19.9.88

Mótorhjólið er sautján árum eldra en eigandinn (BB1988)


- sem þó er ekkert unglamb lengur

Mótorhjól eru allmiklu sjaldséðari á Ísafirði á seinni árum en í gamla daga, þegar Matthías Bjarnason og aðrir járnkarlar voru upp á sitt besta og þeystu á fretandi vélfákum um götur Ísafjarðar, sjálfum sér og ungum stúlkum til yndisauka en eldri borgurum stundum til talsverðrar hrellingar.
 Á góðviðrisdögum um helgar má þó stundum enn í dag sjá mann á rauðu, fallegu og fornlegu mótorhjóli á fremur rólegri siglingu um götur bæjarins.
Þetta er Þorbergur Kjartansson, starfsmaður hjá Íslandspósti á Ísafirði og áhugamaður um gömul mótorhjól.  Hann er 36 ára að aldri en sparihjólið hans er miklu eldra, eða fimmtíu og þriggja ára gamalt, smíðað árið 1945 í Englandi, rétt í stríðslokin. Hjólið er af gerðinni Ariel og mun hafa komið mjög snemma hingað til lands, en hluti af því er reyndar úr hjóli af gerðinni Matchless.
Á tímum innflutningshafta á sjötta áratugnum hafa menn trúlega orðið að tjasla saman því sem til var. Það var búið að skeyta saman hluta úr grindum og í rauninni ómögulegt að gera það upp sem original á hvorn veginn sem var, segir Þorbergur.  Þegar  ég fékk hjólið var það í  því ástandi að um tvennt var að ræða, nota það í varahluti eða leggja talsverða vinnu í að gera  það upp eins og það hafði verið skeytt saman.
Áhugi Þorbergs á mótorhjólum vaknaði  ekki fyrr en hann var um tvítugt.  Þá prófaði ég hjól í eigu mágs míns úti í Þýskalandi, en hann hefur fengist við að gera upp gömul bresk hjól. Umræddur

3.9.88

Þrælljúft og orkumikið

Segir Akureyringurinn Sveinn Guðmundssonum um öflugasta mótorhjól landsins Kawasaki ZX 10, sem hann festi nýlega kaup á. Hjólið er sannkölluð Mótorhjólaþota, nær yfir 270km. hraða, stekkur kvartmíluna á tæpum 10 sekúndum og viðbragðið frá 0- 100 km. hraða er 2,9 sekúndur.  B&F skoðaði tækið ógurlega. 



Þúsund kílómetrar á viku, dágóður skammtur það á mótorhjóli, en þremur vikum eftir að Sveinn Guðmundsson festi kaup á Kawasaki ZX10 mótorhjólinu var hann búinn að þeisa 3200km. á vegum landsins. Engin furða því hann ekur um á fljótasta og hraðskreiðasta raðframleidda mótorhjóli landssins. Eins og það kemur úr kassanum, skilar það Sveini á yfir 270km. hraða og gefur 118 hestöfl. Við heimsóttum svein í heimabæjinn Akureyri, þar sem honum bregður oft fyrir á hjólinu, nótt sem dag.
"Það er þrælljúft að aka ZX10 hjólinu, þetta er eina svona hjólið hérlendis og það skemmir ekki fyrir". sagði Sveinn  "mótorhjól hafa mikið notagildi, þetta er ekki bara til að djöflast á". Ég hef ferðast mikið mótorhjólum og átt hjól í meira en 10 ár. Ég er búinn að eiga sex hjól í sumar, stuttan tíma hvert að vísu. Ég skrapp til bandaríkjanna með kunningja mínum og við keyptum ellefu mótorhjól gegnum smáauglýsingar, svona á verðbilinu 350-400.000 krónur. Það vantaði svoleiðis hjól hérlendis og við seldum öll hjólin tiltölulega fljótt".

Við keyptum eiginlega eingöngu stór hjól, 1000cc og 1100cc. Kanarnir ráku upp stór augu og trúðu því varla að íslendingar gætu átt svona gripi. Það er líka sjaldgæft að sjá svona mörg risahjól eins og hérlendis. Það vill enginn vera minni en hinn, við erum svo stórtækir. samt mesta furða hve lítill metingur er á milli manna, þó sumir kýti í gamni annað slagið um hjólin".
Sveinn var kominn á skellinöðru löngu áður en hann hafði aldur til og þeysti um hvar sem löggan náði ekki til hans. "Fyrsta alvöru hjólið sem ég átti var Honda 450, en ég hef ekki tölu hve mörg hjól ég hef átt síðan, þau eru fjölmörg. Það er ekkert hjól eins, jafnvel sömu tegundir og gerðir hafa ákveðinn karakter, sem þarf að læra á. Menn í þessum mótorhjólabransa skiptast eiginlega í þrjá hópa, þá sem hafa áhuga á öflugum hjólum, ferðahjólum og svo vígalegum Chopper hjólum. Þetta er eins og allt annað sport, fótbolti eða golf, þegar áhuginn kviknar verður hann óslökkvandi. Það þýðir ekkert að hugsa um hættuna, þá væri ég ekki í þessu. Það væri svipað og að stíga í flugvél og bíða þess að hún hrapaði. Þá getur maður gleymt þessu, ég hugsa aldrei um óhöpp....." sagði Sveinn.

