12.2.87

Á landinu eru starfandi samtök sem bera nafnið Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar.

Baldvin B. Ringsted.

       ALLT

Hér á Akureyri er hópur fólks í þessum samtökum þó lítið fari fyrir þeim, nema þá frekast á sumrin.
Mér lék nokkur forvitni á að vita hvers konar samtök Sniglar væru ásamt því hvað er svona sérstakt við bifhjól. Í hugum margra er ímynd hins svala gæja sú að sjá svartklæddan mótorhjólatöffara geysast um á stóru svörtu hjóli.
Þessir menn eiga þá samfylgjandi ímynd að vera hrottar og jafnvel glæpamenn. Kvöldstund sú sem ég eyddi með Sniglunum sannfærði mig um að margir þyrftu að búk sér til nýja ímynd af hinum svala gæja því Sniglarnir eru (kannski eins og nafnið bendir til) mestu rólegheita skinn sem leggja sál sína í þetta áhugamál, sem reyndar er orðið stór þáttur í lífi margra Sniglanna.
Sniglarnir halda fundi annað hvert fimmtudagskvöld í Dynheimum og verður næsti fundur fimmtudagskvöldið 19. febrúar klukkan 21.00.
Sniglarnir hvetja eindregið alla sem hafa áhuga á bifhjólum að koma á fundi og kynnast málunum.




