12.2.87

Á landinu eru starfandi samtök sem bera nafnið Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar.

Baldvin B. Ringsted.

       ALLT

Hér á Akureyri er hópur fólks í þessum samtökum þó lítið fari fyrir þeim, nema þá frekast á sumrin.
Mér lék nokkur forvitni á að vita hvers konar samtök Sniglar væru ásamt því hvað er svona sérstakt við bifhjól. Í hugum margra er ímynd hins svala gæja sú að sjá svartklæddan mótorhjólatöffara geysast um á stóru svörtu hjóli.
Þessir menn eiga þá samfylgjandi ímynd að vera hrottar og jafnvel glæpamenn. Kvöldstund sú sem ég eyddi með Sniglunum sannfærði mig um að margir þyrftu að búk sér til nýja ímynd af hinum svala gæja því Sniglarnir eru (kannski eins og nafnið bendir til) mestu rólegheita skinn sem leggja sál sína í þetta áhugamál, sem reyndar er orðið stór þáttur í lífi margra Sniglanna.
Sniglarnir halda fundi annað hvert fimmtudagskvöld í Dynheimum og verður næsti fundur fimmtudagskvöldið 19. febrúar klukkan 21.00.
Sniglarnir hvetja eindregið alla sem hafa áhuga á bifhjólum að koma á fundi og kynnast málunum.




BALDVIN B. RINGSTED
                    HARALDUR SIGURÐARSON
                                    HEIÐAR Þ. JÓHANNSSON 


Hvers vegna heita samtökin Sniglar?
 B: „Þegar samtökin voru stofnuð formlega eftir auglýsingu í DV þá komu nokkrir áhugamenn saman og lögðu hausana í bleyti til að spá í eitthvert nafn. Það voru komnar ýmsar hugmyndir fram eins og Svarta höndin, eitthvað óhugnanlegt og ruddalegt. Þá kom þetta nafn fram og það þótti svo gott að það var ákveðið."
- Það er ekki verið að skírskota til hraðans sem þið akið á? 
HS: „Við sniglumst jú þegar við erum margir."
B: „Það má segja það, í nafni félagsins þá sniglumst við. Þegar við tökum hópakstur og annað slíkt þá höldum við okkur innan leyfílegra marka."
- Hvert er takmark félagsins?
 B: „Einhver sagði að takmark félagsins væri að koma öllum íslendingum á hjól fyrir aldamót. En í lögum félagsins stendur að það sé til að byggja upp samstöðu meðal bifhjólamanna og vinna að hagsmunum þeirra. Ná fólki saman og fara í ferðir út á land og út í heim. Það er ferðast milli Norðurlands og Suðurlands einnig mætist hópurinn einhvers staðar um verslunarmannahelgar. Síðast vorum við í Vestmannaeyjum og þar áður í Atlavík. Það er líka búið að fara tvær utanlandsferðir á sýningar og það er verið að ræða um að fara í Evrópureisu eða á Ólafsvökuna í Færeyjum." -
 Hvað eru samtökin gömul? 
B: „Þau eru stofnuð í apríl 1984."
 - Hvernig skiptast samtökin milli landshluta? 
B: „Það er varla hægt að segja að þau skiptist. Við byrjuðum að halda fundi hér á síðasta hausti því það var orðinn svo fjölmennur hópur hérna og erfitt að fara suður einu sinni í viku á fund. Það er stjórn í samtökunum en enginn sérstakur formaður. Snigill númer eitt er aldursforsetinn."
- Hvernig er með húsnæði? 
B: „Það stendur til aó koma upp húsnæði en það yrði sennilega á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ef við fengjum einhvern bragga hér værum við vís með að þiggja hann. Við kunnum vel við okkur undir beru lofti enda eru samtökin virkust á sumrin þá er helst legið í tjöldum."
- Hver eru skilyrði til að komast í samtökin? 
Haraldur Sigurðsson
B: „Upphaflegu og núverandi skilyrðin eru þau að vera orðinn 17 ára. En það stendur til að gera einhverja smá trekt, það þarf ekki nema eina skemmda legu í góða vél til að allt sé ónýtt. Það hafa heyrst sögur um að þetta séu glæpamenn eða þaðan af verra."
 - En verður maður að eiga mótorhjól til að ganga í samtökin?
 B: „Nei alls ekki. það er talið æskilegt að þú hafir áhuga á mótorhjólum. Það er nóg að vita að þetta er farartæki á tveim hjólum sem kemst hratt og það er gaman að ferðast á þessu. það þarf ekki að vita nein tækniatriði eða neitt svoleiðis."
- Hvað með stelpur? 
B: „Stelpur eru velkomnar."
- Eru einhverjar starfandi núna?
B: „Já ætli þær séu ekki svona 10%." HS: „Allt of fáar."
- En hér fyrir norðan?
B: „Við köllum okkur Nyrðri arm samtakanna og þá teljum við Akureyri, Dalvík, Svalbarðsströnd og Þingeyjarsýslu. Við erum 35-40 manns og þar af 5-6 stelpur. Heildarfjöldinn yfir landið er að nálgast 300."
 - Er hægt að vera félagi hvar sem er á landinu? 
B: „Já það er gefið út fréttabréf. í því eru nýjustu slúðursögurnar, auglýsingar frá umboðunum og jafnvel tæknimál."
 - Hvar er hægt að fá þetta blað?
Heiðar Þ. Jóhannsson
HS: „Hafa samband við Snigil og fá að lesa þetta hjá honum."
 - Er nauðsynlegt að hafa svona félag?
 HS: „Já." B: „Já, þetta eflir svo samkenndina. Það er gaman að skemmta sér með fólki sem hefur sömu áhugamál. Að hittast hvaðanæva af landinu á einum stað, það er svo tignarlegt að sjá 30 hjól saman að þú trúir því ekki fyrr en þú sérð það."
 - - Hræðist fólk ykkur ekki ef þið komið kannski 20-30 saman með ógnar hávaða? 
B: „Það eru áhrif frá amerískum bíómyndum. Fólk setur oft samasemmerki milli mótorhjóla og glæpamanna. Leðrið hefur líka þessi áhrif."  HS: „Og hávaðinn sem er kvartað undan er í rauninni öryggisatriði því þegar bílstjórar sjá okkur ekki í baksýnisspegli er hávaðinn í hjólunum það sem segir þeim að við séum þarna."
- Eru þetta ekki keppnissamtök á neinn hátt?
 B: „Nei, þau eru fyrst og fremst til að ná saman mönnum sem hafa verið dreifðir hver í sínu horni. Ef einhver sem á gamalt hjól sem er í sæmilegu ásigkomulagi, og hann vill losna við það þá er um að gera að tala við okkur og ganga í samtökin."
 - Bjóðið þið ekki upp á viðgerðanámskeið fyrir yngra fólkið sem er að stíga sín fyrstu skref á þessari braut?
 B: „Nei það hefur ekki verið gert. Um leið og þú færð þér hjól og ef eitthvað bilar þá bara spyrðu næsta mann. Ef hann getur engar ráðleggingar veitt þér þá finnst örugglega einhver. Samtökin eru eins og að eignast 300 systkini og allir vilja hjálpa öllum."
- Hvernig gengur samstarfið við lögreglu?
 B: „Það hefur yfirleitt verið mjög gott. Fyrir sunnan bauð yfirlögregluþjónninn strákunum í kaffi þar sem rædd voru ýmis mál." HJ: „Það er mikið svínað á okkur í umferðinni og 30% slysa sem verða á bifhjólum verða þegar svínað er á okkur." B: „Við erum að reyna að koma af stað vakningu þar sem við viljum að allir keyri í fullkomnum hlífðargalla. Alveg í leðri með góðan  hjálm, hanska og stígvél. Og að keyra alltaf með ljós og þ.h. Þú sérð nú yfirleitt ekkert alvarlegt að hjá manni á stóru hjóli, ekki eins og hjá þessum skellinöðrupúkum þar sem 3 af hverjum 4 eru ljóslausir í umferðinni. Ábyrgðartilfinningin er meiri þegar menn eru komnir á stór hjól."
 - Hafið þið lítið álit á þessum skellinöðrupúkum?
B: „Nei við erum allir búnir að ganga í gegnum þetta og vitum hvað þetta er en okkur blöskrar samt hvað þeir eru kærulausir. Þeir gera sér margir hverjir ekki grein fyrir hvað þetta er hættulegt í raun og veru."
 - En að taka þá inn í samtökin?
 B: „Þeir verða að hafa sín samtök sjálfir. Það hefur verið rætt um að bjóða þeim jafnvel á kynningarfund og gefa þeim góð ráð. Þeir myndu eiga mjög erfitt með að ferðast með okkur þeir eru á svo kraftlitlum hjólum, þannig að það gengi ekki að þeir yrðu í samtökunum."
 - Hvernig er með þessi nöfn sem þið fáið á ykkur (þá var ég að skírskota til nafns sem einn fundarmannanna bar á sér)?
 B: „Við fáum svona nöfn á okkur ef það er hægt vegna einhverra atvika. Þetta nafn sem þú ert að tala um Skelfir eða réttara sagt reiðhjólaskelfir fékk hann (þ.e.a.s. fundarmaðurinn) vegna óhapps sem tengdist tveim eldri konum."
- Hvað er það sem fær ykkur til að halda áfram t.d. ef þið hafið orðið fyrir slysum?
HS: „Meðfædd della." B: „Það er allt hættulegt. Verstu mótorhjólaslysin sem verða eru þegar fætur klemmast á milli bíla en ef viðkomandi dettur á hjóli í fullkomnum hlífðargalla getur hann staðið upp aftur. Þetta er orðið meira en áhugamál hjá okkur, tilfinningin að fara út á sumrin á góðu hjóli er ólýsanleg, menn verða að upplifa þetta." HS: „Maður verður svo ótrúlega bjartsýnn."

