28.3.92

Dæmi um sígilda hönnun

Harley Davidson framleiðir fjöldamargar geröir mótorhjóla en
flestar þeirra eru svipaðar í útliti og dæmigerð „götuhjól

Harley Davidson „Electra Glide":

Hefur framleitt mótorhjól í nær níutíu ár og annar nú ekki eftirspurn 

Saga mótorhjólanna fylgir nánast sögu bílsins og segja má að almenn útbreiðsla mótorhjóla hafi hafist um síðustu aldamót eða á fyrstu árum aldarinnar, á sama tíma og fyrstu bílarnir fóru almennt að líta dagsins ljós. Fyrstu mótorhjólin voru lítið annað en reiðhjól með hjálparvél en svo fór þó á örfáum árum að hönnun þeirra sveigðist fljótt inn á sömu línu og við þekkjum af þessum vélfákum í dag.
Nú er það svo að undirritaður hefur takmarkaða þekkingu og áhuga á mótorhjólum en þó skoðað þau úr hæfilegri fjarlægð í áranna rás. Af öllum þeim fjölda og margbreytileika mótorhjóla, sem fyrir augu hefur borið á liðnum árum, stendur þó ávallt eitt upp úr og það er Harley Davidson frá Bandaríkjunum. Flestir þekkja eina gerð þeirra hjóla úr umferðinni hér í Reykjavík, „Electra Glide", sem lögregluembættið í Reykjavík hefur notað til löggæslu í rúma hálfa öld, en fyrstu hjólin komu til umferðargæslu í Reykjavík árið 1940, í tíð Agnars Kofoed-Hansens, þáverandi lögreglustjóra.
Harley Davidson hefur raunar skapað sér þá ímynd að vera lifandi dæmi um sígilda hönnun, eins og sjá mátti í sjónvarpsþætti BBC um sígilda hönnun sem Sjónvarpið sýndi fyrir nokkru.

Nærri níutíu ár að baki

 Saga Harley Davidson hófst fyrir tæpum 90 árum í Milwaukee í Bandaríkjunum sem hefur verið heimili Harley Davidson fram til þessa. Það voru þeir William S. Harley, William A. Davidson, Walter Davidson og Arthur Davidson sem smíðuðu fyrsta mótorhjólið í sameiningu í litlum skúr á baklóðinni heima hjá Davidson-fjölskyldunni og urðu að fá lánuð verkfærin til smíðinnar. Fyrsta hjólið var smíðað árið 1903 og síðan hefur stjarna Harley Davidson skinið skært og skapað sér sérstöðu.

Fá mótorhjól hafa skapað sér þá ímynd að vera talandi dæmi um sigilda hönnun. Þetta á þó við um
Electra Glide frá Harley Davidson. Á myndinni gefur að líta eina af fjórum geröum þessa sígilda
hjóls, Electra Glide Sport, en hinar gerðirnar eru betur búnar og í toppgerðinni, Ultra Classic
Tour Glide,  má finna alla helstu mæla eins og hraðamæli, snúningshraðamæli, digitalklukku,
oliuþrýstimæli, hljómflutningskerfi sem stýrt er frá stýrishandfanginu, CB-talstöð,
 skriðstilli og sígarettukveikjara.

Hjól allra stétta 

   Í raun verður ekki annað sagt um Harley Davidson en að það sé hjól allra stétta. Kvikmyndastjörnur á borð við James Dean og Marlon Brando hófu þessi hjól á æðri stall á sínum tíma. Auðkýfingurinn Malcolm Forbes átti fjöldann allan af hjólum frá Harley Davidson og þeysti á einu slíku út í buskann með ekki ófrægari persónu en Elizabet Taylor á aftursætinu. Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, heimsótti verksmiðjur Harley Davidson og sú heimsókn varpaði ljósi á þá staðreynd að Bandaríkin áttu leik í stöðunni gegn stöðugri ásælni japanskra framleiðenda inn á markaðinn. í raun ganga allir framleiðendur mótorhjóla í gegnum erfiða tíma. í dag er talið að 7,3 milljónir mótorhjóla séu á bandarískum vegum sem er verulegur samdráttur miðað við  7,7 milljónir hjóla árið 1985. Fyrir einum og hálfum áratug mátti segja að japönsku mótorhjólaframleiðendurnir Honda, Yamaha, Kawasaki og Suzuki væru einráðir á bandaríska markaðnum. Árið 1969 hafði Harley Davidson sameinast risasamsteypunni AMF en sameiningin reyndist dýrkeypt vegna minni gæða og minnkandi sölu. Árið 1985 slapp Harley Davidson úr „klóm" AMF og „kom heim aftur", eins og blaðafyrirsagnir sögðu á þeim tíma. Frá þeim tíma hefur stjarna Harley Davidson risið hratt og nú er svo komið að verksmiðjurnar anna ekki eftirspurn. Ástæðan er að miklum hluta röng stefna japönsku framleiðendanna á markaðnum. Þeir einbeittu sér að kraftmiklum hjólum sem komust 280 kílómetra á klukkustud og voru þess eðlis að ökumaðurinn varð að sitja í hnipri og beita sérstakri tækni til að beygja.

