18.10.10

FME krefst skýringa á okri í tryggingum


Nýr viðskiptavinur Varðar fékk rúmlega 725 þúsund króna reikning fyrir tryggingu á bifhjóli. Gjaldið var lækkað um rúma hálfa milljón eftir umkvörtun.
Fjármálaeftirlitið segir tilefni til að rannsaka starfsemi tryggingafélagsins. 

TRYGGINGAMÁL
Tryggingafélagið Vörður rukkaði viðskiptavin í síðustu viku um 725.396 krónur fyrir tryggingu á bifhjóli. Gjöldin voru endurskoðuð þegar eigandi hjólsins setti sig í samband við félagið sem lækkaði þá iðgjaldið um rúma hálfa milljón króna.
„Þegar ég fékk reikninginn í hendurnar stóð ég bara og gapti,“ segir Sigurgrímur Ingi Árnason, eigandi Yamaha-hjólsins sem átti upphaflega að tryggja fyrir 725 þúsund krónur. Sigurgrímur fékk upphæðina lækkaða niður í 197 þúsund krónur eftir að hafa sýnt fram á flekklausan tuttugu ára ökuferil.
Steinunn Sigurðardóttir, forstöðu - maður vátryggingasviðs Varðar, segir að upphæðir sem þessar komi fram þegar tryggingafélagið hafi engar upplýsingar um viðskiptavini. Vörður hvetji fólk þá
hins vegar til þess að koma og gera grein fyrir sínum málum til þess að kanna möguleika á endurskoðun á iðgjöldum.
„Með mótorhjól er það þannig að þegar engin saga er fyrir hendi sendum við út greiðsluseðil með kröfu um staðgreiðslu þar sem iðgjaldið getur verið á þessu bili,“ segir Steinunn. „En við hvetjum þá viðskiptavini til þess að koma og gera grein fyrir sínum málum með
gögnum sem sýna fram á sögu og tjónareynslu. Þá er hægt að endurskoða stöðuna.
“ Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá vátryggingasviði Fjármálaeftirlitsins (FME), telur ástæðu til að skoða málið. „Eins og þessu er lýst þá kemur þetta spánskt fyrir sjónir. Það er tilefni fyrir okkur til þess að leita skýringa hjá viðkomandi félagi og það munum við gera,“ segir hann.
Rúnar segir að í lögum um vátryggingar séu ákvæði um að  FME hafi eftirlit með iðgjöldum á grundvelli vátrygginga með það fyrir augum að þau séu í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingu felst og eðlilegan rekstrarkostnað. „Við hyggjumst afla okkur frekari upplýsinga,“ segir Rúnar.
 Inda Björk Alexandersdóttir, formaður umferðarnefndar Snigla og umferðarráðsfulltrúi Umferðarstofu, segir að miðað við upplýsingar  bifhjólasamtakanna væri eðlilegt fyrir Sigurgrím að borga á bilinu 80 til 120 þúsund krónur í iðgjöld á ári og að öllu jöfnu ættu þau að lækka eftir fyrsta árið. Tæp 10.000 bifhjól voru skráð á landinu í lok ársins 2009.
sunna@frettabladid.is
Fréttablaðið 18.10.2010

13.10.10

Óbreytt frá stríðsárunum

Íslenskir áhugamenn um Royal Enfield mótorhjól stofnuðu klúbb, Royal Enfield Club of Iceland, á dögunum. Að sögn Guðmundar Más Ástþórssonar, formanns hins nýstofnaða  klúbbs, er markmið hans að auka veg og vanda þessara bresk/indversku hjóla á Íslandi.

