18.12.09

Styrkur til safnsins

 18. desember, 2009 - 09:50

Bæjarráð styrkir Mótorhjóla- safnið á Akureyri
Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær að styrkja Mótorhjólasafnið um eina milljón króna á ári í þrjú ár. Mótorhjólasafnið var stofnað í desember 2007, til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson, sem lést í hörmulegu bifhjólaslysi sumarið 2006.  

Mótorhjólasafnið fékk einnig styrk að upphæð 700.000 krónur úr Menningar- og viðurkenningasjóði KEA í byrjun nóvember sl., vegna uppbyggingar safnsins. Uppsteypu hússins er lokið og framundan er að loka því. Ekki sér fyrir endann á verkefninu en stefnt er að því að taka hluta hússins í notkun næsta vor. Húsið er tveggja hæða, tæpir 800 fermetrar að stærð og staðsett á Krókeyri.

28.10.09

Frábær félagsskapur

„Þetta er rosalega flottur hópur og félagsskapurinn er frábær. Félagarnir eru samrýndir og verulega skemmtilegir, bæði strákar og stelpur,“ segir Sigurjón Andersen, smiður og formaður Gaflara, mótorhjólaklúbbs Hafnarfjarðar. 
Mótorhjólaklúbbur Hafnarfjarðar, Gaflarar, var formlega stofnaður árið 2006 og í dag eru skráðir hundrað og tíu meðlimir, þar af tugur kvenna. Yngsti meðlimur klúbbsins er tæplega þrítugur á meðan sá elsti er ríflega sjötugur. Öll þriðjudagskvöld hittast meðlimir og þeysa um götur borgarinnar á mótorhjólunum. Á vorin hittast þeir á þartilgerðum smurdegi þar sem hjólin eru öll yfirfarin fyrir komandi hjólavertíð sumarsins. Þá er alltaf farið í eina langferð út á landsbyggðina þar sem félagarnir ferðast saman í nokkra daga á mótorhjólunum.

 Sjötugur heiðursfélagi 

Björn Hermannsson, gjarnan kallaður Húni innan klúbbsins, hlaut heiðursnafnbót Gaflara á síðasta ári. Hann er elsti meðlimur mótorhjólaklúbbsins, sjötíu og eins árs gamall í ár. Björn átti mótorhjól er hann var tvítugur að aldri en tók margra ára hlé. Það var ekki fyrr en fyrir áratug sem hann fjárfesti í vespu og það kveikti mótorhjólaáhugann á nýjan leik. Í dag ekur Björn um á Harley Davidson og segir það æðislegt. „Það er engin spurning að þetta er mikill heiður. Að vera félagi í Göflurunum er alveg meiri háttar því þessi félagsskapur er fínn. Ég fór hringinn, ásamt félögum mínum, í sumar. Eftir að ég eignaðist eldgamla vespu þá kveikti það í mér aftur. Nú er ég kominn á  stærra hjól, keypti mér Harley því það þýðir ekkert annað,“ segir Björn. „Ég er kallaður Húni því ég þyki ekkert mjög hár í loftinu og félögunum fannst ég ekki nógu stór til að vera kallaður Björn. Það er frábært að hjóla á flottum hjólum. Að finna skítalyktina frá sveitabæjunum er frábært.“

 Kraftur á milli fótanna 

Lógóið Gaflarar, mótorhjólaklúbbur
Hafnarfjarðar, var stofnaður árið 2006.
Sigurjón segir klúbbfélagana hafa ferðast víða um Norðurland síðastliðið sumar. Aðspurður segir hann fjölbreytta flóru mótorhjóla að finna hjá klúbbfélögum, hjóla af öllum stærðum og gerðum. Sjálfur ekur hann um á Suzuki Bandit 1200 og hefur átt mótorhjól síðustu þrjá áratugi. Gælunafn Sigurjóns innan klúbbsins er Castro, sem er tilvísun í einræðistilburði í stjórnarháttum.
„Ætli ég sé ekki kallaður Castro þar sem ég er formaður? Ferðirnar okkar hafa verið mjög  skemmtilegar og vel heppnaðar. Nokkrir tugir meðlima taka þátt hverju sinni og góð stemning ríkir,“ segir Sigurjón. 


