16.6.07

Bifhjólamenn fordæma ofsaakstur


SAMTÖK bifhjólamanna hafa hver á fætur öðrum sent frá sér yfirlýsingar þar sem þau fordæma háskaakstur, hvort sem er á bifhjólum eða öðrum farartækjum. Þau benda á að hraðakstur á mótorhjólum sé ekki einkamál þeirra sem þessa iðju stunda heldur hafi hann áhrif á bifhjólamenn um allt land.

 Yfirlýsingarnar koma í kjölfar þess að tveir mótorhjólamenn, sem reynt höfðu að stinga lögreglu af, lentu í árekstri á Breiðholtsbraut aðfaranótt mánudags en við hann hálsbrotnaði annar mannanna. Síðdegis í gær fengust þær upplýsingar á gjörgæsludeild að hann væri enn sofandi í öndunarvél. Hinn maðurinn slasaðist ekki alvarlega. Aðeins um tveimur sólarhringum eftir þetta hörmulega slys mældist stór hópur mótorhjólamanna á um 174 km hraða á Þingvallavegi en þegar lögregla gaf þeim merki um að nema staðar stungu þeir af. Ekki kom til eftirfarar í það skiptið og eru mennirnir ófundnir, eftir því sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði í gær.


Gríðarleg fjölgun

Sylvía Guðmundsdóttir, varaformaður Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins, sagði samtökin fordæma allan hraðakstur. Nú færi mikið fyrir fréttum af hraðakstri mótorhjólamanna en hún taldi líklegt að það stafaði einfaldlega af þeirri fjölgun sem orðið hefur í þessum hópi á síðustu árum. 

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að sýslumaðurinn á Selfossi hyggst krefjast þess að hjólin sem mennirnir tveir voru á verði gerð upptæk, en við þá kröfu styðst hann við nýtt ákvæði í umferðarlögum. Annað hjólið er reyndar talið nánast ónýtt en það hefur engin áhrif á kröfugerðina. Til að forðast misskilning er rétt að taka fram að hið sama mun ganga yfir ökumenn bifreiða sem verða staðnir að ofsaakstri. 

Sylvía sagði að Sniglarnir gætu ekki lýst sig andvíga þessari ákvörðun sýslumanns enda væri heimildin bundin í lög. Þá vonaðist hún til þess að þessi stefna hefði sem mest forvarnargildi. Hún hefði hins vegar heyrt frá nokkrum bifhjólamönnum að þetta yrði til þess að þeir myndu alls ekki stöðva hjólin ef þeir ættu á hættu að glata hjólunum í hendur lögreglu. 

Morgunblaðið hefur áður fjallað um þá sprengingu sem hefur orðið í innflutningi á bifhjólum eins og sést í töflunni hér að ofan. Um leið hefur þeim fjölgað gríðarlega sem hafa tekið mótorhjólapróf eða úr rúmlega 200 árið 1998 í ríflega 1.000 í fyrra. 

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði að þrátt fyrir of mörg dæmi um ofsaakstur mætti ekki gleyma því að stærstur hluti bifhjólamanna væri til fyrirmyndar. 




Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is

 https://timarit.is/files/42497224

Meira en hundrað bifhjól á sérstakri sýningu í dag


BIFHJÓLASAFN
er væntanlegt í flóru safnanna á Eyjafjarðarsvæðinu og í dag fer fram sérstök fjáröflun til styrktar því. Hún fer þannig fram að haldin er sérstök bifhjólasýning í Toyota-húsinu á Akureyri á Baldursnesi frá 10-19. Á annað hundrað mótorhjóla frá öllu landinu verða til sýnis. Að auki verður tekið við frjálsum framlögum til að setja safnið á fót. Safnið er stofnað í minningu Heiðars Þ. Jóhannssonar sem lést í bifhjólaslysi 2. júlí á síðasta ári. 

„Bifhjólasafnið mun spanna hundrað ára sögu bifhjólsins,“ segir Jóhann Freyr Jónsson sem unnið hefur að því að stofna safnið. „Við höfum yfir 50 hjól í langtímageymslu sem eiga eftir að fara í safnið, þannig að nú vantar bara húsnæði undir það. Af þessum hjólum skildi Heiddi sjálfur eftir sig ein 22.“


Fannst í Grímsárvirkjun


Meðal hjóla safnsins er eitt af gerðinni BSA Lightning 650cc ’71-árgerð, sem áður var í eigu Heiðars Þ. Jóhannssonar. „Þetta er fyrsta stóra hjólið sem hann eignaðist og hann varð frægur fyrir alls konar kúnstir á því. Hjólið komst bara nýlega í okkar hendur. Stuttu eftir andlát hans gerðist nefnilega sú ótrúlega tilviljun að hjólið fannst í góðu standi í Grímsárvirkjun. Þannig að við fengum það að sjálfsögðu í safnið.“ Hjólið er vel ökufært og var í gær ekið til Akureyrar fyrir sýninguna.