16.6.04

Enduro Test 2004

Búið að stilla hjólunum upp á Reykjavíkurflugvelli. Þrátt fyrir
hamagang stóðust öll hjólin þrautirnar án þess að bila 
sem telst meðmæli í sjálfu sér. 

Ertu spennt/ur að vita hvað er hvað í heimi 450cc fjórgengishjóla? Ef svarið er já, lestu þá áfram því við settum 5 heitustu hjólin í dag í reynsluakstur þar sem kostir og gallar hvers hjóls komu glöggt fram þegar þau fóru undir hamarinn. Þórir Kristinsson hafði umsjón með undirbúningi og framkvæmd reynsluakstursins.

Hjólin sem um ræðir eru GasGas 450 fse,Yamaha WR450, Husaberg 450 Fe, TM 450 VOR 450. KTM 450

Til stóð að fá KTM  450 með í þennan reynsluakstur, enda þykja þau standa mjög framarlega í þessum flokki en því miður var ekki unnt að verða við þeirri ósk okkar. Til að fá sem breiðasta innsýn inn í reynsluaksturinn fékk ég til liðs við mig þá Heimi Barðason, Jón Bjarnarson og Reyni Jónsson sem allir eru gamlir refir í sportinu.

GasGas

GasGas er sett saman í lítilli verksmiðju á Spáni af mönnum meitluðum af djúpri hefð og ástríðu fyrir svokölluðum klifur (trials) mótorhjólum. Þegar enduro-hjól komu frá verksmiðjunni fundu margir eiginleika klifurhjólsins í þessu nýja hjóli Spánverjanna. Út- koman er hjól sem er ótrúlega lipurt og notendavænt en leynir þó á sér og hreinlega flengist áfram þegar snúið er upp á rörið. GasGas mótorinn hefur mjög breitt vinnslusvið, það er afl alstaðar en samt skilar hann því átakalaust frá sér, næstum því silkimjúkt. Þú gætir ruglast og talið að hjólið sé kraftlaust en tilfellið er að það mokvinnur, það bara gerir það án þess að vera með læti. Þetta má að miklu skrifa á beinu innspýtinguna en þar stendur GasGas fetinu framar en keppinautarnir sem nota allir ?gamaldags? blöndunga.  Eftir þessi kynni finnst manni vélarhljóð hinna hjólanna líka ansi óhreint á meðan Gasserinn er silkimjúkur á öllum vinnslusviðum. Fjöðrunin er einnig mjög góð og var hjólið líklega í hvað bestu samræmi hvað varðar fram og afturfjöðrun. Hjól sem í gegnum tíðina hafa haft lipra aksturseiginleika hafa gert það á kostnað stöðugleika hjólsins þegar ekið er á mikilli ferð og GasGas er ekki undnskilið þessu lögmáli. Það skortir nokkuð á öryggistilfinninguna þegar hjólinu er ekið í hæsta gír á miklum hraða, hjólið er ekki það rásfastasta á þessu hraðasviði. En hjólið er ekki að svíkja mann svo illa að ekki megi komast hjá þessum greinilega háhraðaskjálfta með aðgát. Við höfum upplifað þetta sterkar á öðrum hjólum í gegnum tíðina. Sumum okkar fannst hjólið helst til þungt og vanta lítillega upp á toppkraft hjólsins, en skoðanir voru samt skiptar um þetta meðal reynsluakstursmanna. Frágangurinn á hjólinu er ekki jafnlýtalaus og á japönskum hjólum en engu að síður vel fullnægjandi. Sumum kann að finnast umsögnin um GasGas vera eindregið jákvæð. Hún er það líka. Tilfellið er að kostir hjólsins eru margfalt fleiri en gallarnar. Stærsta vandamálið er líklega tengt því að útvega sér hjólið því Spánverjarnir anna vart eftirspurn. GasGas 450 fse fæst hjá JHM Sport og kostar 898.000 stgr. (www.jhmsport.com)

Husaberg FE450

 Husaberg stendur á krossgötum. Þetta hjól, sem hannað er með kraft og léttleika að leiðarljósi, hefur þótt hafa fullháa bilanatíðni, eins og flestir vita. Það sem ekki allir vita er að mikið vatn hefur runnið til sjávar sl. 1-2 ár og hjólin verið endurbætt. Endurbætur sem eru líklegar til að auka endingu og áreiðanleika sænsku hjólanna. Mótorinn í Husaberg er hugarfóstur Thomas Gustavsson, fyrrverandi heimsmeistara í enduro, og hann er alveg sterkur allt frá lágsnúningi upp í efsta hluta vinnslusviðsins þar sem hann þeytir hjólinu rösklega, en þó ekki fruntalega, vel á annað hundraðið. Mikið hefur verið lagt í að gera þetta hjól létt og vegur það minnst af öllum þessum hjólum. Þetta samspil léttleika og góðs mótors gerir það að verkum að Husaberg virkar sem mjög hvetjandi hjól í akstri, þeim mun hraðar sem þú vilt fara þeim mun betra. Ef aðeins Thomas og félagar lærðu að búa til netta bensíntanka, en þessi klunna legi bensíntankur var stærsta um kvörtunarefni hópsins í reynsluakstrinum. Þetta er tæplega hjólið fyrir unglinginn, til þess er það of sérstakt. Þetta hjól mun e.t.v. falla best þroskuðum ökumönnum sem vilja enduro-hjól með stóru E-i. Hjólið fæst í verslun Nitro (www.nitro.is) og kostar 860.000 kr., en þess má til gamans geta að fyrir 80.000 krónur má umbreyta þessu öfluga hjóli í super moto götuhjól.

