þessum hjólum er það ekki endilega aflið sem skiptir máli heldur útlitið og „performansinn“. Þarna eru menn á 400 til 600 kúbika hjólum í staðinn fyrir 1.000 til 1.200 kúbika. Svo er stíllinn í kringum þessi hjól mjög skemmtilegur. Rockabilly tengist þessu mikið og þetta er svona pínu afturhvarf til fortíðar en samt gert á fallegri máta en gert var á sjöunda áratugnum þegar þessi stíll varð vinsæll. Þetta er kúltúr sem lítið hefur farið fyrir hér heima en maður hefur fylgst meðerlendis og mig langaði að kynna betur.“
Fyrsta tölublað Kickstart er komið út, 74 blaðsíður af fjölbreyttu efni sem tengist hjólunum. „Þetta verða þrjú blöð á ári,“segir Jón Ásgeir " í febrúar, júní og október. júníblaðið kemur út 16. júní og verður með léttu „patríót“- þema.“
Jón Ásgeir segist alltaf hafa verið með hjóladellu en hann hafi hins vegar ekki haft efni á því að kaupa sér hjól fyrr en um fimmtugt. „Mótorar og mótorhjól hafa alltaf heillað mig. Fyrsta hjólið sem ég varð ástfanginn af sá ég sextán ára gamall. Það var Harley Davidson Sporter og þegar ég varð fimmtugur keypti ég mér þannig hjól. Það er nefnilega oft þannig að menn eru að láta gamlan draum rætast um miðjan aldur þegar þeir loksins hafa fjárráð til að leyfa sér það.“
Snýst allt lífið meira og minna um mótorhjól? „Nei, nei, ekki alveg. Ég er grafískur hönnuður og sit við tölvu alla daga, endalaust að reyna að finna  upp á einhverju nýju og fara ótroðnar slóðir, en með mótorhjólinu heima í skúr kemst maður í hálfgerða hugleiðslu. Þar er mekanismi sem einungis er hægt að setja saman á einn veg, annars virkar hann ekki. Það er svakaleg hvíld.“
Þessi hugleiðing Jóns Ásgeirs leiðir óhjákvæmilega hugann að hinni frægu bók Zen and the Art of Motorcycle Maintenance en hann segist þó aldrei hafa lesið hana enda sé hún drepleiðinleg. „Hins vegar er önnur bók, sem ég fjalla einmitt um í Kickstart, Jupiter‘s Travels eftir Ted Simon sem lýsir frábærlega vel hugarástandinu sem maður kemst í. Þetta er pínulítið eins og að vera á hestbaki, nema hvað þú ræður algjörlega för. Það er alveg á hreinu að hjólið tekur ekki af þér völdin.“
Meðal annars efnis í Kickstart má nefna ferðasögu fjögurra félaga sem fóru á mótorhjólum frá Berlín til Prag og aftur til baka. „Þetta var óskaplega skemmtilegt ferðalag og pottþétt að maður á eftir að  gera þetta aftur,“ segir Jón Ásgeir. „Þetta var dálítill riddarafílingur. Það fara fjórir karlar af stað á hjólunum sínum og eiga heiminn. Í næsta blaði verður líka ferðasaga þar sem Árni Jónsson, sem
býr í Kaliforníu, lýsir ferðalagi sem hann fór um Argentínu.“
 Meðal annars efnis í blaðinu má nefna ítarlegar kynningar á kaffi-racerum og strætisrökkum, viðtöl við tónlistarmanninn Smutty Smiff og myndlistarmanninn Erling T. V. Klingenberg og fleira og fleira. Hægt er að gerast áskrifandi á heimasíðunni kickstart.is eða kaupa blaðið í Kickstart, Vesturgötu 12 í Reykjavík eða í Mótorhjólasafninu á Akureyri. 
fridrikab@frettabladid.is

