28.8.86

Maður finnur lyktina af frelsinu

Bifhjólasamtök lýðveldisins Sniglar

Þú ert á ferð eitt fimmtudagskvöld. Kemur af Breiðholtsbrautinni á leið í Kópavog og rökkvað úti við. Þá sérðu eineygt farartæki aka á móti þér ofan Smiðjuveginn. I rauninni sérðu aðeins ljósið, hvítt ljós á hraðri ferð niður brekkuna, ljós sem beygir af leið og þýtur inn í einn botnlangann. Þetta var bifhjól en ökumaðurinn sást naumast, rétt glampaði á hjálminn en hann hlýtur að hafa verið  svartklæddur. Það var auðvitað. Einn af þessum leðurtöffurum. Og þú spyrð í hljóði: Ætti ég að elta? Undir niðri dáistu að þessum farartækjum og því sem þeim fylgir, en þú ert hræddur.

„Hjá okkur er árið 3. Sniglar, bifhjólasamtök lýðveldisins voru stofnuð 1. apríl 1984, félagar eru nú um 220 og fjölga sér mjög hratt. Markmið samtakanna er að sameina bifhjólafólk og vinna að  hagsmunamálum þess og fara í ferðalög innanlands sem utan. Við höldum auk þess árshátíð og mýmargar aðrar samkomur og gefum svo út blað mánaðarlega í brotinu A5 sem heitir Sniglafréttir. Það er málgagnið okkar. Samtökin eru öllum opin sem eru orðnir 17 ára, það er ekkert skilyrði að menn eigi hjól. Þú mátt þess vegna eiga Trabant. Og það eru engin stærðarlágmörk á hjólum. Þau
koma hins vegar af sjálfu sér. Hjólin verða að vera það stór að menn dragist ekki aftur úr á ferðum. Yfirleitt byrja menn á minni hjólum og stækka síðan við sig. Mikið vill meira. Það er líka til í dæminu að menn komi inn í samtökin á drullumöllurum, eins og við köllum þá, það eru hjól til að ausa upp drullu, en þeir eru komnir á götuhjól innan tíðar; þeir sjá að það er hamingjan.

Við leggjum ekki í vana okkar að spæna upp nýgræðinginn á örfoka landinu. 

Við keyrum á malbiki."
Á malbikuðu planinu fyrir framan veitingastaðinn standa þessi stóru gljáfægðu hjól í röðum en fyrir innan er félagsfundur hjá Sniglum að hefjast. Þið ljósmyndarinn reynið að vera kúl þar sem þið klofið milli félagsmanna og komið ykkur fyrir við borð úti í horni. Ykkar maður er ekki kominn og þið bíðið, horfið út um gluggann þar sem ný hjól bætast stöðugt í hóp þeirra sem fyrir eru og svo brosið þið í kampinn þegar tveir naggar á Hondu 50 dóla nokkra hringi, virða tryllitækin fyrir sér úr hæfilegri fjarlægð en gefa síðan í botn í burtu. Flestir í kringum ykkur innandyra eru íklæddir svörtum leðurjökkum og margir aðsniðnum buxum úr sama efni. Á sumum jökkunum eru merki  samtakanna og á örfáum blárauður borði en að klæðnaðinum slepptum er þetta mislitur hópur. Allir bíðandi og líka þið. „Það er engin ástæða fyrir hinn almenna borgara að óttast þetta svartklædda leðraða fólk því þetta eru öðlingar upp til hópa. Meðlimir samtakanna eru á aldrinum frá því að vera ekki farin að spretta grön upp í að vera sköllóttir. Sá elsti fer að komast á sextugsaldur. Svo má ekki gleyma því að hér eru þónokkrar píur, eða það er nær að tala um glæsikvendi, sem keyra um á stórum, kraftmiklum hjólum. Þær eru fleiri en ein og fleiri en tvær og þar fyrir utan eru margar í samtökunum sem eru ekki komnar á hjól, ennþá. Þetta er fólk úr öllum starfsstéttum; hárgreiðslufólk, skemmtikraftar, sjómenn, í raun þverskurður af þjóðfélaginu. Til dæmis höfum við okkar eigin hljómsveit, Sniglabandið. Það æfir af krafti og hefur haldið nokkra dansleiki, meðal annars á Þórshöfn um áramótin og spilar á Þjóðhátíð í Eyjum. Svo má heldur ekki gleyma því að þetta eru landssamtök. I þeim er fólk hvaðanæva af landinu. Þetta er ekki klúbbur heldur ein samtök og engar deildir. Og starfsemi okkar er vel skipulögð. Fimm manna stjórn fer með öll mál en hún er kosin ásamt fimm varamönnum á árlegum aðalfundi.