Sólveig Sveinbjörnsdóttir
Sólveig Sveinbjörnsdóttir 18 ára 
Sólveig var eina stelpan sem mætt var á þennan fund svo að ég ákvað að spyrja hana hvað henni fyndist um þetta allt og stelpur á mótorhjólum. - Af hverju ert þú í samtökunum?
„Ég fór í fyrsta skipti aftan á hjól í sumar hjá stráknum sem ég er með. Ég ætlaði að vísu aldrei að þora en þetta er alveg æðislegt þegar maður byrjar."
- Hefurðu próf á skellinöðru eða mótorhjól?
„Nei hvorugt en ég ætla að taka mótorhjólapróf í sumar þetta verður óstöðvandi della hjá manni."
 - Hvað finnst þér um sjónarmið fólks gagnvart því að stelpur séu á svona hjólum? 
„Það er mjög misjafnt, sumir eru fordómafullir gagnvart þessu en annars verð ég ekki svo mikið vör við það."
 - Hveturðu stelpur til að ganga í samtökin?
„Já, ef þær fá delluna einu sinni þá verða þær. alveg eins og strákarnir."
 "Um leið og ég var að búast til brottferðar kom Baldvin B. Ringsted að orði við mig og vildi leggja áherslu á það að stelpum væri velkomið að fá að sitja aftan á hjá þeim ef þær vildu prófa.
Það væri bara að tala við þá þar sem þeir væru oft í bænum á sumrin, það hefði nefnilega sýnt sig að þær væru alveg jafngóðir bifhjólastjórar og strákarnir