" Á 90 km, hraða í fyrsta gír og fimm eftir."

 " Hjólið veður áfram, ég skýst í 90 km. hraða í fyrsta gír og þá eru fimm gírar eftir. Það er grátlegt að geta ekki notað svona tæki á löglegan hátt hérlendis", sagði Sveinn í samtali við B&F, þegar við skruppum með honum á prufubraut og hann fékk útrás á hjólinu.  "Þetta rífur sig áfram í öllum gírum, jafnvel á 150-250 km. hraða, þá togar það svakalega eg maður botngefur því. Svo er straumlínulagið svo vel heppnað að ef maður leggst fram á stýrið, þá finnur maður ekki fyrir loftmótstöðunni að neinu marki. Á Chopper hjólunum sem hafa lítið eða ekkert straumlínulag skelfur ökumaðurinn eins og hrísla í vindi og á í mestu erfiðleikum að hanga á stýrinu".
"Hjól eins og ZX10 er náttúrulega ekkert gaman fyrr en á 100 km. hraðamarkinu er náð. Vinnslusvið vélarinnar er mjög breitt eða frá 8500 snúningum upp í 11000. Ég átti fyrirrennara hjólsins Kawasaki 1000 sem hafði ekki svona breitt vinnslusvið. Vélin skilar 118 hestöflum í afturhjólið og þarf vissulega leikni til að ráða við þetta, það þýðir ekkert að æða af stað með gjöfina í botni. Ég þurfti ekki að aka lengi til að finna að ZX10 hjólið er mun liprara en eldra hjólið", sagði Sveinn.
Ástæðirnar eru margar, þyngdin hefur verið færð neðar en í Kawasaki 1000 hjólinu eða Ninja eins og aðdáendur kalla það. Grindin var úr stáli en er nú úr áli og er því rúmum 4 kg léttari, en það munar um hvert kg á mótorhjóli. Þyngd stimpla hefur minnkað um 9 % og sveifarásinn er 14% léttari.  Með þessu hefur tekist að bæta við 500 vélarsnúningum, en hámarkshestöfl nást út við 10000 snúninga á mínutu, þó fara megi rétt yfir 11000. Nýja vélin er 4 kílóum léttari og samtals er ZX10 22 kílóum léttara en Ninja.
Öndun vélarinnar er aðalkostur hennar, ventlarnir eru helmingi fleiri en áður, 16 talsins. Mjórri intökuport lofts þýða meira sog inn í sprengirýmið, sem aftur gefur kraftmeiri sprengingu. (Samt eru ventlarnir stærri en í Ninja, 30mm inn og 26mm út) Um leið dregur vélin meira bensín en ella, ef portin væru víðari og sogið minna. Vélin er búin 36mm. Keihin blöndungum. Það er ekki síst hvað kambásarnir hafa færst nær kvorum öðrum, 41mm. sem hjálpar upp á góða virkni ventlakerfissins, en afstaða ventlana er 30 gráður. Með nýstárlegri ventlastýringu í stafrænni kveikjustýringu hefur þjappan verið hækkuðí 11:1. Til gamans má geta þess að vinnslan hefur aukist svo mikið að ZX10 er fljótara í sjötta gír úr 70 km. hraða í 110 en Ninja ver í fjórða gír, samt er það tiltölulega hágírað!
Það sem hjálpar líka mikið er hve framarlega Kawasaki er í hönnun vindskeiða fyrir mótorhjól. Með því að minnka straumlínulagið minnkar mótstaðan og krafturinn virðist meiri, hjólið virkar betur. " Þetta er miklu léttara og liprara en gamla hjólið, það er ótrúlegtur munur. Fjöðrunarkerfið er mýkra, gamla hjólið er dálítið stíft. Bremsuvegalengdin er stutt, styttri en á bílum við sama hraða og á það við um öll mótorhjól, ólíkt því sem margir halda. Ég man bara ekki hlutfallið", sagði Sveinn.
 Bílar & Fólk nr6.
Sept.1988

12.8.88

Að framdekkið sé heilt og bremsumar í lagi - Sniglarnir undir smásjá


Það má oft sjá þá í hópum í gamla miðbænum, ísvörtu leðri og á gljáfægðum fákum. Þeir vekja ugg í brjósti sumra en aðdáun hjá öðrum. Þeir eru Sniglarnir, eða Bifhjólasamtök lýðveldisins eins og samtökin heita réttu nafni.