„Ég er búinn að vera innviklaður í sportið mjög lengi, enda hrikalega skemmtilegt. Tilfinningin að þeysa um göturnar er einfaldlega mesta frelsi sem hægt er að upplifa. Maður
gleymir öllu öðru, það er mjög töff og skemmtilegt að hafa mikinn kraft á milli fótanna.“

Trausti@dv.is
DV 28.10.2009 

20.9.09

Aðalfundur Drullusokkanna:

Aðalfundur Drullusokkanna: 

Þar komu saman ungsokkar, sukksokkar, ellisokkar og kvensokkar 

Drullusokkarnir, félag mótorhjóleiganda í Vestmannaeyjum, hélt aðalfund sinn fyrr í mánuðinum. Mikill fjöldi mætti af fastalaiidiiIII en félagið nær til þeirra sem eiga mótorhjól og hafa einhvern tíma átt heima í Vestmannaeyjum. Um 50 manns sóttu fundinn og settu félagar svip á bæinn þegar þeir fóru í hóp um bæinn á hjólum sínum.
Tryggvi Sigurðsson, formaður Drullusokkanna, var mjög ánægður með fundarsókina. „Fundarhöld voru um daginn en um kvöldið var grillveisla og síðan gieði fram eftir nóttu," sagði Tryggvi. „Markmið okkar er að skemmta sér og hafa gaman af lífinu.  Fundurinn heppnaðist vel og allir alsælir."
 Þegar Tryggvi, sem kominn er á miðjan aldur, var spurður að því hvort hann væri ekki vaxinn upp úr því að hafa gaman af mótorhjólum, sagði hann það af og frá. „Þetta er ólæknandi delia sem ég kæri mig ekkert um að losna við. Það eru líka margir eldri en ég sem eru illa haldnir af mótorhjóladellunni og ég sé ekki að það skaði þá á nokkurn hátt."
Margir brottfluttir mættu á fundinn en skilyrði fyrir inngöngu í Drullusokkana er að eiga mótorhjól og hafa einhvern tíma átt heima í Vestmannaeyjum. „Það er löng hefð fyrir mótorhjólum í Vestmannaeyjum og í kringum 1970 var hvergi meira af hjólum á landinu en hér í Vestmannaeyjum." Með Tryggva í stjórn eru Þorleifur Hjálmarsson, varaformaður, Vignir Sigurðsson, ritari, Jens Karl Magnús Jóhannesson og Þorsteinn Júlíusson, Steini Tótu, sem er sendiherra félagsins á nyrstu eyjunni í Vestmannaeyjaklasanum, Norðureyjunni, svo notuð séu orð Tryggva. „Félagsmenn eru um 120 og
meðal þeirra er fullt af glæsilegum stúlkum. Við skiptumst í ungsokka, sukksokka, ellisokka og kvensokka. Nú þurfa menn að setjast niður og finna húsnæði sem er lífsspursmál fyrir félagið. 
20.09.2007

28.8.09

Regn­hlíf­ar­sam­tök mótor­hjóla­fólks

Gríðarleg fjölg­un mótor­hjóla á Íslandi hef­ur orðið til þess að mótor­hjól, sem sport og tóm­stund­argam­an hef­ur aldrei notið eins mik­illa vin­sælda og nú.

Hingað til hafa verið starf­rækt­ir marg­ir sjálf­stæðir mótor­hjóla­klúbb­ar á land­inu en nú hafa verið stofnuð sér­stök regn­hlíf­ar­sam­tök fyr­ir mótor­hjóla­klúbb­ana sem fengið hafa hið viðeig­andi heiti LÍM. Skamm­stöf­un­in stend­ur fyr­ir Lands­sam­band ís­lenskra mótor­hjóla­klúbba og er sam­tök­un­um ætlað að vera sam­ráðsvett­vang­ur mótor­hjóla­klúbba á Íslandi og vinna að hags­muna­mál­um bif­hjóla­manna.