Egill H. Bragason
Ökukennari

Allt spyr Egil H. Bragason ökukennara 


- Kennir þú á fleiri farartæki en bíl?
 „Ég hef réttindi til að kenna á bifhjól líka."
 - Er mikið að gera við bifhjólakennslu? 
„Það hafa verið svona 30-40 manns á ári." Sniglarnir því miður eins og aðrir. Þeir sem keyra mótorhjól eiga það á hættu að keyra hratt og það eru margir sem missa prófið á hverju ári út af því."
- En hvað með að ökumenn svíni fyrir bifhjólafólk? 
„Það er alveg rétt, ökumenn geta verið mjög tilitslausir gagnvart mótorhjólum. Maður verður alltaf að gera ráð fyrir að mótorhjól taki sama pláss á veginum og bíll."
- Heldur þú að slys á mótorhjólum séu meira sök bílstjóranna? 
„Það er alveg útilokað að segja nokkuð um það. Þeir sem eru á mótorhjólunum ráða vel við þau en slysin hafa alltaf fylgt og munu gera það. Það er ekki hægt að segja að það séu hlutfallslega meiri slys á mótorhjólum heldur en bílum."
 - Hvernig fer kennsla og próf fram á mótorhjóli? 
„Það fyrsta sem maður athugar er hvort viðkomandi hefur keyrt skellinöðru áður og langflestir hafa gert það enda þýðir ekki fyrir mann að læra á stórt hjól nema að hafa keyrt skellinöðru. Nemandinn keyrir síðan ákveðnar leiðir og maður sjálfur á eftir. Það er byrjað á frekar fáförnum stað og ef allt er í lagi þá heldur nemandinn strax áfram. Maður getur fylgst með gírskiptingunum, hvort nemandi hallar sér rétt í beygju og hvort hann bregst rétt við hættum í umferðinni. Nemandi er látinn stoppa í brattri brekku og taka af stað aftur og þá reynir mjög mikið á hæfni nemandans. Þetta geta ekki aðrir gert en þeir sem hafa góða stjórn á hjólunum. Nemandi má byrja að læra þrem mánuðum áður en hann verður 17 ára á stórt bifhjól en getur ekki tekið akstursprófið fyrr en á 17 ára afmælisdaginn. Fræðilega prófið, sem er fólgið í að þá er fjallað um gerð og búnað bifhjólsins ásamt umferðarreglum og lögum, er hægt að taka áður en nemandi verður 17 ára. Í fræðilegu prófi verður að fá 78 stig af 90 mögulegum. Akstursprófið fer þannig fram að nemandi ekur einhverja ákveðna leið í bænum sem bifreiðaeftirlitið tilgreinir og prófdómarinn ekur á eftir honum. Nemandi fær í hendurnar sérstakar reglur fyrir bifhjól ásamt upplýsingum um búnað og þess háttar. Það skiptir ekki máli hvort nemandi er með bílpróf eða ekki en það er léttara fyrir hann því þá kann hann það mikið í umferðarlögum. Hingað til veit ég bara um einn mann hjá mér sem hefur tekið bifhjólapróf án þess að hafa bílpróf. Þetta próf gildir fyrir stærra en 50 cc."
 - Skiptir engu máli með líkamsburði nemanda? 
„Jú hiklaust, það hefur komið fyrir að fólk hefur ætlað að læra sem er 40-50 kg og það þýðir ekki, veldur ekki hjóli sem er hátt í 200 kg. Eins er það að hjól sem eru með svokölluðu kikkstarti, þ.e. þeim er startað með fætinum eru of erfið viðureignar fyrir mjög létt fólk, það verður að vera á hjólum með rafmagnsstarti." ......
- Hvað með stelpur?
 „Hjá mér eru kannski 3-4 á ári og þær mættu alveg læra meira því að það hefur sýnt sig að þær eru ekki lélegri." - Hvernig er með þá sem vilja taka próf á svona hjól en eiga ekki neitt, geta þeir einhvers staðar fengið lánað hjól eins og bíla? „Lögreglan lánar engin hjól en ef kæmi til mín maður sem ekki gæti útvegað sér hjól þá myndi ég reyna að gera það."
- Verðurðu var við fordóma frá fólki t.d. af því að mótorhjólafólk er leðurklætt? 
„Það er skylda samkvæmt lögum að bifhjólafólk sé leðurklætt því ef það dettur af hjólunum þá rispast það svo mikið að öll venjuleg föt tætast í sundur, það verður að vera þykkt efni."
- En hvað með hrotta- og glæpamannastimpil sem mikið af þessu fólki fær á sig?
„Ég held að besta dæmið sem lýsir þessu sé að ég er búinn að kenna nokkrum svokölluðum pönkurum og þetta hafa verið alveg indælis drengir. Ég held að þetta sé alrangt álit sem fólk hefur því þetta er mjög hugsandi ungt fólk sem hefur sínar eigin skoðanir. Þetta er ákveðin lífsstefna og þetta er í tísku. Ég hugsa að margir af þessum mótorhjólastrákum séu í þessu ekki síst því það er álitið að þetta höfði eitthvað til kvenkynsins. En þeir hafa líka mikinn áhuga á hjólunum því er ekki að neita." - Hvað kostar að læra á bifhjól? 
„Fast verð hefur ekki verið endanlega ákveðið fyrir þetta ár. En allur kostnaðurinn hefur verið um 4000 krónur, mér skilst að það sé eitthvað dýrara að taka þetta próf fyrir sunnan." 

Texti: Ingibjörg Elfa Stefánsdóttir.
Myndir: Kjartan Þorbjörnsson
Dagur 12.2.1987 

30.11.86

Sníglabandíð með afbrigðum


Fyrir örskömmu gaf Sniglabandið út plötuna Fjöllin falla í hauga, sem er tveggja laga skífa í stærra laginu og með afbrigðum góð. Á plötunni eru tvö lög, annars vegar „750 cc blús“ og hins vegar lagið „Álfadans", sem íslendingar gaula árvisst um hver áramót. 

   „750 cc blús“ er eftir Valdimar Örn Flygenring, en textinn er eftir Þormar Þorkelsson — snigil nr. 13. Þetta er hressilegt vélhjólalag, án þess að vera bárujárn eða skylt „Riddara götunnar". Texti Þormars er ágætur og á tíðum sér maður nánast glott höfundar á bak við fjálglegar lýsingar um unað vélhjólaaksturs.

      „Álfadans" þekkja allir — „Máninn hátt á himni skín“ o.s.frv.. — og fara Sniglar vel með það. Á þessum síðustu og verstu tímum, þegar menn keppast við misjafnlega ósmekklegar útsetningar á gömlum og góðum lögum er ánægjulegt að vita af því að einhverjir hafi enn tilskilda smekkvísi til þess. Það hafa liðsmenn Sniglabandsins. Þegar haft er í huga hve auðvelt er að klúðra svona lögum (muna menn Álfareiðina?), þá er þetta harla gott hjá Sniglabandinu, Hverjum Sniglabandið er skipað veit ég ekki utan þess að allir meðlimir þess eru í Bifhjólasamtökum lýðveldisins. Hljóðfæraleikur er til prýði, en það sem mest ei um vert er þó ferskleiki hljómsveitarinnar.