Bifhjólasamtök lýðveldisins voru formlega stofnuð 1. apríl 1984 af um tuttugu manna hópi. Nú eru félagsmenn 197, þar af sjö kvenmenn, en hafa flestir verið um 300. Gerð var gagnskör að því fyrir nokkru að strika út af félagalistanum þá sem ekki höfðu borgað félagsgjöld í tvö ár og því hefur fækkað í hópnum. Einnig missa sumir áhugann eftir því sem þeir verða eldri og telja annað mikilvægara í lifinu. „Það eru menn sem annaðhvort telja sig vera orðna það þroskaða að þeir geti ekki verið á hjólinu lengur eða þeir eru svona óþroskaðir. Í upphafi eru menn mikið í þessu einhleypir, konulausir og barnlausir, en þegar þeir kaupa sér íbúð leyfir fjarhagurinn ekki að leika sér og þeir detta út kannski í nokkur ár og koma inn seinna," sagði Snigillinn Hjörtur Jónsson. „Það eru margir af félögunum sem eiga ekki hjól núna. Hjólaeign manna er allt upp í tíu hjól, - því fleiri hjól því meiri virðing fyrir eigandanum."

Tekur þrjá mánuði að gerast félagi 

Til þess að gerast Snigill þarf viðkomandi helst að  eiga mótorhjól, ekki skellinöðru, og vera 17 ára. Hann eða hún þarf svo að fylla út umsóknareyðublað og fá 13 meðmælendur. Umsóknin fer þar næst fyrir stjórnina sem fjallar um hana. Getur það tekið um þrjá mánuði að verða félagi í samtökunum.
Það fylgir því talsverður kostnaður að eiga mótorhjól.  í fyrsta lagi er verð á stóru hjólunum, 750 til 1100 kúbik, frá 700.000 krónum upp í 1,3 miljónir á Harley Davidson, en það er svokallað sófasett með hljómflutningstækjum, farsíma og hliðartöskum.  Varahlutir eru einnig mjög dýrir, en mestur kostnaður fer í hjólbarða. Verð á hjólbörðum er 6000 til 15.000 krónur stykkið sem endist 2000 til 10.000 km, afturdekkið. Algeng árskeyrsla er þetta milli 13.000 og 17.000 km, þannig að það fara þrír til sjö hjólbarðar á ári. Að sögn Sniglanna eiga íslendingar stærstu hjól í heimi, ef miðað er við hlutfall hjóla á höfðatölu.  Ástæðan er sögð vera metnaður því enginn vill vera minni en næsti maður.

Beygjukaflar skemmtilegir 

Sniglarnir leigja húsnæði Kvartmiluklúbbsins að Dalshrauni 1 þar sem þeir halda fundi á hverju miðvikudagskvöldi. Ef veðrið er gott fara menn gjarnan út að hjóla um tíuleytið. En eina aðstaðan til æfinga er kvartmílubrautin. „Það sem okkur dauðlangar í, og vantar, er hringbraut. Það skemmtilegasta sem mótorhjólamaður gerir á götuhjóli er að keyra upp Kambana, - skemmtilegustu kaflarnir eru beygjukaflarnir," sagði Hjörtur. En hvernig eru samskipti samtakanna við lögreglu? Gunnar Rúnarsson, sneggsta lögga í bænum, varð fyrir svörum: „Þau eru með ýmsu móti, misjöfn. Það fer eftir lögregluumdæmum og í því sambandi er höfuðborgarsvæðið verst. Það eru tíu til fimmtán lögregluþjónar sem er mjög illa við okkur en þeir verða ekki nafngreindir." Sniglarnir hafa orðið varir við talsverða fordóma í sinn garð og finnst umfjöllum um þá í fjölmiðlum hafa verið fremur neikvæð. „Fordómarnir eru sprottnir af bíómyndum. Það er svarta leðrið, hins vegar er leðrið okkar traustasti hluti því það hlífir. Að lenda í götunni og vera í gallabuxum eða leðri er svipaður munur og á kjóthakki og læri," sagði Hjörtur. „Gömlu konurnar vilja hlaupa, en ímyndin fer batnandi. Maður heyrir orðið núna: „Sniglarnir voru þarna, þetta er bara venjulegt fólk." Þessi fíkniefnastimpill er kominn úr bíómyndunum. Við erum alltaf velkomin aftur þangað sem við höfum verið. Svartir sauðir fá ekki inngöngu í samtökin," sagði Gunnar. Einn félaginn bætti við að þegar fólk sæi þá í hópum lægi við að hrópað væri: „Læsið inni allt kvenfólk og verðmæti, þeir eru komnir í bæinn!"