Yamaha WR 450

Það lætur nærri að WR-hjólin séu mest seldu enduro-hjól í heimi sem í sjálfu sér hljóta að teljast ágæt meðmæli. WR 450 er sterkt hjól, afar öflugt og óhætt að gefa því bestu einkunn hvað varðar áreiðanleika og endingu. Vinnsla hjólsins kom flestum þægilega á óvart, það hefur svipaða seiglu og XR 600 neðst á vinnslusviðinu en togar eins og stórt tvígengishjól upp á ærandi snúning og skilar aflinu frá sér ansi rösklega, fullrösklega fyrir smekk sumra. Einn helsti akkilesarhæll þessa hjóls er vafasamur hljóðkútur því hjólið er ann- aðhvort mjög hljóðlátt eða mjög kraftmikið og lifandi, en ekki bæði í einu sem fellur illa að vaxandi um hverfishyggju nú á tímum. Kúpling in á Yamaha er einnig sú stífasta og
fékk hjólið mínus í kladdann fyrir að þreyta okkur alla óþarflega mikið í vinstri hendinni. WR er ekki þyngsta hjólið í kílóum talið en þar sem þyngdarpunktur hjólsins er fremur ofarlega fer hvert kíló að gera meira vart við sig, sérstaklega í beygjum. Hjólið er fremur hátt og stórt og hentar sérstaklega vel fyrir hávaxna ökumenn. Fjöðrunin vinnur miðlungsvel úr þungum og hægum höggum, (s.s. í djúpum sandi á lítilli ferð), en þegar hraðinn eykst er Jamminn kominn á heimavöll og étur upp þær hindranir sem á vegi hans verða. Hjólið fæst hjá Arctic Trucks/Yamaha og kostar 911.000 kr. (www.yamaha.is). Ef líkja ætti Yamaha WR við hest teldist það seint góður barnahestur. Til þess er það of stórgert og gróft. Aftur á móti er hjólið stórskemmtileg blanda af vinnu og veðhlaupahesti. Hægt er að þeytast á því allt árið án þess að það slái feilpúst. Ef þér skyldi svo detta í hug að keppa á hjólinu þarf ekkert til nema bensín á tankinn og góða skapið.

TM450

  TM á meira sameiginlegt með motocrosshjóli en hinu dæmigerða enduro-hjóli. Þetta er fjórgengishjól með snerpu tvígengishjóls og hentr því langbest sem keppnistæki. Hinn dæmigerði ökumaður sem sér fyrir sér rólega sunnudagsrúnta ætti ekki að hugsa um TM. Til eru önnur hjól sem skila sínu miklu betur við slíkar aðstæður. Mótorinn á TM er hraðgengur og aflið kemur inn með miklum látum. En það á ekki að koma á óvart, hjólið er jú eftir allt smíðað með keppni í huga. Þeir okkar sem sóttust eftir "kikkinu" fundu það svo sannarlega á þessu hjóli. Það er líka gaman að horfa á TM-ið. Hjólið er skemmtilega smíðað og hlaðið frábærum búnaði, s.s. Öhlins-fjöðrun, fallegum bláum gjörðum og fleiru. Fyrri daginn ókum við í braut sem á um margt skylt við motocrossbraut og hjólið bar af í þessum aðstæðum. Mikið rosalega var gaman að sprengja sig út úr djúpum sandbeygjum á þessum fola með spólstrókinn á eftir sér. Fjöðrun hjólsins fékk einnig mikið lof allra enda ekki við öðru að búast frá Öhlins og hún bar það einnig með sér að með lítilsháttar vinnu í stillingum megi stilla fjöðrunina hárfínt fyrir hvaða aðstæður sem er. Lögun hjólsins er einnig til þess gerð að auðvelda færslu líkamsþyngdar fram og aftur á hjólinu eins og á motocrosshjólum enda hjólið grannt og flatt ásetu. Sætið var dáldið hart fyrir mjúka bossa en varla hægt að setja út á það þar sem hjólinu var ekki ætlað að vera þægilegt. Titringur frá mótor upp í stýri var töluvert greinanlegur og hávaðinn í hjólinu mikill og sver sig í ætt við lætin í WR 450. TM kostar 999.000 kr. og fæst hjá JHM sport (www.jhmsport.com) og er hægt að fá Öhlins framdempara á hjólið fyrir 60.000 kr. aukalega. TM er villikötturinn í hópnum. Það kemur út úr umboðinu tilbúið í keppni. Hjólinu fylgir lítill púki sem situr á öxlinni á þér og hvíslar að þér hraðar, hraðar, hraðar.