BALDVIN B. RINGSTED
                    HARALDUR SIGURÐARSON
                                    HEIÐAR Þ. JÓHANNSSON 


Hvers vegna heita samtökin Sniglar?
 B: „Þegar samtökin voru stofnuð formlega eftir auglýsingu í DV þá komu nokkrir áhugamenn saman og lögðu hausana í bleyti til að spá í eitthvert nafn. Það voru komnar ýmsar hugmyndir fram eins og Svarta höndin, eitthvað óhugnanlegt og ruddalegt. Þá kom þetta nafn fram og það þótti svo gott að það var ákveðið."
- Það er ekki verið að skírskota til hraðans sem þið akið á? 
HS: „Við sniglumst jú þegar við erum margir."
B: „Það má segja það, í nafni félagsins þá sniglumst við. Þegar við tökum hópakstur og annað slíkt þá höldum við okkur innan leyfílegra marka."
- Hvert er takmark félagsins?
 B: „Einhver sagði að takmark félagsins væri að koma öllum íslendingum á hjól fyrir aldamót. En í lögum félagsins stendur að það sé til að byggja upp samstöðu meðal bifhjólamanna og vinna að hagsmunum þeirra. Ná fólki saman og fara í ferðir út á land og út í heim. Það er ferðast milli Norðurlands og Suðurlands einnig mætist hópurinn einhvers staðar um verslunarmannahelgar. Síðast vorum við í Vestmannaeyjum og þar áður í Atlavík. Það er líka búið að fara tvær utanlandsferðir á sýningar og það er verið að ræða um að fara í Evrópureisu eða á Ólafsvökuna í Færeyjum." -
 Hvað eru samtökin gömul? 
B: „Þau eru stofnuð í apríl 1984."
 - Hvernig skiptast samtökin milli landshluta? 
B: „Það er varla hægt að segja að þau skiptist. Við byrjuðum að halda fundi hér á síðasta hausti því það var orðinn svo fjölmennur hópur hérna og erfitt að fara suður einu sinni í viku á fund. Það er stjórn í samtökunum en enginn sérstakur formaður. Snigill númer eitt er aldursforsetinn."
- Hvernig er með húsnæði? 
B: „Það stendur til aó koma upp húsnæði en það yrði sennilega á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ef við fengjum einhvern bragga hér værum við vís með að þiggja hann. Við kunnum vel við okkur undir beru lofti enda eru samtökin virkust á sumrin þá er helst legið í tjöldum."
- Hver eru skilyrði til að komast í samtökin? 
Haraldur Sigurðsson
B: „Upphaflegu og núverandi skilyrðin eru þau að vera orðinn 17 ára. En það stendur til að gera einhverja smá trekt, það þarf ekki nema eina skemmda legu í góða vél til að allt sé ónýtt. Það hafa heyrst sögur um að þetta séu glæpamenn eða þaðan af verra."
 - En verður maður að eiga mótorhjól til að ganga í samtökin?
 B: „Nei alls ekki. það er talið æskilegt að þú hafir áhuga á mótorhjólum. Það er nóg að vita að þetta er farartæki á tveim hjólum sem kemst hratt og það er gaman að ferðast á þessu. það þarf ekki að vita nein tækniatriði eða neitt svoleiðis."
- Hvað með stelpur? 
B: „Stelpur eru velkomnar."
- Eru einhverjar starfandi núna?
B: „Já ætli þær séu ekki svona 10%." HS: „Allt of fáar."
- En hér fyrir norðan?
B: „Við köllum okkur Nyrðri arm samtakanna og þá teljum við Akureyri, Dalvík, Svalbarðsströnd og Þingeyjarsýslu. Við erum 35-40 manns og þar af 5-6 stelpur. Heildarfjöldinn yfir landið er að nálgast 300."
 - Er hægt að vera félagi hvar sem er á landinu? 
B: „Já það er gefið út fréttabréf. í því eru nýjustu slúðursögurnar, auglýsingar frá umboðunum og jafnvel tæknimál."
 - Hvar er hægt að fá þetta blað?
Heiðar Þ. Jóhannsson
HS: „Hafa samband við Snigil og fá að lesa þetta hjá honum."
 - Er nauðsynlegt að hafa svona félag?
 HS: „Já." B: „Já, þetta eflir svo samkenndina. Það er gaman að skemmta sér með fólki sem hefur sömu áhugamál. Að hittast hvaðanæva af landinu á einum stað, það er svo tignarlegt að sjá 30 hjól saman að þú trúir því ekki fyrr en þú sérð það."
 - - Hræðist fólk ykkur ekki ef þið komið kannski 20-30 saman með ógnar hávaða? 
B: „Það eru áhrif frá amerískum bíómyndum. Fólk setur oft samasemmerki milli mótorhjóla og glæpamanna. Leðrið hefur líka þessi áhrif."  HS: „Og hávaðinn sem er kvartað undan er í rauninni öryggisatriði því þegar bílstjórar sjá okkur ekki í baksýnisspegli er hávaðinn í hjólunum það sem segir þeim að við séum þarna."
- Eru þetta ekki keppnissamtök á neinn hátt?
 B: „Nei, þau eru fyrst og fremst til að ná saman mönnum sem hafa verið dreifðir hver í sínu horni. Ef einhver sem á gamalt hjól sem er í sæmilegu ásigkomulagi, og hann vill losna við það þá er um að gera að tala við okkur og ganga í samtökin."
 - Bjóðið þið ekki upp á viðgerðanámskeið fyrir yngra fólkið sem er að stíga sín fyrstu skref á þessari braut?
 B: „Nei það hefur ekki verið gert. Um leið og þú færð þér hjól og ef eitthvað bilar þá bara spyrðu næsta mann. Ef hann getur engar ráðleggingar veitt þér þá finnst örugglega einhver. Samtökin eru eins og að eignast 300 systkini og allir vilja hjálpa öllum."
- Hvernig gengur samstarfið við lögreglu?
 B: „Það hefur yfirleitt verið mjög gott. Fyrir sunnan bauð yfirlögregluþjónninn strákunum í kaffi þar sem rædd voru ýmis mál." HJ: „Það er mikið svínað á okkur í umferðinni og 30% slysa sem verða á bifhjólum verða þegar svínað er á okkur." B: „Við erum að reyna að koma af stað vakningu þar sem við viljum að allir keyri í fullkomnum hlífðargalla. Alveg í leðri með góðan  hjálm, hanska og stígvél. Og að keyra alltaf með ljós og þ.h. Þú sérð nú yfirleitt ekkert alvarlegt að hjá manni á stóru hjóli, ekki eins og hjá þessum skellinöðrupúkum þar sem 3 af hverjum 4 eru ljóslausir í umferðinni. Ábyrgðartilfinningin er meiri þegar menn eru komnir á stór hjól."
 - Hafið þið lítið álit á þessum skellinöðrupúkum?
B: „Nei við erum allir búnir að ganga í gegnum þetta og vitum hvað þetta er en okkur blöskrar samt hvað þeir eru kærulausir. Þeir gera sér margir hverjir ekki grein fyrir hvað þetta er hættulegt í raun og veru."
 - En að taka þá inn í samtökin?
 B: „Þeir verða að hafa sín samtök sjálfir. Það hefur verið rætt um að bjóða þeim jafnvel á kynningarfund og gefa þeim góð ráð. Þeir myndu eiga mjög erfitt með að ferðast með okkur þeir eru á svo kraftlitlum hjólum, þannig að það gengi ekki að þeir yrðu í samtökunum."
 - Hvernig er með þessi nöfn sem þið fáið á ykkur (þá var ég að skírskota til nafns sem einn fundarmannanna bar á sér)?
 B: „Við fáum svona nöfn á okkur ef það er hægt vegna einhverra atvika. Þetta nafn sem þú ert að tala um Skelfir eða réttara sagt reiðhjólaskelfir fékk hann (þ.e.a.s. fundarmaðurinn) vegna óhapps sem tengdist tveim eldri konum."
- Hvað er það sem fær ykkur til að halda áfram t.d. ef þið hafið orðið fyrir slysum?
HS: „Meðfædd della." B: „Það er allt hættulegt. Verstu mótorhjólaslysin sem verða eru þegar fætur klemmast á milli bíla en ef viðkomandi dettur á hjóli í fullkomnum hlífðargalla getur hann staðið upp aftur. Þetta er orðið meira en áhugamál hjá okkur, tilfinningin að fara út á sumrin á góðu hjóli er ólýsanleg, menn verða að upplifa þetta." HS: „Maður verður svo ótrúlega bjartsýnn."