„Svona klúbbar þekkjast víða um Evrópu, þar með talið á Norðurlöndunum, enda eru menn almennt
á því að þarna séu á ferð vönduð mótorhjól, þægileg í alla staði og flott. 
Við sem stöndum að baki klúbbnum þekkjum þetta af eigin  raun þar sem við eigum allir svona
hjól og vildum með klúbbnum hefja þau til vegs og virðingar,“ útskýrir Guðmundur, en ekki er lengra síðan en fjögur ár að áhugi hans á þessari gerð mótorhjóla kviknaði í heimsókn til Indlands. 
„Þetta var alveg einstök lífsreynsla. Við Þóra Guðmundsdóttir, sem höfum staðið fyrir jógaferðum fyrir Íslendinga til Indlands, urðum okkur úti um svona hjól til að ferðast um frá Cophin í Keralahéraðinu í suðri upp eftir til Góa. Ég hafði áður farið nokkrum sinnum til Indlands en þarna á mótorhjólinu upplifði ég enn sterkar á hraðri yfirferð töfra landsins, það fjölbreytilega litróf mannslífs og dýra sem þar búa og fallega náttúru,“ segir Guðmundur sem lagði af stað með litla sem enga reynslu af mótorhjólum en varð sér úti um Royal Enfield mótorhjól í lok ferðar og flutti til Íslands.
Mótorhjól Guðmundar er með 500 kúbika vél, sparneytið og afar meðfærilegt að sögn eigandans sem þykir þó einna mest vert um útlitið en það er nákvæm eftirmynd hjóla frá seinni heimsstyrjöldinnni.  „Indverjarnir tóku við framleiðslu þessara hjóla af hendi Breta árið 1968 og þótti engin sérstök ástæða til að betrumbæta hana, þeim þótti hún einfaldlega svo vel heppnuð. Hjólin er því hægt að fá í lítillega uppfærðum útgáfum eða í sinni upprunalegu mynd,“ sem Guðmundur telur vera eina ástæðuna fyrir vinsældum hjólanna. 
Skömmu eftir heimkomu kynntist Guðmundur fleiri áhugamönnum um Royal Enfield mótorhjól sem varð til þess að klúbburinn varð síðan stofnaður fyrir skemmstu. Áhuginn er að hans sögn eitt helsta skilyrðið fyrir inngöngu. „Við tökum vel á móti áhugasömum og svo er auðvitað gott stefni viðkomandi á að kaupa sér svona hjól.“ Sem stendur eru félagar níu talsins, allt saman menn á besta aldri sem hittast reglulega til að ræða hugðarefnið og skella sér á rúntinn. „Konurnar hafa hins vegar af einhverjum ástæðum haldið sig í skefjum og ég auglýsi bara hér með eftir þeim.“ 
 Ýmislegt er á döfinni hjá klúbbnum, meðal annars fyrirhuguð ferð  til Indlands að sögn Guðmundar. „Við stefnum á að fara saman út eftir svona þrjú til fjögur ár og þá ætla ég að nota tækifærið og sýna félögunum hversu hentugt er að ferðast um á svona hjólum og lenda í spennandi ævintýrum á framandi slóðum.“
roald@frettabladid.is 
Fréttablaðið 13.10.2010

8.9.10

Ferðast á fornum fararskjóta


  •  Færeyingur á ferð um landið á 65 ára mótorhjóli
Færeyingurinn Finn Jespersen hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem viðkemur gömlum mótorhjólum. Þegar hann frétti af því að vinur hans, Hjörtur Jónasson frá Selfossi, hefði keyrt yfir Kjöl á Matchless-mótorhjóli árgerð 1946 fyrir nokkrum árum ákvað Finn að halda á vit ævintýranna á Íslandi á einu þriggja fornhjóla sinna af Nimbus-gerð. Síðastliðna viku hefur Finn því ferðast um landið á 65 ára gömlu mótorhjóli, smíðuðu við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.
 Finn á þrjú Nimbus-hjól en hin hjólin tvö sem hann skildi eftir heima í Færeyjum voru smíðuð árin 1936 og 1939 þannig að hjólið sem hann ferðast á í sumar er unglambið í safninu. Finn hefur í mörg ár starfað fyrir Samskip í Kollafirði í Færeyjum þannig að það þarf ekki að koma blaðamanni á óvart hversu góða íslensku hann talar. „Ég hef gaman af því að tala við áhafnirnar. Íslenska og færeyska eru eiginlega sama málið,“ segir hann á kjarnyrtri íslensku. 
Finn kom til landsins á þriðjudag fyrir viku með Norrænu og keyrði frá Seyðisfirði til Vopnafjarðar, kom við í Reykjahlíð við Mývatn og heimsótti Húsavík og Akureyri. Þá var hann í Reykjavík og á Selfossi fyrir helgina auk þess að aka Kjölinn sem var aðaltakmark ferðarinnar. Tók sú ferð tíu tíma. Allt í allt segist hann hafa farið um tvö þúsund kílómetra á hjólinu góða. 

