23.9.06

Tían Stofnuð 23 september 2006



í Janúar árið 2007 var Tían Bifhjólaklúbbur Norðuramts var stofnaður til minningar um Heiðar Þ Jóhannsson Snigils nr 10 sem lést í Bifhjólaslysi í júlí 2006


Markmið Klúbbsins.


Efla samstarf bifhjólaáhugafólks á Norðurlandi.

Vera öðrum bifhjólaökumönnum fyrirmynd.

Vera í forsvari fyrir bifhjólafólk á Norðurlandi.

Að stuðla að tilurð og framgangi bifhjólasafns í minningu Heiðars nr #10


Sjá til þess að bifhjólafólk skemmti sér saman annað slagið.

15.9.06

Mótocrossfjölskyldan í alsælu

 Vélhjóla- og íþróttaklúbburinn hefur í fyrsta sinn fengið æfinga- og keppnissvæði til frambúðar. Á laugardag verður svæðið, sem er staðsett beint á móti Litlu Kaffistofunni og kallast svæðið Bolalda, formlega opnað. Karl Gunnlaugsson og fjölskylda hans sem tengjast öll mótorcrossíþróttinni á einn eða annan hátt fagna þessu skrefi og þakka sveitarfélaginu Árborg fyrir að úthluta  mótorcrossáhugafólki þessu frábæra svæði.

Áhugafólk um mótorcross hefur þurft að sæta mikilli gagnrýni í fjölmiðlum vegna náttúruspjalla af völdum hjólafólks sem keyrir utan vega. Karl Gunnlaugsson hefur stundað þessa íþrótt í 25 ár og segir gagnrýnina óréttmæta því ekki tíðkist innan Vélhjóla- og íþróttaklúbbsins að meðlimir keyri utanvega. „Sveitarfélagiö Ölfus var svo rausnarlegt að gefa okkur stórt keppnis- og æfingasvæði beint á móti Litlu Kaffistofunni. Það svæði kallast Bolalda og erum við í klúbbnum búin að leggja 40-50 kflómetra æfinga- og keppnisbrautir fyrir byrjendur og lengra komna," segir Karl. Hann segir að laugardaginn 16. september verði svæðið formlega opnað og séu allir velkomnir. Þá verður öllum hjá sveitarfélaginu Ölfusi boðið á opnunina og mótorcrossmót verður haldið í öllum keppnisflokkum. „Þetta er ekki lengur strákasport eins og þetta var heldur má segja að þetta sé í dag orðið að fjölskyldusporti þar sem öll fjölskyldan er á sínum hjólum, allt frá 10 ára upp í 70 ára," segir Karl.

Fleiri konur stunda mótorcross

 Karl rekur mótorcrossbúðina KTM ísland og segir hann aðsókn kvenna í íþróttina hafi aukist mikið. „Það var tæplega fertug kona að byrja í sportinu um daginn og núná er ellefu ára gömul dóuir mín farin að suða um að fá sitt hjól en sonur minn er búinn að vera í sportinu frá sex ára aldri og hann er orðinn sautján ára," segir Karl. Hann segir að konan hans hafi enn ekki haft áhuga á að stíga upp á hjól en hún starfi mikið í félagslífinu innan klúbbsins. Karl segir að á íslandsmótum í mótorcross hafi stundum verið allt upp í 20 konur að keppa.

Hrikalega gaman 

„Þetta er hrikalega gaman og það skemmtilegasta sem maður gerir. Þetta er ein erfiðasta íþrótt sem hægt er að stunda því það þarf mikið þrek til að hoppa og stökkva á hjólinu," segir Karl. Hann segir að nauðsynlegt sé að hafa allan öryggisbúnað þegar þessi fþrótt er stunduð. „Það er halló að vera ekki vel búinn og sá sem mætir með derhúfu í gallabuxum fær vinsamlega ábendingu okkar hinna um að koma sér upp öryggisbúnaði. Það kostar á bilinu 500 þúsund til milljón að fjárfesta í hjóli og búnaði, allt eftir því  hve flottur maður vill vera á því, en það er svo sannarlega þess virði, þetta er það alskemmtilegasta," segir Karl og hlakkar til að mæta á opnun æfingasvæðisins á Bolöldu á laugardaginn þar sem klúbburinn hefur byggt félagsheimili sem þeir kalla „Stóru Kaffistofuna".

