25.6.11

Skutlast í hringferð um landið á hjólunum

Skutlurnar, eini kvenbifhjólaklúbbur landsins, lögðu af stað á mótorhjólum sínum í gær í hringferð um landið. Í hópnum eru um 40 konur en í hringferðina að þessu sinni tóku þær maka sína með og hópurinn því allstór.


Skutlurnar, eini kvenbifhjólaklúbbur landsins, lögðu af stað á mótorhjólum sínum í gær í hringferð um landið. Í hópnum eru um 40 konur en í hringferðina að þessu sinni tóku þær maka sína með og hópurinn því allstór.
Margar Skutlur aka um á Harley Davidson-hjólum en annars eru hjólin af ýmsum tegundum og gerðum. Lagt var af stað frá Shell við Vesturlandsveg í blíðviðri í gærmorgun. Klúbburinn var stofnaður árið 2005 og hefur meðlimum fjölgað jafnt og þétt. Stofnfélagar voru 14 en félagsmenn eru orðnir hátt í 30 talsins. Nálgast má upplýsingar um klúbbinn á www.skutlur.is.
— Morgunblaðið/Ernir

8.6.11


STÓRVIÐBURÐUR HJÓLAFÓLKS Á ÍSLANDI

Hjóladagar á Akureyri 


14.júlí til 17.júlí 2011
                                        HÖFUM GAMAN SAMAN!




Hjóladagar á Akureyri hafa nú verið nær árlegur viðburður frá árinu 2006, meðal þeirra stærstu hérlendis. Þar mætir mótorhjólafólk af öllu landinu til Akureyrar til sýna sig og sjá aðra, hjóla saman, borða og njóta skemmtidagskrár þessa daga ásamt því að sækja uppákomur, kynningar og sölusýningar fyrirtækja og einstaklinga tengdum þessum geira. Í ár verða dagarnir með stórkostlegasta móti, lengri en vanalega, nú frá fimmtudegi til sunnudags. Sá hluti sem snýr að sölubásum, kynningum og þrautabrautum fer nú fram í miðbæ Akureyrar í göngugötu og á Ráðhústorgi í samstarfi við Akureyrarstofu og Bílaklúbb Akureyrar en klúbburinn mun annast hjólaspyrnur þar sem keppt verður á nýju og glæsilegu aksturssvæði klúbbsins fyrir ofan Akureyri.

Tían, Bifhjólaklúbbur Norðuramts hefur nú dagana alfarið í sínum höndum, en segja má með sanni að Hjóladagar sé uppákoma sem sé komin til að vera.

Við viljum sjá sem flest mótorhjólafólk hér á Hjóladögum 2011, og því langar okkur að biðja þig að láta orðið út ganga, auk þess sem gaman væri að fá að vita af hópferðum klúbba til Akureyrar fyrir hátíðina, svo við getum tekið á móti ykkur, og jafnvel fylgt ykkur í bæinn og leitt hópinn að setningu dagana.

Ef þú eða klúbburinn þinn sjáið ykkur mögulegt að mæta, væri sannarlega gaman að fá ykkur, og ef þið hafið fyrirspurnir eða skemmtilegar hugmyndir varðandi dagana, er hægt að hafa samband við okkur með því að senda tölvupóst á tian@tian.is 

Þessa dagana stendur yfir skipulagsvinna, en þegar dagskrá daganna liggur endanlega fyrir munum við birta hana á www.tian.is

Með vinsemd frá Akureyri



Stjórn Tíunnar, Bifhjólaklúbbs Norðuramts

2.6.11

Skemmtilegt framtak hjá Drullusokkunum 2011

 Mótorhjólaklúbburinn Drullusokkar hélt mótorhjólasýningu í stóra sal íþróttamiðstöðvarinnar á laugardag. Þar voru sýnd mótorhjól af öllum stærðum og gerðum eins og sjá má á myndunum en gríðarlegur fjöldi mótorhjóla er til í Eyjum. Auk þess að geta barið dýrðina augum, var gestum boðið upp á pylsur og gos sem mæltist vel fyrir en fjölmargir sóttu sýninguna.







