29.2.12

Varð ástfanginn af fyrsta hjólinu sextán ára

 

Jón Ásgeir Hreinsson hefur hafið útgáfu mótorhjólatímarits

Þetta er ákveðinn kúltúr sem tengist svokölluðum kaffi-racerum og strætisrökkum, eins og við köllum Street Tracker á íslensku,“ segir Jón Ásgeir Hreinsson sem hafið hefur útgáfu mótorhjólatímaritsins Kickstart. „Á þessum hjólum er það ekki endilega aflið sem skiptir máli heldur útlitið og „performansinn“. Þarna eru menn á 400 til 600 kúbika hjólum í staðinn fyrir 1.000 til 1.200 kúbika. Svo er stíllinn í kringum þessi hjól mjög skemmtilegur. Rockabilly tengist þessu mikið og þetta er svona pínu afturhvarf til fortíðar en samt gert á fallegri máta en gert var á sjöunda áratugnum þegar þessi stíll varð vinsæll. Þetta er kúltúr sem lítið hefur farið fyrir hér heima en maður hefur fylgst meðerlendis og mig langaði að kynna betur.“
Fyrsta tölublað Kickstart er komið út, 74 blaðsíður af fjölbreyttu efni sem tengist hjólunum. „Þetta verða þrjú blöð á ári,“segir Jón Ásgeir " í febrúar, júní og október. júníblaðið kemur út 16. júní og verður með léttu „patríót“- þema.“
Jón Ásgeir segist alltaf hafa verið með hjóladellu en hann hafi hins vegar ekki haft efni á því að kaupa sér hjól fyrr en um fimmtugt. „Mótorar og mótorhjól hafa alltaf heillað mig. Fyrsta hjólið sem ég varð ástfanginn af sá ég sextán ára gamall. Það var Harley Davidson Sporter og þegar ég varð fimmtugur keypti ég mér þannig hjól. Það er nefnilega oft þannig að menn eru að láta gamlan draum rætast um miðjan aldur þegar þeir loksins hafa fjárráð til að leyfa sér það.“
Snýst allt lífið meira og minna um mótorhjól? „Nei, nei, ekki alveg. Ég er grafískur hönnuður og sit við tölvu alla daga, endalaust að reyna að finna  upp á einhverju nýju og fara ótroðnar slóðir, en með mótorhjólinu heima í skúr kemst maður í hálfgerða hugleiðslu. Þar er mekanismi sem einungis er hægt að setja saman á einn veg, annars virkar hann ekki. Það er svakaleg hvíld.“
Þessi hugleiðing Jóns Ásgeirs leiðir óhjákvæmilega hugann að hinni frægu bók Zen and the Art of Motorcycle Maintenance en hann segist þó aldrei hafa lesið hana enda sé hún drepleiðinleg. „Hins vegar er önnur bók, sem ég fjalla einmitt um í Kickstart, Jupiter‘s Travels eftir Ted Simon sem lýsir frábærlega vel hugarástandinu sem maður kemst í. Þetta er pínulítið eins og að vera á hestbaki, nema hvað þú ræður algjörlega för. Það er alveg á hreinu að hjólið tekur ekki af þér völdin.“
Meðal annars efnis í Kickstart má nefna ferðasögu fjögurra félaga sem fóru á mótorhjólum frá Berlín til Prag og aftur til baka. „Þetta var óskaplega skemmtilegt ferðalag og pottþétt að maður á eftir að  gera þetta aftur,“ segir Jón Ásgeir. „Þetta var dálítill riddarafílingur. Það fara fjórir karlar af stað á hjólunum sínum og eiga heiminn. Í næsta blaði verður líka ferðasaga þar sem Árni Jónsson, sem
býr í Kaliforníu, lýsir ferðalagi sem hann fór um Argentínu.“
 Meðal annars efnis í blaðinu má nefna ítarlegar kynningar á kaffi-racerum og strætisrökkum, viðtöl við tónlistarmanninn Smutty Smiff og myndlistarmanninn Erling T. V. Klingenberg og fleira og fleira. Hægt er að gerast áskrifandi á heimasíðunni kickstart.is eða kaupa blaðið í Kickstart, Vesturgötu 12 í Reykjavík eða í Mótorhjólasafninu á Akureyri. 
fridrikab@frettabladid.is

Fréttblaðið
29.02.2012

28.2.12

Konur á Mótorhjólum

Áhugi kvenna á mótorhjólaakstri hefur aukist mikið hér á landi. Konurnar eru á öllum aldri og margar þeirra hittast reglulega yfir sumartímann og hjóla saman um landið. Starfsemi klúbbanna er þó virk allt árið þar sem konurnar hittast einu sinni í mánuði og sumar oftar.
Tvö félög mótorhjólakvenna eru starfandi í Reykjavík, Skutlurnar og Harley Davidson skvísurnar sem flestar eru eiginkonur karla í Harley Davidson klúbbnum. Þær kalla sig Mafíu Dóru frænku eða MDF. 
Skutlurnar hafa verið starfandi frá árinu 2005 en félagið var stofnað af Ásthildi Einarsdóttur. 36 konur eru skráðar í félagið.
Konur eru einnig virkar á landsbyggðinni, á Akureyri og í Keflavík.
Á síðasta ári opnaði mótorhjólasafn á Akureyri. Hugmyndin með safninu er að varðveita 100 ára sögu mótorhjóla á Íslandi. Gott er að hafa í huga fyrir þá sem vilja eignast mótorhjól að hlífðarfatnaður er nauðsynlegur öllum þeim sem ferðast um á bifhjóli. Samkvæmt vef Umferðarstofu þarf hlífðarfatnaðurinn að vera slitsterkur og inni í fatnaðinum eða innan undir honum þurfa að vera svokallaðar brynjur sem draga úr höggi og alvarlegum meiðslum. Stígvél fyrir mótorhjólaakstur þurfa að vera með stífum ökkla til að minnka líkur á ökklabroti. Hlífðarbúnaður skal vera merktur samkvæmt stöðlum um öryggi.
Fréttablaðið 28.02.2012