Þarf próf á stærri hjólin 

Karl segir að börn þurfi að vera orðin 12 ára til að geta ekið vissri stærð hjóla og til að aka stærri hjólunum þurfi vélhjólapróf en á önnur dugar venjulegt bílpróf. „Mótorcrosshjólunum má eingöngu aka á þartilgerðum brautum og það er bannað að aka þeim í almennri umferð. Fólk kemur með hjólin sín á þartilgerðum kerrum og hér á svæðinu er bannað að aka þeim utan slóða svæðisins," segir Karl Gunnlaugsson, forfallinn áhugamaður um mótorcrossíþróttina.
jakobina@dv.is
15.09.2006

4.9.06

Hættir sem skólastjóri og byrjar að hjóla


FJÖLMARGIR Hafnfirðingar þekkja Hjördísi Guðbjörnsdóttur, sem nú er að láta af störfum sem skólastjóri Engidalsskóla.
Þar hefur hún ráðið ríkjum í 28 ár og annast uppfræðslu hjá nokkrum kynslóðum Hafnfirðinga. Þar áður kenndi hún við Öldutúnsskóla og hefur samtals varið 43 árum ævi sinnar í uppfræðslu ungdómsins. „Það er betra að hætta í fullu fjöri en að lognast út af í starfi. Þetta er erfitt og andlega slítandi starf og mér finnst þetta orðið gott,“ segir Hjördís.
Það eru ávallt tímamót þegar vinnustaður er yfirgefinn í síðasta sinn en það er hugur í Hjördísi, sem hélt upp á sextugsafmælið fyrir þremur árum með því að taka mótorhjólapróf. „Börnin voru farin að heiman og ég var orðinn sjálfs míns herra og ákvað að láta gamlan draum rætast.“ Þá um haustið hafði hún keypt splunkunýtt Yamaha 535 sem hún gaf sjálfri sér í jólagjöf. Það var látið standa inni í forstofu skreytt jólaljósum yfir hátíðina. „Ég hef engan bílskúr þannig að ég sagði við yngsta strákinn minn að það væri von á pakka með sendibíl og bað hann um að hjálpa sendibílstjóranum að koma honum inn í hús. Pakkinn ætti að  fara inn í forstofuherbergið. Drengurinn tók síðan á móti mótorhjólinu og varð þá að orði að oft hefði hún mamma þótt skrýtin en aldrei eins og nú.“ Núna nýtur Hjördís þess að fara í stuttar ferðir innanbæjar á hjólinu íklædd níðsterkum mótorhjólagalla úr kevlar og innfæddir þekkja vart aftur gamla skólastjórann sinn.
„Ég held að fólki finnist þetta dálítið broslegt. Mig hafði alltaf langað til þess að prófa mótorhjólasportið. Ætli ástæðan sé ekki sú að ég er spennufíkill að eðlisfari. Kannski að það sé einsdæmi að skólameistari taki upp slíka iðju á gamalsaldri,“ segir Hjördís og hlær.  „Ég hef áhyggjur af ungum mönnum á mótorhjólum sem keyra eins og brjálæðingar, en þetta er skemmtileg íþrótt ef varlega er farið. Ég samþykkti aldrei að synir mínir þreyttu mótorhjólapróf. En nú ræð ég engu lengur og einn sona minna var núna að taka sitt próf. Það eru allir farnir að heiman og ég hef engin völd lengur. Ég held samt að foreldrar séu ekki spenntir fyrir því að börn þeirra taki mótorhjólapróf í ljósi allra þeirra slysa sem verða. Þetta horfir öðruvísi við með eldra fólk sem verður frekar stöðvað fyrir of hægan akstur heldur en hraðan.“ Hjördís hjólar mest um helgar og bara í góðu veðri. Hún velur að fara í hjólaferðir snemma morguns eða um kvöldmatarleytið þegar umferðin er sem minnst. Engu að síður er hún í þeim hópi hjólamanna sem hafa dottið. „Það var í einni af mínum fyrstu ferðum á hjólinu að stór jeppi ók í veg fyrir mig á umferðarljósum. Sem betur fer var ég á hægri ferð og náði að stöðva snögglega en ég missti hjólið yfir á vinstri hliðina. Ég slasaðist ekki en ég fékk byltuna,“ segir Hjördís. 
gugu@mbl.is
Morgunblaðið 
4.09.2006

16.8.06

Vegur aðeins 23 kíló

Nýjasta mótorsportið á Íslandi hentar jafnt fullorðnum mótorhjólamönnum, fimm ára krökkum og fimmtugum konum.