Fréttblaðið
29.02.2012

28.2.12

Konur á Mótorhjólum

Áhugi kvenna á mótorhjólaakstri hefur aukist mikið hér á landi. Konurnar eru á öllum aldri og margar þeirra hittast reglulega yfir sumartímann og hjóla saman um landið. Starfsemi klúbbanna er þó virk allt árið þar sem konurnar hittast einu sinni í mánuði og sumar oftar.
Tvö félög mótorhjólakvenna eru starfandi í Reykjavík, Skutlurnar og Harley Davidson skvísurnar sem flestar eru eiginkonur karla í Harley Davidson klúbbnum. Þær kalla sig Mafíu Dóru frænku eða MDF. 
Skutlurnar hafa verið starfandi frá árinu 2005 en félagið var stofnað af Ásthildi Einarsdóttur. 36 konur eru skráðar í félagið.
Konur eru einnig virkar á landsbyggðinni, á Akureyri og í Keflavík.
Á síðasta ári opnaði mótorhjólasafn á Akureyri. Hugmyndin með safninu er að varðveita 100 ára sögu mótorhjóla á Íslandi. Gott er að hafa í huga fyrir þá sem vilja eignast mótorhjól að hlífðarfatnaður er nauðsynlegur öllum þeim sem ferðast um á bifhjóli. Samkvæmt vef Umferðarstofu þarf hlífðarfatnaðurinn að vera slitsterkur og inni í fatnaðinum eða innan undir honum þurfa að vera svokallaðar brynjur sem draga úr höggi og alvarlegum meiðslum. Stígvél fyrir mótorhjólaakstur þurfa að vera með stífum ökkla til að minnka líkur á ökklabroti. Hlífðarbúnaður skal vera merktur samkvæmt stöðlum um öryggi.
Fréttablaðið 28.02.2012

16.2.12

Spólað og slett á strigann

Slettur Listamaðurinn gefur hjólinu inn í
galleríinu og lætir liti vaða á strigann.
Hann málaði með nokkrum litum

 Spólað og slett á strigann

Erling Klingenberg tengir tvenns konar gamla þráhyggju á sýningu sinni í Kling & bang galleríi.   Notaði öflugt mótorhjól í stað pensils  

„Ég gerði mikið af því að spóla svona sem unglingur“


Þessa dagana stendur yfir sýning Erlings T.V. Klingenberg myndlistarmanns í Kling & bang galleríi á Hverfisgötu 42.
Á sýningunni eru málverk eftir Erling sem óhætt er að segja að máluð séu af miklum krafti – enda vélhjóli beitt við verkið. „Það er ekki að ástæðulausu að ég kalla sýninguna Kraftmikil kúnst,“ segir Erling. Annars vegar sýnir hann málverk þar sem litnum var spólað upp á strigann, og
hinsvegar verk þar sem vélhjól spólaði á máluðum flötum. „Undirtitill sýningarinnar er síðan „Þráhyggja – frumleiki“ og í sýningunni birtist tvenns konar þráhyggja sem hefur fylgt mér lengi. Annars vegar eru það mótorhjól og hins vegar listin. Eldri bróðir minn keppti mikið á mótorhjólum og ég fékk oft að fara með honum, og hreifst af þessum heimi. Þrettán ára eignaðist ég síðan mitt fyrsta mótorhjól.“

Vissi ekki hvað myndi gerast

 Erling hefur á liðnum árum getið sér orð fyrir frumlega nálgun í myndlistinni, oft æði íróníska, og hefur í því ferli beitt ýmsum miðlum. „Ég útskrifaðist samt úr málaradeild í Myndlista- og handíðaskólanum,“ segir hann og það útskýrir ef til vill efnisvalið á þessari sýningu, málningu og striga. „Með tímanum hvarf ég frá málverkinu en þessi tvenns konar þráhyggja mætist þó núna, málverkið og mótorhjólið.“
Spólað Ungur vélhjólakappi aðstoðaði Erling
 við spólverkin í Kling & bang, þar sem spólandi
 hjólið reif upp nokkur litalög og teiknaði á gólfið
.
 Við gerð verkanna á sýningunni notaði Erling hjólið sem áhald og lætur það líka standa í salnum. „Í stað pensils eða spaða notaði ég þetta verkfæri. Ég vissi ekki fyrirfram hvað myndi nákvæmlega gerast. Ég hafði hugmyndir um það, og maður hefur einhverja stjórn á því hvernig liturinn leggst og blandast, en samt ekki. Það tengist líka hugmyndum listamanna sem kenndir eru við abstrakt-expressjónisma. En ferlið er háð ákveðnum eðlisfræðilögmálum.“
 Erling sat sjálfur á hjólinu sem „málaði“ á strigann, með því að spóla upp mismunandi litum úr málningarbökkum sem settir voru undir afturdekkið og einnig var  spólað yfir gólf gallerísins, í gegnum nokkur lög af ýmsum litum.
„Ég gerði mikið af því að spóla svona sem unglingur, þá lékum við vinirnir okkur að því að reykspóla á stéttum og malbiki, svona eiginlega teikna með hjólunum. Þegar ég var að læra í Frankfurt 1995 fór ég að skissa teikningu eins og við vorum að gera ungir á mótorhjólunum. En ég fékk ungan snilling til að aðstoða mig við teikninguna á gólfi gallerísins.“
Málunartækni abstraktexpressjónistanna, eins og Jacksons Pollocks, er iðulega kennd við frelsi
og öll höft voru afnumin þar sem þeir slettu á strigann og beittu líkamanum af krafti við að mála verkin. „Ein helsta hetjan mín þegar ég var í námi var þýski myndlistarmaðurinn Bernd Koberling, sem hefur mikið unnið hér á landi, en hans fyrstu verk voru ekkert svo ósvipuð því sem varð til þegar stóru verkin á sýningunni fæddust. Það sá ég eftir á og þótti það skemmtileg tilviljun,“ segir Erling.

