12.6.06

Landsmótið er toppurinn

SÉRFRÆÐINGURINN: EVA DÖGG ÞÓRSDÓTTIR

Landsmótið er toppurinn

Á vorin fyllast göturnar af mótorfákum af öllum stærðum og gerðum sem eigendurnir þenja sem mest þeir mega, sérstaklega þegar veðrið er gott.

Eva Dögg Þórsdóttir, stoltur eigandi Kawasaki ZX6R og fjölmiðlafulltrúi bifhjólasamtakanna Sniglanna, er að sjálfsögðu farin að þeysa um á sínum fáki og bíður spennt eftir landsmóti félagsins. „Landsmótið er toppurinn á sumrinu og í ár verður það haldið dagana 29. júní til 2. júli í Hrífunesi, sem er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá  Kirkjubæjarklaustri,“ segir Eva.
Mikið er um dýrðir á þessum landsmótum, sem iðulega eru vel sótt af mótorhjólaáhugamönnum. Í ár spila hljómsveitir öll kvöldin og keppt er í ýmsum greinum eins og venjulega. „Á föstudeginum sameinast allir í súpumáltíð en þá er elduð súpa í risastórum potti ofan í allan hópinn.“ Tæplega 1.800 manns eru í Sniglunum sem eru 22 ára gömul samtök, en Eva Dögg telur að um 3.000 mótorhjól séu á landinu. Aðspurð að því hvert sé flottasta mótorhjól allra tíma á hún erfitt með að svara.
HIPPI hér má sjá dæmi um hippahjól
 en mótorhjól skiptast í tvo flokka,
 hippa og Raiser hjól.
 „Mótorhjól skipast eiginlega í tvo flokka: raiserhjól og hippa, og það er  misjafnt af hvorum hjólunum fólk er hrifnara. Ég verð samt að segja að þegar Kawazaki zx10´88 kom á markað varð umbylting í raiser-græjunum.“

- snæ
Fréttablaðið 12.06.2006

6.6.06

Messaði yfir mótorhjólamönnum 2006

Hún var nokkuð óvenju­leg mess­an, sem fram fór í Digra­nes­kirkju í gær en þá komu mótor­hjóla­menn sam­an og gengu til messu.

Vél­hjóla­menn önnuðust mess­una og komu safnaðargest­ir á vélfák­um sín­um til kirkju. Gunn­ar Sig­ur­jóns­son, prest­ur og hjóla­maður, stóð fyr­ir mess­unni og sagði hann að um heims­sögu­leg­an viðburð væri að ræða, enda hefði ekki hon­um vit­an­lega verið staðið fyr­ir sam­bæri­legri messu hingað til, þótt haldn­ar hefðu verið t.d. helg­i­stund­ir á Ing­ólf­s­torgi.

Aðspurður sagði Gunn­ar að til­gang­ur­inn með mess­unni væri að fá mótor­hjóla­menn sam­an, reyna að opna á umræðu og draga úr for­dóm­um í garð mótor­hjóla­manna. Auk Gunn­ars þjónaði Íris Kristjáns­dótt­ir, sem er þjóðkirkjuprest­ur eins og Gunn­ar, sem og Jón Þór Eyj­ólfs­son frá Fíla­delfíu.

mbl 6.6.2006


4.6.06

Saman á Sextán hundruð kúbikum


Þegar Vilhjálmur Grímsson tók í fyrsta skipti litla vespu á leigu þar sem hann var staddur í sumarfríi á sólarströnd í útlöndum ásamt fjölskyldu sinni vissi hann ekki að þar með færi hann að láta sig dreyma um að þeysa um á mótorhjóli af stærstu gerð. Þetta væri varla í frásögur færandi nema fyrir það að nýlega lét Vilhjálmur drauminn rætast, 64 ára gamall að aldri. Í sumar leggja hann og 35 ára gömul dóttir hans, Inga María, á ráðin um ferðalög saman á tryllitækinu þar sem hann verður við stýrið og hún farþegi.„
   Það er alltaf gaman að gera eitthvað skemmtilegt með pabba,“ segir Inga María
og útskýrir upphaf ævintýrisins aðeins betur. „Okkur fannst vespurnar frábærar því á þeim sér maður landið á annan hátt og upplifir allt aðra hluti en þetta venjulega baðstrandalíf. Pabbi varð hins vegar fyrstur til að taka þetta upp hér heima.“