 Við fyrstu sýn virðast mini-motohjólin vera hálfgerður brandari, fullorðið fólk sem brunar eftir braut á alltof litlum mótorhjólum sem líta út fyrir að vera smíðuð fyrir fjögurra ára börn. Kristmundur Birgisson segir að þau séu þó að minnsta kosti jafn skemmtileg og stærri mótorhjól.
  „Ég á Hondu CBR 1000-hjól líka, það er ekkert síðra að fara út á litla kvikindinu,“ segir Kristmundur. Til að gefa einhverja hugmynd um hversu lítil mini-motohjólin eru, þá eru aðeins 40 cm frá götu upp í sæti. Þau vega 23 kg með fullan tank af bensíni og komast upp í 60 km hraða. Þau eru ætluð í keppni og eru því á sléttum, mjúkum dekkjum með mikið veggrip. Vélarnar eru 49 rúmsentimetra tvígengisvélar sem toga 4,5 Nm á 15.000 snúningum.
   „Maður þarf enga reynslu af öðrum hjólum til að ráða við þessi. Það getur auðvitað ekki gert annað en að hjálpa, en er ekki nauðsynlegt. Við höfum verið að hjóla niðri við Klettagarða og allir sem hafa komið þangað og viljað prófa hafa fengið að prófa, meira að segja fimmtugar konur sem höfðu gaman af,“ segir Kristmundur sem flutti sjálfur inn fyrsta hjólið fyrir um það bil ári.
  „Þá lenti ég í veseni við tollinn því hjólið var ekki með fastanúmeri og því ekki hægt að skrá það. Ég hafði samband við framleiðandann og bað  hann um að setja fastanúmer á þau og síðan hefur innflutningurinn gengið vel.“ Kristmundur byrjaði í mótorsportinu á stórum amerískum bílum í kringum 1986 og segir mini-moto-hjólin skemmtilegri að mörgu leyti. „Þetta er líka miklu ódýrara og tekur mikið minna pláss í skúrnum. Svo er hægt að henda hjólinu í skottið og fara með það hvert sem er. 
  “ Í sumar verða haldin tvö mót fyrir mini-moto en næsta sumar verður haldin mótaröð undir merkjum GP-Ísland. Til þess að vera löglegur í keppni þarf ökumaður að vera 12 ára eða eldri. Kristmundur segir þó að börn frá 5 ára aldri ráði vel við hjólin. Og það þarf ekki að kosta mjög mikið að byrja í sportinu. „Hjólin kosta 69.000 kr. í vefverslun okkar á fingrafar.is,“ segir Kristmundur. „Svo þarf að vera í góðum galla eða með góðar hlífar og með  þokkalegan hjálm. Maður kemst af með 100.000 krónur sem er ekki mikið í mótorsporti.“
 Kristmundur og félagar hjóla flest góðviðriskvöld á milli Sindra og vélaverkstæðis Heklu í  Klettagörðum. Áhugasömum er bent á að leggja leið sína þangað til að prófa.
einareli@frettabladid.is
Fréttablaðið 16.08.2006

10.8.06

Öðruvísi ferðamáti

Sigfús Ragnar Sigfússon - Sigfús í Heklu - og eiginkona hans, María Sólveig, voru í Víetnam fyrirnokkrum árum. Þar sáu þau hve margir óku um á mótorhjólum. „Konan var svo hrifin af þessu að ég gaf henni mótorhjól í afmælisgjöf fyrir fjórum árum.
Það var ómögulegt að hafa hana eina á mótorhjóli þannig að ég keypti líka mótorhjól fyrir mig.“