Erfiðir tímar

Í raun má segja að Japanir hafi verið svo uppteknir af því að þróa framleiðsluna að þeir „gleymdu" markaðnum eða, eins og Gary Christopher hjá Honda í Bandaríkjunum segir: „Við vorum" svo uppteknir af því að ná til „uppanna" að við gleymdum sjálfum mótorhjólaáhugamönnunum. Á hverju ári sendu þeir frá sér nýjar gerðir, mismunandi í útliti og hraðskreiðari. Þetta þýddi að „gömlu" hjólin féllu hratt í verði, varahlutir voru dýrir og tryggingar á hjólunum urðu dýrari.
Það var ekki fyrr en á allra síðustu árum sem japönsku framleiðendurnir sneru blaðinu við og fóru að framleiða „þjóðvegahjól" á borð við Honda Pacific Coast sem er stórt hjól, hlaðið búnaði, þar á meðal með farangursrými að aftan líkt og bíll.

Hafa ekki undan að framleiða

 Í upphafi fór framleiðslan hægt af stað. Árið 1907 höfðu verið framleidd 150 hjól en fyrr en varði jókst framleiðslan samfara aukinni eftirspurn og um 1920 voru framleidd yfir 28 þúsund hjól sem seldust víða um heim. Í dag fá færri en vilja hjól frá Harley Davidson. Verksmiðjurnar ná að framleiða um 70 þúsund hjól á ári og þar af fara um 40% til útflutnings.  Þetta hefur leitt til þess að á heimamarkaði bítast menn um það að fá að kaupa hjól frá Harley Davidspn eða, eins og Michael Lombardi, sem hefur söluumboðið í New York, segir: „Ég hef sex kaupendur um hvert hjól sem ég fæ úthlutað." Meginástæðu velgengninnar telja margir vera stórar, þunglamalegar vélar sem höfða til kaupendanna, hönnun sem hefur staðið nær óbreytt árum saman, og síðast en ekki síst hjálpaði staða dollarans gagnvart öðrum löndum.

„ElectraGlide"


 Frægasta hjól Harley Davidson er án efa „Electra Glide" sem framleitt hefur verið lítið breytt í fjölda ára. Hjóið er knúið tveggja strokka fjórgengisvél sem nú er 1.340 cc. Snúningsvægið er 95 Nm v/4.000 sn. á mín.
Þeir hjá Harley framleiða fjölda annarra gerða en ávallt er það þó Electra Glide sem heldur uppi nafninu og er í dag framleidd í þremur eða fjórum megingerðum, mismunandi eftir búnaði.
Stóri munurinn á Electra Glide og flestum japönsku hjólunum er byggingarlagið. Á Electra Glide sitja menn eins og í góðum hnakki á hestbaki, góð stig eru fyrir fætur og stýrið er hátt og gefur gott grip. Þessi hjól eru ekki gerð fyrir raunverulegan hraðakstur eins og þau japönsku og í raun má segja að besti hraðinn fyrir þessa „vélfáka" sé á bilinu 80 til 90 kílómetrar á klukkustund þótt vissulega megi koma þeim á meiri hraða. Sem dæmi um velgengni Harley Davidson á nýjan leik á Bandaríkjamarkaði má nefna að í fyrra áttu þau hjól 31% af markaði „götuhjóla" í Bandaríkjunum en í öðru sæti kom Honda með 26%. Til samanburðar má nefna að í lok „mögru áranna" undir stjórn AMF, eða árið 1985, var Honda með 47% en Harley Davidson aðeins 9,4% svo umskiptin eru mikil.