Vilhjálmur byrjaði á því að fá sér vespu fyrir um einu og hálfu ári. „Hún er mjög lipur í innanbæjarakstri en smám saman fór ég að skoða stærri hjól enda kannski alltaf langað í svoleiðis grip frá því ég var strákur.“ Tækið atarna er engin smásmíði, 1.600 kúbika Kawasaki sem vegur um 400 kíló. „Það er með því stærsta sem gerist,“ viðurkennir  Vilhjálmur. „En það kemur til af því að þetta er hugsað sem ferðahjól og sem slíkt er það mjög
voldugt, með hliðartöskur, farþegasæti með bólstruðu baki og góða vindhlíf fyrir framan. Ég hef gaman af því að ferðast og það á reyndar við um fleiri í fjölskyldunni þannig að það lá nokkuð beint við að velja hjól sem hentaði til ferðalaga.“
Sæmilega öruggt sæti | Hjólið kallaði á ákveðna  „endurmenntun“ af Vilhjálms hálfu, sem þurfti að standast bæði bóklegt og verklegt próf til að fá réttindi til að stýra tryllitækinu. Eins var nauðsynlegt að „galla sig upp“ eftir kúnstarinnar reglum til að tryggja öryggi á mótorfáknum eins og frekast er unnt. Hnausþykkur leðurgalli og bakhlíf, sem líkist helst svartri skylmingabrynju, er til vitnis um að á þeim vettvangnum hefur Vilhjálmur ekkert til sparað. „Þótt eitthvað komi upp á og maður renni eftir götunni þá heldur þetta lengi við,“ segir hann og bendir á þung og svört leðurstígvél. „Svo þarf maður að vera í sæmilegum klossum því 70%
af öllum slysum eru á hné og niður að ökkla.“
   Allur þessi búnaður er þó fenginn í ákveðnum tilgangi, nefnilega að verja líf og limi á ferðum um landið og í sumar er stefnan tekin á ferðir þeirra feðgina saman á hjólinu góða. „Já, pabbi er að reyna að plata mig til þess,“ segir Inga María stríðnislega. „Ég vil nú að hann æfi sig gamli maðurinn svo það verði nú óhætt fyrir mig að vera þarna fyrir aftan hann. Það hlýtur að koma síðar í sumar og þá getum við farið einhvern rúnt.“ Vilhjálmur brosir út í annað. „Ég er búinn að vera að æfa mig svolítið og til dæmis farið upp á Skaga, á Þingvelli, austur í Flóa, suður í Keflavík og víða og þá hefur sonur minn Garðar oft setið aftan á hjá mér. Núna finn ég að ég
er að ná ágætu valdi á þessu þannig að ég ætti að geta boðið Ingu Maríu upp á sæmilega öruggt aftursæti í sumar.“
   Feðginin hafa augastað á að gista á farfuglaheimilum á ferðum sínum en áfangastaðurinn er enn óráðinn enda líklegt að hið íslenska veður verði haft með í ráðum þegar þar að kemur. „Við stefnum nú á styttri túra til að byrja með,“ segir Inga María. „En pabbi er strax farinn að gíra mig upp í að fá mér mitt eigið hjól og hver veit nema við getum þá farið eitthvað lengra næsta sumar.“
   Ætlar í Sniglana | Vilhjálmur er fljótur að feykja þeirri ranghugmynd af borðinu að það sé óvenjulegt að maður á hans aldri taki upp á því að fá sér svona farartæki. „Bæði hér á Íslandi og í útlöndum eru mótorhjólaklúbbar með „gamlingjum“. Í þeim eru menn sem eru flestir komnir yfir sextugt. Margir þeirra eru nýir í sportinu því þegar krakkarnir eru farnir að heiman og búið er að borga húsið eiga menn kannski einhverjar krónur sem hægt er að leika sér með. Og þá hafa þeir látið
gamla drauminn um mótorhjól rætast. Það er ótrúlega algengt og miklu algengara en maður hefði haldið að fólk fyrir ofan miðjan aldur fái sér svona hjól.“
  „Pabbi ætlar að ganga alla leið og fara í Sniglana,“ skýtur Inga María inn í og faðir hennar hreyfir engum mótbárum. „Það er partur af þessu að hitta gaurana sem eru í þessu,“ segir hann. „Reyndar held ég að það sé tvímælalaust til bóta að menn séu orðnir svolítið þroskaðir og búnir að hlaupa svolítið af sér hornin þegar þeir setjast á bak svona kraftmiklu verkfæri enda er lágmarksaldur til þess að taka bifhjólapróf 21 árs. Aflið er nánast ótakmarkað enda hægt að komast á þriðja hundraðið á svona hjóli. Þá er um að gera að kunna sér hóf í því að nota þetta afl.“
    Inga María hlær við þegar gamla HLH-lagið um riddarann á mótorfáknum er rifjað upp og viðurkennir að líklega hafi hún ekki séð sjálfa sig aftan á hjóli fullorðins föður síns þegar hún raulaði það í denn. „En mér finnst frábært hjá honum að láta gamla drauma rætast og halda einhverjum áhugamálum gangandi hjá sér.“ Vilhjálmur tekur undir þetta. „Ég er fyrst og fremst að halda mér í formi með þessu enda byggir þetta mann upp og skerpir, bæði andlega og líkamlega. Það þýðir ekkert að vera eins og tuska á þessu – maður verður að hafa pínulítið „power“ – svo eiginlega yngist maður upp í stað þess að hníga niður og verða að dufti.“ En sér hann fyrir sér að þeysa ennþá um á Kawasaki um nírætt? „Það væri mjög gaman,“ segir hann og hlær. „Maður þakkar bara fyrir hvert ár sem maður hefur góða heilsu og svo ræður Guð og lukkan hvernig þetta fer.“ |
ben@mbl.is

