22.12.10

Á mótorfákum um evrópskar grundir

Hópurinn staddur í Svartaskógi þar sem hitinn var kominn yfir 30 gráður.





Fern hjón frá Suðurnesjum létu gamlan draum verða að veruleika og ferðuðust 3.800 km á mótorhjólum um Evrópu í lok sumars.

 Ferðin tók 23 daga, frá 18. ágúst fram til 10.sept. „Við höfðum farið áður styttri ferð en í þetta skiptið langaði okkur lengri og veglegri ferð,“ sögðu mótorhjólakapparnir í viðtali við Víkurfréttir, þeir Magnús Hafsteinsson, Hrafnhildur Sverrisdóttir, Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibergsdóttir, Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir. VF hitti hluta hópsins og spurði aðeins út í ferðina.


Hjólin sem hópurinn ferðaðist á voru af gerðinni Honda Goldwing og búin öllum aukahlutum eins og GPS, intercom og talstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki ókeypis að fara í svona langa hjólaferð en áætlaður ferðakostnaður var 500.000 kr. á hjónin en inni í þeim kostnaði var allur flutningur, bæði á fólki og hjólum, gisting og morgunmatur. Áætlunin stóðst að mestu leyti þó leiðin hafi lengst um 1.300 km.

„Ferðin lengdist aðeins miðað við áætlun. Þegar við sáum eitthvað áhugavert á leiðinni var bara tekinn krókur. Við vorum ekki bundin við eitt né neitt sem var kostur í þessari ferð,“ sagði Þórhallur. „Einnig ákváðum við að vera ekkert merkt neinum klúbbi né auglýsa að við værum frá Íslandi. Við vorum merktir í fyrri ferðinni okkar og þá lentum við í veseni í Danmörku, en þar var mótorhjólaklúbbur sem hélt við værum eitthvað gengi að leita að veseni, en hlógu svo þegar þeir sáu að þetta voru bara nokkrir félagar og alveg meinlausir.“




Voru snemma í undirbúningi

Undirbúningurinn hófst í febrúarmánuði til að ákveða hvert ætti að fara. Hver og einn kom með tillögu um hvað hann vildi sjá og skoða og var á endanum búinn til hringur sem mældist 2.500 km. Þá þurfti að bóka gistingu með geymslu fyrir hjólin, en það er nauðsynlegt að koma hjólunum í skjól. Gistingin var pöntuð með góðum fyrirvara en þessi tími er háanna tími í ferðmennsku um alla Evrópu. Einnig þurfti að koma hjólunum í flutning og varð Samskip fyrir valinu.


Skipulagning ferðarinnar var að mestu leyti lokið í byrjun maí. Júlímánuður fór svo í að yfirfara hjólin. Rúnar, sem oft er nefndur vélstjórinn, sá til þess að allir voru með nýyfirfarin hjól. „Það skiptir miklu máli að vera með allt í góðu standi þegar svona ferð er farin til að minnka líkur á að eitthvað fari úrskeðis. Bremsuklossar, olía, ný dekk, þetta þarf allt að vera í topp standi,“ sagði Rúnar.







Hópurinn fyrir framan innganginn í Swarovski safnið í Austurríki.
Frá vinstri: Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Hrafnhildur Sverrrisdóttir,
 Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibersdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir.

Úr Víkurfréttum 22 des 2010

4.11.10

Ferðahjól og tryllitæki á mótorhjólasýningunni í Köln í Þýskalandi

 Margar nýjungar en ævintýrahjólið er enn í felum

Það var margt á sýningunni sem var mjög
áhugavert,“ segir Njáll Gunnlaugsson
ökukennari sem er nýkominn af Intermotmótorhjólasýningunni í Þýskalandi. Eins
og alltaf var margt áhugavert sem fyrir augu bar. 

Honda heldur aftur af sér

Undantekningin á því var reyndar Hondaframleiðandinn sem sýndi engin ný hjól en ætlar þess í stað að frumsýna á annan tug hjóla á sýningunni í Mílanó á Ítalíu síðar í þessum mánuði.
„Honda hefur haldið aftur af sér með að kynna allar nýjungar nú í talsverðan tíma. Þeir ætla hins vegar að koma með nýtt 250 kb. hjól á sýningunni í Mílaníó og menn eru mjög spenntir fyrir þeirri nýjung. Þá munu þeir verða með nýtt ævintýraferðahjól sem enginn veit enn hvernig er og þess vegna er talsverður spenningur meðal bifhjólaáhugamanna. Venjan er sú að framboð af mótorhjólum og áhugi fyrir þeim er minni á krepputímum en þegar betur árar. Því er mikilvægt að framleiðendur komi í árferði eins og nú með hjól sem eru í senn ódýr, sparneytin og nett. Því hef ég allan vara á mér þegar BMW er nú að setja á markað 1600 cb. ferðahjól sem kosta mun ríflega fimm milljónir króna,“ segir Njáll. 
  BMW hjólið nýja er af gerðinni K1600GT og er með sex strokka vél. Hjólið mun keppa við Goldwingferðahjólið og verður fullt af nýmóðins búnaði eins og Xenon-beygjuljósum, díóðustefnu- og stöðuljósum auk spól- og skrikvarnar. Þetta er grennsta sex strokka línuvél sem sést hefur í mótorhjóli og er aðeins sjónarmun breiðari en fjögurra strokka BMW 1300-hjólið. Það verður rúm 160 hestöfl og mun skila álíka togi og góður fjölskyldubíll eða 175 Nm á fimm þúsund snúningum. Það sem er athyglisvert við togkúrfuna er líka sú staðreynd að við 1.500 snúninga skilar vélin 122 Nm, sem hvaða ferðahjól væri fullsæmt af á hámarkssnúningsvægi. Kawasaki frumsýndi í Köln nýtt ZX-10 hjól sem er ætlað að keppa við nýja BMW ofurhjólið. Kawasakihjólið er 185 hestöfl og 198 kíló. 

Endurvakið merki

Yamaha frumsýndi einnig í Köln nýju Ténere 650 og 1200-línuna sem á líka að keppa við BMW-hjólin. Frá Ítalíu komu nokkur ný hjól eins og Ducati 1198SP og Aprilia RSV4 með spólvörn.
Triumph var með nýtt SpeedTriple-hjól og loks sýndi Horex, sem er endurvakið þýskt merki frá 
miðri síðustu öld. Nýja Horex-hjólið er með sex strokka V-mótor sem er með 15° á milli strokkanna og nota báðar raðirnar sama hedd. Vélin verður 160 hestöfl og með keflablásara mun hún skila 230 hestöflum.
 finnur@reykjavikbags.is