Útlagar í samfélaginu 

Mótorhjól eru iðulega tengd ákveðinni karlmennskuímynd. Erling segir að hjólum hafi fjölgað mikið hér á landi síðasta áratuginn og sumir eigendur þeirra leggi mikið upp úr því að eiga réttu merkin. „Sumir nota hjólið til að skreyta egóið, sem stöðutákn, en ég trúi því samt að sannir mótorhjólamenn horfi fram hjá vörumerkjum og sjái þetta frelsi sem felst í mótorhjólinu,“ segir Erling. Hann hugsar sig um og bætir svo við: „Það sama má reyndar sjá í myndlistinni. Sumir sjá bara nafn þess sem er skrifaður fyrir verkinu en ekki um hvað verkið fjallar í raun og veru.
Svo er annað; er ekki algengt að litið sé á myndlistarmenn og mótorhjólamenn sem útlaga í samfélaginu? Það er mislangsótt hugmynd en þó sé ég ýmsar tengingar þar. Ég vil samt benda á að konum hefur fjölgað mikið í þessu sporti og þær eru margar helv. … góðir ökumenn,“ segir hann og hlær.
Það þarf varla að spyrja, en á Erling ekki mótorhjól sjálfur? „Jú, ég á götuhjól og langar mikið í
fjallahjól,“ svarar hann. Auk þess að beita hjóli við málunina hefur Erling einnig tekið fjölda ljósmynda af mótorhjólum og sýnir nokkur þeirra „portretta“.
 Sýning Erlings í Kling & bang stendur til sunnudags og er opin milli 14 og 18 alla dagana. Óhætt er að hvetja áhugamenn um myndlist, og vélhjól, að líta inn.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is
16.02.2012

31.1.12

Þorrablót Tíunnar 2012

Daginn

Við vildum bara minna á að frestur til að skrá sig á Þorrablót Tíunnar, sem haldið verður laugardaginn 4. febrúar næstkomandi, rennur út á hádegi föstudaginn 3. febrúar.
Hægt er að skrá sig með því að senda póst á tian@tian.is eða hringja í síma 869-3332
Verð fyrir greidda félaga er kr 3500 en kr 4000 fyrir ógreidda.

Nánari upplýsingar er hægt að sjá á www.tian.is

Með kveðju
Stjórn Tíunnar

8.11.11

Hann er svolítið lifandi strákurinn


 Mótorhjólasafn Íslands var opnað 15.mai 2011 á afmælisdegi Heiðars Þ. Jóhannssonar en hann lést í vélhjólaslysi 2006. Sá sem öðrum fremur á heiðurinn af safninu er Jóhann Freyr Jónsson 43ára oftast kallaður Jói rækja á Akureyri. Um 3000 vinnustundir liggja í sjálboðavinnu í smíði safnsins og námu styrkir til verkefnisins hátt í 100 milljónum. Það meira er: þessu grettistaki var lyft í miðri kreppu.
Hver er þessi kraftaverkamaður, Jói rækja?
 Ætli Jói rækja sé ekki fyrst og fremst maður með ástríðu fyrir lífinu og þá ekki síst mótorhjólum.
Hvaðan fær hann viðurnefnið ?