       Í heild er þetta hin eigulegasta plata. Hljómsveitin er öðruvísi en flestar aðrar, en hið sama er nú sagt um Stuðmenn og Skriðjökla og þykir þeim ekki til hnjóðs. — Sniglabandið er á réttri braut og má hlakka til hljómleikafarar þeirra um landið og ekki síður til skífu þeirrar, sem þeir lofa með laufunum á trjánum. 

     P.S. Ef mig misminnir ekki gáfu Bifhjólasamtökin út óvitlausa jólaplötu í hitteðfyrra og sungu um hjólajól. 

29.10.86

Halldór afþakkaði farið

Árni á hjólinu góða -
Honda Shadow 750 '83
„Ég fékk hjólið í sumar," segir Árni Johnsen alþingismaður sem er einn þeirra er aka um götur borgarinnar á mótorhjóli. Hann er eini þingmaðurinn á Alþingi Íslendinga sem mætir í vinnuna á slíku farartæki. „Þetta er stórt hjól og þægilegt," heldur Ámi áfram." Eins og maður sitji í sófa. Og þannig hannað að maður er teinréttur en ekki í keng. Svo hefur það mikið afl, enda er hjólið sjötíu hestöfi." „Ég hef alltaf haft gaman af svona hjólum og tækjum og þegar þetta hjól kom til var það þannig að ég var að versla niðri í bæ og gekk illa að finna bílastæði. Sá þetta hjól, varð strax skotinn í því og þegar það var til sölu keypti ég það samstundis. Það er alls staðar hægt að leggja mótorhjólum."


Er vanur stórveðragjólu


„Fyrst og fremst lít ég á þetta sem handhægt tæki til þess að ferðast á milli - og svo líkar mér vel að fá blæinn í fangið. Er vanur stórveðragjólunni. Stormurinn er mitt veður. Á hjólinu þarf svo að beita sér því þetta er jafnvægislist - hjólin eru tvö en ekki fjögur. Hins vegar verður að segja eins og er að svona farartæki nýtist ekki allt árið á íslandi." Árni bendir á að tíminn nýtist miklu betur þegar mikið þarf að skjótast á milli því hjólið er að mörgu leyfi liprara en bfll. Hins vegar finnst honum lítið tillit tekið til vélhjóla í umferðinni og ökumenn komi klaufalega fram við bifhjólin. „Það er svolítill ballett í umferðinni að vera á mótorhjóli og fyrst maður er ekki smíðaður fyrir venjulegan ballett þá er þetta skemmtileg lausn og tilbreyting. Og svo er það líka að ég hef alltaf haft gaman af þvi að fást við afl og hraða - því er ekki að neita - þótt ég kannski sé sáttari við tilveruna þegar ég sit með lundaveiðiháf eða síg eftir eggjum í bjargi."

Fjölskyldan og Halldór Blöndal


Inntur eftir viðbrögðum við hjólkaupunum játar Árni að þau hafi verið á ýmsa vegu enda séum við íslendingar mikið fordómafólk. „Annars er fjölskyldan ýmsu vön, konan mín var svolítið undrandi en fór vel með það. Ólíklegustu menn hafa sagt við mig „ ...mig hefur alltaf langað í svona hjól..." Og nokkrir félagar minir og samstarfsmenn hafa falast eftir því að fá það lánað og er það velkomið. Það er líka auðheyrt að ýmsir hafa gaman af þessu og menn eru að gantast með þetta. Það sýnir vel viðbrögðin þegar Halldór Blöndal bað mig skutla sér - sem hann gerir gjarnan. Svo sagðist hann aðeins þurfa að ná sér í blað og hringja og þess háttar - sem er líka alvanalegt. Ég er ekki þolinmóðasti maðurí heimi við að bíða eftir öðrum en sagði þarna að allt væri í stakasta lagi og beið rólegur. Þegar Halldór kom og sá tækið sem ég sat á fórnaði hann höndum og sagði: „Ertu á hjóli, ég fer aldrei á svona tæki." Svo hvarf hann bara út í veður og vind! Viðbrögðin voru svona eins og maður hefði boðið honum upp í geimfar - aðra leiðina."

-baj DV 29.10.1988

Sú mikla mótorhjóladella

Þeir eru margir fordómarnir sem ræktanlegir eru hjá einni þjóð þrátt fyrir smæðina. Áhugamenn um vélhjólaakstur hérlendis hafa ekki farið varhluta af viðteknum viðhorfum, það þykir ekki par fínt að aka um á slíkum tækjum, hvað þá ef tilheyrandi leðurkjæðnaður fylgir með í kaupunum. Hegðun sem sæmir víst einungis unglingum af óuppdregnara taginu. Staðreyndin mun hins vegar sú að hjólin eru að mörgu leyti þægilegt og hentugt farartæki, einkum að sumrinu. Leðurklæðnaðúrinn veitir svo nauðsynlega vörn gegn beinbrotum og skrámum í hugsanlegum byltum. Hjóleigendur eru svo af öllum stéttum, aldri og báðum kynjum - og ennþá fleiri hafa áhuga en veigra sér við því að aðhafast nokkuð af ótta við almenningsálitið. Á þessari Dægraávalaropnu er rætt við þá sem fyrst komu upp í tali almennings þegar minnst var á mótorhjólanotkun. Þarna er sá þekkti Snigill númer eitt, alþingismaður úr Eyjum, skurðlæknirinn sem mætti á stofuna í reykskýi, hagsýslustjóri sem húsvörðurinn í Stjórnarráðinu reyndi að losna við úr portinu og ungt par úr Sniglaklúbbnum. í lokin skal það látið með fljóta að Matthías Bjarnason samgðnguráðherra ku hafa verið mikill mótorhjólatöffari á yngri árum og meðal annars ferðast um vaðlandíð þvert og endilangt á slíku tæki. Efiaust stórgóð aðferð til að verða sér úti um undirstöðuþekkingu á íslensku vegakerfi og Matthías því í þeim skilningi nákvæmlega háréttur maður í ráðherrastólinn. Þannig að menn ættu að amast varlega við ungum Sniglum á vegum útí - þarna gæti verið á ferðinni verðandi ráðherra í starfekynningarhringferð um landið.
Myndir: Brynjar Gauti Textí: Borghildur Anna