Sameiningartákn


 Í dag líta margir Bandaríkjamenn á Harley Davidson eins og sameiningartákn. Það er jafn „amerískt" og kók og eplapæ að þeirra mati. Mótorhjól tengjast að mati margra Bandaríkjamanna tilfinningunni um vald og frelsi, frelsi til að þjóta þangað sem mann langar þegar hugurinn kallar. Hjólin era sameiningartákn margra hópa og þar eru án efa frægastir „Hell Angels". Sérstakir Harley Davidson-klúbbar eru til um gervöll Bandaríkin og gefnir eru út þykkir vörulistar um varning sem tengist þessum frægu hjólum. Það er og haft fyrir satt að merki Harley Davidson sé nær eina vörumerkið sem notað er sem húðflúr í einhverjum mæli en margjr sannir aðdáendur Harley hafa látið tattóvera sig með merkinu. Fá mótorhjól frá Harley Davidson eru nú í umferð hér á landi og ber þar mest á lögregluhjólunum sem mörg hver hafa fengið að snúast fleiri kílómetra en góðu hófi gegnir. Vegna hárrar stöðu dollarans um árabil hefa japönsku hjólin átt greiðari leið inn á markaðinn en með hækkandi gengi japanska jensins eiga vélfákarnir frá Harley Davidson kannski eftir að sjást í ríkari mæli á íslenskum vegum í framtíðinni. Talsmenn Ísarns hf., sem er umboðsaðili Harley Davidson hér á landi, segja að fleiri fyrirspurnir hafi komið um hjólin á síðustu vikum en áður.
-JR
DV
28.3.1992

21.3.92

Árangur hefur náðst í umræðunni segir fulltrúi Sniglanna

Iðgjöld mótorhjóla:

„Bifhjólasamtök lýðveldsins, Smglarnir, boöuðu tryggingafélögin á fund fyrir um mánuði en ekkert tryggingafélaganna treysti sér til að hitta okkur þá. Samtökin boðuðu aftur til fundar síðasta miðvikudag en þá mætti aðeins fulltrúi frá einu tryggingafélagi. Við erum ekki ánægðir með það úr því þeir höfðu mánuð til þess að fara ofan í saumana á tryggingamálum bifhjólamanna," sagði Jón Páll Vilhelmsson í trygginganefhd Sniglanna í samtali við DV.
    „Sjóvá-Almennar og VÍS hafa verið að skoða þetta dæmi nokkuð vel en VÍS taldi sig þurfa frest til að skoða dæmið betur. Þeir gáfu vilyrði fyrir þvi að þeir mótorhjólaeigendur, sem þurfa að endurnýja tryggingar sínar 1. mars, geti skipt um tryggingafélag þó að komið sé fram yfir þessa dagsetningu. Það sama gildir um þá sem eru hjá Tryggingamiðstöðinni, Tryggingu hf. og Abyrgö.
    Sá fulltrúi, sem mætti á fundinn á miðvikudag, var frá Scandia. Vandinn hjá þeim er sá að þeir hafa engar tölur frá íslandi til að byggja á en þeir tók mjög vel í tillögur okkar á fundinum.
   Töluverður árangur hefur náðst í samræðum okkar við tryggingafélögin. Stærsti áfanginn er sá að tryggingafélögin, sem vissu ekkert um mótorhjól og vildu ekkert vita, gera það nú og hafa kynnt sér mál okkar. Við gerum ráð fyrir að þeir noti árið til að kynna sér þau rækilega. Tryggingafélögin eru að skoða tengslin á milli aldurs ökumanns, krafts mótorhjólsins í sambandi við slysatíðni. Það er einmitt í tengslum við það sem við förum fram á að iðgjöldin séu reiknuð út frá því. Það er töluvert skref þó aðvið fáum kannski ekki niöurfeUingu eða leiðréttingu strax. Þessi barátta okkar hefur tekið langan tíma en fyrst nú er að komast hreyfing þar á.
     Sjóvá-Almennar tilkynntu okkur síðasta fimmtudag að þeir kæmu ekki til með að breyta sínum iðgjöldum. Þeir hækkuðu iðgjöldin mest allra tryggingafélaga á þessu ári. Margir okkar höfðu allar sínar tryggingar hjá þeim. Við höfum mælst til þess meðal meðlima í Sniglunum að þeir beini tryggingum sínum til annarra en þeirra. Það gildir ekki einungis um mótorhjólin heldur og tryggingar af bílum og húseignum og allar aðrar tryggingar. Því er ljóst að Sjóvá-Almennar missa töluvert stóran hóp tryggingartaka og viðskipti upp á kannski tugi milljóna," sagði Jón Páll. -ÍS
DV
3.3.1992