VOR

VOR 450 er án efa fallegasta hjólið í hópnum en um leið það hjól sem framkallaði hvað ólíkust viðbrögð. Annaðhvort hatarðu það eða elskar. Eiginlega ekkert þarna á milli. Það sem allir voru þó sammála um er að þetta hjól er ólíkt öllu öðru sem er í boði á mark- aðnum í dag. Mótorinn er eins og ódrepandi traktorsmótor, með alla vinnsluna á einum stað, alveg neðst. Það er ekki hægt að kæfa mótorinn, hann mallar bara og mallar og svo snýrðu upp á bensíngjöfina, ferð í gegnum gírana og hraðinn eykst en samt er eins og hjólið sé alltaf á sama lágsnúningnum. Þetta er það hjól sem finnur grip allstaðar og þegar önnur hjól fara að spóla bítur VOR sig fast við jörðina. Annað sérkenni þessa hjóls er framendinn. Það er eins og framhjólið hafi gert samning við náttúruöflin um að toga sig niður með margföldu þyngdarafli, hjólið steinliggur að framan eins og ekkert annað sem þú hefur kynnst áður. Hjólinu hlaust einnig sá vafasami heiður að vera þyngsta hjólið í hópnum í kílóum talið og þessir áðurnefndu eiginleikar hjólsins (traktorsmótor og þungur framendi) gera það að verkum að maður verður töluvert var við allan þennan massa sem maður hefur í höndunum. Það sem vegur á móti þessari miklu þyngd er Öhlinsfjöðrunin, og einnig það að þyngdarpunktur hjólsins er fremur neðarlega. Frágangur hjólsins er í heildina góður og smíðin virkar vönduð. Startsveif hjólsins er frábrugðin öllum öðrum hjólum því hún gengur fram en ekki aftur þegar maður stígur á hana. VOR er á kynningartilboði þessa dagana á 859.000 kr. og má fá allar upplýsingar um hjólið og umboðsaðila þess á Íslandi á www.vor.it. VOR gerði þennan reynsluakstur eftirminnilegan. Hjólið virkar, a.m.k. fyrir suma og um það bera alþjóðlegir meistaratitlar vitni.


Hvað er best? Að útnefna eitt hjól sem afgerandi sigurvegara er ekki hægt með góðu móti. Hér er þetta orðið spurning um að hver og einn vegi kosti og galla hvers hjóls í samræmi við óskir sínar. GasGas er líklega það hjól sem hvað flestir yrðu ánægðir með, eða ylli hvað fæstum vonbrigðum eftir því hvernig menn líta á þetta.

16.06.2004
Morgunblaðið/ÞÖK
Fullvaxin enduro-hjól

3.6.04

Husqvarna sigraði á Klaustri


Um síðustu helgi var eitt allra stærsta akstursíþróttamót landsins haldið á Kirkjubæjarklaustri. Um 400 keppendur frá 4 löndum komu saman til að keppa í þolakstri á torfæruhjólum en áætlað er að í heild hafi hátt í tvö þúsund manns mætt á svæðið. Bjarni Bærings fylgdi straumnum á Klaustur og gerir hér mótinu skil.

Þessi árlega þolaksturskeppni fer þannig fram að öllum keppendum er raðað upp á ráslínu, sitjandi á torfæruhjólum sínum með dautt á vél. Þegar flaggað er til leiks ræsa keppendur vélarnar og þeysa af stað á 17 kílómetra langri braut sem lögð er í stóran hring um landslag svæðisins, sem samanstendur af gígóttu graslendi í bland við gljúpan sand og hvasst hraun. Ekið er í 6 klukkustundir samfleytt og sá sigrar sem flesta hringi ekur. Auk einstaklingsflokks er keppt í tvímenningsflokki en þá skiptast tveir ökumenn á að keyra.

Um 400 keppendur mættu til leiks

Mótið fór fram í landi Efri-Víkur við Kirkjubæjarklaustur. Kjartan Kjartansson, kennari á  Kirkjubæjarklaustri, á veg og vanda að þessu alþjóðlega móti sem fór nú fram fjórða árið í röð. Um 400 keppendur frá 4 löndum mættu til leiks, en vel á annað þúsund manns sóttu svæðið, nutu veðurblíðunnar og fylgdust með sleitulausri 6 tíma baráttu.

Svíaslagur um forystuna

Yamaha-liðið með þá Micke Frisk frá Svíþjóð og Brent Brush frá Bandaríkjunum innanborðs tók
strax forystu og leiddi keppnina framan af. Micke var að keppa í sitt þriðja skipti en Brent hefur einu
sinni áður keppt á Klaustri. Husqvarna-liðið, skipað Svíanum Anders Eriksson og Bretanum Tony
Marshall, fylgdi fast á eftir, gaf Yamaha-liðinu aldrei færi á að komast frá þeim og náði forystu á köflum. Þriðja parið sem blandaði sér í baráttuna samanstóð af þeim Ed Bradley frá Bretlandi og Einari Sverri Sigurðarsyni á KTM.