Sam­tök­in voru stofnuð sum­ar­dag­inn fyrsta og mun áhersl­an verða lögð á vett­vang fyr­ir skoðana­skipti mótor­hjóla­fólks al­mennt. Hall­grím­ur Ólafs­son (Halli) er talsmaður LÍM en hann seg­ir að mikið verði lagt upp úr að klúbb­arn­ir haldi ein­kenn­um sín­um enda séu sam­tök­in ekki eig­in­leg­ur klúbb­ur held­ur vett­vang­ur þar sem hjóla­fólk, sem mjög vax­andi hóp­ur, geta fengið stuðning við þau mál­efni sem þau berj­ast fyr­ir s.s. ör­yggi mótor­hjóla­manna. „Það má segja að um eins kon­ar hring­borð sé að ræða þar sem all­ir klúbb­ar lands­ins geta sent einn for­svars­mann með sitt at­kvæði," seg­ir Halli.

Í dag mun LÍM svo stefna mótor­hjóla­fólki niður í miðbæ Reykja­vík­ur, rétt­ara sagt á Ing­ólf­s­torg klukk­an 19, þar sem sam­tök­in og merki fé­lags­ins verða kynnt. Eft­ir stutta kynn­ingu munu verða haldn­ir tón­leik­ar þar sem hljóm­sveit­ir sem á ein­hvern hátt tengj­ast mótor­hjóla­dell­unni munu spila. Þar munu koma fram Storm­ur í aðsigi, Chernobil, Þrusk og Snigla­bandið. Heimasíðan er www.lim.is


28.8.2009 mbl

15.8.09

Mótorhjólabændur á kartöfluslóðum


Þá sem aka um friðsælar sveitir Þykkvabæjar grunar  væntanlega fæsta að innan um kartöflugrös og slegin tún leynist mótorhjólasafn framtíðarinnar

Mótorhjólabóndinn Dagrún Jónsdóttir á Oddsparti vinnur hörðum höndum að því að láta þann draum rætast og segir kartöflubændur jákvæða. „Þeir hafa komið mér verulega á óvart,“ segir hún. „Þeir eru ægilega hrifnir af þessu öllu saman.“
 Um þrjú ár eru liðin frá því að Dagrún keypti Oddspart í félagi við Einar Ragnarsson og bróður sinn Níels Jónsson, sem síðan hefur dregið sig út úr  framkvæmdunum. Dagrún segir drauminn um mótorhjólasafn hafa blundað með sér lengi. „Ég var búin að leita að rétta staðnum í tvö ár og var við það að gefast upp. Enda búin að fara langt norður í Skagafjörð og austur á Kirkjubæjarklaustur í leit að rétta húsnæðinu. Ég frétti síðan að þessi staður væri kominn í sölu kvöldið áður en ég var á leið til Bandaríkjanna um óákveðinn tíma. Ég lét því mömmu hafa umboð, treysti á þá Einar og Níels og keypti húsið óséð.“

 Múrar bæði og flísaleggur

Ófáar vinnustundir hafa síðan farið í að koma íbúðarhúsi og verkstæði í gott horf. Dagrún vílar sér heldur ekki við að gera hlutina sjálf. Þannig múraði hún t.d. og flísalagði verkstæðið sem var heldur hrörlegt. Þá hefur eitt af túnunum verið sléttað og gert að tjaldstæði fyrir mótorhjólamót, hlöðnu  eldstæði komið fyrir og útiklósetti. Mótorhjólamótin eru líka orðin nokkuð mörg og fjölmennust var
efalítið samkoma Harley Davidson Club Iceland-félagsins. Þá hittust um 200 manns á Oddsparti og var glatt á hjalla. 
Gamall braggi hefur sömuleiðis fengið nýtt hlutverk sem samkomusalur. „Ég nota hann sem gróðurhús á milli þess sem hér eru haldin mótorhjólamót,“ segir hún um braggann sem 
fengið hefur nafnið Odd Saloon. Nafnið er annars vegar vísun í nafn bæjarins, Oddspartur, „og svo  þess að hann er mjög „odd“ [e. skrýtinn] af því að það fæst ekkert á barnum.“ Eftir er svo að taka fjárhúsið og hlöðuna í gegn, en þar verður mótorhjólasafnið og kaffistofa til húsa.