Eyjafréttir 
2.6.2011

26.5.11

Kínversk mótorhjól:



Asiawing LD 450 er álitlegur kostur


Undanfarin þrjú ár hef ég farið í landgræðsluferð með ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinum á Vaðöldu upp undir Sultartangalóni. Í þessum landgræðsluferðum höfum við notast við fjórhjól, sexhjól og tvíhjól til að komast illfæra slóðana upp á Vaðöldu þar sem landgræðslan fer fram.


Í ár mætti formaður Slóðavina, Ásgeir Örn, sem vinnur sem þjónustustjóri hjá N1, en hann sýndi
þarna þjónustu sem þjónustustjóra sæmir og mætti með nýtt mótorhjól sem Nitro hefur nýlega hafið sölu á (Nitro er hluti af N1). Ásgeir sagði mér að spara mitt hjól, en í staðinn færði hann mér að ferðaþjónustunni Hólaskógi glænýtt hjólið til prufuaksturs með kveðju frá Ragnari Inga  verslunarstjóra Nitro.

Álitlegur kostur 

Asiawing LD 450 heitir hjólið og er álitlegur kostur fyrir þá sem vilja eiga kost á að keyra mótorhjól jafnt á malarvegum, vegslóðum eða á bundnu slitlagi. Hjólið er með 449 rúmsentimetra vél, er skráð 25kw við 7500 snúninga og er 120 kíló. Hjól sem byrjendur mega keyra sem fyrsta mótorhjól (17-19 ára). Í byrjun var ég hálf ragur að vera á svona glænýju hjóli sem ég átti ekki, en vitandi að malarvegurinn frá Hólaskógi er ekki sá besti á landinu var ég frekar kvíðinn, og eftir að hafa skoðað hjólið vel setti ég í gang og prófaði. Fyrstu metrarnir voru frekar óþægilegir og eftir um 300 metra akstur heyrði ég ljótt hljóð fyrir aftan hjólið, snarstoppaði og leit við. Þetta var bara skráningarnúmeraplatan sem var þarna skoppandi í grjótinu (einhver hefur gleymt að festa númerið tryggilega). Ég rölti til baka, tók númeraplötuna og setti í bakpokann. Næstu tveir kílómetrarnir voru frekar óþægilegir enda var vegurinn mjög grófur, en eftir um 10 km akstur fann ég hvernig hjólið var
að mýkjast smátt og smátt (ég var greinilega löngu búinn að gleyma hvernig nýju hjólin mín voru fyrstu 30-50 km, en síðast keyrði ég svona nýtt mótorhjól fyrir 15 árum). 

Bæði með sparkstart og rafstart 

Fínmunstruð dekkin gripu betur en ég hafði fyrirfram búist við, þrátt fyrir of mikinn loftþrýsting á grófu yfirborði vegarinns, en á malbikinu voru dekkin algjör draumur, enginn hristingur né titringur og loftmagnið rétt fyrir malbiksakstur. Asiawing er bæði með sparkstart og rafstart (fyrir hægri löpp og er mjög auðvelt að sparka hjólinu í gang verði rafgeymirinn eitthvað slappur). Start takkinn er á stýrinu fyrir hægri þumal. (Ég er vanur að þurfa að sparka torfæruhjólum í gang með startsveif utan á mótornum og oft þarf að sparka nokkrum sinnum. Startaratakkinn er oft nefndur hamingjutakki af þeim sem hafa lengi átt hjól sem þarf að sparka í gang.) Vinstra megin á stýrinu er svo innsogið. Sá ókostur er við innsogið að maður verður að halda því inni með vísifingri og sleppa ekki á meðan vélin er að volgna, en ef maður sleppir fer innsogið af. Þjöppuhlutfall vélarinnar er 11:1 og því nóg að nota 95 oktan bensín á hjólið, en persónulega mæli ég með því að ef þjöppuhlutfall vélar fer yfir 11,5 á móti 1 þá sé skynsamlegt að nota 98 oktan bensín.  Bensíntankurinn tekur ekki nema 8,5 lítra, sem ætti að skila manni á bilinu 100-140 km, en flest önnur hjól af svipaðri stærð eru með svona litla bensíntanka (ég vil að hjól séu með það stóra bensíntanka að maður komist á þeim a.m.k. 200 km).