Tryggði sigurinn í síðasta hringnum 

Heimir Barðason er ekki kallaður Lopi
að ástæðulausu, enda keppir hann
jafnan í þéttprjónaðri lopapeysu.
Hart var barist á hverri sekúndu og slegist um aksturslínuna í hverri beygju allar þær sex klukkustundir sem keppnin stóð yfir. Þegar kom að lokahringnum höfðu Micke og Brent 10 sekúndna forystu á Anders og Tony. Brent var lurkum laminn eftir harða byltu og Micke varð því að keyra síðustu 3 hringina sjálfur. Micke þurfti að taka örstutt eldsneytishlé og Anders nýtti sér það til að taka forystuna. Anders, sem hefur verið atvinnuökumaður hjá Husqvarnaliðinu síðustu 9 ár og á að baki 7 heimsmeistaratitla í þolakstri, keyrði lokahringinn af miklu öryggi og leyfði engum að ógna sigrinum. Dauðuppgefinn kláraði Micke keppnina í 2. sæti, töluvert á eftir Anders, og Ed Bradley og Einar Sigurðarson áttu 3. sætið nokkuð öruggt.

Mbl 03.06.2005

31.3.04

Nýjustu motocrosshjólin mætast í risareynsluakstri


Suzuki /Honda og Yamaha

Kawasaki /TM og KTM
Leiksviðið er Vestmannaeyjar, líklega best þekktar sem átakasvæði óvæginna náttúruafla, nema hvað að þessu sinni eru átökin af mannanna völdum. Við erum
að tala um stærsta reynsluakstur sinnar tegundar á Íslandi þegar leidd voru saman öll nýjustu motocrosshjólin í létt- og millivigtarflokki.

Umsjón með prófinu og höfundur greinar er Þórir Kristinsson. 

Þennan flokk skipa Honda CRF 250,nýjasta útspil Hondu sem fjallað var um í Bílum fyrr í vetur. Yamaha YZF 250 sem hefur verið nokkuð einrátt í þessum flokki frá árinu 2001 en hefur nú fengið
harða samkeppni. Suzuki RMZ og Kawasaki KXF 250, sem einnig hafa sést á síðum Bíla og eru eineggja tvíburar enda afrakstur samstarfs Suzuki og Kawasaki og því í raun sama hjólið að litnum undanskildum. Þótt ekki hafi verið kostur á að reyna fjórgengishjól frá KTM og TM eiga þeir sína fulltrúa í þessum hópi í formi öflugra 125cc tvígengishjóla og höfðum við þau með í þessum  reynsluakstri enda keppa þau í sama flokki. Hins vegar mega menn búast við að sjá ný og öflug fjórgengishjól rúlla af færibandinu frá þessum framleiðendum í náinni framtíð.
Reynsluaksturinn fór fram á motocrossbraut þeirra Vestmannaeyinga, sendinni eldfjallabraut sem sannarlega á engan sinn  líka í heiminum, og vil ég fá að þakka kærlega fyrir afnotin af henni og eins þeim er hjálpuðu til við að gera allt þetta mögulegt. Til að fá sem besta og breiðasta innsýn inn í þennan fríða flokk hjóla fékk ég til liðs við mig þá Heimi Barðason, gamlan ref í hjólabransanum, og Reyni Jónsson, fyrrverandi Íslandsmeistara í motocrossi og án efa einn af okkar bestu ökumönnum í dag. Eftir átök dagsins, þar sem öll hjólin voru reynd til hins ýtrasta, settumst við niður og bárum saman bækur okkar. Sumt fór alveg eins og okkur grunaði. Annað kom algerlega á óvart.

Suzuki RMZ250 og Kawasaki KXF250


Samvinna Kawasaki og Suzuki hefur nú litið dagsins ljós og senda verksmiðjurnar í fyrsta skipti fjórgengishjól inn í létt/millivigtarflokkinn sem hafa hlotið nöfnin KXF og RMZ.
Verkaskiptingin var þannig að Suzuki hannaði vélina og Kawasaki smíðaði grindina og fjöðrunina (Kayaba). Fjöðrunin er fín en við fundum fyrir smáóstöðugleika á ferð. Ekkert alvarlegt þó. Hjólin tvö eru þau sömu fyrir utan lögun og lit á plasti hjólsins. Að sitja á hjólunum er þægilegt enda hjólin grönn og nett í laginu. Mjög hávöxnum mönnum mun þó finnast fulllítið bil frá sæti niður á
standpetala sem gerir sitjandi stöðu ansi samankreppta. Sneiða má hjá þessu með hærra sæti og hærra stýri hjálpar líka með standandi stöðu. Vélin skilar snörpu afli alveg upp úr neðsta vinnslusviði og það gerir það að verkum að hjólið er létt og skemmtilegt í akstri og hentar vel á brautir sem hafa þröngar beygjur og stutta aðkeyrslu upp á stökkpalla. Stjórntæki hjólsins eru afar vel heppnuð og er t.a.m. kúplingin líklega sú besta í þessum flokki hjóla. Við höfum heyrt töluvert um vandamál sem  tengjast ofhitnun á þessum hjólum en getum með góðri samvisku sagt að ekkert slíkt kom upp þennan
dag í erfiðri sand- og vikurbraut þeirra Eyjamanna. Helsti ókostur þessara hjóla er e.t.v. sá að töluvert
var um titring frá vél upp í stýri og skrifast það líklega á að engin jafnvægisstöng (counterbalancer) er í þessum hjólum. Þetta fyrsta ár RMZ/ KXF lofar góðu. Hjólin eru vel smíðuð og heildarmyndin afar vel heppnuð. Suzuki-umboðið í Hafnarfirði selur RMZ og kostar það 790.000 staðgreitt. KXF fæst hjá versluninni Nitro og kostar 780.000 staðgreitt.