 Stoltið fannst í Reykhólasveit

 Á verkstæðinu bíða nú 30 mótorhjól þess að safnið verði að veruleika. Hjólin, sem eru í misgóðu ásigkomulagi, eru öll í eigu þeirra Dagrúnar og Einars og sjá þau alfarið um að gera þau upp. 
Áhugi Einars beinist mikið að gömlum japönskum mótorhjólum og á hann nú nokkur fyrstu japönsku hjólin sem til Íslands komu. Dagrún beinir athyglinni meira að Harley Davidson-hjólum, þó hún aki hversdags um á bresku Triumph-hjóli með áföstum hliðarvagni.
 Stolt safnsins er hins vegar Harley Davidson-hjól frá 1931. „Þessi Harley er búinn að vera hér nánast frá upphafi,“ segir Dagrún. „Hilmar Lúthersson fann hjólið í Reykhólasveit snemma á tíunda áratugnum og þá var búið að saga grindina og átti að fara að búa til þríhjól úr henni. Mótorinn var síðan notaður sem vatnsdæla.“ Með aðstoð Íslendings í Danmörku hóf Hilmar að kaupa varahluti í hjólið. Það rataði síðan í hendur Þrastar Víðissonar sem gerði við mótorinn og blöndunginn. Dagrún fékk hjólið svo í kössum, tilbúið  til að setja saman. „Og þá hófst hausverkurinn við að koma því saman,“ segir Dagrún og bætir við:
„Það eru aðeins örfá stykki í hjólinu núna sem ekki eru upprunaleg fyrir hjól af þessari gerð.“ 
Mótorhjól hafa sett sterkan svip á líf Dagrúnar frá 1991.
 Fyrsta hjólið sem hún eignaðist var Suzuki Savage, en fyrsti Harleyinn rataði í hennar hendur 1995 og því fylgdu viðgerðir. „Þá byrjaði ég að skrúfa,“ segir Dagrún sem er sjálflærð í hjólaviðgerðum og þykir það lítið tiltökumál. „Þegar ég byrja að vinna í hjólunum þá veit ég alveg hvernig allt á að snúa, en svo er ég fljót að gleyma ef langt líður á milli.“ 
Hún hefur líka m.a. gert upp gömul Harley Davidson-hjól frá lögreglunni og selt. „Harleyinn er þannig að það er endalaust hægt að gera hann upp,“ segir Dagrún og bætir við að netið hafi bætt svo aðgengi að varahlutum að alls ekki eigi að henda gömlum móturhjólum. Þeir fá líka skömm í hattinn sem gera slíkt, enda hafa mörg hjólin ratað í hendur þeirra Dagrúnar og Einars í gegnum vini og kunningja. 
Þetta framtíðarsafn nýtur líka mikils stuðnings meðal mótorhjólafólks og ekki ólíklegt að það eigi eftir að fjölga ferðamönnum í Þykkvabænum er fram líða stundir.
Morgunblaðið 2009
15.8.2009

31.7.09

Þrefalt fleiri hjólaslys


  •  20-30 sinnum líklegra að mótorhjólamaður látist í umferðinni en ökumaður bíls
  •  Á árunum 2003 til 2007 urðu 842 mótorhjólaslys og níu ökumenn biðu bana


Undanfarnar vikur hafa borist nokkrar fréttir af slysum á mótorhjólum og fyrir rúmlega viku varð hörmulegt banaslys á Hringbraut í Reykjavík.
 Þótt mótorhjól séu aðeins lítill hluti af ökutækjum í umferðinni eru dauðaslys ökumanna mótorhjóla töluvert algeng og mun algengari en fjöldi hjólanna  ætti að gefa tilefni til. Samkvæmt erlendum rannsóknum er 20-30 sinnum líklegra að  mótorhjólamaður látist í umferðinni en ökumaður bíls.

