12.2.00

Með umboðsmanninn öskrandi

 Vélhjól & sleðar styrkja tvo menn til keppni í sumar

Steini Tótu heitir maðurinn og hefur verið viðriðinn mótorhjól í meira er tvo áratugi. Hann á og rekur Vélhjól & sleða sem er með umboð fyrir Kawasaki, Husaberg og Triumph-mótorhjól, auk þess að vera með viðgerðarþjónustu fyrir Yamaha. Hann ætlar að vera óvenju rausnarlegur í ár og styrkja tvo keppendur í mótorkrossi og enduro á sitt hvorri gerðinni. Við áttum stutt samtal við Steina áður en hann stökk upp í flugvél á leið til Englands í „afslöppun" yfir helgina en hún felst aðallega í því að keyra öflugt Kawasaki-krosshjól sem hann á og geymir þar.
Nú var sumarið í fyrra mjög skemmtilegt, verður það eins í ár? 
Það verður sko ekkert leiðinlegt í okkar bekk sumarið '00. Keppnislið Vélhjóla & sleða verður stærra og öflugra og vonandi skemmtilegra en nokkru sinni fyrr og grín og gaman í 1, 2. og 3. sæti. Árangurinn í fyrra var æðislegur og ef við náum einhverju svipuðu í sumar þá verðum við glaðir. Við ætlum að vera með í hverri einustu hjólakeppni sumarsins - enduro, krossi, ís-race & kvartmílu - og sennilega líka í sandspyrnu ef keppt verður í þeirri grein.
Verðið þið aftur með keppnislið?
 Já, liðið verður tvískipt í sumar og verður „VH&S Team Green" á Kawasaki-hjólum og „Bergur brjálaði" á Husaberg. Lið VH&S er ekkert bundið við menn eða tegundir. Þó að menn eigi ekki Kawa eða Berg þá eru allir velkomnir í hópinn sem vilja skemmta sér og nota aðstöðu liðsins í keppni eða bara vera með og hjálpa til þegar lætin eru hvað mest.
Nú áttuð þið motokrossið í fyrra, ætlið þið að halda þeim árangri? 
Í krossinu stefnum við á öll verðlaunasætin í lok tímabils en í fyrra náðum við 1. & 2. sæti með Ragnari Inga Stefánssyni og Reyni Jónssyni en þeir verða okkar aðalökumenn áfram í sumar. Mesta fjörið var þegar liðsmenn VH&S voru í 8 af 10 efstu sætum í síðustu keppni sumarsins, þar af 7 á KX. Um hjólin þarf ekkert segja annað en að bæði hafa sannað sig með heimsmeistaratitlum í sínum flokkum. Raggi verður á Husaberg FC501 2000 og Reynir á Kawasaki KX250 2000. Síðan erum við með allar ermar fullar af spilum og eiga nokkrir „plokkfiskar og útnesjamenn" eftir að koma á óvart. Karl Lilliendahl, „Dalli", er til dæmis búinn að lofa því opinberlega að spóla umboðsmanninn (þ.e. Steina Tótu) í kaf við fyrsta tækifæri. Þorvarður Björgúlfsson verður náttúrlega ekkert með nema til að vinna, frekar en fyrri daginn. Hluti VH&S-liðsins fer síðan í sérstakar MotoCross-æfingabúðir í Hollandi um páskana svo óhætt er að segja að keppni sumarsins verður tekin alvarlega.
Hvað með enduroið, verður gefið í þar líka? 
Það verður heldur ekkert gefið eftir í enduroinu þar sem Reynir verður í aðalhlutverki með umboðsmanninn öskrandi á eftir sér og Dalli, Steingrímur og Þorgrímur Leifssynir, Varði, Ingvar Hafberg, Guðni Þorbjörns,Jói Keflavík, Ingó ofl. ætla sér nokkrar dósir á arinhillurnar hvað sem hver segir. Gömlu jaxlarnir í liði VH&S Racing verða auðvitað með til að sýna ungviðinu hvert á að fara og hvernig á að gera það, þó ekki væri nema til að leiðrétta þann úfbreidda misskilning ungu  mannanna að aldur og reynsla sé eitthvað til að grínast með!
Nú tala menn lika um að keppa á ís, hvað með ykkur? 
Á ísnum er ómögulegt að segja hvað gerist ef veður og annað leyfir keppni. Á Tjörninni á Akureyri í fyrra, sem var eina keppnin þar sem allir voru á sama dekkjabúnaði (Trelleborg-dekkjum með karbíðnöglum), varð VH&S Team Green í 1. & 2. sæti með Dalla fremstan, alveg geðveikan með umboðsmanninn á hælunum. Við bíðum bara spenntir eftir meiri ís, tilbúnir í slaginn.
 -NG
DV 12.02.2000

„Ég á nóg eftir!"