Honda CRF 250 

Honda hefur ekki farið sér óðslega í því að koma þessu hjóli á markað og eytt gríðarlegum tíma í hönnun og rannsóknarvinnu. Útkoman er hjól sem er eins og smækkuð mynd af stóra bróður, CRF 450, sem getur ekki boðað annað en gott. CRF 250 skilar góðu afli, frábærum aksturseiginleikum, góðri fjöðrun og góðri endingu. Nokkurn veginn allt sem  skiptir máli. Það er gaman að horfa á Honduna, hún er falleg og setur nýja álgrindin stóran svip á hjólið. Vélin er fjögurra ventla og ólík hinum hjólunum að því leyti að hún og gírkassinn hafa tvö aðskilin smurkerfi, sem á að skila betri smurningu. Það sem einkennir þetta hjól er að það virðist alltaf vera nægt afl og tog til staðar og hjólið er ekki viðkvæmt fyrir því í
hvaða gír maður er þegar gefið er inn. Honda kemur með Showa-fjöðrun sem reyndist vel við flestar  aðstæður hvort sem það var yfir gróf  þvottabretti eða í lendingu eftir stökk. Stöðugleiki hjólsins var einnig með ágætum. Eins og með RMZ og KXF er bilið frá sæti niður í standpetala fulllítið fyrir menn sem eru yfir 191cm á hæð og gerir sitjandi stöðu pínulítið óþægilega. En með fullri sanngirni er ekki annað hægt en að ausa þetta hjól lofi. Það gerir e.t.v. ekkert langbest; það hefur ekki kraftmestu vélina eða bestu fjöðrunina. En það gerir hins vegar allt mjög vel og ekkert illa og er því á heildina litið líklega besta hjólið í þessum flokki. Ef eitthvað má finna að hjólinu er það líklega að það skilar
Hvað Fannst þeim
sínu svo vel og örugglega að ökumaðurinn verður helst til værukær og latur. Honda CRF kostar 823.000 staðgreitt og fæst í Hondaumboðinu Vatnagörðum.

 Yamaha YZF 250

 Yamaha hefur farið með tögl og hagldir í þessum flokki allt frá því það sendi fyrst frá sér YZF250 árið 2001. Síðan þá hefur hjólið fengið lítilsháttar andlitslyftingu ár hvert og fyrir 2004 var megináherslan lögð á að létta hjólið enn frekar og má nefna að standpetalarnir og fremra púströrið eru úr titanium. Yamaha hefur einka leyfi á 5 ventla vél sinni en ólíkt öðrum hjólum er olíuforðinn fyrir hana geymdur í grind hjólsins. Miðað við önnur hjól skilar Yamaha-vélin mestu og bestu togi á miðju og hæsta vinnslusviði. Á lágsnúning er Jamminn þokkalegur, maður þarf dálítið að gæta að því í hvaða gír maður er og e.t.v. að hjálpa til og snuða á kúplingunni á köflum til að ná inn aflinu. En þegar komið er hærra í vinnslusviðið fara hlutirnir að gerast fyrir alvöru og þegar hraðinn er orðinn mikill er hjólið konungur í ríki sínu. YZF kemur með 48mm Kayaba-fjöðrun sem virkar mjög svo vel og gersamlega  étur upp allar þær hindranir sem verða á vegi hjólsins. Hjólið er afar stöðugt á ferð og beinlínis kallar á að því sé ekið hratt. Stjórntæki hjólsins eru þokkaleg, þó ekki eins góð og á hinum hjólunum sem hafa töluvert betri  bremsur og léttari kúplingu. Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Yamaha fær samkeppni í þessum stærðarflokki fjórgengishjóla er líklegt (og vonandi) að þeir í Japan bretti upp ermarnar og geri kúplinguna léttari og bremsurnar betri fyrir næsta ár. Það er dálítið gamaldags tilfinning að sitja á hjólinu, það er langt og sumum þykir það of breitt um miðjuna. Þrátt fyrir nokkra galla og harða samkeppni frá öðrum er YZF enn í dag mikil keppnisgræja og mjög áreiðanlegt hjól. Hjólið kostar 825.000 staðgreitt og fæst hjá Arctic Trucks/Yamaha.