Hentar best sem innanbæjar

„snatthjól“ Eftir rúmlega 100 km akstur var ég vel sáttur með hjólið sem ferðahjól á íslenskum malarvegum og á bundnu slitlagi er hjólið mjög gott. Hjólið tel ég að henti best sem innanbæjar
„snatthjól“ og í stuttar malarvegaferðir, en þetta er að mínu mati ekki keppnishjól nema með nokkrum
breytingum s.s. grófari dekkjum, snarpari blöndungi o.fl., en þeir hjá Nitro geta breytt hjólinu  (persónulega mundi ég ekki breyta neinu, því hjólið uppfyllir allar mínar þarfir eins og það er).
Asiawing kostar 799 þúsund, skráning innifalin og Nitro/N1 býður upp á ýmsa lánamöguleika,
t.d. bílalán, N1 hjólalán og kortalán vaxtalaus til 6 mánaða (nánar á www.nitro.is).




Bændablaðið  
26. maí 2011

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var opnað fyrr í mánuðinum

Stefnan að safnið sé lifandi stofnun

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var formlega opnað 15. maí sl. Safnið er til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit, á leið heim af landsmóti Sniglanna.

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var formlega opnað 15. maí sl. Safnið er til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit, á leið heim af landsmóti Sniglanna. Safnið var opnað á afmælisdegi Heiðars, sem hefði orðið 57 ára ef hann hefði lifað. Húsið var sérstaklega byggt undir safnið og stendur við Krókeyri inn undir flugvelli.
Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að kostnaðurinn við uppbyggingu safnsins nálgist nú 80 milljónir króna. „Húsið er um 800 fermetrar að stærð og við höfum tekið í notkun helminginn, neðri hæðina. Á efri hæðinni verður kaffistofa, sýningarsalur og ráðstefnusalur og við stefnum að því að húsið verði að fullu komið í notkun á næsta ári. Safnið er gjöf til íslensku þjóðarinnar og gaman er að segja frá því að það er skuldlaust í dag. Margir hafa lagt hönd á plóginn, fyrirtæki, einstaklingar, stofnanir og síðast en ekki síst fjölskylda Heiðars Þ. Jóhannssonar.“

Vantaði slíkt safn á Íslandi

Ísland og Grænland hafa verið einu löndin í Evrópu þar sem ekki hefur verið sérstakt mótorhjólasafni. Þörfin hefur því verið sannarlega brýn, enda er saga mótorhjólsins hér á landi um margt merkileg og spannar eina öld. Safninu er ætlað það hlutverk að sýna og varðveita söguna, auk þess að varðveita minningu Heiðars og þau spor sem hann skildi eftir sig í hjólamenningu landsins. Hann hafði um margra ára skeið safnað mótorhjólum og munum tengdum þeim. Heiðar átti sér þann draum að opna sérstakt mótorhjólasafn og því segja aðstandendur safnsins ánægjulegt að opna hafi mátt safnið á afmælisdegi hans.
„Hér er sérstakur salur sem er tileinkaður Heiðari,“ segir Jóhann safnstjóri og bætir við fjölmargir hafi skoðað safnið frá því það var opnað, fyrstu helgina hafi gestir verið á bilinu 500 til 600.

