15.5.11

Lög Tíunar eldri

Lög Bifhjólasamtök Norðuramts Tían.  2011 (úrelt)

1. Nafn og heimili

Nafn klúbbsins er Tían, Bifhjólaklúbbur Norðuramts. Heimili og varnarþing klúbbsins er á Akureyri.
Tían er klúbbur áhugafólks um bifhjól af öllum gerðum.

2. Markmið félagsins.
*       Efla samstarf bifhjólaáhugafólks á Norðurlandi.
*       Vera öðrum bifhjólaökumönnum fyrirmynd.
*       Vera í forsvari fyrir bifhjólafólk á Norðurlandi.
*       Að stuðla að tilurð og framgangi bifhjólasafns í minningu Heiðars nr #10
*       Sjá til þess að bifhjólafólk skemmti sér annað slagið ("getum við ekki látið eins og hálfvitar")

3. Merki
Merki félagsins er mynd af Fallinu, listaverki eftir Heidda #10. Myndin er hvít á svörtum bakgrunni, og er nafn félagsins skrifað með gylltum stöfum. Taumerki skal borið ofan mittis.

4. Inntökuskilyrði.

Að umsækjandi sé orðinn fullra 18 ára og teljist þess verður að bera merki félagsins að mati stjórnar. Hafi umsækjandi ekki náð 18 ára aldri getur hann skráð sig í klúbbinn með skriflegu samþykki forráðamanns og telst hann ungliði. Ungliðar eru ekki rukkaðir um félagsgjöld og eru ekki atkvæðisbærir á aðalfundi, en færast sjálfkrafa upp þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Við inngöngu fær viðkomandi úthlutað félagsnúmeri.
Félagsnúmerum er ekki endurúthlutað.

5. Refsingar og brottrekstur.

Refsing við brotum á lögum klúbbsins er Voff. Hafi félagi fengið þrjú voff skal hann gerður brottrækur.
Hægt er að vísa félaga úr klúbbnum hafi hann sannanlega sýnt að hann sé ekki þess verður að bera merki klúbbsins. Til að gera félaga brottrækann þarf skrifleg rök frá 20 fullgildum félögum.

5.1. Um Voff

Prófmissir vegna ofsaaksturs 1 Voff
Prófmissir vegna ölvunnaraksturs 2 Voff
Slæm hegðun á viðburðum í nafni klúbbsins (Að mati 5 félaga) 1 Voff
Drykkjulæti á Aðalfundi 1 Voff
Opinbert nýð um klúbbinn eða einstaka félaga 1 Voff
Stjórn getur ákveðið að Voffa á félaga ef meirihluti stjórnar er samþykkur.
Voff skulu fyrnast á einu ári.

6. Tekjur
Tekjur klúbbsins byggjast að mestu á félagsgjöldum. Félagsgjöld hvers árs skulu ákveðin af stjórn fyrir 15. febrúar.
Félagsgjöld notast í framleiðslu á merkjum og leigu á húsnæði og annan kostnað í þágu allra félaga. Félagsgjöld skulu að öllu jöfnu notuð í skemmtanir og er klúbbnum frjálst að taka hóflegt gjald fyrir einstaka viðburði á vegum hans.

Félagi telst fullgildur og atkvæðisbær, greiði hann félagsgjald ár hvert.


7. Aðalfundur
Haldinn skal aðalfundur sem næst 15. Maí ár hvert. Þar skulu fara fram venjuleg aðalfundarstörf og reikningar síðasta árs lagðir fram.
Dagskrá fundar skal vera nokkurn vegin eftirfarandi.

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Stjórn og nefndir gefa skýrslu um starfsemi liðins árs.
3. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga liðins árs.
4. Lagabreytingar.
5. Kosning stjórnar.
6. Kosning nefnda.
7. Skipun skoðunarmanna reikninga.
8. Önnur mál.



8. Stjórn

Stjórn klúbbsins skipa sjö menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, fjölmiðlafulltrúi auk tveggja meðstjórnenda.
Stjórnin skal kosin skriflega á aðalfundi, til tveggja ára í senn sem hér segir:  Annað árið skulu fjórir stjórnarmenn kosnir, en þrír hitt árið.
Stjórnin skiptir með sér verkum og skal því lokið eigi síðar en tveimur vikum eftir aðalfund.
Í allar fastar nefndir skal kjósa á aðalfundi. Ennfremur skal skipa tvo skoðunarmenn reikninga.
Öllum Löggildum meðlimum klúbbsins, er heimilt að bjóða sig fram til stjórnarsetu.
Framboðum til stjórnarsetu skal skilað inn til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaðann aðalfund.