Gömul hjól smíðuð til að endast 

Er ekkert mál að ferðast slíkar vegalengdir á hálfsjötugu mótorhjóli? „Nei, nei, það skiptir engu máli,“ segir Finn glaður í bragði.  „Maður tekur því bara rólega og fer ekki á meira en 60-70 kílómetra hraða. Hjólið er í góðu lagi ennþá!“ Nimbus-hjólin þurfa ekki mikið viðhald að sögn Finns. „Það þarf bara að skipta um olíu við og við,“ segir hann. Hann hefur átt hjólið sem hann ferðast á um landið í sex ár og segir öll hjólin sín þrjú vera eins og ný. „Öll gömul mótorhjól voru vel byggð og til þess að endast. Það er ekki eins og í dag þar sem ný mótorhjól duga kannski í tíu ár og ekki mikið meira en það,“ segir Finn. 
Á ferð sinni um landið fannst Finn mest til sundlauganna koma. „Það er ótrúlegt að sjá þrjátíu stiga heitt vatn úti undir beru lofti. Svo þótti mér merkilegt að sjá öskuna úr gosinu í vor á Akureyri. Í Færeyjum sáum við líka ösku en ekki svona mikla,“ segir Finn sem heldur heim á leið í kvöld með Norrönu. 
Morgunblaðið 08.09.2010Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is

30.7.10

BJÖRGÓLFUR THOR Á MÓTORHJÓLAHÁTÍÐ




Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fór á mikla mótorhjólahátíð sem haldin var í bænum Sturgis í miðríkjum Bandaríkjanna í fyrra. Myndir frá hátíðinni sýna Björgólf afslappaðan í góðra vina hópi og þeysandi um á Indian-mótorhjóli. Tveir starfsmenn Björgólfs, Orri Hauksson og Sigurður Ólafsson, voru með í för. Björgólfur Thor á hlut í mótorhjólaframleiðandanum Indian og hafa Orri og Sigurður unnið þar fyrir hann.


Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fór á mótorhjólahátíð í Sturgis í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum í ágúst í fyrra. Þetta sýnir ljósmyndasyrpa af fjárfestinum sem DV hefur undir höndum. Myndasyrpan sýnir Björgólf Thor í áður óþekktu ljósi, klæddan í þægileg hversdagsföt, með alls kyns skartgripi og skraut á sér auk þess sem hann sést liggjandi í tjaldi með sælusvip. Björgólfur virðist því vera töluvert alþýðlegri en almennt hefur verið talið. Með Björgólfi Thor í för voru tveir af starfsmönnum hans sem hafa unnið fyrir hönd fjárfestisins í tengslum við eignarhlut hans í bandaríska mótorhjólafyrirtækinu Indian. Starfsmennirnir heita Orri Hauksson, sem er fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar og stjórnarformaður Skjás eins, og Sigurður Ólafsson, sem lengi hefur unnið fyrir Björgólf Thor. Björgólfur keypti á sínum tíma hlut í Indian-fyrirtækinu sem er með höfuðstöðvar í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Mótorhjólafyrirtækið er að mestu í eigu breska verðbréfafyrirtækisins Stellican Limited sem er með höfuðstöðvar í London. Indian framleiðir lúxusmótorhjól. Afar líklegt verður að teljast að ferð þeirra félaga til Bandaríkjanna, sem og vera þeirra í Sturgis, tengist að einhverju leyti eignarhlut Björgólfs Thors í Indian-mótorhjólaframleiðandanum. Á einni myndinni sjást þeir sitja í tjaldi sem merkt er Indianhjólunum og virðist óþekktur maður í Indian-bol vera að útskýra eitthvað fyrir þeim. Björgólfur er hugsi á myndinni og skartar stígvélum sem virðast vera úr forláta skinni.


Kannski voru þeir jafnvel staddir í Sturgis til að prófa glæsilega Indian-hjólið sem Björgólfur sést á tvívegis á myndunum.

Kannski voru þeir jafnvel staddir í Sturgis til að prófa glæsilega Indian-hjólið sem Björgólfur sést á tvívegis á myndunum. Á einni þeirra er fjárfestirinn skælbrosandi eins og honum finnist ekkert betra í þessum heimi en að þeysa um á mótorfák. Aftan á hjólinu á báðum myndunum er Orri Hauksson sem er ekki síður ánægður á annarri myndinni. Myndirnar eru táknrænar fyrir samband yfir- og undirmanns; Björgólfur er við stjórnvölinn en Orri flýtur með og lætur að stjórn. Björgólfur undir stýri, fúlskeggjaður, grófur og karlmannlegur á meðan


Orri situr fyrir aftan Björgólf Thor og heldur sér í bílstjórann, töluvert nettari, sléttari og fínlegri. En áhugaverðasta myndin er þó sennilega myndin af Björgólfi í tjaldinu þar sem hann liggur og lygnir aftur augunum með sælusvip á andlitinu. Flestir hefðu líklega haldið að Björgólfur Thor gisti aldrei í tjaldi heldur aðeins á fínum hótelum með herbergisþjónustu og handklæðahitara. En honum virðist líka það vel að kúldrast á vindsæng á jörðinni undir þunnum tjaldhimni í raka eða stækju. Orri er við hlið hans sem fyrr. Maður gæti jafnvel séð Björgólf fyrir sér á þjóðhátíð í Eyjum, í gamalli hettupeysu og pollagalla með brúsa fullan af blandi og sprútti um hálsinn, syngjandi trallalla í brekkusöngnum með Árna Johnsen eða Róbert Marshall. Hann virðist svo mannlegur á myndunum. Þar liggur sennilega fréttagildi þeirra: Björgólfur gistir í tjaldi.  