„Við erum með til sýnis nærri fimmtíu hjól en safnið á hátt í eitt hundrað hjól. Ýmsir munir bætast við nánast daglega, þannig að það verður hægt að skipta út munum reglulega. Sjálf mótorhjólin eru af öllum stærðum og gerðum. Við erum til dæmis nokkur bresk hjól sem eru mjög sjaldgæf og koma án efa til með að vekja verðskuldaða athygli. Við erum rétt að klára að setja saman fyrsta stóra lögregluhjólið sem notað var á Akureyri. Þetta er Motoguzzi, ítalskur gæðagripur og við erum óskaplega stoltir yfir því að geta sýnt þetta fræga hjól.“

Mikill áhugi


Meðalaldur hjólafólks hefur hækkað verulega á undanförnum árum og hjólum hefur fjölgað gríðarlega. Áhuginn hefur klárlega aukist. Ég hlýt því að vera þokkalega bjartsýnn á framtíð safnsins. Hér verður athvarf fyrir hjólafólk, heimamenn og aðra þá sem eru á ferð um landið. Hér verður væntanlega umferðarfræðsla í boði í framtíðinni og ýmis námskeið. Okkar stefna er að safnið verði lifandi stofnun og mér sýnist sú verði raunin, enda margir tilbúnir til að leggja safninu lið,“ segir Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri Mótorhjólasafnsins á Akureyri.
karlesp@simnet.is
26.5.2011

15.5.11

Lög Tíunar eldri

Lög Bifhjólasamtök Norðuramts Tían.  2011 (úrelt)

1. Nafn og heimili

Nafn klúbbsins er Tían, Bifhjólaklúbbur Norðuramts. Heimili og varnarþing klúbbsins er á Akureyri.
Tían er klúbbur áhugafólks um bifhjól af öllum gerðum.

2. Markmið félagsins.
*       Efla samstarf bifhjólaáhugafólks á Norðurlandi.
*       Vera öðrum bifhjólaökumönnum fyrirmynd.
*       Vera í forsvari fyrir bifhjólafólk á Norðurlandi.
*       Að stuðla að tilurð og framgangi bifhjólasafns í minningu Heiðars nr #10
*       Sjá til þess að bifhjólafólk skemmti sér annað slagið ("getum við ekki látið eins og hálfvitar")

3. Merki
Merki félagsins er mynd af Fallinu, listaverki eftir Heidda #10. Myndin er hvít á svörtum bakgrunni, og er nafn félagsins skrifað með gylltum stöfum. Taumerki skal borið ofan mittis.

4. Inntökuskilyrði.

Að umsækjandi sé orðinn fullra 18 ára og teljist þess verður að bera merki félagsins að mati stjórnar. Hafi umsækjandi ekki náð 18 ára aldri getur hann skráð sig í klúbbinn með skriflegu samþykki forráðamanns og telst hann ungliði. Ungliðar eru ekki rukkaðir um félagsgjöld og eru ekki atkvæðisbærir á aðalfundi, en færast sjálfkrafa upp þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Við inngöngu fær viðkomandi úthlutað félagsnúmeri.
Félagsnúmerum er ekki endurúthlutað.

5. Refsingar og brottrekstur.

Refsing við brotum á lögum klúbbsins er Voff. Hafi félagi fengið þrjú voff skal hann gerður brottrækur.
Hægt er að vísa félaga úr klúbbnum hafi hann sannanlega sýnt að hann sé ekki þess verður að bera merki klúbbsins. Til að gera félaga brottrækann þarf skrifleg rök frá 20 fullgildum félögum.

5.1. Um Voff

Prófmissir vegna ofsaaksturs 1 Voff
Prófmissir vegna ölvunnaraksturs 2 Voff
Slæm hegðun á viðburðum í nafni klúbbsins (Að mati 5 félaga) 1 Voff
Drykkjulæti á Aðalfundi 1 Voff
Opinbert nýð um klúbbinn eða einstaka félaga 1 Voff
Stjórn getur ákveðið að Voffa á félaga ef meirihluti stjórnar er samþykkur.
Voff skulu fyrnast á einu ári.