" Viðurnefnið kviknaði þegar ég var að vinna í Slippnum fyrir langalöngu. Það var rækjuréttur í matinn sem ég ekki borðaði og þá sagði ég upphátt svo allir heyrðu: Oj, rækja! svo festist þetta bara við mig.

Hræðist fátt.

Jói er fæddur og uppalinn Akureyringur. Hann bjó í 10 ár í Reykjavík en fluttist aftur norður upp úr aldamótunum. Hann vann mikið á skemmtistöðum hér áður fyrr og hefur starfað við mótorhjól sem fátt eitt sé nefnt. "Ég hef aldrei hræðst að prófa nýja hluti, þess vegna hef ég stokkið í allann fjandann og hef fyrir vikið dálítið breytt svið að baki".
Hann býr með syni sínum við Grundargötu. Á kærustu en þau búa ekki saman. Glottir og segir svo "Það er kannski ekki auðvelt að búa með manni sem notar eldhúsið til að gera við mótorhjól."
Og viti menn. Þegar blaðamaður litast um í eldhúsinu hjá Jóa sem viðtalið fór fram, kemur í ljós mótorhjól í öðrum enda vistarverunar. Reyndar eru mótorhjól eða ummerki um mótorhjól út um allt á heimilinu og fyrir framan húsið hellingur af vespum sem Jói ætlar að leigja út í sumar " En það hefur ekki unnist tími til þess," segir hann og kímir.

Reif allt í sundur

Mótorhjólaástríðan kviknaði þegar Jói var tíu ára gamall.  Þá leyfði Heiddi (Heiðar Jóhannsson föðurbróðir heitinn) honum að prófa mótorhjól í fyrsta skipti.  Þar með var teningunum kastað.
" Ég var litli óþolandi frændinn, tækjaóður ,breytti reiðhjólunum mínum og bara öllu. Ef ég eignaðist eitthvað þá reif ég það strax í sundur því ég vildi vita hvernig það virkaði."
Hann fann síðar hvað hann fittaði vel inn í  samfélag mótorhjólamanna og æ síðan fundist félagskapurinn einstakur, hann játar aðspurður að mótorhjólafólk hugsi oft meira um andleg mál en gengur og gerist en minna um hið veraldlega, þá sé hjálpsemi mótorhjólamanna einstök. Ef einn lendir í vanda þá eru hinir fljótir að koma til bjargar. Hann segir að auðvitað séu til svartir sauðir til í öllum félagskap en telur að umburðalyndi gagnvart mótorhjólafólki mætti vera betra.

Það er til endalaus orka

Litli óþolandi frændinn hans Heidda sem allt reif í sundur átti eftir að verða einn af bestu vinum hans.Og í dag er vinahópurinn stór enda Jói rækja sagður eiga erfitt með að neita fólki um greiða. Sólahringurinn endaoftlangur hjá honumog margar hendur á lofti. " það er allt í lagi. ég er ofvirkur þannig að ég þarf ekki að sofa neitt mikið" segir hann.
Lítur hann á það sem blessun að vera ofvirkur? " Já ég lít á það sem blessun að hafa fæðst árið 1968 áður en þeir fundu upp rítalínið. Mamma sagði einfaldlega: Hann er svolítið lifandi strákurinn og ég væri ekki sá maður sem ég væri í dag ef búið væri að þjappa mér saman með lyfjum alla ævi"
Engir gallar við þetta ástand?
"jú þetta er kannski að sumu leyti svolítið erfitt en það er alveg yndislegt að geta hamast, það er til endalaus orka."
Hvað er erfiðast? "Svefnleysið. Ég á það til að taka andvökur en það er eitthvað sem bara venst. Maður venst bara því að glápa upp í loftið á nóttunni".