DV 2010

24.7.10

Umferðardeild í fimmtíu ár

Til staðar fyrir ökumennina





  • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heldur kaffisamsæti fyrir umferðardeildina
  • Lögreglumótorhjólin eru hluti af umferðinni og gera löggæsluna sýnilegri
Þann 16. júní 1960 var tilkynnt stofnun sérstakrar umferðardeildar lögreglunnar í Reykjavík og er deildin því 50 ára um þessar mundir. Við stofnun sína hafði deildin 8 mótorhjól til umráða, jafnmörg eftirlitshverfum borgarinnar, og tvo lögreglubíla. Afmælisins verður minnst í dag á lögreglustöðinni við Hverfisgötu þar sem haldið verður kaffisamsæti fyrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn deildarinnar, um 120 manns, og farið yfir söguna í máli og myndum. Í dag heitir deildin umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og eru um 28 menn starfandi í deildinni sem hefur það aðalhlutverk að fylgjast með allri umferð á höfuðborgarsvæðinu, fylgjast með ökuhraða og að umferðarreglur séu virtar. Þá eru viðbrögð við ölvunarakstri stór þáttur í starfi deildarinnar, auk þess sem umferðardeildin kemur að vettvangi umferðarslysa á svæðinu. Þá stýrir deildin umferð og lokunum í tengslum við hátíðir, skrúðgöngur og opinberar heimsóknir á höfuðborgarsvæðinu..
   Árni Friðleifsson varðstjóri í umferðardeild segir stöðuna á umferðarmálum borgarinnar nokkuð góða og tölur sýni að slysum hafi farið fækkandi á svæðinu síðustu ár. „En við erum mjög áfjáðir í að lækka þá tölu enn meira. Við höfum komið að mörgum slysum og banaslysum í gegnum tíðina, sem eru svo mikill mannlegur harmleikur, að við eflumst stöðugt í starfinu. Hvert slys sem við getum komið í veg fyrir er mikill sigur fyrir okkur.“ Umferðardeildin hefur yfir að ráða 14 mótorhjólum, 2 lögreglubílum og einum ómerktum myndavélabíl. Árni segir mótorhjólaáhuga samofinn deildinni, lögreglumenn sem hafi áhuga á mótorhjólum, akstri ökutækja og umferðarmenningu safnist í umferðardeildina.

 „Starfið byggist á því að menn séu á bifhjólum og flestir sem hafa verið starfandi hér eiga sjálfir mótorhjól,“ segir Árni og bætir við að mótorhjólin virki mjög vel í baráttunni fyrir bættri umferðarmenningu þar sem löggæslan sé mjög sýnileg. „Við getum nálgast ökumenn á annan hátt en bílar, það er öðruvísi yfirferð á hjólunum í umferðinni. Starfið felst í að vera þarna úti og grípa inn í ef eitthvað bjátar á og vera til staðar fyrir ökumennina.“  


Ingibjörg Rósa Björnsdóttir 
ingibjorgrosa@mbl.is

29.4.10

Krefjandi keppni


Sniglarnir halda keppni í hjólafimi í fjórða sinn í ár. Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og í umferðarnefnd Sniglanna, segir keppnina vera bæði skemmtilega og krefjandi.
„Allir sem eru með mótorhjólapróf geta tekið þátt,“ segir Njáll. „En fyrstir koma, fyrstir fá.“ Pláss er fyrir um 25 manns í keppninni, en enn sem komið er hafa einungis konur skráð sig. „Karlarnir eru yfirleitt seinni til, en þeir tínast inn smám saman,“ segir hann. Keppnin í hjólafiminni snýst meðal annars um grein sem er kölluð snigl.
Hún snýst ekki um að keppa við klukkuna heldur færni
og tækni á mótorhjóli. „Þeim mun meiri tíma sem þú færð í sniglinu, þeim mun fleiri stig færðu,“ segir Njáll. „Þetta snýst um að keyra 10 metra vegalengd á sem lengstum tíma án þess að setja fæturna niður. Allt yfir hálfa mínútu er nokkuð gott.“ Íslandsmetið í Snigli er 1 mínúta og 15 sekúndur, en það er 16 metra vegalengd. Keppt verður í öðrum greinum þar sem úrslitin ráðast á tíma og tækni, en refsistig verða gefin fyrir villur í brautinni. Keppt verður á Suzuki 125 Vanvan-hjóli. „Það er létt og gott hjól til þess að tryggja jafnræði í keppninni,“ segir Njáll. „En það verða áhorfendur og kannski er aðalhindrunin fyrir keppendurna að láta ljós sitt skína fyrir framan annað fólk.“ 

Steypuhrærivél aftur að mótorhjóli



Í litlum bílskúr við Háaleitisbrautina hefur Grímur Jónsson vélsmiður unnið við að gera upp afar fágætt mótorhjól síðustu misserin.