Ef ekkert mótframboð kemur við sitjandi stjórn, telst hún sjálfkjörin.


9. Slit.

Klúbburinn verður aðeins leystur upp á aðalfundi og til þess þarf samþykki 3/4 hluta fullgildra félaga.
Leysist klúbburinn upp, ganga allar eignir klúbbsins til Mótorhjólasafns Íslands.

Samþykkt 9. okt 2006.

Undirritað:
Jóhann Freyr Jónsson
Valgeir Sverrisson
Baldvin Ringsted
Helga Sigríður Helgadóttir
Gunnar Möller



Breytingar samþykktar á aðalfundi Tíunnar 14. maí 2011

MÓTORHJÓLASAFN ÍSLANDS VAR FORMLEGA OPNAÐ Í DAG


Mótorhjólasafn Íslands var formlega opnað í dag sunnudaginn 15. maí, á afmælisdegi Heiðars Þ. Jóhannssonar, en Heiddi hefði orðið 57 ára í dag. Mótorhjólasafnið var stofnað í lok árs 2007 til minningar um Heidda sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla. Heiddi var af flestum bifhjólamönnum talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. 


Að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum við undirbúining fyrir opnunina í dag og uppstillingu safnsins. Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að safnið eigi hátt í 100 hjól en ekki eru þau öll komin á safnið og mörg þeirra á eftir að gera upp og lagfæra. Jóhann hafði ekki tölu yfir fjölda hjóla á safninu en lang flest þeirra hjóla sem eru til sýnis eru í eigu safnsins. Safnið hefur verið  um tvö ár í byggingu en fyrstu skóflustungurnar voru teknar á Hjóladögum 2008. Heiddi hafði safnað mótorhjólum og hjólatengdum munum í mörg ár og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Hann lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Á safninu er sérstök deild tengd Heidda, þar sem er að finna hjól og muni sem voru í hans eigu. Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og það spor sem hann skyldi eftir sig á hjólamenningu landsmanna.
15. maí, 2011 - 14:54 Þröstur Ernir Viðarsson

13.5.11

Fjölmargir mættu á opnun Mótorhjólasafn Íslands


Sunnudaginn 15. maí var nýbygging Mótorhjólasafns Íslands opnað formlega en safnið var stofnað í árlok 2007 til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést í bifhjólaslysi í Öræfasveit. Heiðar hafði til margra ára safnað mótorhjólum og munum tengdum þeir og átti sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Að sögn Jóhanns Frey Jónssonar safnstjóra komu á milli 500-600 manns á safnið opnunardaginn og var það mun meira en menn bjuggust við og viðtökurnar verið framar vonum. Jóhann sagði að almennt hafi fólk verið mjög hissa á stærð hússins og hrifist mjög að safnmunum.

Auglýsing frá 2011
Í dag á safnið um 100 mótorhjól, mikið magn ýmissa muna þeim tengdum sem og yfir 1000 ljósmyndir sem spanna sögu mótorhjólsins. Safninu er ætlað það hlutverk að sýna og varðveita sögu mótorhjóla hér á landi auk þess að varðveita minningu Heiðars og það spor sem hann skyldi eftir sig í hjólamenningu landsins.  Í safninu verður minjagripasala, veislusalur og ráðstefnusalur, en meining er m.a. að bjóða þar upp á umferðarfræðslu, námskeið og fundi, í húsinu verður vetrargeymsla fyrir hjól og þar verður einnig kaffihús. Húsið er 800 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum. Margir hafa komið að þessu verkefni og væri þetta ógerlegt án þeirrar samstöðu og velvilja allra sem hjálpað hafa. Fyrirtæki, klúbbar og einstaklingar hafa lagt þessu lið með sjálfboðavinnu, efnisgjöfum og fjárframlögum. Hollvinafélag safnsins Tían telur í dag 365 félaga og sjálfboðavinna í húsinu er að nálgast 3000 tíma. Safnið (húsið og allir safnmunir) er gjöf til Íslensku þjóðarinnar og er sjálfseignastofnun. Í bygginguna eru komnar hátt í 80 milljónir og stendur hún skuldlaus. Fyrsta skóflustungan var tekin 19. Júlí 2008 og framkvæmdir byrjuðu 20. janúar 2009

Safnið verður opið alla daga í sumar frá 12.00 til 18.00. Hópar eru velkomnir allt árið. Áætlað er að opna efri hæð vorið 2012.
Skrifað 17. maí 2011 af Páll Jóhannesson

