26.10.07

Sjálfskipt mótorhjól með „skotti“

ÍTALSKI mótorhjólaframleiðandinn Aprilia hefur nú lært ýmislegt af framleiðslu skellinaðra og ákveðið að bjóða mótorhjól sem gæti heldur betur hleypt lífi í mótorhjólamarkaðinn. Um er að ræða sjálfskipt mótorhjól sem ætti að hafa drjúgt notagildi þar sem það er líka með „skotti“.

Aflið gert aðgengilegt

Það er Aprilia Mana sem mun fást með þessum sjaldgæfa búnaði – í mótorhjólum í það minnsta. Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem mótorhjól fæst sjálfskipt því bæði Honda og Moto Guzzi hafa smíðað mótorhjól með sjálfskiptum gírkassa – árin 1979 og 1975. (Þá má geta þess að nýverið kynnti Honda nýja gerð sjálfskiptingar sem lesa má nánar um á bls. 2 í blaðaukanum.)

   Sjáfskipting verður stillanleg á þrjá vegu; með sport, touring og regnstillingu en einnig er handskiptimöguleiki fyrir hendi, líkt og á fínustu lúxusbílum.

Góðir dómar

Mörgum kann að lítast illa á þá hugmynd að hafa mótorhjól sjálfskipt og hafa þannig t.d. ekki stjórn á skiptingum í beygjum en mótorhjólið hefur nú þegar verið tekið til prófunar hjá breska veftímaritinu Telegraph.co.uk og fékk þar mjög góða dóma og var sjálfskiptingin með öllu hrekklaus.

   Hjólið er útbúið 75 hestafla vél, 840 cc, tveggja strokka V-vél með 8 ventlum og er aflið yfirdrifið fyrir sjálfskiptinguna og í raun hentar sjálfskiptingin vel þar sem hröðun úr beygjum og úr lítilli ferð verður snurðulaus.

   Helstu mínusarnir þóttu vera mikill titringur og sú staðreynd að með sjálfskiptingu er vélarhemlun nánast úr sögunni. 

Morgunblaðið 
26. OKTÓBER 2007

10.10.07

Kúaskítur beint í æð


Fimmtán gljáandi, urrandi Harley Davidson mótorfákar með íslenskum knöpum brunuðu um hlykkjótta sveitavegi austurræisku Alpanna í september.


 Alpanna í september. „Mótorhjólaklúbburinn HOG stendur fyrir Harley Owners Group og er stærsti mótorhjólaklúbbur veraldar með yfir milljón meðlimi,“ segir Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri Harley Davidson Íslandi, sem ásamt fimmtán meðlimum í Íslandsdeild HOG gekk frá hjóli sínu í gám til Frankfurt, þaðan sem brunað var á hjólunum niður Móseldalinn í átt til austurrísku Alpanna.

„Íslandsdeild HOG fer utan ár hvert, ásamt því að reiða farþega í kringum Tjörnina á menningarnótt til styrktar langveikum börnum. Nú fórum við á Harleymót til Faak am See, austurrísks fjallaþorps í 550 metra hæð. Alls mættu 50 þúsund manns, en í Ölpunum er ekki þverfótað fyrir mótorhjólafólki í eftirsóknarverðum aðstæðum þar sem hægt er að keyra upp og niður hlykkjótta vegi innan um stórkostlegt landslag og vinalega smábæi,“ segir Jón Örn sem skrapp yfir í ítalska hluta Alpanna og til Ljúblíana í Slóveníu meðan á mótinu stóð. 

„Það er mikil stemning í þessum ferðum. Við forðumst hraðbrautir eins og heitan eldinn því það er hundleiðinlegt ferðalag þar s ekki sést landslag og aðeins stoppað á bensínstöðvum. Svona ferðalag snýst um hjólaleiðina að áfangastað og til baka, en það er mótorhjóladellan í okkur að vera á góðum hjólum á mismjóum, bugðóttum sveitavegum. Maður upplifir náttúruna beint í æð, eins og alla lykt, hvort sem hún er af nýsleginni töðu eða kúaskít,“ segir Jón Örn hlæjandi, en að meðaltali ók hópurinn 250 kílómetra leið á dag. 

„Við áttum einungis bókaða gistingu fyrstu og síðustu nótt ferðarinnar. Því var ekkert stress að keyra á milli náttstaða heldur létum við hvern dag ráðast og stoppuðum í hvert sinn sem eitthvað freistaði,“ segir Jón Örn sem eignaðist sína fyrstu skellinöðru tólf ára gamall.

 „Gamla ímynd mótorhjólamannsins er á hröðu undanhaldi, en lengi þótti annars flokks að vera á mótorhjóli og ógleymanlegt þegar fjörutíu Sniglar fylgdu félaga sínum heim í Mosfellsbæinn og kona hringdi á lögregluna. Í dag eru Harley-eigendur allt frá lægsta launamanni til skurðlækna, milljónamæringa og þingmanna, og allir tala saman á jafnréttisgrundvelli. Harley sameinar fólk og hjólamenn heilsast þegar þeir mætast hér heima og ytra, því þetta er bræðralag. Mótin eru svo ekkert annað en stór partí þar sem skiptast á sýningar og böll með rokkhljómsveitum og fjöri. Þess vegna er maður æstur að fara aftur, ár eftir ár, til að njóta ferðalags, hjólamennsku og þess að vera í góðra vina hópi.




 https://timarit.is/files/40479599#search=%22m%C3%B3torhj%C3%B3lakl%C3%BAbbur%22