15.5.11

MÓTORHJÓLASAFN ÍSLANDS VAR FORMLEGA OPNAÐ Í DAG


Mótorhjólasafn Íslands var formlega opnað í dag sunnudaginn 15. maí, á afmælisdegi Heiðars Þ. Jóhannssonar, en Heiddi hefði orðið 57 ára í dag. Mótorhjólasafnið var stofnað í lok árs 2007 til minningar um Heidda sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla. Heiddi var af flestum bifhjólamönnum talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. 


Að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum við undirbúining fyrir opnunina í dag og uppstillingu safnsins. Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að safnið eigi hátt í 100 hjól en ekki eru þau öll komin á safnið og mörg þeirra á eftir að gera upp og lagfæra. Jóhann hafði ekki tölu yfir fjölda hjóla á safninu en lang flest þeirra hjóla sem eru til sýnis eru í eigu safnsins. Safnið hefur verið  um tvö ár í byggingu en fyrstu skóflustungurnar voru teknar á Hjóladögum 2008. Heiddi hafði safnað mótorhjólum og hjólatengdum munum í mörg ár og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Hann lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Á safninu er sérstök deild tengd Heidda, þar sem er að finna hjól og muni sem voru í hans eigu. Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og það spor sem hann skyldi eftir sig á hjólamenningu landsmanna.
15. maí, 2011 - 14:54 Þröstur Ernir Viðarsson

13.5.11

Fjölmargir mættu á opnun Mótorhjólasafn Íslands


Sunnudaginn 15. maí var nýbygging Mótorhjólasafns Íslands opnað formlega en safnið var stofnað í árlok 2007 til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést í bifhjólaslysi í Öræfasveit. Heiðar hafði til margra ára safnað mótorhjólum og munum tengdum þeir og átti sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Að sögn Jóhanns Frey Jónssonar safnstjóra komu á milli 500-600 manns á safnið opnunardaginn og var það mun meira en menn bjuggust við og viðtökurnar verið framar vonum. Jóhann sagði að almennt hafi fólk verið mjög hissa á stærð hússins og hrifist mjög að safnmunum.

Auglýsing frá 2011
Í dag á safnið um 100 mótorhjól, mikið magn ýmissa muna þeim tengdum sem og yfir 1000 ljósmyndir sem spanna sögu mótorhjólsins. Safninu er ætlað það hlutverk að sýna og varðveita sögu mótorhjóla hér á landi auk þess að varðveita minningu Heiðars og það spor sem hann skyldi eftir sig í hjólamenningu landsins.  Í safninu verður minjagripasala, veislusalur og ráðstefnusalur, en meining er m.a. að bjóða þar upp á umferðarfræðslu, námskeið og fundi, í húsinu verður vetrargeymsla fyrir hjól og þar verður einnig kaffihús. Húsið er 800 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum. Margir hafa komið að þessu verkefni og væri þetta ógerlegt án þeirrar samstöðu og velvilja allra sem hjálpað hafa. Fyrirtæki, klúbbar og einstaklingar hafa lagt þessu lið með sjálfboðavinnu, efnisgjöfum og fjárframlögum. Hollvinafélag safnsins Tían telur í dag 365 félaga og sjálfboðavinna í húsinu er að nálgast 3000 tíma. Safnið (húsið og allir safnmunir) er gjöf til Íslensku þjóðarinnar og er sjálfseignastofnun. Í bygginguna eru komnar hátt í 80 milljónir og stendur hún skuldlaus. Fyrsta skóflustungan var tekin 19. Júlí 2008 og framkvæmdir byrjuðu 20. janúar 2009

Safnið verður opið alla daga í sumar frá 12.00 til 18.00. Hópar eru velkomnir allt árið. Áætlað er að opna efri hæð vorið 2012.
Skrifað 17. maí 2011 af Páll Jóhannesson

17.4.11

Aðalfundur Tíunnar 2011

Ágætu félagar

Þann 14.maí kl 13:00 höldum við lögboðinn aðalfund okkar í Sjallanum.
Efni fundarins er:
  • 1. Kosning fundarstjóra og ritara.
  • 2. Stjórn og nefndir gefa skýrslu liðins árs.
  • 3. Reikningar liðins árs lesnir og lagðir fram.
  • 4. Lagabreytingar lagðar fram til samþykktar. Lagabreytingarnar er hægt að sjá í meðfylgjandi viðhengi.
  • 5. Kosning stjórnar.
  • 6. Kosning nefnda.
  • 7. Önnur mál.










Kaffi og meðlæti á fundinum.










Hópakstur verður að loknum fundi þar sem við endum á nýopnuðu Mótorhjólasafni Íslands.










En deginum er ekki lokið því um kvöldið blásum við til sumarfagnaðar í boði Tíunnar í húsnæði MC.SKÁL. Húsið verður opið frá kl 21 og frameftir. Félagar mega sjálfir koma með drykkjarföng kjósi þeir svo.










