7.7.11

Hetja sem ríður um héruð 2011


Njáll ökukennari við nýju Triumph hjólin sem mótorhjólaleigan
hans Biking Viking var að fá.

Njáll Gunnlaugsson skrifar bækur og kennir á vélhjól

Upphaflega fór ég í ökukennsluna til að kenna á mótorhjól en í dag kenni ég líka á fólksbíla,“ segir Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og bifhjólamaður. Árið 1998 byrjaði Njáll að kenna á mótorhjól og hefur sinnt því í þrettán ár. Áhugi hans á mótorhjólum hófst snemma á unglingsárunum. „Mótorhjólaáhuginn byrjaði með skellinöðru og svo kaupi ég fyrsta götuhjólið mitt tvítugur og þá var ekki aftur snúið. Fyrst var ég að leika mér á Honda MB og MT sem ég fékk hjá vinum mínum á unglingsárunum og síðan þróaðist þetta út í götuhjólin.“ Njáll segir að frá því hann fékk sér sitt fyrsta
hjól hafi hann alltaf átt mótorhjól. „Ég keypti mér í vetur fyrsta hjólið sem ég átti og ætla að gera það upp á næstu mánuðum en það er kawasaki GPz 550 Þá fjárfesti ég líka í Honda MB svona til gamans og til að rifja upp gamla og góða tíma. Það hjól er nú komið til systursonar míns sem er að taka sínu fyrstu skref á mótorhjóli“

BMW í uppáhaldi

„Ætli það séu ekki að verða 30 til 40 hjól sem ég hef átt yfir ævina. Við hjónin eigum í dag 12 hjól og síðan rek ég mótorhjólaleigu og er með kennsluhjól þar að auki,“ segir Njáll og bætir við að BMW-hjól séu í miklu uppáhaldi hjá sér. „Ég er búinn að eiga og á nokkur BMW-hjól og hef gaman af þeim. Þeir kunna að smíða skemmtileg og flott mótorhjól og þau eru oft hátæknivædd með  skemmtilegum nýjungum.“ Gífurleg aukning á sölu mótorhjóla var um miðjan síðasta áratug í uppsveiflunni en eftir hrun hefur sala á hjólum dregist verulega saman. „Þegar mest var í  uppsveiflunni voru flutt inn nærri 1.500 hjól á ári en í fyrra voru flutt inn 150 hjól. Nýliðun er því minni í dag,“ segir Njáll sem bætir við að mikil sprenging hafi verið í sölu á rafmagnsvespum og augljóst að fólk sé að leita að ódýru farartæki til að komast á milli staða. „Rafmagnsvespurnar eru flokkaðar í sama flokk og reiðhjól ef þær komast ekki yfir 25 km á klukkustund. Menn hafa ekki gert ráð fyrir þessu og það vantar reglur um þetta og jafnvel stíga og annað, bæði fyrir hjól og vespur. Þetta er viðvarandi vandamál á Íslandi í dag. Sá fjöldi sem nú er kominn á rafmagnsvespu getur þó
seinna meir skilað sér á götuhjólin og þannig stækkað flóruna og aukið nýliðun í mótorhjólaheiminum.“


Með mótorhjólið í forgangi

Þó Njáll kenni hvoru tveggja á mótorhjól og fólksbíl er ekki hægt að segja annað en að hann hafi mótorhjólið í forgangi. Þau eiga hug hans allan. „Ég hef lengi safnað gömlum myndum af
mótorhjólum og svo vatt þetta upp á sig og endaði á því að ég gaf út bók um 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi,“ segir Njáll sem seldi Mótorhjólasafni Íslands upplag af bókinni vel
undir kostnaðarverði til að styrkja byggingu safnsins á Akureyri. „Ég þekkti vel til Heidda, sem safnið er meðal annars reist til minningar um og Jóa, sem rekur safnið. Mér fannst því rétt að styrkja safnið með þessum hætti.“ Bókin, sem heitir Þá riðu hetjur um héruð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi, er til sölu hjá Mótorhjólasafni Íslands og er skemmtilegt ágrip um sögu mótorhjólsins á Íslandi.

Ímyndin um hörkutólið 

Það loðir oft við mótorhjólin ímyndin af uppreisnarseggjum í leðurjökkum að þeysast um götur borgarinnar á ógnarhraða. „Það er svo mikil gróska í mótorhjólamenningunni í dag. Það eru allir á mótorhjóli, hvort sem það er ráðherra eða ruslakall. Þegar það eru svona margir á mótorhjólum þá eru alltaf til einhverjir sem vilja greina sig frá fjöldanum, hvort sem fólk gerir það með hjólunum eða klúbbnum sem það er í. Þannig er nú bara mannlífið,“ segir Njáll sem telur að hluti af  ýmyndarvandanum sé ekki síst umfjöllun í fjölmiðlum sem einblíni oftar á slæmu hlutina. Njáll segir vélhjólamenn almennt vera meðvitaða um umferðaröryggi, hvort sem það snýr að þeim sjálfum eða öðrum. „Við í Sniglunum förum á hverju vori út á göturnar til að minna fólk á mótorhjólin á vegunum
og auðvitað líka til að bæta ímyndina.Við keyrum umferðarátak á hverju ári og erum til að mynda í góðu samstarfi við vegagerðina um betra vegumhverfi fyrir mótorhjólafólk, en árangur þessa samstarfs má sjá með tilraunavegriðum á Hafnarfjarðarveginum og mun sjást enn frekar í framtíðinni.“
vilhjalmur@mbl.is
Morgunblaðið
7.7.2011