6. Tekjur
Tekjur klúbbsins byggjast að mestu á félagsgjöldum. Félagsgjöld hvers árs skulu ákveðin af stjórn fyrir 15. febrúar.
Félagsgjöld notast í framleiðslu á merkjum og leigu á húsnæði og annan kostnað í þágu allra félaga. Félagsgjöld skulu að öllu jöfnu notuð í skemmtanir og er klúbbnum frjálst að taka hóflegt gjald fyrir einstaka viðburði á vegum hans.

Félagi telst fullgildur og atkvæðisbær, greiði hann félagsgjald ár hvert.


7. Aðalfundur
Haldinn skal aðalfundur sem næst 15. Maí ár hvert. Þar skulu fara fram venjuleg aðalfundarstörf og reikningar síðasta árs lagðir fram.
Dagskrá fundar skal vera nokkurn vegin eftirfarandi.

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Stjórn og nefndir gefa skýrslu um starfsemi liðins árs.
3. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga liðins árs.
4. Lagabreytingar.
5. Kosning stjórnar.
6. Kosning nefnda.
7. Skipun skoðunarmanna reikninga.
8. Önnur mál.



8. Stjórn

Stjórn klúbbsins skipa sjö menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, fjölmiðlafulltrúi auk tveggja meðstjórnenda.
Stjórnin skal kosin skriflega á aðalfundi, til tveggja ára í senn sem hér segir:  Annað árið skulu fjórir stjórnarmenn kosnir, en þrír hitt árið.
Stjórnin skiptir með sér verkum og skal því lokið eigi síðar en tveimur vikum eftir aðalfund.
Í allar fastar nefndir skal kjósa á aðalfundi. Ennfremur skal skipa tvo skoðunarmenn reikninga.
Öllum Löggildum meðlimum klúbbsins, er heimilt að bjóða sig fram til stjórnarsetu.
Framboðum til stjórnarsetu skal skilað inn til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaðann aðalfund.

Ef ekkert mótframboð kemur við sitjandi stjórn, telst hún sjálfkjörin.


9. Slit.

Klúbburinn verður aðeins leystur upp á aðalfundi og til þess þarf samþykki 3/4 hluta fullgildra félaga.
Leysist klúbburinn upp, ganga allar eignir klúbbsins til Mótorhjólasafns Íslands.

Samþykkt 9. okt 2006.

Undirritað:
Jóhann Freyr Jónsson
Valgeir Sverrisson
Baldvin Ringsted
Helga Sigríður Helgadóttir
Gunnar Möller



Breytingar samþykktar á aðalfundi Tíunnar 14. maí 2011

MÓTORHJÓLASAFN ÍSLANDS VAR FORMLEGA OPNAÐ Í DAG


Mótorhjólasafn Íslands var formlega opnað í dag sunnudaginn 15. maí, á afmælisdegi Heiðars Þ. Jóhannssonar, en Heiddi hefði orðið 57 ára í dag. Mótorhjólasafnið var stofnað í lok árs 2007 til minningar um Heidda sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla. Heiddi var af flestum bifhjólamönnum talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. 


Að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum við undirbúining fyrir opnunina í dag og uppstillingu safnsins. Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að safnið eigi hátt í 100 hjól en ekki eru þau öll komin á safnið og mörg þeirra á eftir að gera upp og lagfæra. Jóhann hafði ekki tölu yfir fjölda hjóla á safninu en lang flest þeirra hjóla sem eru til sýnis eru í eigu safnsins. Safnið hefur verið  um tvö ár í byggingu en fyrstu skóflustungurnar voru teknar á Hjóladögum 2008. Heiddi hafði safnað mótorhjólum og hjólatengdum munum í mörg ár og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Hann lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Á safninu er sérstök deild tengd Heidda, þar sem er að finna hjól og muni sem voru í hans eigu. Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og það spor sem hann skyldi eftir sig á hjólamenningu landsmanna.
15. maí, 2011 - 14:54 Þröstur Ernir Viðarsson