Sigfús segir að skriflega prófið hafi vafist fyrir þeim. „Við féllum bæði í fyrsta skipti við litla gleði.“ Hjónin náðu síðan prófinu. „
Við hjólum mest í Reykjavík. Auk þess hjólum við í nágrenni borgarinnar eins og til dæmis til Þingvalla og Eyrarbakka. Við hjólum reyndar bara í góðu veðri. Það er nauðsynlegt að vera varkár vegna þess að mótorhjólafólk mætir oft talsverðu tillitsleysi í umferðinni.“ Sigfús segir að þegar á mótorhjólið sé komið verði frelsistilfinning öllu yfirsterkari.
„Við förum á staði sem við færum annars ekki á. Þetta er öðruvísi ferðamáti og ómetanlegt að hafa konuna með í sportinu. Mótorhjólafólk sem hittist á förnum vegi spjallar gjarnan saman og er það líka krydd í sportið. Svo er skemmtilegur siður á meðal mótorhjólafólks að gefa smá nikk með vinstri hendi þegar hjólafólkið mætist í umferðinni.“
Frjáls Verslun 4 tbl 2006

26.7.06

Vélhjólakappi féll af hjólinu vegna grjóthruns af vörubíl:

Grjóthrun af vörubíl slasaði vélhjólamann

■ Vélhjólamaðurinn viðbeinsbrotinn ■ Vörubílstjóri eftirlýstur 
■ Hjólið mikið skemmt

Vélhjólakappinn Stefán Björnsson missti
stjórn á hjóli sínu og datt þegar hann rann á jarðvegi sem féll á götuna af vörubílspalli. Atvikið
varð á hringtorgi í Keflavík. Formaður Ernis, Bifhjólaklúbbs Suðurnesja, segir óbirgðan farm geta
valdið lífshættu fyrir vélhjólamenn.
„Þetta var grjót, sandur og möl," segir Stefán, en
hann var að aka að hringtorginu við Víkurbraut
og Faxabraut í Keflavík á sunnudagskvöld þegar
hjólið rann undan honum. Við fallið viðbeinsbrotnaði hann og vélhjólið stórskemmdist. Stefán
var vel búinn og þakkar hann sínu sæla fyrir að
ekki fór verr.
„Það er heldur súrt að þurfa að borga fyrir
annarra manna klúður," segir Stefán en honum
verður gert að borga 180 þúsund krónur í sjálfsábyrgð. Ekki er vitað hver bílstjórinn er og því
ekki hægt að draga hann til ábyrgðar. Samkvæmt
lögum á farmur að vera birgður með segldúk.
„Þetta getur skapað lífshættu," segir Hannes H. Gilbert, formaður Ernis, ómyrkur í máli. Hann
segir það skelfilegt efóreyndarimenn lenda ísvona
aðstæðum, þá getur verið mikil hætta á ferð.Hannes vill ítreka fyrir vörubílstjórum að
birgja farminn enda sé annað lögbrot.
Hannes segist ekki þekkja til þess að vélhjólamenn fái á sig lausamöl þegar þeir aka á eftir
vörubílum. Hann segir að ekki séu nema örfáir
dagar síðan að steinn sem féll af vörubíl braut
rúðu í bílnum hans.
Stefán mun ekki vera eini vélhjólamaðurinn
sem hefur orðið fyrir grjóthruni af vörubílum.
Lögreglan í Keflavík hefur auglýst eftir grænbláum vörubíl, en bílstjóri hans varð valdur að
talsverðu tjóni á Reykjanesbrautinni í byrjun
mánaðarins. Hluti af malarfarmi sem var á pallinum hrundi á götuna með þeim afleiðingum að
mölin dreifðist um allt og olli töluverðum lakkskemmdum á þremur bílum. Telur lögreglan að
tjónið nemi hundruðum þúsunda. Frá og með
áramótum hefur tryggingafélagið Sjóvá greitt
alls 31 milljón vegna sambærilegra tjóna.
valur@bladid.net



http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=358560&pageId=5740468&lang=is&q=v%E9lhj%F3lama%F0ur

14.7.06

Örninn er sestur 2006



HYOSUNG Aguila, eða GV650 eins og það heitir líka, hefur fengið nafn sitt úr spænsku en Aguila þýðir örn og eins og sjá má er örninn lentur á Íslandi. Spurningin er bara sú hvort varpið heppnist en um er að ræða alveg nýja tegund á markaðnum.