Morgunblaðið 
04.06.2006

15.2.06

Fótbrotnaði við að taka draumahjólið úr gámi


Vörður Leví Traustason, forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavik, lenti í hremmingum þegar hann ætláðj að taka mótorhjól frá Bandaríkjunum úr gámi á dögunum.

Hann missti hjólið ofan á sig með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði. Það verður þvi einhver bið á því að hann prófi hjólið.

Það má eiginlega segja að ég sé að láta gamlan draum rætast," sagði Vörður Leví um kaup sín á
glæsilegu Harley Davidson-mótorhjóli frá Bandaríkjunum á dógunum. „Ég var í löggunni í gamla daga og kynntist þessum hjólum þar en það er ekki nokkur spurning að nýja hjólið mitt er miklu betra en löggu hjólin," sagði Vörður Leví og hló dátt.  Nýja hjólið er 100 ára afmælisútgáfa Harley Davidson og sagði Vörður Leví að það hefði ekki verið dýrt miðað við önnur hjól af sömu tegund.

Þarf að bíða í mánuð 

Eins og áður sagði missti Vörður  Leví hjólið yfir sig þegar hann var að taka það út úr gámnum. „Hjólið stendur enn í gámnum enda er ég ekki í miklu standi til að keyra mótorhjól þessa dagana. Ég þarf að bíða í mánuð í viðbót en það verður bara enn skemmtilegra fyrir vikið,"
sagði hann og bætti því við að hann vonaðist til að komast í göngugifs í dag. „Það verður allt annað líf," sagði Vörður sem hefur verið frá vinnu síðan slysið átti sér stað.

Stofnar Holy Riders 

Vörður Leví var spurður hvort hann sé meðlimur í Harley Davidson-samtökunum á íslandi og sagði hann svo ekki vera. „Ég hafði nú ekki hugsað mér að ganga í samtökin en það er spurning hvort ég stofni ekki  mótorhjólasamtökin Holy Riders hérna í kirkjunni," sagði hann að lokum hlæjandi.
Dagblaðið 15.feb 2006