Eitt af langtímamarkmiðum Snigla er að koma íslensku þjóðinni á mótorhjól fyrir aldamót." 

■Langtímabið okkar er lokið. Skúli er mættur. Á rauðlitaða hjólinu með blárauðan borða í jakkanum.
Aðeins þeir útvöldu bera þennan borða og Skúli er útvalinn skipuleggjandi næstu ferðar. Áður hafa
Sniglar farið í ferðir um Vestfirði, til Akureyrar, í Atlavík '85 og í Landmannalaugar, svo dæmi séu nefnd, en tilefni þessa fundar er ferð á Þjóðhátið í Vestmannaeyjum. „Við leggjum af stað frá Hallærisplaninu annað kvöld," segir Skúli, „og við ökum hægt og fallega, ég endurtek, hægt og umfram allt fallega út úr bænum, þannig að við sniglumst, skríðum eins og langur ormur. Hvað fara annars margir á bílum?" Aðeins einn réttir upp hönd. „Júhú, við erum bifhjólasamtök." Einhver lýsir því yfir að á planinu fyrir utan standi 38 hjól en á fundinum eru vel yfir 50 manns, þar af hluti frá Akureyri. Austfirðingar eru þegar á leið til Eyja með Smyrli þar sem meðlimir landssamtakanna koma til með að sameinast innan tíðar. Ólíkt fólk sem á þó sameiginlegan reynsluheim; galdratilfinninguna að sitja á kraftmiklu bifhjóli. „Það er ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu fyrir þeim manni sem ekki hefur setið á hjóli. Maður finnur lyktina af frelsinu í útblæstrinum úr strætó, þá hamingjutilfinningu sem fylgir því að finna rigninguna smjúga inn um saumana á leðrinu og standa hríðskjálfandi eftir langa ökuferð með eitt stórt sælubros á andlitinu. Hvort þetta sé dýrt sport? Þetta er ekki sport, þetta er lífsstíll. Eftir tollalækkanir á bílum í vor er þetta að vísu orðið lúxus. Það eru
svívirðilega háir tollar bæði af mótorhjólum og varahlutum, þeir eru í kringum 100% með vörugjaldi,
tappagjaldi og hvað þetta nú allt heitir. Nú er hægt að fá fimm Trabanta fyrir mótorhjól í dýrari  klassanum. Þessi hópur, bifhjólafólk, var sem sagt svikinn um kjarabætur svokallaðar á liðnu vori.  Þarna er hagsmunamál á ferðinni og annað hagsmunamál samtakanna er að kenna blikkbeljuökumönnum að mótorhjól er ekki gufa heldur 200 kílóa járnflikki. Það þarf líka að
kenna þeim að horfa vel í kringum sig áður en þeir skipta um akrein því í 90% af mótorhjólaslysum eru mótorhjólaökumenn í rétti." Skúli svarar fyrirspurnum um ferðina. Að mörgu er að hyggja. Samtökin ætla að hafa stórt aðaltjald í Herjólfsdalnum og slá tjaldborg utan um það.
„Er það rétt að aðeins verði sukkað í stóra tjaldinu og menn megi ekki sofna alla helgina nema þeir
deyi?" „Já, en hafa ber í huga að þeir sem deyja verða rannsakaðir mjög ítarlega." „Hvenær verður svo farið heim?" „Klukkan 9 á mánudagsmorgun." Óánægjubaul, en einhver getur þess að mánudagurinn renni ekki upp fyrr en á mánudaginn og enn er fimmtudagur. Hverjum degi nægir
sín þjáning og tími til kominn að rukka inn fargjaldið. Verið er að skrá nýja félaga og þeir þurfa ekki
einu sinni að fara með trúarjátningu bifhjólamannsins til að ganga i samtökin, bara að segja nafnið  sitt. Einhverjir tyggja franskar kartöflur, aðrir spjalla og enn aðrir standa úti á plani og skoða ný hjól. Andrúmsloftið er óþvingað og hjá okkur lætur Þormar Þorkelsson móðan mása en það er einmitt hann sem hefur verið að grípa fram í greinina. „Sú imynd, sem búin hefur verið til í hugum almennings af mótorhjólafólki, er af ruddum og ofbeldisseggjum. Þetta á sennilega upptök sín í bíómynd frá sjötta áratugnum, The Wild One, en þar lék Marlon Brando fyrirliða í mótorhjólagengi sem lagði smábæi í rúst. Eftir þetta spruttu upp sh'k gengi í Ameríku og það er ekki óalgengt að okkur sé líkt við Hells Angles. Fólk er nefnilega hrætt við það sem það þekkir ekki og þegar það sér svona stóran hóp verður það, vegna þessarar ímyndar, oft hrætt, sérstaklega útlendingar. Fólk hræðist leðrið en þessi fatnaður
er fyrst og fremst praktískur búningur. Munurinn á rassinum á manni sem hefur farið á hausinn í leðurgalla annars vegar eða jogginggalla og vindúlpu hins vegar er eins og munurinn á fullfrísku nauti og kjöthakki. Þessi fatnaður bjargar því sem bjargað verður ef maður lendir í slysi og er auk þess vindheldur og hlýr. Eitt mottó okkar hérna er: Það er ekki til vont veður á íslandi ■ heldur aðeins rangur klæðnaður."