Sólveig Sveinbjörnsdóttir
Sólveig Sveinbjörnsdóttir 18 ára 
Sólveig var eina stelpan sem mætt var á þennan fund svo að ég ákvað að spyrja hana hvað henni fyndist um þetta allt og stelpur á mótorhjólum. - Af hverju ert þú í samtökunum?
„Ég fór í fyrsta skipti aftan á hjól í sumar hjá stráknum sem ég er með. Ég ætlaði að vísu aldrei að þora en þetta er alveg æðislegt þegar maður byrjar."
- Hefurðu próf á skellinöðru eða mótorhjól?
„Nei hvorugt en ég ætla að taka mótorhjólapróf í sumar þetta verður óstöðvandi della hjá manni."
 - Hvað finnst þér um sjónarmið fólks gagnvart því að stelpur séu á svona hjólum? 
„Það er mjög misjafnt, sumir eru fordómafullir gagnvart þessu en annars verð ég ekki svo mikið vör við það."
 - Hveturðu stelpur til að ganga í samtökin?
„Já, ef þær fá delluna einu sinni þá verða þær. alveg eins og strákarnir."
 "Um leið og ég var að búast til brottferðar kom Baldvin B. Ringsted að orði við mig og vildi leggja áherslu á það að stelpum væri velkomið að fá að sitja aftan á hjá þeim ef þær vildu prófa.
Það væri bara að tala við þá þar sem þeir væru oft í bænum á sumrin, það hefði nefnilega sýnt sig að þær væru alveg jafngóðir bifhjólastjórar og strákarnir