Aukin einstaklingshyggja

Við ræðum nánar vináttu og greiðasemi. Jóa finnst einstaklingshyggja fara vaxndi í samfélaginu, í æ ríkari mæli hugsi hver aðeins um sjálfan sig. Á Akureyri sé ástandið þó skárra en í Reykjavík. "Hér eimir enn að þessari vinahugsun, að menn komi og segi: mig vantar hjálp. Einn reddar öðrum og fær greiða í staðinn, svona vinnuskiptahjálpsemisdæmi. En hér hafa líka orðið miklar breytingar. þegar ég var ungur þá voru götupartý í flestum götum hér a.m.k. einu sinni á ári en þau eru orðin mjög sjaldgæf. Bara svo eitt dæmi sé tekið"
Við ræðum heima og geyma og iðulega ber frændann á góma sem fallinn er frá, en hefur verið reistur glæstur minnisvarði og minningu hans haldið á lofti. Jói man mjög skýrt hvernig honum varð við að fregna andlátið. "Ég ók rútu en hann fór á undan og lendir svo í slysinu og deyr. Ég var ekki í símasambandi lengi og vissi ekkert en svo brjáluðust allir farsímar í rútunni. Ég hugsaði þá bara um að halda áfram að keyra, þorði ekki að stoppa heldur ók og ók sem leið lá þangað til ég komst til vinkonu minnar þar sem ég brotnaði saman. Þetta var ólýsanlegt."

Öllu skellt í hrærivélina

Heiddi hafði sjálfur verið að leita að húsnæði fyrir mótorhjólin sín og Jói og fjölskylda hans ákvað strax að honum gengnum að draumur hans fengi að rætast. " Að koma upp þessu safni var spurning um ástríðu, þrjósku, ofvirkni, og þrautsegjuog þegar því var öllu skellt saman í hrærivél gekk þetta upp."
Jói frábiður sér þó að honum sé þakkað einum.Fjölmargir eigi heiður og þakklætiskilið, enda muni hann varla eftir að hafa fengið neitun hjá nokkrum þeim sem beðinn var um hjálp. 
"Og þetta er rétt að byrja. Næst er að taka eftri hæðina á safninu í notkun. Það gæti orðið með vorinu 2012,"segir Jói eækja með kaffibollann sinn og góðaskapið.
Akureyri BÞ

4.11.11

Á 215 km hraða á hádegi í Bolungarvíkurgöngum



Íbúum Ísafjarðar og Bolungarvíkur stendur ógn af hópi ungra ökumanna sem ekur á yfir 200
kílómetra hraða í gegnum Bolungarvíkurgöng. Vegagerðin hefur mælt 24 farartæki á yfir 170 frá
því göngin voru opnuð og trúa starfsmenn vart eigin augum. Það gerir löggan, þekkir hópinn en
nær ekki því hópurinn vaktar ferðir löggunnar fyrir ógnarhraðaksturinn.

Ungir ökumenn stunda að aka um Bolungarvíkurgöng á ofsahraða. Þeir fylgjast með ferðum
lögreglunnar og tilkynna félögum sínum hvenær óhætt sé að fara í gegn, segir Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. Mælingar vegagerðarinnar í göngunum mældu vélhjól á 215 kílómetra hraða á klukkustund í göngunum í mars. Hjólið fór um göngin 24 mínútur í tólf á hádegi á þriðjudegi. Vegagerðin mældi níu ferðir á yfir 170 kílómetra hraða á klukkustund á tæpum tuttugu
mínútum. Ekið var fram og til baka, á öfugum vegarhelmingi og réttum, þennan dag. Hjólin gætu því hafa verið fleiri en eitt.

Trúa vart eigin gögnum 

Vegagerðin tók tölurnar saman eftir fyrirspurn Fréttatímans. Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri umferðardeildar Vegagerðarinnar, rengdi  þær. „Þetta getur ekki verið.“ Margar mælinganna sýni að ógnarakstur sé stundaður um miðjan dag, þegar nokkur umferð ætti að vera í göngunum og lítið rými til frjáls hraða. „Því verðum við að draga þá ályktun, að svo komnu, að um ótrúverðug gögn sé að ræða,“ segir hann.   Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, finnst gögnin hins vegar trúverðug. Hann viti ekki nákvæmlega hver ók í gegnum göngin á þessum hraða en hafi ákveðinn hóp drengja í huga. „Það skiptir þá engu máli þótt það sé bullandi umferð, bara ef þeir komast í gegnum göngin. Við þekkjum þennan hraðakstur og verðum varir við þetta á einkabílum okkar,“ segir hann og að lögreglan eigi við hópinn dags daglega.