Eiga hátt í Hundrað Mótorhjól

Lesa greinina HQ PDF

25.6.11

Skutlast í hringferð um landið á hjólunum

Skutlurnar, eini kvenbifhjólaklúbbur landsins, lögðu af stað á mótorhjólum sínum í gær í hringferð um landið. Í hópnum eru um 40 konur en í hringferðina að þessu sinni tóku þær maka sína með og hópurinn því allstór.


Skutlurnar, eini kvenbifhjólaklúbbur landsins, lögðu af stað á mótorhjólum sínum í gær í hringferð um landið. Í hópnum eru um 40 konur en í hringferðina að þessu sinni tóku þær maka sína með og hópurinn því allstór.
Margar Skutlur aka um á Harley Davidson-hjólum en annars eru hjólin af ýmsum tegundum og gerðum. Lagt var af stað frá Shell við Vesturlandsveg í blíðviðri í gærmorgun. Klúbburinn var stofnaður árið 2005 og hefur meðlimum fjölgað jafnt og þétt. Stofnfélagar voru 14 en félagsmenn eru orðnir hátt í 30 talsins. Nálgast má upplýsingar um klúbbinn á www.skutlur.is.
— Morgunblaðið/Ernir

8.6.11


STÓRVIÐBURÐUR HJÓLAFÓLKS Á ÍSLANDI

Hjóladagar á Akureyri 


14.júlí til 17.júlí 2011
                                        HÖFUM GAMAN SAMAN!




Hjóladagar á Akureyri hafa nú verið nær árlegur viðburður frá árinu 2006, meðal þeirra stærstu hérlendis. Þar mætir mótorhjólafólk af öllu landinu til Akureyrar til sýna sig og sjá aðra, hjóla saman, borða og njóta skemmtidagskrár þessa daga ásamt því að sækja uppákomur, kynningar og sölusýningar fyrirtækja og einstaklinga tengdum þessum geira. Í ár verða dagarnir með stórkostlegasta móti, lengri en vanalega, nú frá fimmtudegi til sunnudags. Sá hluti sem snýr að sölubásum, kynningum og þrautabrautum fer nú fram í miðbæ Akureyrar í göngugötu og á Ráðhústorgi í samstarfi við Akureyrarstofu og Bílaklúbb Akureyrar en klúbburinn mun annast hjólaspyrnur þar sem keppt verður á nýju og glæsilegu aksturssvæði klúbbsins fyrir ofan Akureyri.

Tían, Bifhjólaklúbbur Norðuramts hefur nú dagana alfarið í sínum höndum, en segja má með sanni að Hjóladagar sé uppákoma sem sé komin til að vera.

Við viljum sjá sem flest mótorhjólafólk hér á Hjóladögum 2011, og því langar okkur að biðja þig að láta orðið út ganga, auk þess sem gaman væri að fá að vita af hópferðum klúbba til Akureyrar fyrir hátíðina, svo við getum tekið á móti ykkur, og jafnvel fylgt ykkur í bæinn og leitt hópinn að setningu dagana.

Ef þú eða klúbburinn þinn sjáið ykkur mögulegt að mæta, væri sannarlega gaman að fá ykkur, og ef þið hafið fyrirspurnir eða skemmtilegar hugmyndir varðandi dagana, er hægt að hafa samband við okkur með því að senda tölvupóst á tian@tian.is 

Þessa dagana stendur yfir skipulagsvinna, en þegar dagskrá daganna liggur endanlega fyrir munum við birta hana á www.tian.is

Með vinsemd frá Akureyri



Stjórn Tíunnar, Bifhjólaklúbbs Norðuramts

2.6.11

Skemmtilegt framtak hjá Drullusokkunum 2011

 Mótorhjólaklúbburinn Drullusokkar hélt mótorhjólasýningu í stóra sal íþróttamiðstöðvarinnar á laugardag. Þar voru sýnd mótorhjól af öllum stærðum og gerðum eins og sjá má á myndunum en gríðarlegur fjöldi mótorhjóla er til í Eyjum. Auk þess að geta barið dýrðina augum, var gestum boðið upp á pylsur og gos sem mæltist vel fyrir en fjölmargir sóttu sýninguna.







Eyjafréttir 
2.6.2011

26.5.11

Kínversk mótorhjól:



Asiawing LD 450 er álitlegur kostur


Undanfarin þrjú ár hef ég farið í landgræðsluferð með ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinum á Vaðöldu upp undir Sultartangalóni. Í þessum landgræðsluferðum höfum við notast við fjórhjól, sexhjól og tvíhjól til að komast illfæra slóðana upp á Vaðöldu þar sem landgræðslan fer fram.