  Ís í Hveragerði 

Sú hefð hefur skapast að samtökin halda árshátíð sína helgina viku fyrir páska. Einnig eru farnar þrjár til fjórar stórar ferðir á ári. 17. júní ef farið til Akureyrar, landsmótið er haldið í Húnaveri og ein haustferð er farin í Landmannalaugar. Einnig er eitthvað um dagsferðir um landið og kvöld- og helgarferðir, skroppið í Hveragerði til að fá sér ís t.d.
Sniglarnir vildu leggja áherslu á það að engin stéttaskipting væri í félaginu. Meðal félaga væru jafnt
flugstjórar sem atvinnuleysingjar, og allt þar á milli. Þeir sem hvað hæst væru settir í þjóðfélaginu
væru jafnvel einnig þeir virkustu í félaginu. Nefndu þeir t.d. að Ómar Ragnarsson væri kominn með
bakteríuna, en hann er heiðursfélagi í Bifhjólasamtökum lýðveldisins.
Áhugi fyrir mótorhjólum fer vaxandi. Hjörtur sagði að fólk skoðaði mikið og hefði áhuga á þessu. „Það sýndi sig um daginn þegar við auglýstum mótorhjólakvartmílu til styrktar Krýsuvíkursamtökunum. Það mættu 500 manns, fólk á öllum aldri. Það kom á óvart hversu aldurshópurinn var breiður," sagði Hjörtur.
Sem kunnugt er voru Sniglarnir með gæslu í Húnaveri um verslunarmannahelgina. Að sögn Sniglanna hófust gæslustörfin af tilviljun í kringum þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum '86. Herjólfi hafði seinkað mikið og um þúsund manns biðu á bryggjunni í Þorlákshöfn. Þegar báturinn kom ætiaði
fólkið að ryðjast fram á bryggjuna, en Sniglarnir tóku í taumana og hleyptu fólkinu í hópum út á
bryggjuna svo allt færi betur fram. Þetta spurðist síðan út.

 Fólk rólegt í kringum þá 

„Við höfum verið beðnir um að taka að okkur gæslu því fólk virðist vera hrætt við okkur og móts og skemmtanahaldarar nýta sér það. Fólk er alltaf rólegt í kringum okkur en æsist þegar það sér lögreglu," sagði Hjörtur. Talið berst að slysum. Að sögn Sniglanna er það númer eitt, tvö og þrjú að treysta aldrei öðrum í umferðinni, hafa alltaf fyrirvara. Maður væri á litlum hlut og bílar í umferðinni væru ekki að huga að mótorhjóli heldur litu eftir öðrum bílum. Það hefði oft komið fyrir að þeir kæmu að gatnamótum, á aðalbraut. Bíl bæri að frá hliðargötu, bílstjórinu liti beint í augun á manni en beygði samt inn á. Oftar en ekki væri það bifhjólamaðurinn sem væri í fullum rétti.
Algengustu meiðsli við slys eru handarbrot, fingurbrot, mar og tognun. Einnig gætu rifbein brotnað. Töldu Sniglarnir að minna væri um slys á hjólum almennt en bílum, en þau væru oft alvarlegri þegar  þau yrðu.

Á 300 km hraða

 Mikið hefur verið hamrað á hversu gífurlegur hraði sé á mótorhjólum og aksturinn gáleysislegur. Það.er að vísu staðreynd að stærri hjólin ná 300 km hámarkshraða sem þýðir að ef allt er gefið í botn ætti að vera hægt að aka milli Keflavíkur og Selfoss á um tuttugu mínútum. Sniglarnir segja þó sjálfir að þeir reyni alltaf að keyra á löglegum hraða því það er of mikið í húfi fyrir suma þeirra, sérstaklega þá sem hafa atvinnu af því að aka. Kraftmestu hjólin ná 200 km hraða á 10 sekúndum, og sviptingarhraða á 3 sekúndum. Reyndar er hægt að ná sviptingarhraða í fyrsta gír, en þá eru eftir fjórir gírar sem ekki er hægt að nota. Ef mótorhjólamaður ætlar sér að stinga af þá gerir hann það. Það er minnsta hættan fyrir hann, miklu meiri hætta fyrir þann sem er að reyna að elta hann á bíl og fyrir þá vegfarendur sem eru í umferðinni. Lögreglunni er víst skylt núna að reyna fremur að ná númerinu og banka síðan upp á hjá viðkomandi heldur en stofna til einhvers eltingarleiks," sögðu félagarnir i Sniglunum. Að lokum vildu þeir ráðleggja byrjendum að aka aldrei hraðar en geta þeirra
leyfði. Meirihluti allra bifhjólaslysa yrðu vegna gáleysislegs aksturs þess sem á hjólinu væri.
-GHK
Dagblaðið Vísir
12.8.1988

23.7.88

Landsmót bifhjólasamtaka lýðveldisins

Sniglabandið

 Húnaver

Dagana 7.-10. júlí stóð yfir landsmót Bifhjólasamtaka Lýðveldisins í Húnaveri. Félagar í þessum samtökum, Sniglarnir öðru nafni, komu hvaðanæva af landinu til að taka þátt í mótinu og er talið að mótsgestir hafi verið u.þ.b. 300 að tölu þegar mest var og þar af 80 á bifhjólum.