Allt í botn milli hraðamyndavéla 

Önundur segir að vegna þess hve sönnunarbirgðin sé þung þegar umferðarlagabrot eru annars vegar sé lítið hægt að eiga við strákana. „Og það þótt þeir séu vel yfir flugtakshraða Fokker-véla, sem er um 150 km á klukkustund.“ Bolungarvíkurgöngin eru 5,4 kílómetrar á lengd. Um mitt sumar voru settar upp tvær hraðamyndavélar og hefur Vegagerðin ekki mælt hraðakstur yfir 170 frá því á síðasta degi júlímánaðar. „Nú er botngefið og stoppað á milli
myndavélanna,“ segir Önundur. Hraðaksturinn sé því enn til staðar.
Gunnhildur Arna Gunnardóttir
gag@frettatiminn.is

13.10.11

VEGUR DRAUMA OG VONA


63JA ÁRA GAMALL FYRRUM LÖGREGLUMAÐUR LÉT DRAUM RÆTAST OG ÓK Á MÓTORHJÓLI ÞVERT YFIR BANDARÍKIN UM ÞJÓÐVEG 66. VEGUR VONA, SEGIR FERÐALANGURINN

Sævar Ingi Jónsson er dálítill ævintýramaður. Hann er fyrrverandi lögreglumaður til langs tíma, fjölskyldumaður og hefur starfað hjá Vegagerðinni seinni ár. Sævar hefur skipst á að búa á Akureyri og í Reykjavík en kom sér fyrir nokkrum árum endanlega fyrir í hinu bjarta norðri og er sáttur. Eða hvað? Kannski var hann pínulítið ósáttur við eitt. Hann hafði nefnilega gengið með draum í maganum um langan tíma, að aka frægasta þjóðveg heims, Route 66, frá austri til vesturs í Bandaríkjunum og var orðinn úrkula vonar um að draumurinn ætti eftir að rætast. En þá heyrði hann af nokkrum lögreglumönnum sem voru að spá í svipaða hluti. Sævar setti sig í samband við þá og til að gera langa sögu stutta sneri hann nýverið alsæll heim til Akureyrar eftir að hafa ekið 4.444 kílómetra á amerískri grundu – á Harley Davidson mótorhjóli. 

Stórkostlegt, þetta var stórkostlegt, ég er stoltur að hafa látið til skarar skríða. Loksins! Jafnframt afar þakklátur eiginkonu og fjölskyldu fyrir stuðninginn við að gera þetta mögulegt“ segir Sævar og fær sér sæti á skrifstofu blaðamanns.
Hann tekur upp tölvu og sýnir blaðamanni hundruð mynda úr ferðinni. En hvert var upphaf þess að 63ja ára gamall maður ók mótorhjóli yfir þjóðveg 66?

Steinbeck áhrifavaldur

„Draumurinn kviknaði fyrir mörgum, mörgum árum eftir að ég hafði lesið Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck. Mér fannst, eftir lestur þeirrar bókar, í hjarta mínu að þjóðvegur 66 væri táknrænn, að hann væri tákn fyrir drauma, vonina og ósk um betra líf. Þetta var vegurinn þar sem heilu fjölskyldurnar tóku allt sitt hafurtask, hrúguðu því inn í bílinn og létu vaða, allt fram til ársins 1950. Þá var vegurinn formlega tekinn af skrá,“ segir Sævar. 
En hvernig fór ferðalagið með hann? Er svona ferð ekki að einhverju leyti bæði andleg og líkamleg þrekraun? Hann brosir við og viðurkennir með semingi að glíman við veginn hafi stundum tekið á. Hann ferðaðist í 12 manna hópi sem í voru 11 karlar og ein kona og voru Íslendingarnir stundum „afar þreyttir að kvöldi dags“ eins og hann orðar það. Ýmsar óvæntar uppákomur töfðu líka ferð en gerðu með sama hætti ævintýrið eftirminnilegra. Sem dæmi þurfti hópurinn að bíða eftir leiguhjólunum. Sum hjólanna voru líka „hálfgerðar druslur“ og ekki í samræmi við samninginn. Einn daginn rigndi svo mikið að ferðalangarnir komust hvorki lönd sé strönd og vitaskuld komu upp bilanir eins og gengur. „Eiginlega fór allt skipulag úr böndunum og við máttum hafa okkur öll við að að komast þessa vegalengd á 11 sólarhringum eins og við þurftum að gera. Sumir dagarnir urðu þess vegna lengri akstursdagar en nokkur sá fyrir, mest fórum við á sjöunda hundrað kílómetra á einni dagleið.“ 