26.1.06

Fékk mótorhjóladelluna frá mömmu og pabba

 Ég vissi það nú alltaf að ég myndi á endanum fara út í mótorhjólin,“ segir Birna María Björnsdóttir athafnakona. Áhugamál hennar eru mörg og má til að byrja með nefna útivist, sem hún stundar af krafti árið um kring, auk þess sem hún ekur um á mótorhjóli þegar veður leyfir. Hún hefur líka stundað köfun og fallhlífarstökk sér til dægrastyttingar. „Foreldrar mínir eru báðir í mótorhjólunum, bróðir minn og kærastan hans líka sem og foreldrar hennar. Í kringum mig eru samtals um tíu til fimmtán manns með þennan mótorhjólaáhuga. Ég hef þess vegna ekkert langt að sækja áhugann.“ Birna hjólar um á Honda Shadow, 1100 kúbika. „Þetta er svokallaður hippi,“ segir hún, „glæsilegur fákur, sem þægilegt er að „krúsa“ um á á götunum. Hipparnir eru fyrst og fremst lífsstíll – ekki tæki til að slá hraðamet. Þeir eru gæjalegir með miklu krómi og glansandi tönkum.“

 Lét drauminn rætast í fyrra 

Þó að Birna sé ekki mjög gömul, rétt rúmlega þrítug, hefur hún gengið með það í maganum lengi að fá sér mótorhjól en það er ekkert langt síðan hún lét drauminn rætast og fékk sér eitt slíkt. „Síðastliðið vor fékk ég tækifæri og greip það. Mig vantaði eiginlega bara eitthvað að gera og skellti mér í prófið. Notaði svo hvert færi sem gafst síðasta sumar til að „krúsa“ um göturnar.“ Þar sem Birna er svo nýbyrjuð í sportinu hefur hún mest hjólað í nágrenni borgarinnar, en hún stefnir á lengri ferðalög um landið næsta sumar. „Foreldrar mínir hafa hins farið út til Flórída á vegum Harley  Davidson-klúbbsins á Íslandi og hjólað þar. Í sumar ætla þau að hjóla um í Skandinavíu. Ég á þetta eftir, er eiginlega ennþá bara sunnudags- og „í góðuveðri-hjólari“.“

Jafnréttið í nýrri mynd?

Mótorhjólaeign landsmanna hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og þeim fjölgar stöðugt sem stunda það að hjóla, að sögn Birnu. „Það hefur aukist mikið að konur taki prófið. Bæði eru það ungar konur og jafnvel fullorðnar sem hafa í mörg ár setið aftan á hjá manninum sínum en eru núna búnar að taka prófið og vilja fá að hjóla sjálfar.“ Kannski er jafnréttisbaráttan að skila sér þar á óvæntan hátt. „Það sem maður fær út úr því að hjóla er kannski spenna og töffaraskapur í senn,“ segir Birna skelmislega.

Lærði neðansjávarljósmyndun í Miami 

Nú eru hjólin og útivistin aðaláhugamál Birnu en ekki er langt síðan köfunin var mál málanna. „Ég bjó í Bandaríkjunum í mörg ár og þegar ég bjó í Miami lærði ég köfun og stundaði hana mikið allan veturinn,“ segir Birna María. „Ég fór m.a. í stórkostlega ferð til Bonaire, sem kölluð er Paradís kafaranna.“ Bonaire er eyja í Karíbahafinu, rétt hjá Venesúela. „Þar kafaði ég um tíma og lærði m.a. að taka neðansjávarljósmyndir og hitti fyrir ótrúlegar lífverur, t.d. sæhesta, risaskötur og sæslöngur. Ég hef ekki enn lagt fyrir mig köfun hér
heima á Fróni en það
kemur sjálfsagt að því einhvern tímann. Í dag uni ég mér þó hvergi betur en á fjöllum í íslenskri náttúru eða á nýbónuðu hjólinu í góðum gír,“ segir hin hressa Birna María að lokum.
Eftir Sigrúnu Ásmundar
sia@mbl.is
Morgunblaðið 27.01.2006