Fundi er lokið. Bifhjólamenn og -konur týnast út í nóttina, aka í röð niður í miðbæ og æfa sig fyrir hópakstur morgundagsins. Þú hefur ímyndað þér að þetta lið sé kúl, töff og röff en að það lifi tvöföldu lífi; verði nýtt fólk á kvöldin þegar vinnudegi er lökið, þegar það fer úr hárgreiðslusloppnum eða drullugallanum og í leðursamfestinginn. En þú áttar þig á að bankamaðurinn, sem býr á móti þér, fer jafnan úr jakkafötunum eftir sitt níutilfimm strit og sést svo í baðm-' ullargalla úti í garði á kvöldin. Þú hefur í rauninni ímyndað þér allt mögulegt og reynir nú að imynda þér hvernig fundum Snigla og Hrekkjalómafélagsins beri saman í Eyjum. Þú ímyndar þér athöfnina þegar taka á Árna Johnsen inn í bifhjólasamtökin, kímir að þeirri staðreynd að tvöhundruðasti félagi þeirra var gerður  að heiðursfélaga og að hann heitir Ómar Ragnarsson. Þú keyrir á blikkbeljunni þinni niður Smiðjuveginn þegar Þormar grípur fram í fyrir þér, í síðasta skipti: „
Mitt mottó sem bifhjólamaður?   Lifa sem lengst og keyra sem mest." 
Vikan 28.08.1986

6.8.86

Glæpagengi eða lagana verðir

4000 hestöfl á faraldsfæti

Það er föstudagur, sennilega eini föstudagurinn á árinu sem hægt er að kalla flöskudag með reglulega góðri samvisku. Það er föstudagurinn fyrir Verslunarmannahelgi. Hallærisplanið , þar sem svo margur unglingurinn hefur drukkið einkennilega glært kók í aftursætinu á einhverri drossíu og ælt svo út um gluggann um leið og bílstjórinn botnar drusluna og reykspólar fyrir horn í trausti þess að pabbi kaupi ný dekk á morgun, er undirlagt mótorhjólum. 

Sniglar Bifhjólasamtök lýðveldisins, eru að leggja af stað í landkönnunar og náttúruskoðunarleiðangur. Landið sem kanna á, er Vestmannaeyjar og hið einkennalega dýralíf sem þar þrífst um þessa mestu ferðahelgi ársins, eins og það heitir hjá Umferðaráði.