Egill H. Bragason
Ökukennari

Allt spyr Egil H. Bragason ökukennara 


- Kennir þú á fleiri farartæki en bíl?
 „Ég hef réttindi til að kenna á bifhjól líka."
 - Er mikið að gera við bifhjólakennslu? 
„Það hafa verið svona 30-40 manns á ári." Sniglarnir því miður eins og aðrir. Þeir sem keyra mótorhjól eiga það á hættu að keyra hratt og það eru margir sem missa prófið á hverju ári út af því."
- En hvað með að ökumenn svíni fyrir bifhjólafólk? 
„Það er alveg rétt, ökumenn geta verið mjög tilitslausir gagnvart mótorhjólum. Maður verður alltaf að gera ráð fyrir að mótorhjól taki sama pláss á veginum og bíll."
- Heldur þú að slys á mótorhjólum séu meira sök bílstjóranna? 
„Það er alveg útilokað að segja nokkuð um það. Þeir sem eru á mótorhjólunum ráða vel við þau en slysin hafa alltaf fylgt og munu gera það. Það er ekki hægt að segja að það séu hlutfallslega meiri slys á mótorhjólum heldur en bílum."
 - Hvernig fer kennsla og próf fram á mótorhjóli? 
„Það fyrsta sem maður athugar er hvort viðkomandi hefur keyrt skellinöðru áður og langflestir hafa gert það enda þýðir ekki fyrir mann að læra á stórt hjól nema að hafa keyrt skellinöðru. Nemandinn keyrir síðan ákveðnar leiðir og maður sjálfur á eftir. Það er byrjað á frekar fáförnum stað og ef allt er í lagi þá heldur nemandinn strax áfram. Maður getur fylgst með gírskiptingunum, hvort nemandi hallar sér rétt í beygju og hvort hann bregst rétt við hættum í umferðinni. Nemandi er látinn stoppa í brattri brekku og taka af stað aftur og þá reynir mjög mikið á hæfni nemandans. Þetta geta ekki aðrir gert en þeir sem hafa góða stjórn á hjólunum. Nemandi má byrja að læra þrem mánuðum áður en hann verður 17 ára á stórt bifhjól en getur ekki tekið akstursprófið fyrr en á 17 ára afmælisdaginn. Fræðilega prófið, sem er fólgið í að þá er fjallað um gerð og búnað bifhjólsins ásamt umferðarreglum og lögum, er hægt að taka áður en nemandi verður 17 ára. Í fræðilegu prófi verður að fá 78 stig af 90 mögulegum. Akstursprófið fer þannig fram að nemandi ekur einhverja ákveðna leið í bænum sem bifreiðaeftirlitið tilgreinir og prófdómarinn ekur á eftir honum. Nemandi fær í hendurnar sérstakar reglur fyrir bifhjól ásamt upplýsingum um búnað og þess háttar. Það skiptir ekki máli hvort nemandi er með bílpróf eða ekki en það er léttara fyrir hann því þá kann hann það mikið í umferðarlögum. Hingað til veit ég bara um einn mann hjá mér sem hefur tekið bifhjólapróf án þess að hafa bílpróf. Þetta próf gildir fyrir stærra en 50 cc."
 - Skiptir engu máli með líkamsburði nemanda? 
„Jú hiklaust, það hefur komið fyrir að fólk hefur ætlað að læra sem er 40-50 kg og það þýðir ekki, veldur ekki hjóli sem er hátt í 200 kg. Eins er það að hjól sem eru með svokölluðu kikkstarti, þ.e. þeim er startað með fætinum eru of erfið viðureignar fyrir mjög létt fólk, það verður að vera á hjólum með rafmagnsstarti." ......
- Hvað með stelpur?
 „Hjá mér eru kannski 3-4 á ári og þær mættu alveg læra meira því að það hefur sýnt sig að þær eru ekki lélegri." - Hvernig er með þá sem vilja taka próf á svona hjól en eiga ekki neitt, geta þeir einhvers staðar fengið lánað hjól eins og bíla? „Lögreglan lánar engin hjól en ef kæmi til mín maður sem ekki gæti útvegað sér hjól þá myndi ég reyna að gera það."
- Verðurðu var við fordóma frá fólki t.d. af því að mótorhjólafólk er leðurklætt? 
„Það er skylda samkvæmt lögum að bifhjólafólk sé leðurklætt því ef það dettur af hjólunum þá rispast það svo mikið að öll venjuleg föt tætast í sundur, það verður að vera þykkt efni."
- En hvað með hrotta- og glæpamannastimpil sem mikið af þessu fólki fær á sig?
„Ég held að besta dæmið sem lýsir þessu sé að ég er búinn að kenna nokkrum svokölluðum pönkurum og þetta hafa verið alveg indælis drengir. Ég held að þetta sé alrangt álit sem fólk hefur því þetta er mjög hugsandi ungt fólk sem hefur sínar eigin skoðanir. Þetta er ákveðin lífsstefna og þetta er í tísku. Ég hugsa að margir af þessum mótorhjólastrákum séu í þessu ekki síst því það er álitið að þetta höfði eitthvað til kvenkynsins. En þeir hafa líka mikinn áhuga á hjólunum því er ekki að neita." - Hvað kostar að læra á bifhjól? 
„Fast verð hefur ekki verið endanlega ákveðið fyrir þetta ár. En allur kostnaðurinn hefur verið um 4000 krónur, mér skilst að það sé eitthvað dýrara að taka þetta próf fyrir sunnan." 