Karlar slasast og deyja

Í lokaritgerð Kristrúnar Guðmundsdóttur og Ragnheiðar Erlu Eiríksdóttur til BS-prófs í hjúkrunarfræði er nýju ljósi varpað á slysatíðni, eðli og alvarleika mótorhjólaslysa. Við rannsóknina
studdust þær við upplýsingar frá Landspítalanum auk upplýsinga frá Umferðarstofu og  rannsóknarnefnd umferðarslysa. Rannsóknin sýndi fram á að alls urðu 842 mótorhjólaslys á árunum 2003-2007 en það jafngildir rúmlega þreföldun á einungis fimm ára tímabili.
Alls leituðu 777 til Landspítala vegna slysa og þar af voru 105 lagðir inn. Slysin urðu alvarlegri eftir því sem leið á tímabilið og varð um helmingsaukning á miklum, alvarlegum og lífshættulegum áverkum.
Á þessu tímabili urðu níu banaslys á mótorhjólum og var hraðakstur meginorsök í sex tilvikum  af níu. Í öllum tilvikum voru það karlmenn sem létust og í 90% allra slysa voru karlmenn undir stýri. Þetta er svipað hlutfall og þekkist í útlöndum.
 Í 62% tilvika urðu slysin á þungum bifhjólum, í 26% tilvika á torfæruhjólum og í 15% tilvika á léttum bifhjólum

Tíðust slys hjá 15-16 ára 

Meðal þeirra niðurstaðna sem koma mest á óvart í ritgerð þeirra Kristrúnar og Ragnheiðar er hversu algeng slys eru hjá ungum ökumönnum, þ.e. ungum piltum. Algengasti aldur þeirra sem urðu fyrir slysum var 15 og 16 ára en aldurshópurinn 21 til 30 ára lenti tíðast í mótorhjólaslysi.
  Í rannsókninni er bent á að starfsfólk Barnaspítala Hringsins hafi miklar áhyggjur af slysum hjá börnum sem leika sér á mótorhjólum og finnst sem nánustu aðstandendur þeirra hunsi eða þekki ekki þær hættur eða afleiðingar sem slys geta haft í för með sér. „Á meðal þess sem kom á óvart við gerð þessarar rannsóknar var hversu ung börnin sem slösuðust við mótorhjólaakstur voru en í rannsóknarúrtakinu var eitt barn sjö ára gamalt og tvö börn 10 ára,“ segir í ritgerðinni.

28.7.09

Fákaferðir á Fjöllum


Hvað gera ferðamaður sem hefur gaman af því að hjóla og mótorhjólamaður sem hefur yndi af því aðferðast? Þeir taka saman höndum og setja á laggirnar ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í ferðamennsku á mótorhjólum. Það gerðu alltént bræðurnir Sverrir og Haukur Þorsteinssynir hjá Blue Mountain Adventure Tours, nýlegu fyrirtæki sem hefur sérstöðu í ferðaþjónustu á Íslandi. Grunnurinn í starfi ferðaskrifstofunnar er að skipuleggja mótorhjólaferðir um landið og þegar hún efndi til hópferðar í Landmannalaugar á dögunum þurfti ekki að segja Árna Sæberg, ljósmyndara Morgunblaðsins, það tvisvar. Hann skellti sér með. 
Sverrir stofnaði Blue Mountain fyrir þremur árum ásamt eiginkonu sinni, Herdísi Jónsdóttur, en fyrsta starfsár ferðaskrifstofunnar var í fyrra. Starfsemin var þá einkum sniðin að þörfum erlendra ferðamanna. „Þetta fór ágætlega af stað í fyrrasumar en í vetur komuHaukur og eiginkona hans, Theodóra Björk Heimisdóttir, inn í fyrirtækið með okkur. Þá ákváðum við að gera starfsemina sýnilegri, auka breiddina og koma okkur upp almennilegri aðstöðu,“segir Sverrir  en Blue Mountain er til húsa í Rofabæ 9 í Reykjavík.