Hjólið er af gerðinni Henderson, sem er amerískt hjól framleitt á árunum 1912-1931. Hendersonhjólin voru með 4ra strokka toppventlavél og þóttu fullkomin á sinni tíð. Þessi gerð hjólsins var smíðuð stuttu eftir að Ignaz Schwinn keypti Henderson-fyrirtækið 1917. Hjólin voru framleidd í Detroit til að byrja með en Schwinn flutti framleiðsluna til Chicago. Þar voru þau framleidd ásamt Excelsior-mótorhjólunum þar til Schwinn hætti framleiðslu mótorhjóla 1931. Hönnuður hjólsins, William Henderson, hélt reyndar áfram  framleiðslu 4ra strokka mótorhjóls
undir merkinu ACE sem var keypt af Indian.

UMBOÐIÐ Á AKUREYRI

Ingólfur Esphólín flutti hjólið til landsins en hann bjó á Akureyri. Hvort hjól Gríms sé árgerð 1918
eða 1919 er erfitt að segja með vissu. Hjólið er með bókstafinn Z í verksmiðjunúmeri sem segir að það sé 1919-árgerð en Espholin Co. byrjaði að auglýsa mótor-reiðhjól 11. október 1918 í blaðinu Íslendingi. Hið rauða „X“ er í merkinu á hjólinu, en það var á DeLuxe-útgáfunni árið 1918.
Líklegt má telja að aðeins eitt Henderson-hjól hafi ratað til landsins. Það bar fyrst númerið RE-408 þegar það var í eigu Sigurðar I. Hannessonar í Ánanaustum á árunum fyrir seinna stríð en fékk númerið R-1103 árið 1937. Hjólið er svo afskráð 12. september 1938 eftir tveggja áratuga notkun.

FANNST Á BROTAJÁRNSHAUG

Grímur frétti fyrst af hjólinu þegar honum var sagt frá mótor sem líklega væri af mótorhjóli og stóð í  vélsmiðju Héðins í Reykjavík. Þetta var árið 1963. Þannig komst hann á sporið og eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að grindin og fleira úr hjólinu var enn í gömlum brotajárnshaug í Ánanaustum. Vélin hafði verið tekin úr hjólinu á uppgangsárum seinni heimsstyrjaldarinnar til að nota í steypuhrærivél. Hún hafði svo brætt úr einum stimpli og aldrei farið í hjólið aftur. Grímur byrjaði  á uppgerðinni fyrir næstum tveimur áratugum og smíðaði þá stimpla í hjólið. Þá þurfti að steypa aftur þar sem þeir fyrri voru alsettir eitlum vegna of lítils kolefnis í steypunni. Endurgerð hjólsins hófst svo ekki fyrir alvöru fyrr en 2007. Grímur keypti annan Henderson-mótor nánast sömu gerðar úr flugvél og notaði meðal annars stimpilstangir úr honum. Grímur sá hins vegar sjálfur um að smíða ventlastýringar, stimpla, stimpilhringi, stimpilbolta, ventlagorma og ýmsar fóðringar í gömlum rennibekk í skúrnum hjá sér. Einnig rétti hann af grindina og smíðaði smáhluti í hjólið og ryðbætti bretti og fleira. Þurfti Grímur að leita víða áður en hann fékk rétt hnoð í brettin en þau fundust í gamalli skúffu í Blikksmiðju Reykjavíkur