Texti: Ingibjörg Elfa Stefánsdóttir.
Myndir: Kjartan Þorbjörnsson
Dagur 12.2.1987 

30.11.86

Sníglabandíð með afbrigðum


Fyrir örskömmu gaf Sniglabandið út plötuna Fjöllin falla í hauga, sem er tveggja laga skífa í stærra laginu og með afbrigðum góð. Á plötunni eru tvö lög, annars vegar „750 cc blús“ og hins vegar lagið „Álfadans", sem íslendingar gaula árvisst um hver áramót. 

   „750 cc blús“ er eftir Valdimar Örn Flygenring, en textinn er eftir Þormar Þorkelsson — snigil nr. 13. Þetta er hressilegt vélhjólalag, án þess að vera bárujárn eða skylt „Riddara götunnar". Texti Þormars er ágætur og á tíðum sér maður nánast glott höfundar á bak við fjálglegar lýsingar um unað vélhjólaaksturs.

      „Álfadans" þekkja allir — „Máninn hátt á himni skín“ o.s.frv.. — og fara Sniglar vel með það. Á þessum síðustu og verstu tímum, þegar menn keppast við misjafnlega ósmekklegar útsetningar á gömlum og góðum lögum er ánægjulegt að vita af því að einhverjir hafi enn tilskilda smekkvísi til þess. Það hafa liðsmenn Sniglabandsins. Þegar haft er í huga hve auðvelt er að klúðra svona lögum (muna menn Álfareiðina?), þá er þetta harla gott hjá Sniglabandinu, Hverjum Sniglabandið er skipað veit ég ekki utan þess að allir meðlimir þess eru í Bifhjólasamtökum lýðveldisins. Hljóðfæraleikur er til prýði, en það sem mest ei um vert er þó ferskleiki hljómsveitarinnar.

       Í heild er þetta hin eigulegasta plata. Hljómsveitin er öðruvísi en flestar aðrar, en hið sama er nú sagt um Stuðmenn og Skriðjökla og þykir þeim ekki til hnjóðs. — Sniglabandið er á réttri braut og má hlakka til hljómleikafarar þeirra um landið og ekki síður til skífu þeirrar, sem þeir lofa með laufunum á trjánum. 

     P.S. Ef mig misminnir ekki gáfu Bifhjólasamtökin út óvitlausa jólaplötu í hitteðfyrra og sungu um hjólajól.