 Framsækið fyrirtæki 

Bræðurnir segja Blue Mountain framsækið fyrirtæki sem leggi sig fram við öll verkefni, stór sem smá og bjóði uppá fjölbreytta þjónustu tengda mótorhjólum og annarri ferðamennsku. Farið er í styttri og lengri ferðir um landið, frá sólarhring og upp í viku. Hámarksfjöldi í hverri ferð er átta manns og bíll fer í humátt á eftir hópnum. „Það er nauðsynlegt til að geyma búnað og vistir, auk þess sem menn geta þurft að hvíla lúin bein. Flestir útlendingar sem leita til okkar hafa mikla reynslu af hjólum en oftar en ekki bara á malbiki. Malarvegirnir eru því talsverð viðbrigði.“
  Blue Mountain er ekki bara ferðaskrifstofa, bræðurnir reka einnig verslun og verkstæði í Rofabænum. Sérhæfa sig í vörum sem aðrir eru ekki með, t.d. dekkjum á ferðahjól. Þá er Blue Mountain með útleigu mótorhjóla ásamt kennslu í motocrossi, enduro o.fl.
  Spurðir hvaðan ferðadellan komi svara bræðurnir einum rómi: „Þetta er allt pabba að kenna.“ Faðir þeirra, Þorsteinn Hjaltason,  Dossi, er gamall frumkvöðull í ferðamennsku á Íslandi og mun hafa smitað syni sína fjóra af bakteríunni. Grunur leikur á að þeir hafi smitað hann til baka, en Þorsteinn keypti sitt fyrsta mótorhjól 63 ára gamall. Nú, tíu árum síðar, er hann kominn á nýjan Harley. Mótorhjól og náttúra eiga ekki samleið í huga allra en bræðurnir leggja áherslu á, að þeir séu náttúruunnendur sem ferðist um landið sitt með virðingu og aðdáun. „Við ökum ekki utan vega eða slóða og skiljum ekki eftir okkur ummerki þar sem við höfum verið. Gerist þess þörf lögum við eftir okkur hjólförin,“ segir Haukur og bætir við að mengun og skemmdir af þeirra völdum sé mun minni en af völdum trukkanna sem flytja erlenda ferðamenn á fjöll.

Náttúra, álfar og tröll 

  Sverrir segir ferðir á vegum Blue Mountain ekki bara snúast um hjól. Þvert á móti snúist þær ekki síður um mat, náttúru, álfa, tröll og sögu landsins. Sverrir lauk MBA-námi frá HR í vor og hefur fjölbreytta menntun á bakinu, er m.a. menntaður matreiðslumaður og lætur sig ekki muna um að töfra fram dýrindis málsverði fyrir samreiðarfólk sitt, kvölds og morgna. „Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um að hitta fólk og njóta lífsins. Gera sér glaðan dag. Það er ekkert skemmtilegra en að sjá brosið á vörum fólksins eftir velheppnaða ferð.“ 

Hann segir viðbrögðin hafa farið fram úr væntingum. „Fólk hefur upp til hópa verið mjög ánægt með þjónustuna og upplifunina í heild. Þannig vildi einn þýskur viðskiptahópur skila afslættinum sem við veittum honum. Svo ánægður var hann,“ segir Sverrir en bætir við að hann hafi ekki tekið við fénu. „Samningur er samningur.“ 
Morgunblaðið 28 júni 2009
Ljósmyndir: Árni Sæberg
saeberg@mbl.is
Texti: Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is