Kristín K. Harðardóttir og Elí Pétursson:
„Rosalegir fordómar"

Þau eru í Sniglunum bæði - Elí Pétursson og Kristín K. Harðardóttir. Hann er tuttugu og tveggja ára gamall vélvirki, hún er tvítug og afgreiðir í tískuverslun. Þau eiga hjólið saman og hafa mikinn áhuga á íþróttinni. Elí setti reyndar íslandsmet í kvartmílu á síðasta sumri. Núna er Kristín hins vegar eingöngu á hjólinu því Elí er próflaus, missti réttindin fyrir að aka á tæplega hundrað og þrjátíu kílómetra hraða milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur.
Reykjavíkur. „Ég var hirtur um verslunarmannahelgina," segir Elí. „Við vorum á leið til Vestmannaeyja en ég gleymdi drasli heima. Skaust í bæinn - en skaust of hratt."
Þetta er að hans mati einungis það sem alltaf getur gerst, í þriðja skiptið sem hann missir prófið og segir annan hvern mann lenda í því að missa prófið. Núna er ekki búið að dæma í málinu, hann er með bráðabirgðasviptingu síðan í ágústmánuði.

„Það er alltaf verið að spyrja mann hvort maður fari nú ekki að vaxa upp úr þessu. En þetta er einmitt öfugt - íþróttin er fyrir fullorðna en alls ekki krakka. Það er svo rosalegur hraðinn, segir Elí og Kristín bætir við:
„Mér finnst agalegt að sjá krakka sem eru nýkomin með bílpróf og hafa fengið sér hjól æða um niðri í bæ, bara í gallabuxum og léttum fatnaði með kannski annan eins klæddan aftan á hjólinu. Enginn hlífðarbúningur og ekki neitt en ekið á fullum hraða." Elí samsinnir.
„Það er líka rosalegur munur á mínu aksturslagi, hvernig ég keyri núna miðað við það sem ég gerði í upphafi. Lít þetta allt öðrum augum í dag.
Leiðindastælar og ruddaskapur

Talið berst að erfiðleikum í umferðinni og bæði senda ökumönnum bifreiða tóninn.
„Ofsalega algengt að menn séu með leiðindastæla ef þeir sjá fólk á hjóli í leðurfatnaði," segir Elí og Kristín reynist hafa lent í útistöðum næstum daglega eina vikuna.
„Þrisvar sem ég lenti í því að fólk réðst á mig með skömmum vegna þess að ég lagði hjólinu í stæði. Menn átta sig ekki á því að ökumenn mótorhjóla eru sektaðir fyrir sömu hluti og ef þeir væru á bifreið. Tvær konur á bíl öskruðu á mig og hótuðu að kæra þegar ég var að ganga frá hjólinu á stæði í eitt skiptið - sögðu þetta bara eiga að vera fyrir bíla." Vandamálið á vegunum eru bílstjórar sem aka alveg upp að hjólunum og þrengja þeim út i kanta og sérstaklega segja þau unga stráka leika sér að því að gera eitthvað í þá áttina og aka síðan hlæjandi í burtu. „Það er bara ein regla til með þessa ökumenn," segir Elí þungbúinn. „Bara að gefa þeim góða dæld í hliðina með löppinni - þeir svína þá ekki oftar."
Oj, örugglega Sniglar

Fordómarnir eru mismiklir og þeim finnst meiri skilningur hafa verið sýndur heima fyrir heldur en úti í þjóðfélaginu og þar eru jafnaldrarnir ekki barnanna bestir. Kristín prófaði fyrst að setjast á hjól hjá Elí og byrjaði að læra strax daginn eftir. En viðbrögð kunningjanna við því voru misjöfn. „Maður verður fyrir aðkasti á mörgum stöðum og sumir vinirnir hætta að tala við mann meira." Og Elí er á sama máli. „Ég fór í bæinn um daginn og þá löbbuðu tveir strákar framhjá og horfðu með viðbjóði á hlífðarfötin sem ég var í - þau eru úr leðri. Svipurinn leyndi ekki neinu og þeir sögðu svo hátt að ég heyrði: „Ojjjj... örugglega Sniglar," eins og þeir væru eitraðir." „En Sniglarnir eru bara félag," segir Kristín. „Eins og flugfélag, sportbátafélag og þess háttar." „Það var eitthvað annað með ömmu,"bætir svo Kristín við hlæjandi. „Hún fékk að prófa að setjast á hjólið hjá mér og finnst þetta alveg æðislegt. Sagðist hefði farið beint að læra núna ef hún væri ung ennþá. En afi fékk næstum slag þegar hann sá myndina af okkur saman á hjólinu!" -baj

DV
okt 1986

28.10.86

Er snigill númer eitt

Hilmar Lúthersson:

Maður var í þessu frá tólf til þrettán ára og þá á skellinöðru. Svo gifti maður sig, var í baslinu og hafði ekki tök á því að eiga neitt mótorhjól. En þetta var samt alltaf í blóðinu, leit nú við á götunni ef maður sá hjól. Svo lét ég verða af þessu rétt eftir fertugt, fékk mér hjól aftur." Viðmælandinn er Hilmar Lúthersson pípulagningameistari sem farinn er að nálgast fimmtugt. Hann er í Sniglunum - Bifhjólasamtökum lýðveldisins - er reyndar Snigill númer eitt og gengur undir nafninu Tæmerinn meðal flokksmanna. Hann hefur ekki viljað sitja í stjórn Sniglanna en er einn af stofnendunum og mætir reglulega á fundi og í aðra félagsstarfsemi á þeirra vegum.
Hilmar hefur, eins og aðrir sem áhuga hafa á þessari íþrótt, ekki farið varhluta af fordómum umhverfisins. „Jú, jú, þetta eru alls konar glósur," segir Hilmar hæglætislega. „Þótti of gamall og fólki fannst ég ætti heldur að fá mér vélsleða eða vera í hrossum. Svo er maður kallaður gamli karlinn og sumum bregður þegar ég tek niður hjálminn. En krakkarnir, sem ég er með í samtökunum, líta ekki svona á málið og finnst þetta bara jákvætt. Svo voru smábyrjunarörðugleikar heima fyrir en þeir eru löngu yfirstaðnir. Konunni fannst þetta í lagi fyrst en þegar ég fór að fé mér fleiri, stærri og dýrari hjól fór nú að heyrast hljóð úr horni. En þetta er ekki annað en íþrótt svipað og hrossin, vélsleðarnir og jeppadellan. Það er vist allt saman talið eðlilegt fyrir mann á mínum aldri.