13.5.11

Fjölmargir mættu á opnun Mótorhjólasafn Íslands


Sunnudaginn 15. maí var nýbygging Mótorhjólasafns Íslands opnað formlega en safnið var stofnað í árlok 2007 til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést í bifhjólaslysi í Öræfasveit. Heiðar hafði til margra ára safnað mótorhjólum og munum tengdum þeir og átti sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Að sögn Jóhanns Frey Jónssonar safnstjóra komu á milli 500-600 manns á safnið opnunardaginn og var það mun meira en menn bjuggust við og viðtökurnar verið framar vonum. Jóhann sagði að almennt hafi fólk verið mjög hissa á stærð hússins og hrifist mjög að safnmunum.

Auglýsing frá 2011
Í dag á safnið um 100 mótorhjól, mikið magn ýmissa muna þeim tengdum sem og yfir 1000 ljósmyndir sem spanna sögu mótorhjólsins. Safninu er ætlað það hlutverk að sýna og varðveita sögu mótorhjóla hér á landi auk þess að varðveita minningu Heiðars og það spor sem hann skyldi eftir sig í hjólamenningu landsins.  Í safninu verður minjagripasala, veislusalur og ráðstefnusalur, en meining er m.a. að bjóða þar upp á umferðarfræðslu, námskeið og fundi, í húsinu verður vetrargeymsla fyrir hjól og þar verður einnig kaffihús. Húsið er 800 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum. Margir hafa komið að þessu verkefni og væri þetta ógerlegt án þeirrar samstöðu og velvilja allra sem hjálpað hafa. Fyrirtæki, klúbbar og einstaklingar hafa lagt þessu lið með sjálfboðavinnu, efnisgjöfum og fjárframlögum. Hollvinafélag safnsins Tían telur í dag 365 félaga og sjálfboðavinna í húsinu er að nálgast 3000 tíma. Safnið (húsið og allir safnmunir) er gjöf til Íslensku þjóðarinnar og er sjálfseignastofnun. Í bygginguna eru komnar hátt í 80 milljónir og stendur hún skuldlaus. Fyrsta skóflustungan var tekin 19. Júlí 2008 og framkvæmdir byrjuðu 20. janúar 2009

Safnið verður opið alla daga í sumar frá 12.00 til 18.00. Hópar eru velkomnir allt árið. Áætlað er að opna efri hæð vorið 2012.
Skrifað 17. maí 2011 af Páll Jóhannesson

17.4.11

Aðalfundur Tíunnar 2011

Ágætu félagar

Þann 14.maí kl 13:00 höldum við lögboðinn aðalfund okkar í Sjallanum.
Efni fundarins er:
  • 1. Kosning fundarstjóra og ritara.
  • 2. Stjórn og nefndir gefa skýrslu liðins árs.
  • 3. Reikningar liðins árs lesnir og lagðir fram.
  • 4. Lagabreytingar lagðar fram til samþykktar. Lagabreytingarnar er hægt að sjá í meðfylgjandi viðhengi.
  • 5. Kosning stjórnar.
  • 6. Kosning nefnda.
  • 7. Önnur mál.










Kaffi og meðlæti á fundinum.










Hópakstur verður að loknum fundi þar sem við endum á nýopnuðu Mótorhjólasafni Íslands.










En deginum er ekki lokið því um kvöldið blásum við til sumarfagnaðar í boði Tíunnar í húsnæði MC.SKÁL. Húsið verður opið frá kl 21 og frameftir. Félagar mega sjálfir koma með drykkjarföng kjósi þeir svo.










Stjórn Tíunnar minnir á að framboðsfrestur til stjórnarsetu rennur út 30. apríl.




Áhugasamir sendi póst á irisb69@gmail.com.




Einungis greiddir félagar eru gjaldgengir og verður hægt að greiða á staðnum.










Fh. stjórnar Íris Björk #93 formaður Tíunnar.

2.2.11

Markaðurinn er hruninn


Innflutningur á nýskráðum mótorhjólum hefur hrapað á síðustu mánuðum sökum verðhækkunar og ofmettunar á markaði. Talið er að breytingar á tollalögum gætu hleypt nýju blóði í innflutninginn.