Stjórn Tíunnar minnir á að framboðsfrestur til stjórnarsetu rennur út 30. apríl.




Áhugasamir sendi póst á irisb69@gmail.com.




Einungis greiddir félagar eru gjaldgengir og verður hægt að greiða á staðnum.










Fh. stjórnar Íris Björk #93 formaður Tíunnar.

2.2.11

Markaðurinn er hruninn


Innflutningur á nýskráðum mótorhjólum hefur hrapað á síðustu mánuðum sökum verðhækkunar og ofmettunar á markaði. Talið er að breytingar á tollalögum gætu hleypt nýju blóði í innflutninginn.


„Þetta eru alveg ótrúlegar tölur, niðursveiflan hefur ekki verið svona mikil í mörg ár,“ segir Einar Magnússon hjá Umferðarstofu, um innflutning á götuskráðum mótorhjólum sem hefur dregist verulega saman undanfarna mánuði og hefur ekki verið minni síðan 2002.
    Fjöldi innfluttra, götuskráðra mótorhjóla var 150 á síðasta ári, en kringum 100 talsins árið 2002. Mesta uppsveiflan í innflutningi mótorhjóla á þessu tímabili var hins vegar árið 2007 eða samtals 1.532 hjól, og er það margföld aukning miðað við 2002. Nú er innflutningurinn hins vegar innan við tíu prósent af því sem hann var 2007. Einar segir þó ósanngjarnt að bera þetta tvennt saman þar sem ástandið í þjóðfélaginu hafi ekki verið beinlínis eðlilegt í góðærinu svokallaða.
    Hann segir það ekki breyta þeirri staðreynd að munurinn sé mikill ef horft er til áranna 2003 og 2004, þegar meira jafnvægi ríkti ef svo má segja, en þá voru að meðaltali 258 mótorhjól flutt til landsins. Full ástæða sé líka til að hafa áhyggjur af snarminnkandi innflutningi á nýjum mótorhjólum út frá öryggissjónarmiðum.
    „Umferðarstofa hefur áhyggjur af því að ekki sé nægileg endurnýjun á mótorhjólum sem og öðrum ökutækjum og því sé öryggi ökumanna ekki tryggt sem skyldi. Úti er ör þróun í öryggisbúnaði ökutækja og minni innflutningur á þeim þýðir að við erum að verða eftirbátar annarra í þeim efnum og hætta á slysum eykst.“
    Í því samhengi vísar Einar í tölur frá Frumherja sem sýna að útgáfu nýrra bifhjólaréttinda, sem endurspeglar fjölda nýliða á bifhjólum, hefur ekki fækkað að sama marki og innflutt mótorhjól. Þar kemur fram að tæplega helmingi færri mótorhjólaréttindi voru gefin út árið 2010 miðað við þegar mest lét árið 2007, eða úr 1.274 í 652 réttindi. Það eru 652 ný réttindi á móti 150 innfluttum mótorhjólum árið 2010. „Af því má draga þá ályktun að nýgræðingar kaupi frekar eldri hjól. Einnig skal haft í huga að sum af þeim hjólum sem hafa verið flutt inn af einstaklingum og verið nýskráð hér á landi eru í einhverjum tilfellum ekki nýjasta árgerð.“


    Ástæðurnar fyrir minnkandi innflutningi á mótorhjólum má helst rekja til hækkandi verðlags, auk þess sem ofmettun á markaði spilar inn í, að sögn Njáls Gunnlaugssonar, sem situr í umferðarnefnd Sniglanna. Hann telur að hæglega mætti liðka til fyrir sölu á nýjum hjólum með breytingu á tollalögum.
    „Eins og staðan er núna eru há vörugjöld á mótorhjólum eða allt að þrjátíu prósent, nema reyndar á keppnishjólum en vörugjöld á þeim voru felld niður. Sniglarnir lögðu hins vegar til að þau yrðu lækkuð út frá vistvænum sjónarmiðum líkt og gert var við sparneytna bíla. Á þá er lagt allt frá engu og upp í tíu prósenta vörugjöld þar sem þeir losa lítið af kolefnum. Með sömu rökum mætti lækka vörugjöld á mótorhjólum sem losa minni koltvísýring en smábílar og valda minna svifryki en bifreiðar almennt. Við stungum upp á fimmtán prósenta vörugjaldi á línuna en fengum engin viðbrögð.“
roald@frettabladid.is


https://timarit.is/files/40754714#search=%22%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%22

22.12.10

Á mótorfákum um evrópskar grundir

Hópurinn staddur í Svartaskógi þar sem hitinn var kominn yfir 30 gráður.





Fern hjón frá Suðurnesjum létu gamlan draum verða að veruleika og ferðuðust 3.800 km á mótorhjólum um Evrópu í lok sumars.