Í GANG EFTIR 70 ÁR

Þótt Grímur hafi endursmíðað stóran hluta hjólsins sjálfur aðstoðaði Kristinn Sigurðsson hann við að finna hluti sem margir komu að utan. Gjarðir í hjólið komu frá Bandaríkjunum sem og rafkerfi en gúmmí í handföng og fótborð frá Kanada. Í Póllandi fannst sérfræðingur í gerð hnakka fyrir þessar gerðir mótorhjóla og olíuþykktarmælirinn kom alla leið frá Ástralíu. Grímur fékk aðstoð völundar að nafni Guðni Ingimundarson við að magna upp magnetuna í hjólinu og stilla hana ásamt blöndungi fyrir gangsetningu. Guðni er ekki óvanur endursmíði gamalla véla enda hefur hann gert upp margar bátavélar frá fyrri tíð. Loks var hjólið sprautað hjá Sigurði í Bílsetrinu í Mosfellsbæ. 
Fyrsta púst vélarinnar var á gólfinu í skúrnum við Háaleitisbrautina en fyrir rúmum þremur vikum var mótorinn prufukeyrður og stilltur fyrir suður í Garði og hafði þá ekki verið gangsettur í sjö áratugi. Henderson-hjólið er nánast fullgert þótt enn sé eftir að smíða og laga fáeina hluti. Það verður frumsýnt almenningi á Burnout-sýningunni í Kauptúni um komandi helgi.
NG.
Fréttablaðið 29.04.2010

4.4.10

Bandarískt sporthjól?

ÞEGAR flestir hugsa um mótorhjól og Bandaríkin þá kemur
Harley Davidson fyrst í hugann enda sennilega frægasta mótorhjólategund í heimi.

Og við Harley Davidson tengir maður yfirleitt ekkert annað en þung og stór mótorhjól sem ætluð
eru til rólegheitaaksturs á góðviðrisdögum. Það kemur því á óvart að sjá bandarískt sporthjól í ætt við Ducati-hjólin frægu en það er engu að síður raunin hjá Roehr-fyrirtækinu en þar hefur verið hannað sporthjól sem hefur fengið heitið V-roehr, með vél úr Harley Davidson V-rod, og

12.2.10

Mótorhjólasafn í eigu þjóðarinnar


MITT í miðri kreppunni er rífandi gangur í uppbyggingu mótorhjólasafns á Akureyri. Þar fara fremstir í flokki ættingjar og vinir Heiðars Þórarins Jóhannssonar sem lést í hörmulegu  mótorhjólaslysi 2. júlí 2006 í Öræfasveit. Heiðar eða Heiddi eins og langflestir þekktu hann var 
mótorhjólamaður af lífi og sál og átti dágott safn mótorhjóla og hugði á stofnun safns fyrir þau þegar hann lést. „Heiddi þekkti ótrúlega marga og var bóngóður með afbrigðum. Þeir voru ófáir sem gistu heima hjá honum eða þáðu aðstoð með hjólið sitt þegar þeir áttu leið í gegnum Akureyri á mótorhjóli  og einmitt þess vegna töldu margir Heidda eiga aðstoð sína inni hjá sér,“ segir Jóhann Freyr Jónsson, safnstjóri Mótorhjólasafns Íslands og náfrændi Heidda heitins. 

  Rífandi gangur 

Það er rífandi gangur í framkvæmdum við safnið enda mikill áhugi fyrir því að koma því í starfsemi strax í sumar. Bæjarráð  Akureyrar samþykkti nýlega á fundi sínum að styrkja Mótorhjólasafnið um eina milljón króna á ári í þrjú ár. Þar að auki fékk Mótorhjólasafnið styrk að upphæð 700.000 krónur úr Menningar- og  viðurkenningasjóði KEA í byrjun nóvember síðastliðins vegna uppbyggingar safnsins. „Bygging
húsnæðisins gengur vel og það er búið að loka því og gluggar komnir á sinn stað. Verið er að ganga frá einangrun á þaki og þakköntum. Næsta skref er að einangra húsið að utan og byrja á innivinnunni í vetur en búið er að múra og pússa gólf,“ segir Jóhann. Margir hafa styrkt bygginguna með því að gefa afslátt á efni eða jafnvel með því að gefa efni eða vinnu. Til að mynda gaf arkitekt hússins, Logi
Már Einarsson, alla vinnu sína við teikningar. Margir hafa komið norður í sjálfboðavinnu og hafa þá alltaf fengið frítt að borða í boði einhvers matsölustaðar á Akureyri, en slíkt lýsir vel samkenndinni sem þetta verkefni hefur norðan heiða.

 Gamlir félagar aðstoða

 Gamlir Sniglar og aðrir hjólafélagar eru stór hluti þeirra sem leggja þessu lið og margir koma norður yfir heiðar til að vinna við
uppbygginguna. Flestir þeirra eru í Hollvinafélagi safnsins eða „Tíunni“ sem var númerið sem Heiddi bar í Sniglunum. Einn af helstu hjálparkokkunum er Guðni Þ. Þorvaldsson eða Guðni Snigill númer  17 en hann hefur séð um mestalla múrvinnu innanhúss. Annar gamall Snigill er Þorsteinn Marel eða Steini Tótu, sem var vinur Heidda til margra ára og lét það ekki eftir sér að hjóla norður eingöngu til þess að leggja hönd að verki. „Það eru allir velkomnir hingað sem vilja leggja okkur lið,“ segir Jóhann Freyr og bætir við að séð verði til þess að þeir komist í mat og gistingu.