„Þetta eru alveg ótrúlegar tölur, niðursveiflan hefur ekki verið svona mikil í mörg ár,“ segir Einar Magnússon hjá Umferðarstofu, um innflutning á götuskráðum mótorhjólum sem hefur dregist verulega saman undanfarna mánuði og hefur ekki verið minni síðan 2002.
    Fjöldi innfluttra, götuskráðra mótorhjóla var 150 á síðasta ári, en kringum 100 talsins árið 2002. Mesta uppsveiflan í innflutningi mótorhjóla á þessu tímabili var hins vegar árið 2007 eða samtals 1.532 hjól, og er það margföld aukning miðað við 2002. Nú er innflutningurinn hins vegar innan við tíu prósent af því sem hann var 2007. Einar segir þó ósanngjarnt að bera þetta tvennt saman þar sem ástandið í þjóðfélaginu hafi ekki verið beinlínis eðlilegt í góðærinu svokallaða.
    Hann segir það ekki breyta þeirri staðreynd að munurinn sé mikill ef horft er til áranna 2003 og 2004, þegar meira jafnvægi ríkti ef svo má segja, en þá voru að meðaltali 258 mótorhjól flutt til landsins. Full ástæða sé líka til að hafa áhyggjur af snarminnkandi innflutningi á nýjum mótorhjólum út frá öryggissjónarmiðum.
    „Umferðarstofa hefur áhyggjur af því að ekki sé nægileg endurnýjun á mótorhjólum sem og öðrum ökutækjum og því sé öryggi ökumanna ekki tryggt sem skyldi. Úti er ör þróun í öryggisbúnaði ökutækja og minni innflutningur á þeim þýðir að við erum að verða eftirbátar annarra í þeim efnum og hætta á slysum eykst.“
    Í því samhengi vísar Einar í tölur frá Frumherja sem sýna að útgáfu nýrra bifhjólaréttinda, sem endurspeglar fjölda nýliða á bifhjólum, hefur ekki fækkað að sama marki og innflutt mótorhjól. Þar kemur fram að tæplega helmingi færri mótorhjólaréttindi voru gefin út árið 2010 miðað við þegar mest lét árið 2007, eða úr 1.274 í 652 réttindi. Það eru 652 ný réttindi á móti 150 innfluttum mótorhjólum árið 2010. „Af því má draga þá ályktun að nýgræðingar kaupi frekar eldri hjól. Einnig skal haft í huga að sum af þeim hjólum sem hafa verið flutt inn af einstaklingum og verið nýskráð hér á landi eru í einhverjum tilfellum ekki nýjasta árgerð.“


    Ástæðurnar fyrir minnkandi innflutningi á mótorhjólum má helst rekja til hækkandi verðlags, auk þess sem ofmettun á markaði spilar inn í, að sögn Njáls Gunnlaugssonar, sem situr í umferðarnefnd Sniglanna. Hann telur að hæglega mætti liðka til fyrir sölu á nýjum hjólum með breytingu á tollalögum.
    „Eins og staðan er núna eru há vörugjöld á mótorhjólum eða allt að þrjátíu prósent, nema reyndar á keppnishjólum en vörugjöld á þeim voru felld niður. Sniglarnir lögðu hins vegar til að þau yrðu lækkuð út frá vistvænum sjónarmiðum líkt og gert var við sparneytna bíla. Á þá er lagt allt frá engu og upp í tíu prósenta vörugjöld þar sem þeir losa lítið af kolefnum. Með sömu rökum mætti lækka vörugjöld á mótorhjólum sem losa minni koltvísýring en smábílar og valda minna svifryki en bifreiðar almennt. Við stungum upp á fimmtán prósenta vörugjaldi á línuna en fengum engin viðbrögð.“
roald@frettabladid.is


https://timarit.is/files/40754714#search=%22%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%22