17.4.11

Aðalfundur Tíunnar 2011

Ágætu félagar

Þann 14.maí kl 13:00 höldum við lögboðinn aðalfund okkar í Sjallanum.
Efni fundarins er:
  • 1. Kosning fundarstjóra og ritara.
  • 2. Stjórn og nefndir gefa skýrslu liðins árs.
  • 3. Reikningar liðins árs lesnir og lagðir fram.
  • 4. Lagabreytingar lagðar fram til samþykktar. Lagabreytingarnar er hægt að sjá í meðfylgjandi viðhengi.
  • 5. Kosning stjórnar.
  • 6. Kosning nefnda.
  • 7. Önnur mál.










Kaffi og meðlæti á fundinum.










Hópakstur verður að loknum fundi þar sem við endum á nýopnuðu Mótorhjólasafni Íslands.










En deginum er ekki lokið því um kvöldið blásum við til sumarfagnaðar í boði Tíunnar í húsnæði MC.SKÁL. Húsið verður opið frá kl 21 og frameftir. Félagar mega sjálfir koma með drykkjarföng kjósi þeir svo.










Stjórn Tíunnar minnir á að framboðsfrestur til stjórnarsetu rennur út 30. apríl.




Áhugasamir sendi póst á irisb69@gmail.com.




Einungis greiddir félagar eru gjaldgengir og verður hægt að greiða á staðnum.










Fh. stjórnar Íris Björk #93 formaður Tíunnar.

2.2.11

Markaðurinn er hruninn


Innflutningur á nýskráðum mótorhjólum hefur hrapað á síðustu mánuðum sökum verðhækkunar og ofmettunar á markaði. Talið er að breytingar á tollalögum gætu hleypt nýju blóði í innflutninginn.


„Þetta eru alveg ótrúlegar tölur, niðursveiflan hefur ekki verið svona mikil í mörg ár,“ segir Einar Magnússon hjá Umferðarstofu, um innflutning á götuskráðum mótorhjólum sem hefur dregist verulega saman undanfarna mánuði og hefur ekki verið minni síðan 2002.
    Fjöldi innfluttra, götuskráðra mótorhjóla var 150 á síðasta ári, en kringum 100 talsins árið 2002. Mesta uppsveiflan í innflutningi mótorhjóla á þessu tímabili var hins vegar árið 2007 eða samtals 1.532 hjól, og er það margföld aukning miðað við 2002. Nú er innflutningurinn hins vegar innan við tíu prósent af því sem hann var 2007. Einar segir þó ósanngjarnt að bera þetta tvennt saman þar sem ástandið í þjóðfélaginu hafi ekki verið beinlínis eðlilegt í góðærinu svokallaða.
    Hann segir það ekki breyta þeirri staðreynd að munurinn sé mikill ef horft er til áranna 2003 og 2004, þegar meira jafnvægi ríkti ef svo má segja, en þá voru að meðaltali 258 mótorhjól flutt til landsins. Full ástæða sé líka til að hafa áhyggjur af snarminnkandi innflutningi á nýjum mótorhjólum út frá öryggissjónarmiðum.
    „Umferðarstofa hefur áhyggjur af því að ekki sé nægileg endurnýjun á mótorhjólum sem og öðrum ökutækjum og því sé öryggi ökumanna ekki tryggt sem skyldi. Úti er ör þróun í öryggisbúnaði ökutækja og minni innflutningur á þeim þýðir að við erum að verða eftirbátar annarra í þeim efnum og hætta á slysum eykst.“
    Í því samhengi vísar Einar í tölur frá Frumherja sem sýna að útgáfu nýrra bifhjólaréttinda, sem endurspeglar fjölda nýliða á bifhjólum, hefur ekki fækkað að sama marki og innflutt mótorhjól. Þar kemur fram að tæplega helmingi færri mótorhjólaréttindi voru gefin út árið 2010 miðað við þegar mest lét árið 2007, eða úr 1.274 í 652 réttindi. Það eru 652 ný réttindi á móti 150 innfluttum mótorhjólum árið 2010. „Af því má draga þá ályktun að nýgræðingar kaupi frekar eldri hjól. Einnig skal haft í huga að sum af þeim hjólum sem hafa verið flutt inn af einstaklingum og verið nýskráð hér á landi eru í einhverjum tilfellum ekki nýjasta árgerð.“


