27.6.07

Svíarnir unnu á Klaustri

Yfir 500 manns kepptu í gær í stærstu akstursíþróttakeppni á Íslandi fyrr og síðar. Um er að ræða alþjóðlegu þolaksturskeppnina Trans Atlantic off road challenge sem haldin var í 6. sinn.

Um 70 keppendur voru í unglinga- og kvennaflokkum og 450 í sjálfri Trans Atlantic keppninni. Keppnin var mjög spennandi þó svo Svíarnir Marcus Olsen og Robert Forsell höfðu nokkuð forskot. Fyrstir Íslendinganna urðu þeir Einar Sigurðarsson og Ragnar Ingi Stefánsson og því í öðru sæti í heildina. Á eftir þeim komu Valdimar Þórðarson og Gunnlaugur Rafn Björnsson.

Í fyrsta skipti voru sérstök kvennalið í aðalkeppninni og fengu þær að vera 3 í liði á meðan karlarnir eru 2 í liði. 4 lið mættu til leiks og unnu þær Anita Hauksdóttir, Karen Arnardóttir og Aðalheiður Birgisdóttir.

Aðstæður á Klaustri voru hinar bestu og fengu keppendur og áhorfendur sýnishorn af fjórum árstíðum yfir daginn. Sól og blíða var um morguninn en eftir hádegið þykknaði upp, snjóaði smá og rigndi svo heil ósköp. Rykið sem yfirgnæfði allt í upphafi hvarf skyndilega og drulla myndaðist víðsvegar í brautinni.



Úrslit urðu annars sem hér segir:

Trans Atlantic off road challenge
Markus Olsen og Robert Forsell
Einar S. Sigurðarson og Ragnar Ingi Stefánsson
Gunnlaugur R. Björnsson og Valdimar Þórðarson
Gunnar Sigurðsson og Jóhann Ögri Elvarsson

Einstaklingsflokkur
Jónas Stefánsson
Kristófer Finnsson
Gunnar Atli Gunnarsson

Kvennalið
Anita Hauksdóttir, Karen Arnarson og Aðalheiður Birgisdóttir
Sandra Júlíusdóttir, Guðbjörg S Friðriksdóttir og Margrét Júlíusdóttir
Ásdís Olga Sigurðardóttir, Laufey og Jónína

Unglingakeppni 85cc
Eyþór Reynisson
Viktor Guðbergsson
Kjartan Gunnarsson



Unglingakeppni 125cc
Björgvin Jónsson
Jón Bjarni Einarsson
Heiðar Ingi Ársælsson



Kvennakeppni 85cc
Bryndís Einarsdóttir
Signý Stefánsdóttir
Guðfinna Gróa Pétursdóttir



Kvennakeppni 125cc
Hafdís Svava Níelsdóttir
Sandra Júlíusdóttir
Margrét Erla Júlíusdóttir

motocross.is 2007

16.6.07

Bifhjólamenn fordæma ofsaakstur


SAMTÖK bifhjólamanna hafa hver á fætur öðrum sent frá sér yfirlýsingar þar sem þau fordæma háskaakstur, hvort sem er á bifhjólum eða öðrum farartækjum. Þau benda á að hraðakstur á mótorhjólum sé ekki einkamál þeirra sem þessa iðju stunda heldur hafi hann áhrif á bifhjólamenn um allt land.

 Yfirlýsingarnar koma í kjölfar þess að tveir mótorhjólamenn, sem reynt höfðu að stinga lögreglu af, lentu í árekstri á Breiðholtsbraut aðfaranótt mánudags en við hann hálsbrotnaði annar mannanna. Síðdegis í gær fengust þær upplýsingar á gjörgæsludeild að hann væri enn sofandi í öndunarvél. Hinn maðurinn slasaðist ekki alvarlega. Aðeins um tveimur sólarhringum eftir þetta hörmulega slys mældist stór hópur mótorhjólamanna á um 174 km hraða á Þingvallavegi en þegar lögregla gaf þeim merki um að nema staðar stungu þeir af. Ekki kom til eftirfarar í það skiptið og eru mennirnir ófundnir, eftir því sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði í gær.


Gríðarleg fjölgun

Sylvía Guðmundsdóttir, varaformaður Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins, sagði samtökin fordæma allan hraðakstur. Nú færi mikið fyrir fréttum af hraðakstri mótorhjólamanna en hún taldi líklegt að það stafaði einfaldlega af þeirri fjölgun sem orðið hefur í þessum hópi á síðustu árum. 

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að sýslumaðurinn á Selfossi hyggst krefjast þess að hjólin sem mennirnir tveir voru á verði gerð upptæk, en við þá kröfu styðst hann við nýtt ákvæði í umferðarlögum. Annað hjólið er reyndar talið nánast ónýtt en það hefur engin áhrif á kröfugerðina. Til að forðast misskilning er rétt að taka fram að hið sama mun ganga yfir ökumenn bifreiða sem verða staðnir að ofsaakstri. 

Sylvía sagði að Sniglarnir gætu ekki lýst sig andvíga þessari ákvörðun sýslumanns enda væri heimildin bundin í lög. Þá vonaðist hún til þess að þessi stefna hefði sem mest forvarnargildi. Hún hefði hins vegar heyrt frá nokkrum bifhjólamönnum að þetta yrði til þess að þeir myndu alls ekki stöðva hjólin ef þeir ættu á hættu að glata hjólunum í hendur lögreglu. 

Morgunblaðið hefur áður fjallað um þá sprengingu sem hefur orðið í innflutningi á bifhjólum eins og sést í töflunni hér að ofan. Um leið hefur þeim fjölgað gríðarlega sem hafa tekið mótorhjólapróf eða úr rúmlega 200 árið 1998 í ríflega 1.000 í fyrra. 

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði að þrátt fyrir of mörg dæmi um ofsaakstur mætti ekki gleyma því að stærstur hluti bifhjólamanna væri til fyrirmyndar. 




Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is

 https://timarit.is/files/42497224