 Ferðin tók 23 daga, frá 18. ágúst fram til 10.sept. „Við höfðum farið áður styttri ferð en í þetta skiptið langaði okkur lengri og veglegri ferð,“ sögðu mótorhjólakapparnir í viðtali við Víkurfréttir, þeir Magnús Hafsteinsson, Hrafnhildur Sverrisdóttir, Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibergsdóttir, Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir. VF hitti hluta hópsins og spurði aðeins út í ferðina.


Hjólin sem hópurinn ferðaðist á voru af gerðinni Honda Goldwing og búin öllum aukahlutum eins og GPS, intercom og talstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki ókeypis að fara í svona langa hjólaferð en áætlaður ferðakostnaður var 500.000 kr. á hjónin en inni í þeim kostnaði var allur flutningur, bæði á fólki og hjólum, gisting og morgunmatur. Áætlunin stóðst að mestu leyti þó leiðin hafi lengst um 1.300 km.

„Ferðin lengdist aðeins miðað við áætlun. Þegar við sáum eitthvað áhugavert á leiðinni var bara tekinn krókur. Við vorum ekki bundin við eitt né neitt sem var kostur í þessari ferð,“ sagði Þórhallur. „Einnig ákváðum við að vera ekkert merkt neinum klúbbi né auglýsa að við værum frá Íslandi. Við vorum merktir í fyrri ferðinni okkar og þá lentum við í veseni í Danmörku, en þar var mótorhjólaklúbbur sem hélt við værum eitthvað gengi að leita að veseni, en hlógu svo þegar þeir sáu að þetta voru bara nokkrir félagar og alveg meinlausir.“




Voru snemma í undirbúningi

Undirbúningurinn hófst í febrúarmánuði til að ákveða hvert ætti að fara. Hver og einn kom með tillögu um hvað hann vildi sjá og skoða og var á endanum búinn til hringur sem mældist 2.500 km. Þá þurfti að bóka gistingu með geymslu fyrir hjólin, en það er nauðsynlegt að koma hjólunum í skjól. Gistingin var pöntuð með góðum fyrirvara en þessi tími er háanna tími í ferðmennsku um alla Evrópu. Einnig þurfti að koma hjólunum í flutning og varð Samskip fyrir valinu.


Skipulagning ferðarinnar var að mestu leyti lokið í byrjun maí. Júlímánuður fór svo í að yfirfara hjólin. Rúnar, sem oft er nefndur vélstjórinn, sá til þess að allir voru með nýyfirfarin hjól. „Það skiptir miklu máli að vera með allt í góðu standi þegar svona ferð er farin til að minnka líkur á að eitthvað fari úrskeðis. Bremsuklossar, olía, ný dekk, þetta þarf allt að vera í topp standi,“ sagði Rúnar.







Hópurinn fyrir framan innganginn í Swarovski safnið í Austurríki.
Frá vinstri: Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Hrafnhildur Sverrrisdóttir,
 Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibersdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir.

Úr Víkurfréttum 22 des 2010

4.11.10

Ferðahjól og tryllitæki á mótorhjólasýningunni í Köln í Þýskalandi

 Margar nýjungar en ævintýrahjólið er enn í felum

Það var margt á sýningunni sem var mjög
áhugavert,“ segir Njáll Gunnlaugsson
ökukennari sem er nýkominn af Intermotmótorhjólasýningunni í Þýskalandi. Eins
og alltaf var margt áhugavert sem fyrir augu bar. 

Honda heldur aftur af sér

Undantekningin á því var reyndar Hondaframleiðandinn sem sýndi engin ný hjól en ætlar þess í stað að frumsýna á annan tug hjóla á sýningunni í Mílanó á Ítalíu síðar í þessum mánuði.
„Honda hefur haldið aftur af sér með að kynna allar nýjungar nú í talsverðan tíma. Þeir ætla hins vegar að koma með nýtt 250 kb. hjól á sýningunni í Mílaníó og menn eru mjög spenntir fyrir þeirri nýjung. Þá munu þeir verða með nýtt ævintýraferðahjól sem enginn veit enn hvernig er og þess vegna er talsverður spenningur meðal bifhjólaáhugamanna. Venjan er sú að framboð af mótorhjólum og áhugi fyrir þeim er minni á krepputímum en þegar betur árar. Því er mikilvægt að framleiðendur komi í árferði eins og nú með hjól sem eru í senn ódýr, sparneytin og nett. Því hef ég allan vara á mér þegar BMW er nú að setja á markað 1600 cb. ferðahjól sem kosta mun ríflega fimm milljónir króna,“ segir Njáll. 
  BMW hjólið nýja er af gerðinni K1600GT og er með sex strokka vél. Hjólið mun keppa við Goldwingferðahjólið og verður fullt af nýmóðins búnaði eins og Xenon-beygjuljósum, díóðustefnu- og stöðuljósum auk spól- og skrikvarnar. Þetta er grennsta sex strokka línuvél sem sést hefur í mótorhjóli og er aðeins sjónarmun breiðari en fjögurra strokka BMW 1300-hjólið. Það verður rúm 160 hestöfl og mun skila álíka togi og góður fjölskyldubíll eða 175 Nm á fimm þúsund snúningum. Það sem er athyglisvert við togkúrfuna er líka sú staðreynd að við 1.500 snúninga skilar vélin 122 Nm, sem hvaða ferðahjól væri fullsæmt af á hámarkssnúningsvægi. Kawasaki frumsýndi í Köln nýtt ZX-10 hjól sem er ætlað að keppa við nýja BMW ofurhjólið. Kawasakihjólið er 185 hestöfl og 198 kíló. 