    Ástæðurnar fyrir minnkandi innflutningi á mótorhjólum má helst rekja til hækkandi verðlags, auk þess sem ofmettun á markaði spilar inn í, að sögn Njáls Gunnlaugssonar, sem situr í umferðarnefnd Sniglanna. Hann telur að hæglega mætti liðka til fyrir sölu á nýjum hjólum með breytingu á tollalögum.
    „Eins og staðan er núna eru há vörugjöld á mótorhjólum eða allt að þrjátíu prósent, nema reyndar á keppnishjólum en vörugjöld á þeim voru felld niður. Sniglarnir lögðu hins vegar til að þau yrðu lækkuð út frá vistvænum sjónarmiðum líkt og gert var við sparneytna bíla. Á þá er lagt allt frá engu og upp í tíu prósenta vörugjöld þar sem þeir losa lítið af kolefnum. Með sömu rökum mætti lækka vörugjöld á mótorhjólum sem losa minni koltvísýring en smábílar og valda minna svifryki en bifreiðar almennt. Við stungum upp á fimmtán prósenta vörugjaldi á línuna en fengum engin viðbrögð.“
roald@frettabladid.is


https://timarit.is/files/40754714#search=%22%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%22

22.12.10

Á mótorfákum um evrópskar grundir

Hópurinn staddur í Svartaskógi þar sem hitinn var kominn yfir 30 gráður.





Fern hjón frá Suðurnesjum létu gamlan draum verða að veruleika og ferðuðust 3.800 km á mótorhjólum um Evrópu í lok sumars.

 Ferðin tók 23 daga, frá 18. ágúst fram til 10.sept. „Við höfðum farið áður styttri ferð en í þetta skiptið langaði okkur lengri og veglegri ferð,“ sögðu mótorhjólakapparnir í viðtali við Víkurfréttir, þeir Magnús Hafsteinsson, Hrafnhildur Sverrisdóttir, Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibergsdóttir, Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir. VF hitti hluta hópsins og spurði aðeins út í ferðina.


Hjólin sem hópurinn ferðaðist á voru af gerðinni Honda Goldwing og búin öllum aukahlutum eins og GPS, intercom og talstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki ókeypis að fara í svona langa hjólaferð en áætlaður ferðakostnaður var 500.000 kr. á hjónin en inni í þeim kostnaði var allur flutningur, bæði á fólki og hjólum, gisting og morgunmatur. Áætlunin stóðst að mestu leyti þó leiðin hafi lengst um 1.300 km.

„Ferðin lengdist aðeins miðað við áætlun. Þegar við sáum eitthvað áhugavert á leiðinni var bara tekinn krókur. Við vorum ekki bundin við eitt né neitt sem var kostur í þessari ferð,“ sagði Þórhallur. „Einnig ákváðum við að vera ekkert merkt neinum klúbbi né auglýsa að við værum frá Íslandi. Við vorum merktir í fyrri ferðinni okkar og þá lentum við í veseni í Danmörku, en þar var mótorhjólaklúbbur sem hélt við værum eitthvað gengi að leita að veseni, en hlógu svo þegar þeir sáu að þetta voru bara nokkrir félagar og alveg meinlausir.“




Voru snemma í undirbúningi

Undirbúningurinn hófst í febrúarmánuði til að ákveða hvert ætti að fara. Hver og einn kom með tillögu um hvað hann vildi sjá og skoða og var á endanum búinn til hringur sem mældist 2.500 km. Þá þurfti að bóka gistingu með geymslu fyrir hjólin, en það er nauðsynlegt að koma hjólunum í skjól. Gistingin var pöntuð með góðum fyrirvara en þessi tími er háanna tími í ferðmennsku um alla Evrópu. Einnig þurfti að koma hjólunum í flutning og varð Samskip fyrir valinu.


Skipulagning ferðarinnar var að mestu leyti lokið í byrjun maí. Júlímánuður fór svo í að yfirfara hjólin. Rúnar, sem oft er nefndur vélstjórinn, sá til þess að allir voru með nýyfirfarin hjól. „Það skiptir miklu máli að vera með allt í góðu standi þegar svona ferð er farin til að minnka líkur á að eitthvað fari úrskeðis. Bremsuklossar, olía, ný dekk, þetta þarf allt að vera í topp standi,“ sagði Rúnar.







Hópurinn fyrir framan innganginn í Swarovski safnið í Austurríki.
Frá vinstri: Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Hrafnhildur Sverrrisdóttir,
 Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibersdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir.

Úr Víkurfréttum 22 des 2010