 Verður eign þjóðarinnar

 Að sögn Jóhanns Freys mun enginn einn aðili eiga safnið í framtíðinni þótt það sé sjálfseignarstofnun í dag. „Segja má að þeir sem gefið hafa til safnsins, hvort sem það er með vinnu
sinni, peningum eða efni hafi gefið það þjóðinni. Safnið er og verður sjálfseignarstofnun sem í raun þýðir að safnið er og verður eign þjóðarinnar og enginn getur hirt arð af henni.“ Safnaðilar eru alltaf að leita að hjólum eða hlutum þeim tengdum á safnið og vilja gjarnan að fólk haf þá í huga þegar það
rekst á slíka hluti þegar verið er að taka til í bílskúrnum. „Við erum alltaf að fá eitthvað fyrir safnið og nýlega fengum við gefins hjólakirkjugarð frá Rútsstöðum í Eyjafirði sem innihélt kynstrin
öll af skellinöðrum og varahlutum í þau,“ segir Jóhann Freyr, en á sjötta áratugnum voru skellinöðrur stór hluti af mótorhjólaflóru landsmanna. Safnið á nú yfir 50 mótorhjól, mörg þeirra að fullu uppgerð en einnig mörg á vinnslustigi.

 Opnað á afmælisdaginn 

Ekki er ljóst hvenær byggingu safnsins lýkur en eins og áður sagði er stefnt að því að taka hluta hússins í notkun strax næsta sumar. „Ef allt
gengur vel vonumst við til að geta opnað hluta hússins næsta sumar,“ segir Jóhann. Stefnt er á formlega opnun alls safnsins 15. maí 2011 en það er afmælisdagur Heidda. Húsið verður tveggja hæða, alls tæpir 800 fermetrar að stærð með sýningarsölum og uppgerðaraðstöðu. Safnið er á safnasvæði Akureyrarbæjar við Krókeyri. Verið er að selja boli til styrktar safninu og einnig bókina Þá riðu hetjur um héröð sem er 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi.
Hægt er að fræðast betur um uppbygginguna á heimasíðu safnsins, www.motorhjolasafn.is
Eftir Njál Gunnlaugsson
njall@adalbraut.is
12.02.2010

8.2.10

Flakkað um á mótorfákum

 Um tuttugu manna hópur ætlar að fara með fimmtán mótorfáka til Skotlands í vor og hjóla þar um í tíu daga.

Að eiga svona hjól og ferðast á því er ákveðinn lífsstíll. Þessu sporti fylgir svo mikið frelsi, útivera og góður félagsskapur,“ segja þeir Guðmundur Björnsson læknir og Axel Eiríksson úrsmíðameistari, en þeir eiga báðir glæsta mótorfáka af BMW-gerð. Þeir eru félagar í BMW-hjólaklúbbi Íslands og ætla ásamt nokkrum félögum sínum úr þeim klúbbi að leggja upp í hjólaferð í Skotlandi í vor.
„Það er mikil tilhlökkun í hópnum enda gengur ferðin undir nafninu „Unstoppable“ eða óstöðvandi.
Við erum rúmlega tuttugu manns sem leggjum upp í þessa ferð í lok apríl. Flestir senda hjólin sín í gámum til Bretlands með Samskipum en einhverjir ætla að leigja sér hjól úti.
Við fljúgum til London en þaðan tökum við rútu til Grimsby og skoðum eitthvað af flottum stöðum í leiðinni. Síðan hjólum  við í tíu daga um Skotland og munum leggja 2.500 kílómetra að baki, sem jafngildir því að fara tvisvar sinnum kringum Ísland. Við hjólum öll af stað saman en svo skiptum við okkur í smærri hópa
því það ætla ekki allir að gera það sama. Fólk verður að hafa sitt frelsi til að fara og sjá það sem það hefur áhuga á. Við leggjum áherslu á að allir séu sjálfstæðir í svona hjólaferð. En við ætlum að hittast þrisvar sinnum allur hópurinn.
“ Meiri hluti ferðalanganna er karlar en þó munu fjórar konur slást í för. Þær verða farþegar aftan á hjá körlum sínum og kallast því hnakkaskraut.