Sniglarnir gerðu sér margt til skemmtunar á meðan á mótinu stóð. Það voru m.a. haldnir tveir dansleikir og Sniglabandið lék fyrir dansi. Síðan var keppt íýmsum greinum sem þekkjast einungis meðal Sniglanna, t.d. var keppt í „snigli", sem felst í því að fara ákveðna braut á sem lengstum tíma. Einnig var keppt í reiptogi og skiptust þátttakendur í lið eftir hjólategundum.

Á kvöldin var grillaður matur handa mannskapnum, lambaskrokkur og margt fleira girnilegt.
Sniglarnir skemmtu sér konunglega og mótið þótti heppnast mjög vel.

Morgunblaðið 23.07.1988

16.7.88

Fundur lögreglunnar og Sniglanna

 Yfirvaldið kvatt með lófataki

Á FUNDI Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna, og lögreglunnar í Reykjavik ásamt fulltrúa umferðarráðs á miðvikudagskvöldið voru samskipti þeirra i brennidepli ásamt umferðarmálefnum í heild.
Fyrir hönd lögreglunnar voru mættir Ómar Smári Ármannsson, aðalvarðstjóri, og Sturla Þórðarson, deildarlögfræðingur, auk Sigurðar Helgasonar, upplýsingafulltrúa umferðarráðs. Sniglarnir fjölmenntu og voru yfir fimmtíu talsins. Margar athyglisverðar hugmyndir komu fram og þótt ekki væri einhugur um þær allar voru menn ákveðnir í því að láta ekki staðar numið eftir þennan fund. Var Iitið svo á að þessi fundur væri upphafið að nánari samskiptum bifhjólamanna og lögreglunnar. Sniglarnir kvöddu gesti sína með iniklu lófataki. 


