15.5.11

MÓTORHJÓLASAFN ÍSLANDS VAR FORMLEGA OPNAÐ Í DAG


Mótorhjólasafn Íslands var formlega opnað í dag sunnudaginn 15. maí, á afmælisdegi Heiðars Þ. Jóhannssonar, en Heiddi hefði orðið 57 ára í dag. Mótorhjólasafnið var stofnað í lok árs 2007 til minningar um Heidda sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla. Heiddi var af flestum bifhjólamönnum talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. 


Að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum við undirbúining fyrir opnunina í dag og uppstillingu safnsins. Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að safnið eigi hátt í 100 hjól en ekki eru þau öll komin á safnið og mörg þeirra á eftir að gera upp og lagfæra. Jóhann hafði ekki tölu yfir fjölda hjóla á safninu en lang flest þeirra hjóla sem eru til sýnis eru í eigu safnsins. Safnið hefur verið  um tvö ár í byggingu en fyrstu skóflustungurnar voru teknar á Hjóladögum 2008. Heiddi hafði safnað mótorhjólum og hjólatengdum munum í mörg ár og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Hann lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Á safninu er sérstök deild tengd Heidda, þar sem er að finna hjól og muni sem voru í hans eigu. Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og það spor sem hann skyldi eftir sig á hjólamenningu landsmanna.
15. maí, 2011 - 14:54 Þröstur Ernir Viðarsson

13.5.11

Fjölmargir mættu á opnun Mótorhjólasafn Íslands


Sunnudaginn 15. maí var nýbygging Mótorhjólasafns Íslands opnað formlega en safnið var stofnað í árlok 2007 til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést í bifhjólaslysi í Öræfasveit. Heiðar hafði til margra ára safnað mótorhjólum og munum tengdum þeir og átti sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Að sögn Jóhanns Frey Jónssonar safnstjóra komu á milli 500-600 manns á safnið opnunardaginn og var það mun meira en menn bjuggust við og viðtökurnar verið framar vonum. Jóhann sagði að almennt hafi fólk verið mjög hissa á stærð hússins og hrifist mjög að safnmunum.

Auglýsing frá 2011
Í dag á safnið um 100 mótorhjól, mikið magn ýmissa muna þeim tengdum sem og yfir 1000 ljósmyndir sem spanna sögu mótorhjólsins. Safninu er ætlað það hlutverk að sýna og varðveita sögu mótorhjóla hér á landi auk þess að varðveita minningu Heiðars og það spor sem hann skyldi eftir sig í hjólamenningu landsins.  Í safninu verður minjagripasala, veislusalur og ráðstefnusalur, en meining er m.a. að bjóða þar upp á umferðarfræðslu, námskeið og fundi, í húsinu verður vetrargeymsla fyrir hjól og þar verður einnig kaffihús. Húsið er 800 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum. Margir hafa komið að þessu verkefni og væri þetta ógerlegt án þeirrar samstöðu og velvilja allra sem hjálpað hafa. Fyrirtæki, klúbbar og einstaklingar hafa lagt þessu lið með sjálfboðavinnu, efnisgjöfum og fjárframlögum. Hollvinafélag safnsins Tían telur í dag 365 félaga og sjálfboðavinna í húsinu er að nálgast 3000 tíma. Safnið (húsið og allir safnmunir) er gjöf til Íslensku þjóðarinnar og er sjálfseignastofnun. Í bygginguna eru komnar hátt í 80 milljónir og stendur hún skuldlaus. Fyrsta skóflustungan var tekin 19. Júlí 2008 og framkvæmdir byrjuðu 20. janúar 2009

Safnið verður opið alla daga í sumar frá 12.00 til 18.00. Hópar eru velkomnir allt árið. Áætlað er að opna efri hæð vorið 2012.
Skrifað 17. maí 2011 af Páll Jóhannesson