    Hyosung mótorhjól hafa notið mikilla vinsælda í Suður-Evrópu og nágrannar okkar Danir hafa sömuleiðis tekið Hyosung fagnandi enda hjólin verðlögð þannig að þau eru mjög samkeppnisfær á markaði sem annars er plagaður af ofurtollum. Eiríkur Hans Sigurðsson sem bauð landsmönnum fyrstur manna upp á Ducati mótorhjól hefur tekið við umboði fyrir Hyosung og hefur til prófunar nokkrar gerðir af þessum hjólum, öll á samkeppnisfæru verði.
    Bílablað Morgunblaðsins fékk til prófunar hjól sem í flestum tilfellum yrði flokkað sem „kraftkrúser“ og tók það til kostanna í blíðskaparveðri.

Létt og lipurt en ekki látlaust

    Myndir sýna þetta mótorhjól ekki í réttu ljósi. Það virkar fremur ýkt, sem það reyndar er, en þó ekki á slæman máta. Það mætti segja að þetta mótorhjól sé léttúðugt eða frískt og hönnun þess ber þess merki að hafa verið gerð án nokkurrar fælni við augljósar tengingar til annarra og mun dýrari mótorhjóla eins og Harley Davidson V-rod sem augljóslega er fyrirmyndin hvað útlitið varðar. Útlitið er eins og áður sagði frísklegt og nýtískulegt og einungis dregið niður af fölsku krómi sem er óþarft og myndi jafnvel koma betur út í sama lit og hjólið er sprautað í. Hjólið er útbúið breiðum dekkjum að hætti kraftkrúser hjóla með tvöföldum diskabremsum að framan og einfaldri að aftan, lágu sæti og háu stýri. Á prófunarhjólinu er vindhlíf sem aukabúnaður ásamt baki og bögglabera og pústið, sem er fremur breitt og hljómar hreint ágætlega, er 2 í 1 á hægri hlið. Stjórntæki öll eru hefðbundin og mjög auðveld í notkun og akstursstaða hin prýðilegasta eins og oft er á krúserum.
    Við fyrstu viðkynningu er hjólið mjög létt og þægilegt í meðförum og auðvelt að ímynda sér að það henti byrjendum. Reyndar hentar þetta hjól sérlega vel byrjendum þar sem hægt er að fá fyrir það búnað til að draga úr aflinu með 25kw takmörkun, sem er leyfilegt hámarksafl fyrir yngri ökumenn bifhjóls en 21 árs. Hægt er síðan að fjarlægja þessa takmörkun og gefa hjólunum fullt afl þegar viðkomandi hefur öðlast réttindi, eða hjólið selt og hjólið skilar þá sínum 79 hestöflum með tilheyrandi þjósti.  
Þar sem hjólið er mjög létt og meðfærilegt í akstri er hætt við því að ökumenn muni reka hjólið niður í beygjum. Sem betur fer er það fyrsta sem rekst niður ístöðurnar fyrir fæturna og fæst því tímanleg tilkynning um það að tímabært sé að hægja ferðina og kreppa beygjuna örlítið – þó mun þetta fara eftir ökustíl fólks en sumir munu líklega draga hælana á undan ístöðunum vegna framstæðrar stöðu þeirra.
Í bæjarumferð nýtur mótorhjólið talsverðar athygli og merkilegt nokk jafnvel meiri athygli en nafntogaðri mótorhjól í sama stíl. Kannski er þar um að kenna óþekktu nafni hjólsins, útliti þess eða hins skæra ljósbláa litar sem er líklega sjaldséður á hjólum af þessari gerð sem alla jafna eru svört. Vegfarendur kunnu allavega vel að meta hjólið og ökumaður sömuleiðis þar sem það var með eindæmum meðfærilegt. Það er vel hægt að keyra hjólið meira á toginu en hásnúning og sennilega munu flestir kunna að meta það betur þar sem titringur frá vélinni er talsverður þegar hærri snúningi er náð. Vissulega er ekkert mál að gíra niður eða upp og þannig draga úr titringnum enda þótti blaðamanni best að keyra á lágum snúningi og nota togið og spretta svo úr spori og leyfa nálinni að hendast upp hraðamælinn einstaka sinnum án þess að skipta um gír strax.