Ónotað krossgátublað

Sævar var langelstur íslensku ferðalanganna og segir hann að mikil orka hafi farið í að halda fullri athygli á akstrinum jafnframt því að fylgjast með umhverfinu. Líkamlega taki svona ferð líka lúmskt á. „Ég keypti krossgátublað í Fríhöfninni til að dunda mér við fyrir svefninn. En eftir að ég kom heim sá ég að þeir voru ekki margir stafirnir sem ég hafði skrifað. Maður datt út um leið og höfuðið nam við koddann á kvöldin.“
„Ferðin um þjóðveg 66 reyndi mikið á samvinnu,“ segir Sævar, „og ýmsar félagslegar lausnir. Einu sinni var svo þröngt með gistingu að margir þurftu að sofa saman í herbergi. Þá er það eitt nokkur kúnst að verða ekki viðskila við hópinn þegar menn ferðast um á mótorhjóli á götum alheimsins.“ Hann segir Bandaríkjamenn hafa verið afskaplega hjálplega í umferðinni, þeir hafi gefið séns vinstri, hægri og komið þægilega á óvart. „Tillitssemin var alveg einstök og gætum við Íslendingar lært margt af Könum í því efni.“ 

Fjöldi draugabæja

Spurður um eftirminnilega upplifun segir vegagerðarmaðurinn að það hafi verið sérstakt að aka fram hjá fjölda draugabæja á leiðinni. Sumir þeirra minntu hann á Haganesvík þar sem byggð lagðist af eftir að vegurinn var færður til. Þar sem áður hafi staðið urmull af bensínstöðvum og alls konar þjónustu við ferðalanga ríki nú víða auðnin ein
Ýmsar skemmtilegar uppákomur urðu í ferðinni eins og gengur og voru ferðafélagarnir afar samstíga í því að njóta ferðalagsins og hafa gaman af. Til stóð að lögreglumennirnir í hópnum myndu hitta kollega sína í Chicago og endaði það með því að þeir buðu öllum hópnum í mat kvöldið fyrir brottför. „Við hittum líka í nokkrum tilfellum á ferð okkar lögreglumenn á vakt og áttum við þá skemmtileg og ánægjuleg samskipti.“ Spurður um samanburðinn á því að vera íslenskur eða amerískur lögreglumaður segir Sævar að fyrir tækja- og dellukarl eins og sig hafi ekki verið leiðinlegt að skoða amerísku lögreglubílana. „Hjá þeim eru allir bílarnir sérsmíðaðir fyrir notkun þeirra. Bíll sem er notaður í vegaeftirlit er til dæmis með mjög öfluga vél og hemla auk þess sem hann er sérstaklega innréttaður fyrir hlutverk sitt. Bíll sem notaður er í fangaflutninga er sérútbúinn með öðrum hætti. Hér á landi er þetta hins vegar þannig að það fer fram útboð, svo er samið, keyptur kannski einhver fjölskyldubíll, hann merktur og svo er skellt á hann sírenu og ljósum“, segir Sævar.

 Með haglabyssu á mótorhjólinu 

En hvað með vopnaburðinn? „Við hittum meðal annars lögreglumann með haglabyssu á mótorhjólinu. Það er nú kannski ekki alveg það sem maður vildi sjá hér,“ segir Sævar og hlær að tilhugsuninni, sem væntanlega er framandi í huga flestra friðsamra Íslendinga
 „Það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki farið þessa ferð fyrr. Mín hvatning til þeirra sem eiga sér óuppfyllta drauma er einfaldlega að láta vaða, stökkva frekar en hrökkva. Það að takast á við krefjandi verkefni gefur lífinu ómetanlegt gildi,“ segir Sævar hress og þýtur út af skrifstofu blaðamanns til starfa fyrir Vegagerðina. Hann setur bifreiðina sína í gang og ekur af stað Þórunnarstrætið til norðurs – en af svipnum af dæma er hugurinn enn bundinn við þjóðveg 66. Veg draumanna. Veg vonarinnar.

Akureyri 13. OKTÓBER 2011