Kynnum Ísland í leiðinni

Til stendur að hjóla um norðursvæði Skotlands og meðal annars ætlar hópurinn að sigla út í eyjarnar
Harris og Lewis og hjóla þar. „Við verðum á þannig vegum að hámarkshraði verður í lægra lagi sem er gott því þá njótum við náttúrunnar betur. Við hjólum um skosku hálöndin, skoðum kastala, gamla bæi og fleira áhugavert. Og það má vel vera að við leyfum okkur að smakka alvöru skoskt maltviskí,“ segja þeir félagar og líta sposkir hvor á annan.
Svona hjólaferð í útlandinu má nýta til margs og meðal annars ætla sumir að nota tækifærið og fá að stinga hjólum sínum í samband við bilunargreingatölvu, en slík tölva er ekki til hér á landi. „Við ætlum líka að kynna ferðalagið okkar vel og landið okkar Ísland sem hagkvæman kost fyrir hjólaferðalög, en mikill fjöldi BMW-hjóla kemur með Norrænu til Íslands árlega, þar sem útlendingar ferðast á þeim um landið okkar.
Við verðum í viðtali hjá Grimsby Telegraph í byrjun ferðar og einnig verðum við í myndatöku hjá Evning News í Edinborg og í  Glasgow Daily Times. Við erum búnir að selja auglýsingar á töskurnar okkar, svo við verðum hjólandi auglýsingar fyrir Samskip, Bluemountain.is og Icelandair, sem eru styrktaraðilar okkar.“

Kraftmikil flaggskip

Flest hjólin í ferðinni eru svokölluð GS-hjól, en þau eru gerð til þess að aka bæði á malbiki sem og utanvegar á malarvegum. Þessi flaggskip eru þung og kraftmikil hjól sem fara upp í 100 kílómetra hraða á þremur sekúndum. Og þau er hægt að keyra á yfir 200 km hraða á klukkustund. „En það er sjaldnast sem við leyfum okkur að aka á slíkum hraða. Það er eitthvað sem maður prófar, en ekki
sá hraði sem við hjólum á almennt. Hjólið er um 200 kíló og enginn vill detta og verða undir því. Við höfum vissulega dottið, rifbrotnað og puttabrotnað.“

Litlir kóngar elskir að vélum

Guðmundur á tvö hjól, eitt á Íslandi og annað úti í Bandaríkjunum, en hann hefur átt mótorhjól frá því hann var 13 ára og játar fúslega að hann sé með hjólabakteríuna.
Mótorhjóladellan virðist vera þó nokkuð karllæg því flestir félagar hér á landi í BMW-klúbbnum eru karlkyns. „Ætli það sé ekki alveg  óhætt að játa að flestir þeirra sem eigi svona hjól séu litlir kóngar,“ segja þeir Guðmundur og Axel og bæta við að menn sem eigi svona hjól séu vissulega elskir að vélum. „Þetta eru vel smíðaðir hlutir og fallega gerðir.Svo er það líka ánægjan að vera með tæki og tól sem fylgja þessu, eins og til dæmis GPS-staðsetningartækin en þau auðvelda okkur að rata á rétta blettinn í útlandinu til að hitta hina í
hópnum.“

Dverggeiturnar trufluðu

Fyrsta GS-BMW-hjólið kom fyrir sjö árum hingað til lands en núna eru þau orðin um eitt hundrað. Þetta eru vönduð og tæknilega mjög fullkomin hjól og þau fara vel með knapann sem situr þau.
„Einmitt þess vegna eru þetta vinsælustu hjólin í heimreisum og safaríferðum,“ segir Guðmundur
sem hefur hjólað mikið bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Hluti af klúbbfélögunum fór til Þýskalands fyrir tveimur árum og þá voru þeir að læra að hjóla í torfærum.
„Þá þurftum við að standa á hjólunum og vorum í raun að dansa við hjólið, það var mjög skemmtilegt. Við hjóluðum yfir hóla og hæðir, í fjárgötum og í sandi og vissulega duttum við stundum af baki, en það er partur af þessu. Axel datt til dæmis af því hann var að horfa á dverggeitur. Maður má ekki gleyma sér,“ segir Guðmundur og hlær.
„Við fórum í sumar í nokkrar ferðir hérlendis, ýmist dagsferðir eða lengri ferðir. Meðal annars fórum við á Vestfirði, hringveginn og í Jökulheima við Vatnajökul og í kringum Þórisvatn. Það var heilmikil svaðilför og auðvitað er mest gaman þegar eitthvað óvænt kemur upp á, þá verður þetta ævintýr. En við leggjum mikið upp úr því að fara ekki útfyrir slóða, við höfum engan áhuga á því að skemma landið.“
Morgunblaðið 8.2.2010www.bmwhjol.is