19.7.08

Fyrsta skóflustungan af safninu

Fyrsta skóflustunga að Mótorhjólasafni Íslands var tekin 19.júlí 2008.

Á myndinni eru 9.karlmenn en 10.skóflur.
 Ein af þeim er fyrir Heidda (heitinn) sú er Jón Dan heldur í.

Talið frá vinstri  :   Sigurjón P Stefánsson, Gunnar Rúnarsson, Jóhann Freyr Jónsson, Jón Dan Jóhannsson, Rúnar Hafberg Jóhannsson, Guðmundur Jóhannsson, Axel Stefánsson, Stefán Finnbogason og Kristján Þór Júlíusson. 


16.7.08

Vélfákar á safn

*800 fermetra mótorhjólasafni komið upp á Akureyri *Safnið reist til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson

„VIÐ tökum fyrstu skóflustunguna að safninu á laugardaginn kl. 12 og ef allt gengur eftir verður fyrsti hluti safnsins tilbúinn eftir ár,“ segir Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri mótorhjólasafns sem er í bígerð á Akureyri. Safnhúsið verður reist í fjórum áföngum og verður um 800 fermetrar að stærð þegar það er tilbúið.

Á safninu verða um 50 bifhjól og þar verður hægt að sjá í máli, munum og myndum yfir 100 ára sögu mótorhjóla hér á landi. Elsta hjólið á safninu er frá árinu 1928, af gerðinni Triumph og var gefið af Jóni Dan Jóhannssyni, föður Jóhanns Freys safnstjóra: „Þetta hjól er enn í góðu standi og er þar með elsta gangfæra mótorhjólið á Íslandi.“

Af öðrum hjólum á safninu má nefna tvö fyrstu lögreglumótorhjólin sem notuð voru á Akureyri. Munirnir á safninu munu koma víðsvegar að af landinu, og hafa margir bifhjólamenn gefið muni.

Safnið verður reist til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson föðurbróður Jóhanns Freys, sem lést í mótorhjólaslysi fyrir 2 árum. „Hann var mikill karakter,“ segir Jóhann. „Heiðar hafði lengi dreymt um að koma upp safninu og var byrjaður að safna hjólum í það. Við, vinir hans og fjölskylda, viljum minnast hans með því að taka við kyndlinum og koma safninu upp.“

Um helgina verða haldnir Hjóladagar á Akureyri og á föstudagskvöld verða sérstakir söfnunartónleikar til styrktar safninu í Sjallanum.
Eftir Hjálmar Stefán Brynjólfsson
hsb@mbl.is
16. júlí 2008