Lögreglan átti frumkvæðið að fundinum og óskaði eftir því að fá að koma á félagsfund hjá  Sniglunum, sem tóku því vel. Ómar Smári hóf fundinn með örstuttum inngangi þar sém hann fagnaði
tækifærinu til þess að ræða málin og sagði tilganginn með honum vera þann, að athnga hvort lögreglan og Sniglarnir gætu ekki unnið í sameiningu að því að bæta umferðina. Fram undir miðnætti voru svo fjörugar umræður og að fundinum loknum var ljóst að sameiginlegt átak var þegar hafið.
 Ómar Smári bað fólk í upphafi að ræða ekki um einstök mál eða atvik heldur í víðara samhengi.
Var því tekið vel, en ýmsir stóðust ekki mátið og létu óánægju sína í ljós með einstök atvik í samskiptum við lögregluna. Sigurður Helgason sagði að starf ráðsins væri í rauninni barátta upp á líf og dauða. Alltof mörg slys yrðu á bifhjólamönnum miðað við tiltölulega fá hjól. Árin 1985-86 slösuðust 53 á bifhjóli og 4 létu lífið og það voru mjög oft lítt þjálfaðir ökumenn, 17-20
ára, sem í slysunum lentu, sagði Sigurður.
Einn Snigill skaut því inn í að hann hefði heyrt að í um 80% tilvika væru bifhjólin í rétti. Sigurður sagði það rétt vera, en bætti við að jafn slæmt væri að slasast hvort sem maður er í rétti eða órétti. „Það er ekki töff að vera í hjólastól og því síður dauður. Við verðum með öllum ráðum að berjast á móti þessum slysum," sagði Sigurður. Sniglarnir tóku undir það og beindu umræðunni inn á tillitsleysi ökumanna í garð bifhjólamanna. „Eg efast um að  almenningur viti að bifhjólamenn sem slasast eiga í langfæstum tilvikum sök á slysinu. Bifhjólamenn eru ekki þetta brjálaða gengi sem margir halda," sagði einn þeirra og bætti því við að honum þætti halla á bifhjólamenn í umfjöllun fjölmiðla. Ómar Smári tók undir það og sagði uppslátt um hraðakstur á bifhjólum ekki vera í samræmi við fjölda þeirra mála sem upp kæmu. „Ykkar hlutur er lítill. En þið vekið athygli og því geta fáir svert allan hópinn," sagði Ómar. I framhaldi af því að rætt var um reynslulausa ökumenn bifhjóla beindist umræðan inn á brautir æfinga og kennslu og var Sniglum þar mikið niðri fyrir. Þeir sögðu að það tæki um þrjá stundarfjórðunga að fá leyfi til að aka bifhjóli, sem að mestum hluta færi í pappírsvinnu. Aðeins þyrfti að sýna að viðkomandi kynni á hjólið. Dæmi var tekið um það að hægt væri að taka próf á 125 rúmsentímetra hjól og kaupa sér
svo 1100 rúmsentímetra hjól daginn eftir, sem er þrjár sekúndur að komast á 100 km hraða. Einn
Snigillinn kom með þá hugmynd að koma á einhvers konar stigsprófum á bifhjól til að koma í veg
fyrir að reynslulitlir ökumenn gætu komist yfir stærri hjólin. Þá var talað um nauðsyn þess að koma upp æfingasvæði og sú hugmynd kom upp að loka ákveðnum vegarköflum, þar sem því verður komið við, svo bifhjólamenn geti notað kraftinn í hjólum sínum án þess að stofna öðrum í hættu. Fulltrúum lögreglunnar þótti hugmyndin athyglisverð og fyllsta ástæða til að athuga hana nánar.
Talsvert var rætt um viðhorf lögreglunnar og almennings til bifhjóla og ökumanna þeirra. Þótti sumum Sniglanna, sem lögreglan væri öll að færast í aukana. Einn þeirra sagði viðhorf  lögreglumanna til þeirra hafa breyst. og sérstaklega færu í taugarnar á honum ungir afleysingastrákar,
sem væru að gera sig breiða án ástæðu. Tóku margir undir það og bættu við að þeir kynnu ekki
neitt fyrir sér í mannlegum samskiptum. Ómar svaraði því til að viðhorf lögreglumanna væru einstaklingsbundin, en bað Sniglana að koma til sín og kvarta ef þeim þætti á sinn hlut gengið. Sameiginlega gætu þeir svo rætt málin við viðkomandi lögreglumann. Þetta væri besta leiðin til að bæta samskipti lögreglunnar og bifhjólamanna og raunar ætti þetta við um alla þá, sem samskipti eiga við lögregluna. Hann bætti því við að sú staða kæmi einnig alIoft upp, að litið væri á lögregluna sem árásaraðila þegar hún væri einungis að sinna skyldustörfum Komið var inn á ótal hluti aðra eins og mikilvægi hlífðarbúninga, hraðakstur og margt fleira. Meðal annars upplýstist að lögreglan hefur jafnvel í hyggju að selja gömul Harley Davidson-lögreglubifhjól og sýndu margir Sniglar áhuga á að gerast kaupendur að þeim. Mikill áhugi var greinilegur hjá báðum aðilum, að hafa aukin samskipti sín á milli.
 Og í lok fundarins kvöddu Sniglarnir yfirvaldið með dúndrandi lófataki.  

25.6.88

Samkoma vélhjólamanna (1988)

Skagaströnd

Meðlimir í Bifhjólasamtökum lýðveldisins eða Sniglarnir vekja alltaf nokkra athygli þar sem þeir eru saman á ferð á vélfákum sínum. Ekki er þó kannski rétt að segja að það séu ökumennirnir sem draga að sér mesta athygli heldur hafa margir gaman af að skoða hin kraftmikluvélhjól sem þeir ferðast á.

Nú nýverið komu saman eina helgi á Skagaströnd rúmlega 40 Sniglar á 23 vélhjólum til að hittast og spjalla saman um sín mál.  Komu Sniglarnir alls staðar að af landinu og létu þeir vel af dvöl sinni hér. Að sögn þeirra kappa má áætla að meðalhjól eins og þeirra kosti um 450—500 þúsund og séu með 100 hestafla vél. Voru því samankomin um 2.300 hestófl við Skíðaskálann, þar sem hópurinn gisti um þessa helgi.
 Hjólin voru mörg hver stórglæsileg, enda er eigendum þeirra mjög annt um þau.

- ÓB 
Morgunblaðið 25.06.1988

26.11.87

Allt um Bifhjólasamtök Lýðveldisins


  Hverjir eru þeir? Hvaðan komu þeir? Hvert fóru þeir? Flott hjól, mikill hraði, leðurföt o.fl.Hvað meira veistu? Allt-síðan ákvað að reyna aðfræðast aðeins um „Sniglana".Hér á eftir sérðu afraksturinn 



Sveinn Guðmundsson

Hann segist ekki vita hvenær þessi hjóladella greip hann. Telur hana meðfædda. 
- Hvenær voru Sniglarnir stofnaðir?
„Ja, fyrir rúmum fjórum árum setti einn Snigill, sem er kallaður „Súper-Lúlli" auglýsingu í blöðin, bara upp á sitt einsdæmi, um stofnun samtaka bifhjólafólks. í dag erum við rúmlega þrjú hundruð og þar af ekki nema rúmlega fjörutíu konur. Konurnar eiga yfirleitt ekki sjálfar hjól, heldur sitja aftan á."