12.1.06

Upplifun erlends mótorhjólafólks á Íslandi

Eftir Viðar Jökul Björnsson

Ágrip
Mótorhjól eru ákveðinn fararmáti sem getur boðið upp á spennu og flæði adrenalíns.
Mótorhjólið getur líka verið tákn frelsis í hugum þeirra sem aka þeim og geta boðið
ökumanni sínum þann möguleika að skynja umhverfi sitt fullkomlega. Getur verið að
hjólið bjóði því erlenda mótorhjólafólki sem kemur hingað til landsins, þrátt fyrir
hverfult veður og oft óhentug akstursskilyrði, upp á annars konar upplifun á rými? Er
hér annars konar ferðamaður á ferðinni?
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mótorhjólaferðamenn
geti verið dæmi um hinn nýja ferðamann, harðgerðari ferðamann sem sækist eftir
nálægð við náttúruna og vill kynnast landinu á einstakan hátt en það tekst með aðstoð
mótorhjólsins, líkamans og skynfæranna. Mótorhjólafólk er tilbúið að láta ýmislegt
ganga yfir sig, svo sem vont veður eða torfærur í leit sinni að einstakri upplifun og
hinu ósvikna. Mótorhjólið gefur fólki þá tilfinningu að það sé nær náttúrunni en
farþegar í „búri“, en það segja margir mótorhjólamenn þegar þeir tala um bílinn.

Ritgerðin í heild



21.12.05

Á vélhjóli í jöklaferðir 2005


Jöklaferðir hafa á undanförnum árum verið vinsælar meðal jeppa-, skíða- og göngufólks. Færri stunda slíkar ferðir á vélhjólum en þeir eru þó til. Sveinn Birgisson er einn af þeim.

„Ég er búinn að vera að hjóla í 12 ár með hléum. Keypti skellinöðru þegar ég var 15 ára,“ segir Sveinn. „Það sem heillar mig við hjólin er hraðinn, góður félagsskapur, útiveran og snertingin við náttúruna.“
   Sveinn segist reyna að fara í tvö góð ferðalög hvert sumar á hjólinu en á veturna er stefnt á jöklana. En hvað er það sem heillar við jöklana og af hverju að fara þangað á mótorhjóli af öllum farartækjum? „Af sömu ástæðu og maður fer á vélsleða. Það er ómögulegt að láta græjurnar standa inni, það þarf að vera hægt að nota þetta yfir veturinn líka. Að komast á jökul er alltaf sérstakt, allt öðruvísi en að vera í Bláfjöllum til dæmis. Þeir toga alltaf í mann. Ef veðrið er gott er útsýnið og hreinleikinn svo mikilfenglegt að maður fær hálfgert víðáttubrjálæði. Maður veit líka að það komast ekki allir þangað. Þetta er ekki eins og að kaupa flugmiða til London,“ segir Sveinn með virðingarvotti í röddinni. Hann hefur líka reynslu af jeppa-, vélsleða- og gönguferðum á jökla svo það kemur kannski ekki á óvart að hann sæki þangað líka á vélhjóli.
   Jöklaferðir á vélhjólum eru ekki ýkja frábrugðnar vélsleðaferðum. Aðalatriðið er að vera vel klæddur og varinn. Maður finnur mikið fyrir veðrinu og snörpum hreyfingum. Hraðinn er meiri en í jeppaferðum og oft gefast fleiri tækifæri til að stökkva og leika sér. „Fyrir utan hlýjan fatnað þurfa allar hlífar að vera til staðar. Nýrnabelti og brynja eru skilyrði. Maður þarf líka enduro- eða krossaraskó, hjálm auðvitað og svo er alltaf að færast í vöxt að vera með hálskraga sem öryggisbúnað. Hvað hjólið varðar er gott að vera á ísdekkjum. Þau eru með nöglum sem eru mitt á milli nagla í bíldekkjum og nagla í sleðabeltum. Svo er mjög gott að vera með ískross ádrepara. Þá er snúra frá ádreparanum bundin í úlnlið ökumannsins. Ef hann dettur af hjólinu drepst á mótornum og hjólið skaðar engan,“ segir Sveinn og bætir við að gullna reglan um jöklaferðir eigi líka við ef maður stundar þær á vélhjóli: „Það er bannað að slasa sig.“
   Spurður um hvort vélhjólatímabilið sé ekki búið þennan veturinn svarar Sveinn: „Nei, nei, það er rétt að byrja. Hjólið mitt er á númerum og verður það fram undir páska alla vega.
Fréttblaðið 21.12.2005