Töðuilmur á mótorhjóli

 „Því er ekki að neita að þetta er allt önnur tilfinning heldur en að vera í bíl.Til dæmis fór ég út í sveit í sumar alveg um hásláttinn og þá fann maður töðuilminn. Meiri útivera og sterkari tengsl við náttúruna. I fyrstu var þetta náttúrlega bara gamli draumurinn - að eignast mótorhjól. Svo bættist við allt sem er í kringum þetta, útiveran og félagsskapurinn til dæmis. Svo er nostrið í kringum þetta - hafa hjólið hreint og í lagi. Ég hef ekkert gaman af því að vera á skítugu hjóli. Bíllinn er hins vegar yfirleitt alls ekki þveginn - ég hef engan áhuga á því. Ög svo er það hraðinn - ekki getur maður neitað því þótt ekki megi koma fram í blöðum einhverjar svimandi tölur."

Engin leiktæki

„Það er meira um það núna að menn noti hjólin sem farartæki. Á tímabili var þetta bara álitið einhvers konar leiktæki. í samræmi við það viðhorf voru tollar af hjólum ekki felldir niður um leið og tollar af bílum þannig að nýtt, stórt og flott hjól kostar fimm hundruð þúsund og þar yfir.
Tryggingarnar eru ekki miklar hérna en varahlutirnir eru hryllilega dýrir." Hilmar er Íslandsmeistari í kvartmílu á mótorhjólum árin '84-'85. En hann segist ekki vera neinn dellukarl svona almennt. Og hann leggur mikla áherslu á þýðingu þess að klæðast góðum hlífðarfatnaði úr leðri og fara varlega á hjólunum. „Annars er sagt að það séu bara til tvær gerðir af mótorhjólamónnum," segir Hilmar kíminn. „Þeir sem eru búnir að detta og þeir sem eiga það eftir. Það er lögmálið yfirleitt." Sérstakt ökuleyfi þarf til þess að aka þessum hjólum og sama gildir um skellinöðrur. Hilmar segir að erlendis geti þurft meirapróf að auki á stærri hjólin. Hérna hafi menn yfirleitt tilskilin próf og alltaf fjölgi í Sniglunum. „Félagsmenn eru.nú orðnir um tvö hundruð og fimmtíu og árgjaldið er þúsund krónur. Þetta er fólk úr öllum stéttum og af báðum kynjum. Við hittumst reglulega einu sinni í viku - í Smiðjukaffi á fimmtudögum milli níu og tíu á kvöldin. Kvenfólkið er yfirleitt af yngri kynslóðinni, fullorðnar konur eru lítið í þessu. En margar stelpurnar eru mjög góðir ökumenn." Skyldi svo Tæmerinn - Snigill númer eitt - vera að fara að hætta mótorhjólaakstrinum á næstunni?  Svarið kemur um hæl. „Nehei, ég hef alltaf jafngaman af þessu. Fer kannski á elliheimilið að lokum á hjólinu. Það væri óskandi að það væri hægt að hafa hjólið þar á svæðinu svo hægt væri að klappa því annað slagið." -baj 


4.9.86

Tveir vetur á einu ári

Dominique Perritaz

„Það er engan veginn brjálæðisleg hugmynd að ferðast um Island.

 Evrópubúar frétta sífellt meira um landið og ég held að fólk telji einkar áhugavert að skoða sig um hér," sagði þessi gerðarlegi svisslenski mótorhjólamaður sem Vikan rakst á í Haukadalnum „Annars gerðu vinir mínir grín að mér áður en ég lagði af stað. Einn sagði að ef ég færi til íslands þá nældi ég mér í tvo vetur á einu ári. En það er alls ekki svo kalt hérna á sumrin." Hann heitir Dominique Perritaz og eftir sex mánaða undirbúning sigldi hann með Norrænu frá meginlandinu til Seyðisfjarðar. Þaðan þræddi
hann ströndina norður, sigldi frá Snæfellsnesi yfir Breiðafjörð og virti Látrabjargið fyrir sér áður en stefnan var sett á afmælisbarnið við Faxaflóa. Þegar komið var við sögu í Haukadalnum höfðu 4000 kílómetrar af íslenskum vegum verið lagðir að baki, á einum og hálfum mánuði, en óljóst var hver aksturinn yrði á þeim þremur vikum sem eftir voru ferðarinnar. Jökulsárgljúfur, Mývatn og Þingvellir voru í hópi eftirminnilegustu staða í huga Dominique en framundan biðu meðal annars Þórsmörkin, Ófærufoss og Skaftafell.
„Það er eftirtektarvert hvað Jandslagið hérna er fjölbreytt og ósnortið," sagði Dominique í stuttu spjalli, „það er nokkuð sem maður finnur ekki annars staðar í Evrópu. Þegar ég fór að leggja drög að þessari ferð var ég á höttum eftir þvf sérkennilega og óvenjulega og satt best að segja átti ég ekki von á jafnmörgum ferðamönnum í ferjunni, bæði á mótorhjólum og bílum. En ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með landið, síður en svo. Ég var hins vegar hissa á því hvemig ungt fólk drekkur hérna.
Maður sér það dauðadrukkið, ranglandi með flöskur úti á götu. Það er nokkuð sem ég á ekki að venjast heima. Þegar maður sér svona flýgur manni helst í hug að það hljóti eitthvað mikið að vera að, alvarleg vandamál á ferðinni. Reyndar hafa allir sinn djöful að draga. í Sviss og Evrópu allri þurfum við að berjast gegn eiturlyfjavandamálinu en það virðist ekki orðið jafnáberandi hér." Að þessu mæltu spyrnti Dominique við fótum þannig að farartækið tók við sér, malaði Ijúflega og bar hann á veg í átt að Hruna. Þessi viðkunnanlegi Svisslendingur hafði kynnt sér söguna um dansinn á þeim bæ og vildi kanna staðhætti. Erfitt var að ímynda sér að innan mánaðar sæti hann við skrifborð á vinnustað í Mið-Evrópu og fengist við tölur. „Ég er bankamaður," hafði hann sagt, „en fyrir Svisslending er það sambærilegt og að vinna í fiski fyrir  íslending."