Hlykkjóttir og þröngir þjóðvegir góð skemmtun

Það var ekki síður gaman að keyra til Þingvalla í góða veðrinu. Þröngur vegurinn, hæðóttur og hlykkjóttur dró fram góða aksturseiginleika hjólsins og sýndi hve jafnvægi þess var gott. Bremsur virkuðu traustvekjandi og gírkassinn var þýður og þægilegur og aldrei missti blaðamaður úr gírskiptingu. Togið var yfirdrifið fyrir afslappaðan þjóðvegaakstur og aflið feikinóg til framúraksturs þegar á þurfti að halda – þó ekki án titringsins sem fylgdi hærri snúningi. Vindhlífin gerði talsvert gagn og er eiginlega nauðsynleg þar sem akstursstaðan á krúserhjóli er einungis til þess fallin að fanga sem mestan vind. Sætið var þægilegt til lengri aksturs og hægt að hagræða sér og breyta um stellingu án nokkurra vandræða.
    Þegar komið var til Þingvalla var mál að prófa hjólið með farþega en það reyndist lítið erfiðara að keyra hjólið þannig og hvorki fjöðrun né afl létu af sér draga þrátt fyrir aukafarþegann og má því draga þá ályktun að aukatöskur gætu gert þetta mótorhjól að fínasta hjóli til daglegs brúks og jafnvel lengri ferða ef menn vilja.
   Á heildina litið er Hyosung GV 650 létt og þægilegt hjól sem býður upp á talsvert afl fyrir þá sem það vilja en er jafnframt hentugt fyrir byrjendur. Í því sambandi má nefna afltakmörkunina sem er fáanleg og svo einfalda hluti eins og að ekki er hægt að setja hjólið í gír án þess að setja standarann upp fyrst – nokkuð sem allir byrjendur kunna örugglega að meta. Útlit hjólsins vakti fremur góð viðbrögð en stíll þess er um margt óvenjulegur þó ekki séu farnar ótroðnar slóðir í hönnun þess. Hvað notkun hjólsins varðar var hægt að finna fáa galla á því og helst hægt að kvarta yfir krómuðu plasti sem hefði mátt sleppa og titringnum í vélinni sem yrði ansi hvimleiður en kom ekki að sök þar sem auðvelt er að gíra sig framhjá því vandamáli. Blaðamaður bjóst reyndar við að stafrænt mælaborð hjólsins yrði erfitt aflestrar í sólinni og þá sérlega ljósið fyrir hlutlausan gír en það reyndist ekki vera nokkuð vandamál – reyndar var mælaborðið auðlesið og fljótlegt að sjá hraðann og þær upplýsingar aðrar sem voru í boði. Þó var þess saknað að hafa ekki snúningshraðamæli. Einn helsti kostur hjólsins hlýtur að vera verðið en 860 þúsund telst nokkuð gott verð fyrir 79 hestafla krúsermótorhjól sem er nógu sprækt til að skilja margan krúserinn eftir í rykinu. Það má reyndar minnast á það að á leiðinni í bæinn var kíkt í heimsókn hjá nýbökuðum eiganda að Hyosung GT 650R en grunntýpan af þeirri gerð, GT650, kostar aðeins 666 þúsund krónur.

Tegund: Hyosung GV650 Sports Cruiser
Vél: Tveir strokkar V2 90° vél, 647 rúmsentimetrar, 8 ventlar, yfirliggjandi knastásar, vatnskælt.
 Afl: 79 hestöfl við 9.000 snúninga á mínútu.
Tog: 68,1 Nm við 7.500 snúninga á mínútu.
Gírskipting: 5 gíra beinskiptur. 1. gír niður, 4 upp.
Bensíntankur: tekur 16 lítra.
Hröðun: Ekki vitað.
 Hámarkshraði: 195 km/klst.
Drifbúnaður: Hljóðlátt koltrefja belti.
Hemlar framan: Diskabremsur. Tvöfaldir diskar. Hemlar aftan: Diskabremsur. Stór, 270 mm diskur.
Hjólbarðar og felgur framan: 120/70-ZR18 59W. Hjólbarðar og felgur aftan: 180/55-ZR17 73W.
Lengd: 2.430 mm. Breidd: 840 mm.
Hæð: 1.150 mm. Sætishæð: 695 mm. Hæð undir lægsta punkt: 160 mm.
 Eigin þyngd: 218 kg. Heildarþyngd 410 kg.
Litir: svart – silfurgrátt – blátt og silfurgrátt.
Eyðsla: 5 lítrar í blönduðum akstri.

Verð: 860.000 kr. Umboð: Renta ehf. Hyosung Aguila
ingvarorn@mbl.is 
Morgunblaðið 14.07.2006