KTM 125SX

 Fyrir um 10 árum tóku fáir KTM alvarlega, en í dag er öldin önnur. KTM hefur stimplað sig rækilega inn sem framleiðandi og vitna sölutölur og meistaratitlar um það. Fyrir þá
sem ekki vita keppa 125cc tvígengishjól í sama flokki og 250cc fjórgengishjól og má sjálfsagt deila um sanngirni þess. Þó má benda á að besti ökumaðurinn í ameríska supercrossinu í þessum flokki  (sem sýnt er á sjónvarpsstöðinni Sýn) heitir James Stewart og tekur 125cc tvígengishjól fram yfir öflugri fjórgengishjól. Tvígengishjólin hafa ýmsa kosti sem fjórgengishjólin hafa ekki. Þau skila
snarpara afli og eru léttari og meðfærilegri í akstri en fjórgengishjólin. Hönnun KTM er engu lík, maður bara finnur það um leið og maður sest á hjólið. Mótorinn er afar öflugur og þótt munurinn á KTM 125 og stærri hjólunum sé nokkur er í raun ótrúlegt hversu lítið hann gaf stærri hjólunum eftir í  sandinum. Bremsur, gírkassi og fjöðrun virkuðu alveg eins og vera skyldi en það var helst á þeim
köflum þar sem maður kom hjólinu á sæmilega ferð að það fannst fyrir óstöðugleika. Það er svo sem ekkert nýtt af nálinni en KTM-eigendur hafa komist fyrir það með því að setja stýrisdempara á hjólin. Stjórntæki  hjólsins eru til fyrirmyndar og frambremsa þess er með eindæmum góð.Í beinum samanburði vantar KTM 125SX auðvitað nokkurt afl til að standa jafnfætis 250cc hjólunum, sérstaklega upp brekkur og í djúpum sandi. En fyrir unglinga er erfitt að ímynda sér skemmtilegra og betra hjól. Það 125cc hjól sem slær KTM 125SX við má vera fjári gott. Hjólið kostar 698.900 stgr og fæst hjá versluninni Moto/KTM.

TM 125


 Ítalir hafa verið þekktir fyrir að smíða hasta og hraðskreiða bíla og þetta hjól ber nokkurn keim af því. Hjólið er létt og fremur meðfærilegt og má e.t.v. segja að þetta hjól komi eins og harðkjarnakeppnisgræja beint út úr umboðinu. En þarf það að vera gott? Svarið er já og nei. Þegar maður kaupir TM er maður fyrst og fremst að fá keppnishjól hlaðið dýrum búnaði, s.s. vökvakúplingu, álstýri og Öhlins-fjöðrun svo lítið eitt sé nefnt. Fyrir marga er þetta hjól hins vegar ansi hast og fjöðrunin nokkuð stíf. Við stilltum fjöðrunina reyndar upp á nýtt og við það lagaðist hjólið töluvert en var samt í stífari kantinum fyrir okkar smekk. Vinnslusvið þessa hjóls er ágætt, aflið kemur ansi snöggt inn og krefst TM því meiri nákvæmni og athygli ökumanns og  fyrirgefur minna en hin hjólin í reynsluakstrinum. Stjórntæki hjólsins virka vel og glussakúplingin er ljómandi góð og hjólið er fallegt á að horfa. E.t.v. er stærsta takmörkun þessa hjóls að það er ekki fyrir hvern sem er. Það hefur góða aksturseiginleika en þú þarft að vera afar góður ökumaður til að skilja þá og geta nýtt þá til fulls. Það geta bæði Viggó Viggósson og Kári Jónsson vitnað um en þeir eru í hópi okkar bestu ökumanna og keyra báðir á TM með góðum árangri. TM 125 fæst hjá  JHM sport og kostar 723.900 staðgreitt.

Að lokum

 Þegar upp er staðið er ekkert eitt hjól sem skarar fram úr öðrum en ef það er eitthvert hjól sem stendur fetinu framar en önnur verður Hondan fyrir valinu enda gerir hún flest vel og mun falla stórum hópi ökumanna í geð. Það sem kemur þó til með að vega þungt þegar menn velja sér hjól er verð, varahlutaþjónusta og persónulegt álit hvers og eins því öll þessi hjól bera það með sér að geta lent á verðlaunapalli í motocrossi í sumar.
Morgunblaðið 31.03.2004

10.3.04

Íscrossmót á Mývatni

 

Hið árlega meistaramót í íscrossi var haldið laugardaginn 28. febrúar á Mývatni. 

Mótið var haldið af Vélsleðaklúbbi Mývatnssveitar í samstarfi við Björgunarsveitina Stefán. Þátttaka var góð og keppt var í svokölluðum naglaflokki á motocrosshjólum þar sem vélastærð skipti ekki máli. Veðrið lék við þátttakendur og hiti var rétt yfir frostmarki. Skemmtu ökumenn sér vel við þessar frábæru aðstæður sem og áhorfendur líka. Keppt var í fjórum umferðum. 