Vikan 4.9.1986 

28.8.86

Maður finnur lyktina af frelsinu

Bifhjólasamtök lýðveldisins Sniglar

Þú ert á ferð eitt fimmtudagskvöld. Kemur af Breiðholtsbrautinni á leið í Kópavog og rökkvað úti við. Þá sérðu eineygt farartæki aka á móti þér ofan Smiðjuveginn. I rauninni sérðu aðeins ljósið, hvítt ljós á hraðri ferð niður brekkuna, ljós sem beygir af leið og þýtur inn í einn botnlangann. Þetta var bifhjól en ökumaðurinn sást naumast, rétt glampaði á hjálminn en hann hlýtur að hafa verið  svartklæddur. Það var auðvitað. Einn af þessum leðurtöffurum. Og þú spyrð í hljóði: Ætti ég að elta? Undir niðri dáistu að þessum farartækjum og því sem þeim fylgir, en þú ert hræddur.

„Hjá okkur er árið 3. Sniglar, bifhjólasamtök lýðveldisins voru stofnuð 1. apríl 1984, félagar eru nú um 220 og fjölga sér mjög hratt. Markmið samtakanna er að sameina bifhjólafólk og vinna að  hagsmunamálum þess og fara í ferðalög innanlands sem utan. Við höldum auk þess árshátíð og mýmargar aðrar samkomur og gefum svo út blað mánaðarlega í brotinu A5 sem heitir Sniglafréttir. Það er málgagnið okkar. Samtökin eru öllum opin sem eru orðnir 17 ára, það er ekkert skilyrði að menn eigi hjól. Þú mátt þess vegna eiga Trabant. Og það eru engin stærðarlágmörk á hjólum. Þau
koma hins vegar af sjálfu sér. Hjólin verða að vera það stór að menn dragist ekki aftur úr á ferðum. Yfirleitt byrja menn á minni hjólum og stækka síðan við sig. Mikið vill meira. Það er líka til í dæminu að menn komi inn í samtökin á drullumöllurum, eins og við köllum þá, það eru hjól til að ausa upp drullu, en þeir eru komnir á götuhjól innan tíðar; þeir sjá að það er hamingjan.

Við leggjum ekki í vana okkar að spæna upp nýgræðinginn á örfoka landinu. 

Við keyrum á malbiki."
Á malbikuðu planinu fyrir framan veitingastaðinn standa þessi stóru gljáfægðu hjól í röðum en fyrir innan er félagsfundur hjá Sniglum að hefjast. Þið ljósmyndarinn reynið að vera kúl þar sem þið klofið milli félagsmanna og komið ykkur fyrir við borð úti í horni. Ykkar maður er ekki kominn og þið bíðið, horfið út um gluggann þar sem ný hjól bætast stöðugt í hóp þeirra sem fyrir eru og svo brosið þið í kampinn þegar tveir naggar á Hondu 50 dóla nokkra hringi, virða tryllitækin fyrir sér úr hæfilegri fjarlægð en gefa síðan í botn í burtu. Flestir í kringum ykkur innandyra eru íklæddir svörtum leðurjökkum og margir aðsniðnum buxum úr sama efni. Á sumum jökkunum eru merki  samtakanna og á örfáum blárauður borði en að klæðnaðinum slepptum er þetta mislitur hópur. Allir bíðandi og líka þið. „Það er engin ástæða fyrir hinn almenna borgara að óttast þetta svartklædda leðraða fólk því þetta eru öðlingar upp til hópa. Meðlimir samtakanna eru á aldrinum frá því að vera ekki farin að spretta grön upp í að vera sköllóttir. Sá elsti fer að komast á sextugsaldur. Svo má ekki gleyma því að hér eru þónokkrar píur, eða það er nær að tala um glæsikvendi, sem keyra um á stórum, kraftmiklum hjólum. Þær eru fleiri en ein og fleiri en tvær og þar fyrir utan eru margar í samtökunum sem eru ekki komnar á hjól, ennþá. Þetta er fólk úr öllum starfsstéttum; hárgreiðslufólk, skemmtikraftar, sjómenn, í raun þverskurður af þjóðfélaginu. Til dæmis höfum við okkar eigin hljómsveit, Sniglabandið. Það æfir af krafti og hefur haldið nokkra dansleiki, meðal annars á Þórshöfn um áramótin og spilar á Þjóðhátíð í Eyjum. Svo má heldur ekki gleyma því að þetta eru landssamtök. I þeim er fólk hvaðanæva af landinu. Þetta er ekki klúbbur heldur ein samtök og engar deildir. Og starfsemi okkar er vel skipulögð. Fimm manna stjórn fer með öll mál en hún er kosin ásamt fimm varamönnum á árlegum aðalfundi.

Eitt af langtímamarkmiðum Snigla er að koma íslensku þjóðinni á mótorhjól fyrir aldamót." 