- Hefur ykkur þá orðið eitthvað ágengt sem hagsmunasamtökum? „Nei, raunverulega ekki, því að við erum það fámennur hópur. Samt sem áður erum við ekkert að rugla. Þú sérð það að þegar felldir voru niður tollar á bílum, voru um leið felldir niður tollar á öllum farartækjum nema hjólum. Þú sérð svo bara með hjálmana, sem eru öryggisatriði,  þeir kosta 15-20 þúsund krónur."- Eruð þið eitthvað merktir? „Já, við erum allir með merki samtakanna á vinstri handleggnum (á jakkanum þ.e.a.s.). Við  norðlenskir Sniglar erum auk þess einkenndir með rauðum borða á ermi eða öxl. Við erum þeir einu sem einkennum okkur eitthvað sérstaklega. Sunnlendingarnir eru auðvitað svo fáir að við þekkjum þá alla!"
 - Eruð þið ekkert á fjórhjólum? „
Það er bara svo hundleiðinlegt á fjórhjóli. Það er kannski allt í lagi að fara á þetta hálftíma í einu og svo búið. Þá er nú betra að fara bara á hestbak. Við Kermit eigum nefnilega báðir hesta."
- Hefur þú þá einhvern tíma til að vinna?
„Nei, það er nú gallinn við þetta. Ég hef svo lítinn tíma. Sólarhringurinn þyrfti að vera helmingi lengri ef hann ætti að duga mér. Hjólin taka auðvitað alveg óskaplega mikinn tíma, en maður fær það margborgað til baka."
- Hvernig fer maður að því að ganga í Sniglana?
„Til að ganga í Sniglana þarf maður að vera orðinn sautján ára og hafa bifhjólapróf. Síðan þarf maður að vera með, fyrst í þrjá mánuði til reynslu, og svo að lokum þarf maður meðmæli 13 Snigla. í rauninni er ekkert mál að fá þessi þrettán meðmæli, þú þarft náttúrlega að kynnast fólkinu."  (Innskot frá Kermit): „Þetta er
ekkert mál, nema maðurinn sé þeim mun meiri drullusokkur. Ef þetta ákvæði hefði verið þegar ég gekk í Sniglana, hefði ég aldrei komist inn."
 - Eiga Sniglarnir sér formann?
„Nei, en innan Sniglanna er starfandi stjórn, í henni eru gjaldkeri, ritari, formaður og svo meðstjórnendur. Stjórnin hefur þann starfa að sjá um fjármál, skipuleggjá ferðir sem farnar eru, bæði innanlands og svo  norðurlandaferðirnar og hjólasýningaferðirnar. Hún sér líka um að gefa út fréttabréfið okkar, Sniglafréttir, og svo hefur hún skipulagt og undirbúið löggæslu, sem við höfum tekið að okkur, t.d. á tónleikum.

" Birgir Örn Sveinsson 

Hjá Sniglunum er hann kallaður Kermit. Hann er giftur og hún er ekki Snigill. 
- Hvað gera Sniglarnir saman?
„Við höldum skemmtanir og landsmót, förum í ferðir um land allt, svo förum við einu sinni á ári til Norðurlandanna og-svo af og til á  mótorhjólasýningar, núna síðast í haust."
  - Hverjir eru í Sniglunum? 
„Það er bara alls konar fólk, verkamenn, menntafólk, námsmenn, stjórnmálamenn og landsfrægir skemmtikraftar, sem sagt alls konar fólk á öllum aldri, bæði karlar og konur úr öllum stéttum og þrepum samfélagsins."
 - Skipta Sniglar oft um hjól?
„Nei, það mundi ég ekki segja, annars er það mjög misjafnt. Náttúrlega ef þú ert ánægður með hjólið þitt, þá selur þú það ekki. Úti eru til dæmi þess að menn hafa gifst hjólinu sínu,  ég mundi ekki selja konuna mína. Þar eru svo aftur dæmi þess að menn eigi fleiri hjól en eitt. Það eru nokkrir sem eiga tvö hjól og ég þekki einn, sem er að fá sér það þriðja. Svo eru sumir sem eiga hreinlega ekkert hjól. Algengast er svo auðvitað að menn eigi eitt ágætt hjól."
 - Eru allir Sniglar hrifnir af Sniglabandinu sem hljómsveit?
„Já, það held ég örugglega. Þetta er auðvitað besta sveit landsins fyrir utan Stuðmenn."
 - Leðurfötin sem þið eruð í, eru þau bara stælar?
 „Nei alls ekki. Þau eru fyrst og fremst alveg geysileg vörn, fyrir utan hvað þau eru hlý. Ef þú ert í gallabuxum og dettur, máttu eiga voii á því að þær tætist í  sundur og náttúrlega lappirnar og kjötið með, en ef þú ert í leðurfötum þá renna þau eftir malbikinu þannig að þú kæmir nærri því óskaddaður út úr því. Svona algalli, jakki, buxur, hanskar, skór og hjálmur, kostar sennilega í kringum fimmtíu og fimm - sextíu  þúsund krónur."
- Hvað endast Sniglar yfirleitt lengi? „Flestir Sniglar eru á milli tvítugs og þrítugs, en elsti Snigillinn er um fimmtugt. Ég hugsa að menn endist yfirleitt eins lengi og áhuginn leyfir. Auðvitað er komin voðalega lítil reynsla á það hvað menn endast, samtökin eru það ung enn. Ég vona bara að ég endist þar til í kistuna er komið."