- Ragnar Ingi keppir á Husaberg-hjóli í sumar

Ragnar Ingi Stefánsson er fimmfaldur íslandsmeistari í mótorkrossi og vann íslandsmeistaramótið í fyrra með töluverðum yfirburðum. Þá naut hann dyggs stuðnings Vélhjóla & sleða sem hafa ákveðið að gera betur í ár og láta hann hafa hjól til keppni af Husaberg-gerð, en þar á bæ eru menn nýkomnir með umboðið fyrir þau. Við tókum Ragnar, sem býr í Svíþjóð, tali um daginn og spjölluðum um tímabilið fram undan.
Þú ert að fara í æfingabúðir, þarftu eitthvað á því að halda? 
  Auðvitað þarf maður á því að halda. Þótt maður verði að sjálfsögðu að æfa allt árið um kring þá er mesta áherslan á tímabilinu frá  áramótum og fram á vor. Á þessu tímabili byggir maður upp grunninn að því hvernig úthaldið og keyrslan falla saman yfir sumarið. Þar að auki er þrælgaman að skreppa í æfingabúðir til Belgíu. Þetta er frábær staður með fullt af brautum í nágrenninu, sannkölluð paradís krossökumannsins. Og svona til að bæta samkeppnina þá koma nokkrir að heiman með í ferðina, t.d. Reynir og fleiri. 
Þú munt aka Husaberg-hjóli og aðalstyrktaraðili þinn er VH&S, hvernig finnst þér Husaberginn? 
  Vífilfell/Coke er nú reyndar aðalstyrktaraðilinn ásamt Vélhjólum & sleðum. Auk þess fæ ég stuðning frá World Class og kannski fleiri. Mér líst bara vel á Husaberginn. 2000- módelið er alveg ný hönnun því það er búið að breyta því svo mikið frá eldri árgerðum þannig að maður er mjög spenntur að fá að keyra það í sumar. En það veldur mér náttúrlega vandræðum að fá ekki að keyra það neitt af viti fyrr en nokkrum dögum fyrir fyrstu keppnina þar sem ég er í Svíþjóð og þar að auki óvanur að keyra fjórgengishjól í krossbraut. 
Þú barst höfuð og herðar yfir keppinauta þína í fyrra, heldurðu ekki að þú fáir meiri keppni núna? 
Vonandi fæ ég meiri samkeppni í ár. Það er alltaf skemmtilegra með alvörubaráttu. En þeir mega nú eiga það, strákarnir, að þeir hafa bætt sig mjög mikið á milli ára. Og því betri sem þeir verða því betur get ég sýnt getu mína. „Ég á nóg eftir!" 
Þónokkur umboð styðja vel við keppendur núna og útvega þeim jafnvel hjól, er það ekki dæmi um  uppgang í sportinu? 
Nákvæmlega og ekkert nema gotum það að segja. En mikið vill meira og ég held að sportið eigi eftir að komast langt á  Klakanum, með yngri kynslóðinni sem er að vaxa úr grasi og þarf kannski nokkur ár í viðbót til að ná í rassinn á okkur í forystunni.
 Ég hef heyrt sagt að þú hverfir heilu helgarnar út að hjóla, er það rétt?
 Hverfi og hverfi. Maður verður náttúrlega að æfa sig. Hérna er líka yfirleitt keppni allar helgar svo ég æfi mig nú mest í miðri viku. En það gefur náttúrlega auga leið að maður er mikið úti að þvælast þegar keppni er oft bæði laugardag og sunnudag, hálfs- eða jafnvel heilsdagskeyrslu i burtu. 
Hvernig líst þér á uppbygginguna hérna heima, eins og t.d. brautarmálin? 
Það lítur ágætlega út. En til þess  að komast upp í þann standard sem er erlendis þá er langt íland. Það er náttúrlega stórt skref í rétta átt að fá fast framtíðarsvæði fyrir braut sem allir eru mjög ánægðir með. Það getur tekið fleiri ár að ná braut upp i góðan standard. Draumurinn er náttúrlega að ísland geti haft stórar alþjóðlegar  mótorkrosskeppnir. Við sjáumst í vor, ég stefni líka á að taka þátt í fyrstu endurokeppninni 27. maí.
-NG
DV 12. FEBRÚAR 2000