■Langtímabið okkar er lokið. Skúli er mættur. Á rauðlitaða hjólinu með blárauðan borða í jakkanum.
Aðeins þeir útvöldu bera þennan borða og Skúli er útvalinn skipuleggjandi næstu ferðar. Áður hafa
Sniglar farið í ferðir um Vestfirði, til Akureyrar, í Atlavík '85 og í Landmannalaugar, svo dæmi séu nefnd, en tilefni þessa fundar er ferð á Þjóðhátið í Vestmannaeyjum. „Við leggjum af stað frá Hallærisplaninu annað kvöld," segir Skúli, „og við ökum hægt og fallega, ég endurtek, hægt og umfram allt fallega út úr bænum, þannig að við sniglumst, skríðum eins og langur ormur. Hvað fara annars margir á bílum?" Aðeins einn réttir upp hönd. „Júhú, við erum bifhjólasamtök." Einhver lýsir því yfir að á planinu fyrir utan standi 38 hjól en á fundinum eru vel yfir 50 manns, þar af hluti frá Akureyri. Austfirðingar eru þegar á leið til Eyja með Smyrli þar sem meðlimir landssamtakanna koma til með að sameinast innan tíðar. Ólíkt fólk sem á þó sameiginlegan reynsluheim; galdratilfinninguna að sitja á kraftmiklu bifhjóli. „Það er ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu fyrir þeim manni sem ekki hefur setið á hjóli. Maður finnur lyktina af frelsinu í útblæstrinum úr strætó, þá hamingjutilfinningu sem fylgir því að finna rigninguna smjúga inn um saumana á leðrinu og standa hríðskjálfandi eftir langa ökuferð með eitt stórt sælubros á andlitinu. Hvort þetta sé dýrt sport? Þetta er ekki sport, þetta er lífsstíll. Eftir tollalækkanir á bílum í vor er þetta að vísu orðið lúxus. Það eru
svívirðilega háir tollar bæði af mótorhjólum og varahlutum, þeir eru í kringum 100% með vörugjaldi,
tappagjaldi og hvað þetta nú allt heitir. Nú er hægt að fá fimm Trabanta fyrir mótorhjól í dýrari  klassanum. Þessi hópur, bifhjólafólk, var sem sagt svikinn um kjarabætur svokallaðar á liðnu vori.  Þarna er hagsmunamál á ferðinni og annað hagsmunamál samtakanna er að kenna blikkbeljuökumönnum að mótorhjól er ekki gufa heldur 200 kílóa járnflikki. Það þarf líka að
kenna þeim að horfa vel í kringum sig áður en þeir skipta um akrein því í 90% af mótorhjólaslysum eru mótorhjólaökumenn í rétti." Skúli svarar fyrirspurnum um ferðina. Að mörgu er að hyggja. Samtökin ætla að hafa stórt aðaltjald í Herjólfsdalnum og slá tjaldborg utan um það.
„Er það rétt að aðeins verði sukkað í stóra tjaldinu og menn megi ekki sofna alla helgina nema þeir
deyi?" „Já, en hafa ber í huga að þeir sem deyja verða rannsakaðir mjög ítarlega." „Hvenær verður svo farið heim?" „Klukkan 9 á mánudagsmorgun." Óánægjubaul, en einhver getur þess að mánudagurinn renni ekki upp fyrr en á mánudaginn og enn er fimmtudagur. Hverjum degi nægir
sín þjáning og tími til kominn að rukka inn fargjaldið. Verið er að skrá nýja félaga og þeir þurfa ekki
einu sinni að fara með trúarjátningu bifhjólamannsins til að ganga i samtökin, bara að segja nafnið  sitt. Einhverjir tyggja franskar kartöflur, aðrir spjalla og enn aðrir standa úti á plani og skoða ný hjól. Andrúmsloftið er óþvingað og hjá okkur lætur Þormar Þorkelsson móðan mása en það er einmitt hann sem hefur verið að grípa fram í greinina. „Sú imynd, sem búin hefur verið til í hugum almennings af mótorhjólafólki, er af ruddum og ofbeldisseggjum. Þetta á sennilega upptök sín í bíómynd frá sjötta áratugnum, The Wild One, en þar lék Marlon Brando fyrirliða í mótorhjólagengi sem lagði smábæi í rúst. Eftir þetta spruttu upp sh'k gengi í Ameríku og það er ekki óalgengt að okkur sé líkt við Hells Angles. Fólk er nefnilega hrætt við það sem það þekkir ekki og þegar það sér svona stóran hóp verður það, vegna þessarar ímyndar, oft hrætt, sérstaklega útlendingar. Fólk hræðist leðrið en þessi fatnaður
er fyrst og fremst praktískur búningur. Munurinn á rassinum á manni sem hefur farið á hausinn í leðurgalla annars vegar eða jogginggalla og vindúlpu hins vegar er eins og munurinn á fullfrísku nauti og kjöthakki. Þessi fatnaður bjargar því sem bjargað verður ef maður lendir í slysi og er auk þess vindheldur og hlýr. Eitt mottó okkar hérna er: Það er ekki til vont veður á íslandi ■ heldur aðeins rangur klæðnaður."

Fundi er lokið. Bifhjólamenn og -konur týnast út í nóttina, aka í röð niður í miðbæ og æfa sig fyrir hópakstur morgundagsins. Þú hefur ímyndað þér að þetta lið sé kúl, töff og röff en að það lifi tvöföldu lífi; verði nýtt fólk á kvöldin þegar vinnudegi er lökið, þegar það fer úr hárgreiðslusloppnum eða drullugallanum og í leðursamfestinginn. En þú áttar þig á að bankamaðurinn, sem býr á móti þér, fer jafnan úr jakkafötunum eftir sitt níutilfimm strit og sést svo í baðm-' ullargalla úti í garði á kvöldin. Þú hefur í rauninni ímyndað þér allt mögulegt og reynir nú að imynda þér hvernig fundum Snigla og Hrekkjalómafélagsins beri saman í Eyjum. Þú ímyndar þér athöfnina þegar taka á Árna Johnsen inn í bifhjólasamtökin, kímir að þeirri staðreynd að tvöhundruðasti félagi þeirra var gerður  að heiðursfélaga og að hann heitir Ómar Ragnarsson. Þú keyrir á blikkbeljunni þinni niður Smiðjuveginn þegar Þormar grípur fram í fyrir þér, í síðasta skipti: „
Mitt mottó sem bifhjólamaður?   Lifa sem lengst og keyra sem mest." 
Vikan 28.08.1986