Það er barnslegur eftirvæntingarsvipur á andlitum þessara leðurklæddu garpa þar sem þeir tvístíga kringum hjólin og ræða heimsmálin. Það er hins vegar ekkert í fari þeirra sem minnir á börn þegar þeir renna jökkunum upp, skella hjálmunum á toppstykkið og ræsa vélarnar. 
Rúðurnar í Morgunsblaðshöllinni titra og kvennaframboðskonur draga í ofboði fyrir gluggana þegar fylkingin mjakast af stað.  Tveir og tveir, hlið við hlið, renna þessir riddarar götunnar fákum sínum út í Aðalstrætið og eru lagðir af stað á vit ævintýra og fagurra kóngsdætra.
Röðin virðist endalaus þar sem hún hlykkjast eftir sundirgröfnu gatnakerfi Reykjavíkurborgar út úr bænum og í átt til Þorlákshafnar. Löggan vinkar bless, eins og umhyggjusöm móðir upp við Rauðavatn óskar góðrar ferðar og Sniglunum finnst þeir eiga allann heiminn skuldlausann.

 En gamanið fer að grána í Þorlákshöfn.

Niður við höfn sitja, standa og skríkja unglingar á öllum aldri. Glæra kókið rennur í stríðum straumum og vætir kverkar kynslóðirnar sem erfa á landið. 
Maður einn, ekki mikill að burðum, frá hinu merka fyrirtæki Ferðaskrifstofu Vestmannaeyja reynir að varna því að hinir tilvonandi Smirilsfarþegar og þjóðhátíðargestir komist fram á bryggjuna. Eftir smá þóf og málalenginngar fá Sniglar að fara með hjólin út á hina eftirsóttu bryggju og stuttu seinna, þegar þegar hinn kókþambandi meirihluti hinum megin við ferðaskrifstofumanninn hefur stækkað um allan helming, biður varðmaðurinn um hjálp. Tíminn líður og það spyrst út að ferjunni seinki um 3-4 klst. Ferðaskrifstofumaðurinn var horfinn eitthvað upp í bæ og Sniglarnir standa vörð við bryggjuendann. 
Það er ekki laust við að fólkinu með glæra kókið finnist einkennilegt að einhverjir leðurkæddir mótorhjólagæjar skuli varna því að ganga út á þessa eftirsóttu bryggju. Hvað er þetta glæpagengi að skipta sér af því hvar það drekkur sitt kók og pepsi. Riddurum götunnar finnst það ekki síður skrítið að þeir, sem ætluðu að bregða sér til Eyja sjálfum sér til gleði og ánægju, skuli vera komnir í lögguleik í Þorlákshöfn. Sumir leyfa sér jafnvel að tala ílla um skipulagningu ferðaskrifstofukóngsins, það vanti víggirðingar og meiri gæslu. Sú gagnrýni á að sjálfsögðu engann rétt á sér. Hvernig átti hann að vita að það þyrfti meira en þrjá stráklinga til þess að hafa stjórn á nokkur hundruð meira og minna ölvuðum unglingum? Ég bara spyr.
Loksins kemur dallurinn og smátt og smátt tekst öllum að troða sér um borð. Hjólin eru tekin síðast með tilfæringu. Sú aðstaða, sem Herjólfur notar, passar ílla fyrir Færeyskar ferjur og því er Smyrill losaður frá að aftan og lögð niður brú að bakborðssíðunni.
Með tæplega 60 mótorhjól, 80 Snigla og 800 dauðadrukkna unglinga innanborðs er síðan haldið af stað til fyrirheitnu eyjarinnar.
Eftir rúmlega tveggja tíma siglingu er lagt að og Sniglar, svona að launum fyrir vel unnin gæslustörf í Þorlákshöfn, meiga gjöra svo vel að bíða á meðan forréttindahópnum með glæra kókið er smalað í land. Það er einkennilegt eins og öllum lá á að komast um borð, að áhuginn á að því að komast í land er næsta lítill. Fólk tínist í rólegheitunum niður landganginn, sumir gera sér ekki einu sinni grein fyrir að ferðin er á enda og enn aðrir eru meira segja sofnaðir af einhverjum undarlegum ástæðum.
Loksins, Loksins er röðin komin að Sniglunum, og á nokkrum mínutum er hópurinn kominn með fasta eyju undir fætur og dekk. Klukkan er 6 að morgni, menn dæsa og spyrja sjálfan sig hvernig er hægt að vera 12 klukkutíma á leiðinni til Eyja, 50 km keyrsla og tveggja tíma sigling.
