17.4.11

Aðalfundur Tíunnar 2011

Ágætu félagar

Þann 14.maí kl 13:00 höldum við lögboðinn aðalfund okkar í Sjallanum.
Efni fundarins er:
  • 1. Kosning fundarstjóra og ritara.
  • 2. Stjórn og nefndir gefa skýrslu liðins árs.
  • 3. Reikningar liðins árs lesnir og lagðir fram.
  • 4. Lagabreytingar lagðar fram til samþykktar. Lagabreytingarnar er hægt að sjá í meðfylgjandi viðhengi.
  • 5. Kosning stjórnar.
  • 6. Kosning nefnda.
  • 7. Önnur mál.










Kaffi og meðlæti á fundinum.










Hópakstur verður að loknum fundi þar sem við endum á nýopnuðu Mótorhjólasafni Íslands.










En deginum er ekki lokið því um kvöldið blásum við til sumarfagnaðar í boði Tíunnar í húsnæði MC.SKÁL. Húsið verður opið frá kl 21 og frameftir. Félagar mega sjálfir koma með drykkjarföng kjósi þeir svo.










Stjórn Tíunnar minnir á að framboðsfrestur til stjórnarsetu rennur út 30. apríl.




Áhugasamir sendi póst á irisb69@gmail.com.




Einungis greiddir félagar eru gjaldgengir og verður hægt að greiða á staðnum.










Fh. stjórnar Íris Björk #93 formaður Tíunnar.

2.2.11

Markaðurinn er hruninn


Innflutningur á nýskráðum mótorhjólum hefur hrapað á síðustu mánuðum sökum verðhækkunar og ofmettunar á markaði. Talið er að breytingar á tollalögum gætu hleypt nýju blóði í innflutninginn.


„Þetta eru alveg ótrúlegar tölur, niðursveiflan hefur ekki verið svona mikil í mörg ár,“ segir Einar Magnússon hjá Umferðarstofu, um innflutning á götuskráðum mótorhjólum sem hefur dregist verulega saman undanfarna mánuði og hefur ekki verið minni síðan 2002.
    Fjöldi innfluttra, götuskráðra mótorhjóla var 150 á síðasta ári, en kringum 100 talsins árið 2002. Mesta uppsveiflan í innflutningi mótorhjóla á þessu tímabili var hins vegar árið 2007 eða samtals 1.532 hjól, og er það margföld aukning miðað við 2002. Nú er innflutningurinn hins vegar innan við tíu prósent af því sem hann var 2007. Einar segir þó ósanngjarnt að bera þetta tvennt saman þar sem ástandið í þjóðfélaginu hafi ekki verið beinlínis eðlilegt í góðærinu svokallaða.
    Hann segir það ekki breyta þeirri staðreynd að munurinn sé mikill ef horft er til áranna 2003 og 2004, þegar meira jafnvægi ríkti ef svo má segja, en þá voru að meðaltali 258 mótorhjól flutt til landsins. Full ástæða sé líka til að hafa áhyggjur af snarminnkandi innflutningi á nýjum mótorhjólum út frá öryggissjónarmiðum.
    „Umferðarstofa hefur áhyggjur af því að ekki sé nægileg endurnýjun á mótorhjólum sem og öðrum ökutækjum og því sé öryggi ökumanna ekki tryggt sem skyldi. Úti er ör þróun í öryggisbúnaði ökutækja og minni innflutningur á þeim þýðir að við erum að verða eftirbátar annarra í þeim efnum og hætta á slysum eykst.“
    Í því samhengi vísar Einar í tölur frá Frumherja sem sýna að útgáfu nýrra bifhjólaréttinda, sem endurspeglar fjölda nýliða á bifhjólum, hefur ekki fækkað að sama marki og innflutt mótorhjól. Þar kemur fram að tæplega helmingi færri mótorhjólaréttindi voru gefin út árið 2010 miðað við þegar mest lét árið 2007, eða úr 1.274 í 652 réttindi. Það eru 652 ný réttindi á móti 150 innfluttum mótorhjólum árið 2010. „Af því má draga þá ályktun að nýgræðingar kaupi frekar eldri hjól. Einnig skal haft í huga að sum af þeim hjólum sem hafa verið flutt inn af einstaklingum og verið nýskráð hér á landi eru í einhverjum tilfellum ekki nýjasta árgerð.“


    Ástæðurnar fyrir minnkandi innflutningi á mótorhjólum má helst rekja til hækkandi verðlags, auk þess sem ofmettun á markaði spilar inn í, að sögn Njáls Gunnlaugssonar, sem situr í umferðarnefnd Sniglanna. Hann telur að hæglega mætti liðka til fyrir sölu á nýjum hjólum með breytingu á tollalögum.
    „Eins og staðan er núna eru há vörugjöld á mótorhjólum eða allt að þrjátíu prósent, nema reyndar á keppnishjólum en vörugjöld á þeim voru felld niður. Sniglarnir lögðu hins vegar til að þau yrðu lækkuð út frá vistvænum sjónarmiðum líkt og gert var við sparneytna bíla. Á þá er lagt allt frá engu og upp í tíu prósenta vörugjöld þar sem þeir losa lítið af kolefnum. Með sömu rökum mætti lækka vörugjöld á mótorhjólum sem losa minni koltvísýring en smábílar og valda minna svifryki en bifreiðar almennt. Við stungum upp á fimmtán prósenta vörugjaldi á línuna en fengum engin viðbrögð.“
roald@frettabladid.is


https://timarit.is/files/40754714#search=%22%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%22