Endurvakið merki

Yamaha frumsýndi einnig í Köln nýju Ténere 650 og 1200-línuna sem á líka að keppa við BMW-hjólin. Frá Ítalíu komu nokkur ný hjól eins og Ducati 1198SP og Aprilia RSV4 með spólvörn.
Triumph var með nýtt SpeedTriple-hjól og loks sýndi Horex, sem er endurvakið þýskt merki frá 
miðri síðustu öld. Nýja Horex-hjólið er með sex strokka V-mótor sem er með 15° á milli strokkanna og nota báðar raðirnar sama hedd. Vélin verður 160 hestöfl og með keflablásara mun hún skila 230 hestöflum.
 finnur@reykjavikbags.is

18.10.10

FME krefst skýringa á okri í tryggingum


Nýr viðskiptavinur Varðar fékk rúmlega 725 þúsund króna reikning fyrir tryggingu á bifhjóli. Gjaldið var lækkað um rúma hálfa milljón eftir umkvörtun.
Fjármálaeftirlitið segir tilefni til að rannsaka starfsemi tryggingafélagsins. 

TRYGGINGAMÁL
Tryggingafélagið Vörður rukkaði viðskiptavin í síðustu viku um 725.396 krónur fyrir tryggingu á bifhjóli. Gjöldin voru endurskoðuð þegar eigandi hjólsins setti sig í samband við félagið sem lækkaði þá iðgjaldið um rúma hálfa milljón króna.
„Þegar ég fékk reikninginn í hendurnar stóð ég bara og gapti,“ segir Sigurgrímur Ingi Árnason, eigandi Yamaha-hjólsins sem átti upphaflega að tryggja fyrir 725 þúsund krónur. Sigurgrímur fékk upphæðina lækkaða niður í 197 þúsund krónur eftir að hafa sýnt fram á flekklausan tuttugu ára ökuferil.
Steinunn Sigurðardóttir, forstöðu - maður vátryggingasviðs Varðar, segir að upphæðir sem þessar komi fram þegar tryggingafélagið hafi engar upplýsingar um viðskiptavini. Vörður hvetji fólk þá
hins vegar til þess að koma og gera grein fyrir sínum málum til þess að kanna möguleika á endurskoðun á iðgjöldum.
„Með mótorhjól er það þannig að þegar engin saga er fyrir hendi sendum við út greiðsluseðil með kröfu um staðgreiðslu þar sem iðgjaldið getur verið á þessu bili,“ segir Steinunn. „En við hvetjum þá viðskiptavini til þess að koma og gera grein fyrir sínum málum með
gögnum sem sýna fram á sögu og tjónareynslu. Þá er hægt að endurskoða stöðuna.
“ Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá vátryggingasviði Fjármálaeftirlitsins (FME), telur ástæðu til að skoða málið. „Eins og þessu er lýst þá kemur þetta spánskt fyrir sjónir. Það er tilefni fyrir okkur til þess að leita skýringa hjá viðkomandi félagi og það munum við gera,“ segir hann.
Rúnar segir að í lögum um vátryggingar séu ákvæði um að  FME hafi eftirlit með iðgjöldum á grundvelli vátrygginga með það fyrir augum að þau séu í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingu felst og eðlilegan rekstrarkostnað. „Við hyggjumst afla okkur frekari upplýsinga,“ segir Rúnar.
 Inda Björk Alexandersdóttir, formaður umferðarnefndar Snigla og umferðarráðsfulltrúi Umferðarstofu, segir að miðað við upplýsingar  bifhjólasamtakanna væri eðlilegt fyrir Sigurgrím að borga á bilinu 80 til 120 þúsund krónur í iðgjöld á ári og að öllu jöfnu ættu þau að lækka eftir fyrsta árið. Tæp 10.000 bifhjól voru skráð á landinu í lok ársins 2009.
sunna@frettabladid.is
Fréttablaðið 18.10.2010