Í ár mætti formaður Slóðavina, Ásgeir Örn, sem vinnur sem þjónustustjóri hjá N1, en hann sýndi
þarna þjónustu sem þjónustustjóra sæmir og mætti með nýtt mótorhjól sem Nitro hefur nýlega hafið sölu á (Nitro er hluti af N1). Ásgeir sagði mér að spara mitt hjól, en í staðinn færði hann mér að ferðaþjónustunni Hólaskógi glænýtt hjólið til prufuaksturs með kveðju frá Ragnari Inga  verslunarstjóra Nitro.

Álitlegur kostur 

Asiawing LD 450 heitir hjólið og er álitlegur kostur fyrir þá sem vilja eiga kost á að keyra mótorhjól jafnt á malarvegum, vegslóðum eða á bundnu slitlagi. Hjólið er með 449 rúmsentimetra vél, er skráð 25kw við 7500 snúninga og er 120 kíló. Hjól sem byrjendur mega keyra sem fyrsta mótorhjól (17-19 ára). Í byrjun var ég hálf ragur að vera á svona glænýju hjóli sem ég átti ekki, en vitandi að malarvegurinn frá Hólaskógi er ekki sá besti á landinu var ég frekar kvíðinn, og eftir að hafa skoðað hjólið vel setti ég í gang og prófaði. Fyrstu metrarnir voru frekar óþægilegir og eftir um 300 metra akstur heyrði ég ljótt hljóð fyrir aftan hjólið, snarstoppaði og leit við. Þetta var bara skráningarnúmeraplatan sem var þarna skoppandi í grjótinu (einhver hefur gleymt að festa númerið tryggilega). Ég rölti til baka, tók númeraplötuna og setti í bakpokann. Næstu tveir kílómetrarnir voru frekar óþægilegir enda var vegurinn mjög grófur, en eftir um 10 km akstur fann ég hvernig hjólið var
að mýkjast smátt og smátt (ég var greinilega löngu búinn að gleyma hvernig nýju hjólin mín voru fyrstu 30-50 km, en síðast keyrði ég svona nýtt mótorhjól fyrir 15 árum). 

Bæði með sparkstart og rafstart 

Fínmunstruð dekkin gripu betur en ég hafði fyrirfram búist við, þrátt fyrir of mikinn loftþrýsting á grófu yfirborði vegarinns, en á malbikinu voru dekkin algjör draumur, enginn hristingur né titringur og loftmagnið rétt fyrir malbiksakstur. Asiawing er bæði með sparkstart og rafstart (fyrir hægri löpp og er mjög auðvelt að sparka hjólinu í gang verði rafgeymirinn eitthvað slappur). Start takkinn er á stýrinu fyrir hægri þumal. (Ég er vanur að þurfa að sparka torfæruhjólum í gang með startsveif utan á mótornum og oft þarf að sparka nokkrum sinnum. Startaratakkinn er oft nefndur hamingjutakki af þeim sem hafa lengi átt hjól sem þarf að sparka í gang.) Vinstra megin á stýrinu er svo innsogið. Sá ókostur er við innsogið að maður verður að halda því inni með vísifingri og sleppa ekki á meðan vélin er að volgna, en ef maður sleppir fer innsogið af. Þjöppuhlutfall vélarinnar er 11:1 og því nóg að nota 95 oktan bensín á hjólið, en persónulega mæli ég með því að ef þjöppuhlutfall vélar fer yfir 11,5 á móti 1 þá sé skynsamlegt að nota 98 oktan bensín.  Bensíntankurinn tekur ekki nema 8,5 lítra, sem ætti að skila manni á bilinu 100-140 km, en flest önnur hjól af svipaðri stærð eru með svona litla bensíntanka (ég vil að hjól séu með það stóra bensíntanka að maður komist á þeim a.m.k. 200 km).

Hentar best sem innanbæjar

„snatthjól“ Eftir rúmlega 100 km akstur var ég vel sáttur með hjólið sem ferðahjól á íslenskum malarvegum og á bundnu slitlagi er hjólið mjög gott. Hjólið tel ég að henti best sem innanbæjar
„snatthjól“ og í stuttar malarvegaferðir, en þetta er að mínu mati ekki keppnishjól nema með nokkrum
breytingum s.s. grófari dekkjum, snarpari blöndungi o.fl., en þeir hjá Nitro geta breytt hjólinu  (persónulega mundi ég ekki breyta neinu, því hjólið uppfyllir allar mínar þarfir eins og það er).
Asiawing kostar 799 þúsund, skráning innifalin og Nitro/N1 býður upp á ýmsa lánamöguleika,
t.d. bílalán, N1 hjólalán og kortalán vaxtalaus til 6 mánaða (nánar á www.nitro.is).




Bændablaðið  
26. maí 2011