Sá sem stóð uppi sem sigurvegari vann og sá sem sigraði allar umferðirnar með þó nokkrum yfirburðum. 

Sigurvegari varð Kári Jónsson en í öðru sæti varð Jóhannes Már Sigurðarson og Ingólfur Jónsson hafnaði í þriðja sæti.

25.2.04

Mig langar í þríhjól



 NÝLEGA fluttum við fréttir af Goldwing 1800 þríhjóli sem væntanlegt var til landsins. Það er nú komið í hendur eiganda síns, Maríu Hafsteinsdóttur, og komið á númer. 

Þótti okkur því tilvalið að heyra aðeins í henni og spyrja hvað fengi fólk til að kaupa slíkan grip sem þetta hjól er. „Ég sá svona hjól fyrst í Halifax í Kanada 1997 en spáði þá ekki svo mikið í það,“ segir María um fyrstu kynni sín af þríhjólum. „Við hjónin vorum svo á mótorhjólamóti í Daytona árið 2000 og þá fórum við að skoða þau betur. Ég mátaði svona hjól og leist vel á og þá fórum við að skoða það í framhaldinu hvar við gætum fengið slík hjól,“ segir María. „Hjólið fundum við svo hjá söluaðila sem sérhæfir sig í Goldwing-hjólum og þríhjólum frá Lehman sem er þekkt merki í þeim geira hjólamennskunnar.“


Sérhæfa sig í Goldwing-þríhjólum 

  Lehman hafa sérsmíðað mörg hundruð þríhjól síðan þeir hófu að sérhæfa sig í þeim árið 1992 en Goldwing-hjól eru þeirra sérgrein, þótt þeir smíði einnig upp úr öðrum gerðum. Hjólið kemur með sérsmíðuðum framdemparafestingum sem eykur halla framfjöðrunarinnar. Það styttir ferilinn á framhjólinu þannig að hjólið verður léttara í stýri sem er nauðsynlegt þegar viðnám og þyngd er aukin að aftan. Afturgaffall er eitt stykki með sérstökum stífum sem tryggir að hjólið hallar ekki út í beygjum, enda kallast þetta kerfi þeirra No lean.


Öðruvísi í akstri 

 „Það er töluvert öðruvísi að keyra þríhjól en venjuleg mótorhjól,“ segir María um aksturseiginleika þríhjóla. „Maður þarf ekki að halda jafnvægi þegar hægt er farið eins og á mótorhjóli og það er erfitt til að byrja með að venja sig af því að setja niður fætur. Maður notar meira hendurnar í beygjum þar sem maður getur ekki hallað því enda er stýrið nákvæmt og fljótt að taka við sér. María sagðist hafa orðið vör við að hjólið vekti töluverða athygli enda blikkuðu menn ljósin á bílum sínum þegar þeir mættu henni á fyrsta rúntinum um götur Reykjanesbæjar. „Ég hlakka til að fara í alvöru ferðalög á þessu hjóli, enda tekur það kynstrin öll af farangri í skottið,“ segir María. Skottið er opnanlegt með fjarstýringu sem og aðrar læsingar á hjólinu. Auk þess er hjólið með bakkgír sem er rafdrifinn og er bakkað með því að ýta á takka, sem að bremsar sjálfkrafa þegar honum er sleppt.

Morgunblaðið
25.2.2004

17.12.03

Tvær bækur um mótorhjól


UM þessar mundir er verið að skrifa tvær bækur um mótorhjól á Íslandi. Annars vegar er um að ræða 20 ára afmælisrit Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla, sem kemur út á næsta ári.


Annars vegar er um að ræða 20 ára afmælisrit Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla, sem kemur út á næsta ári. Áætlað er að sú bók verði tæplega 200 síður í A4-broti og prentuð í lit og því öll hin glæsilegasta. Samið hefur verið við fyrirtækið Hönnun og umbrot ehf. að annast útgáfu og sölu þessarar bókar. 
Í bókinni verður fjallað um 20 ára sögu samtakanna og eru gamlir félagar, sem eiga til góðar sögur og myndir, hvattir til að hafa samband við ritstjórnina á netfanginu sniglar@design.is.