 Steindór Valur Reykdal 

Steindór
Hjá Sniglunum heitir hann Júlli og er númer 225. Hvaðan Júllanafnið er komið er svo spurning. - Hvað finnst þér um Sniglana?
„Hvað á manni að finnast? Mér finnst þetta auðvitað mjög gaman. Ég trúi því líka að Sniglar eigi eftir að lifa á meðan til eru mótorhjól. Sem hagsmunasamtök hafa þeir ekki orðið eins sterkir og til var ætlast. Þetta er svo lítill hópur að það er sáralítið  hlustað á þá á æðri stöðum."
- Er það eins gaman og af er látið, að þeysa um á mótorhjóli?
„Já. Það er það. Þetta er alveg sérstök tilfinning. Eiginlega ennþá skemmtilegri en orð fá lýst. Ég veit ekki hvað þetta er,  fyrir mér er þetta, held ég, veikleikinn fyrir frelsinu." - Hvernig eru ástamálin innan Sniglanna? „Þau eru mjög skrautleg, ég stunda þau ekki." (Svarinu fylgdi mikill hlátur.) (Innskot frá Svenna): „Ef  stelpa kemur inn í hópinn (þ.e.a.s. Sniglana) og er með einhverjum gæjanum og svo hætta þau saman, þá er það algengt að hún fari ekkert út úr hópnum. Hún byrjar bara með næsta og er þar með alltaf í þessum hópi."
- Er hjólið ekki mikill keppinautur í hjónabandinu?
„Ég bara veit það ekki, ég hef aldrei verið giftur." (Hann hlær aftur.) Svenni: „Það þýðir ekkert að spyrja Júlla svona spurninga. Hann stundar ekki ástamálin. Hann er svo saklaus, þess vegna fékk hann Júlla-nafnið." Júlli: „Ég er einn af þessum sakláusu. Aftur á móti væri allt í lagi að hafa fleiri konur í Sniglunum - fleiri á hjólum."
 - Hefur þú farið í margar Sniglaferðir?
„Já, ég hef farið í nokkrar,  sennilega fjórar ferðir og fannst mjög gaman. í þessum ferðum er náttúrlega dreypt á góðum drykkjum, í hófi þó. Það eru alltaf nokkrir sem drekka alls ekki."
- Eru til Sniglapartý? 
Birgir og Svenni
„Já þau eru til og eru yfirleitt eins og önnur partý, nema þar eru aðallega Sniglar. Helsti kosturinn við Sniglapartý er sá að þar er náttúrlega rætt um mótorhjólin. Allir eru með sömu áhugamál. Sumir hafa líka áhuga á jeppum."
 - Hittast allir Sniglar á landinu oft?
 „Ekki oft, kannski. Þó er landsmót Sniglanna einu sinni á ári. Þar eru stundaðar alls konar íþróttir, eins og hreðjaglíma, sem er mjög sérstök glíma. Þar er barist í fullum skrúða, í stígvélum, leðurgalla og með hjálm og hanska. Hjálmurinn er hafður lokaður og allt er rennt eða smellt, hvar sem hægt er á gallanum. Við iðkum líka „tegundareiptog," sem Honda vinnur alltaf. (Hlátur. Júlli er nefnilega mikill Hondaaðdáandi.) Svo er keppt í Snigli, sem er kapphlaup og „Sippómundun" sem felst í því að menn taka Sippó-kveikjarann upp úr vasanum og kveikja á honum. Sumir eru það færir að þeir taka kveikjarann logandi upp úr vasanum."
- Hvað verður svo um Sniglana á veturna?
„Þeir skríða í skel sína. Taka hjólin sín inn í skúr og pússa þau.  Svo eru fundir hér á Akureyri hálfsmánaðarlega. Svo er árshátíðin á vorin." *
 - Trúir þú á jólasveininn?
 „Já auðvitað, en ég held þó ekki að hann sé að finna í röðum Snigla."
Dagur 26 nóv 1987