100 ára afmælið



Árið 2005 eru 100 ár síðan fyrsta mótorhjólið kom til landsins og af því tilefni mun um jólin 2004 koma út saga mótorhjólsins fram að stofnun Sniglanna árið 1984. Fyrsti mótorhjólamaður landsins var Þorkell Þ. Clementz vélfræðingur sem einnig var fyrsti bílstjóri Thomsen-bílsins. Hann kom með fyrsta hjólið 20. júní 1905 og sótti reyndar um einkaleyfi á vörumerkinu ELG fyrir það, en ekki er vitað til að sú tegund hafi nokkurn tímann verið við lýði.
 Hjólið var í samkeppni við bílinn og þótti fljótt í ferðum miðað við hann. Að sögn Njáls Gunnlaugssonar, höfundar bókarinnar, er lítið annað vitað um þennan grip og engar myndir til af hjólinu svo vitað sé. "Þorkell var mikill frumkvöðull og því væri gaman að vita meira um hann ef einhver skyldi lúra á upplýsingum um hann. Í bókinni verður einnig fjallað um aðra frumkvöðla, en mótorhjólin urðu oft fyrst til að komast ákveðnar leiðir um landið. Meðal annars mun fyrsta vélknúna farartækið til að fara yfir Kjöl hafa verið mótorhjól.
 Ekki verður skrifað um mótorhjólasögu landans án þess að fjalla um Lögregluna í Reykjavík, sem í rúm 60 ár hefur notað Harley Davidson-hjól í þjónustu sinni. Einnig verður til dæmis fjallað um skellinöðruklúbbinn Eldingu sem Æskulýðsráð Reykjavíkur stóð fyrir, en margir þjóðþekktir einstaklingar voru þar virkir félagsmenn um tíma," sagði Njáll.


Sem hluta af þessu verkefni Njáls hefur hann sett saman lista með upplýsingum um gamla eigendur og tegundir mótorhjóla á Íslandi og er nú svo komið að yfir 800 fornhjól eru á þessum lista. Vill Njáll hvetja alla sem eru með gömul mótorhjól eða upplýsingar um þau að hafa samband í síma 898-3223 eða skrifa honum tölvupóst á netfangið okukennsla@simnet.is og nálgast jafnvel upplýsingar um gömlu hjólin sín og bæta í gagnagrunninn.


"Myndir og sögur í bókina eru líka vel þegnar því enn má bæta í eyðurnar í sögunni," sagði Njáll að lokum.

MBL
17.12.2003

10.12.03

Verður á 300 hestafla hjóli næsta sumar

Viðar Finnsson er einhver magnaðasti mótorhjólamaður landsins og er á kafi í Kvartmíluklúbbnum. Hann er að undirbúa Suzuki Hayabusagötuhjól sitt fyrir kvartmíluna næsta sumar. Í undirbúningnum felst meðal annars það að bæta við nítró-kerfi sem eykur hestaflafjöldann úr 182 í 300.


HONUM gekk ekki sem best síðastliðið sumar á einhverju aflmesta götuhjóli landsins, Suzuki Hayabusa, og segir hann ástæðuna þá að hann hafi aðeins haft eina gerð af keppnisdekkjum sem virkuðu ekki vel í bleytu og auk þess var kúplingin ekki rétt sett upp. En hann ætlar sér stóra hluti næsta sumar og hefur í því skyni breytt hjólinu á ýmsa lund og ætlar sér meðal annars að setja í það nítró-kerfi sem hækkar hestaflatöluna úr 182 í yfir 300.
   Hjólið er 2001 árgerð og fékk Viðar það í sínar hendur í júní það ár. Það er búið að breyta í hjólinu loftsíuboxinu og það er komin önnur sía í það, annar heili og svo er búið að létta það um 12,5 kg. 
   „Pústinu var skipt út og sett í hana púst úr títaníum, sem er mun léttara efni. Við það léttist hjólið um 11 kg. Pústið kostaði 1.330 dollara í Bandaríkjunum. Hingað komið hefur það lagt sig á nálægt 200.000 krónum,“ segir Viðar. 
  Hann segir að einnig hafi heddið hafa verið portað. „Ég á í hjólið 100 hestafla nítró-kit sem ég ætla að setja í það. Þá verður það rúm 300 hestöfl út í hjól, en núna er það 182 hestöfl.“ Þá er verið að tala um hrein hestöfl áður en tillit er tekið til loftþjöppukerfisins, sem virkar þannig að vélin tekur inn á sig meira loft eftir því sem hraðinn eykst.  Hjólið er því líklega að skila nálægt 200 hestöflum út í hjól þegar það er komið á ferð. 
   Hjólið er líklega aflmesta götuhjólið á Íslandi í dag þótt eitt annað hjól sé reyndar 5 hestöflum kraftmeira, en það togar ekki jafnmikið og Súkkan hans Viðars. Togið var mælt í bekk og reyndist vera 144 Nm en hitt hjólið togar 136 Nm. 
   Hjólið vegur ekki nema 194 kg og það verða því rúmlega 1,54 hestöfl til að knýja hvert kg af hreinum málmi, en tæplega 1,10 hestöfl ef reiknað er með 80 kg þungum ökumanni. 
   Viðar segir að hjólið sé u.þ.b. 17 sekúndur að ná 300 km hraða eins og það er í dag. Hann hefur komist hraðast á 246 km hraða á 9,6 sekúndum, „en ég náði ekki að bakka það upp vegna þess að það kviknaði í rafkerfinu,“ segir Viðar. Súkkan er undir tveimur sekúndum í hundraðið. 
  Viðar notar hjólið dags daglega og hefur nú þegar keyrt það 30.600 km frá því hann fékk það.
 Morgunblaðið Á.S.
10. DESEMBER 2003