Það eru líklega fáir sem ekki vita hvernig hin almenna verslunarmannahelgar útihátið fer fram og það þarf líklega ekki að taka það fram að þegar tjaldbúðir höfðu verið reistar, í kringum holu 3 á golfvelli þeirra Vestmanneyinga, voru Sniglar margir hverjir komnir með áðurnefnt kók í hendurnar og farnir að skemmta sér með hinum unglingunum.
Á laugardeginum stunduðu Sniglar náttúruskoðun og aðra þjóðhátíðariðju af miklum móð. Hljómsveit samtakana, Sniglabandið, tróð upp við ágætar undirtektir þjóðhátíðargesta og sendinefnd fór á fund ferðaskrifstofukóngsins til að reyna að semja um afslátt, Sniglum til handa fyrir gæslustörfin í landi. Eftir mikil fundarhöld snéri nefndin til baka og sagði farir sínar ekki sléttar heldur holóttar. Afsláttur á miðaverði ófáanlegur með öllu, þrátt fyrir að föstudagskvöldinu hafi verið eytt við gæslustörf í landi en ekki skemmtan í Eyjum. Þó hefði að lokum samist um að kóngurinn byði mannskapnum í "dinner", eins og hann kallaði það, á sunnudaginn.
Sunnudagur rennur upp og sólin skín. 
Mismunandi vel úthvíldir og timbraðir flatmaga Sniglar í sólinni, spjalla við gesti og gangandi og hugsa sér gott til glóðarinnar. Dinner á Bjössabar. Innfæddir bifhjólamenn renna við og sýna krómaða, tandurhreina stássgripi sína. Gamlir Bretar, BSA, Triumph, og meira að segja 7 stk. Matchless árg 47.
Þegar líða tekur á daginn fara menn að tínast í bæinn. Þennan dag er Vestmannaeyjabær undirlagur af mótorhjólum. Það er sama hvert litið er, allstaðar sjást mótorhjól. Sniglar dóla í rólegheitunum um göturnar og safnast að lokum saman við Bjössabar, sem reynist vera svokallaður skyndibitastaður. Þar kemur í ljós að "dinnerinn" sem ferðaskrifstofukóngurinn bauð upp á reyndist vera 200kr matarúttekt. 200 kr á mann fyrir 5 klst. baráttu við mörg hundruð dauðadrukkna, óþolinmóða og æsta unglinga. Þvílíkur höfðingi, þvílík rausnarmennska og örlæti. Eins og það hafi verið gaman að hanga klukkutímum saman í skítakulda í Þorlákshöfn, halda liðinu í skefjum, svo það ruddist ekki stjórnlaust út á bryggjuna og træðist undir í æsingnumvið að komast um borð. Og missa í ofanálag af föstudagskvöldinu. Einhverir þágðu þetta raustnarlega boð en aðrir tóku sinn eigin dósamat fram yfir "dinnerinn"  Hvað sem því líður þá verður allavega bið á að Sniglar versli við ferðaskrifstofukónginn aftur.
Menn létu þó ekki örlæti kóngsa skemma fyrir sér ánægjuna af sunnudagskvöldinu og stigu dans og skemmtu sér sem mest þeir máttu það sem eftirlifði dags og nætur.
Á mánudagmorgninum var ræst einhver sú stórvirkasta vekjaraklukka sem sögur fara af.
Sían tekin úr hljóðkútnum á einu hjólinu, það sett í gang og gefið allhraustlega inn. Sniglar spruttu upp, pökkuðu saman á ótrúlega skömmum tíma og voru komnir niður á fhöfn um kl.8:30.
Það var fjara og brúin góða á bakborðsíðunni minnti meira á rennibraut en brú. Hallinn var það mikill niður á við að væru Sniglar kaþólskir þá hefðu þeir örugglega krossað sig áður en þeir óku um borð. Allt gekk þetta samt slysalaust fyrir sig og Smyrill lagði frá landi á réttum tíma. Það var ekki jafn hátt risið á farþegunum þennan morgun og föstudagskvöldið góða. Menn lágu eins og hráviði um allt skip, þegjandalegir og þunnir og úr þeim allur móður. Sumir höfðu samt ekki áttað sig á því að helgin var búin og raunveruleikinn beið glottandi í landi. 
Rennibrautin sem blasti við sjónum Snigla í Þorlákshöfn , var engu árennilegri en sú í Vestmannaeyjum. Ef eitthvað var þá var hún mun skuggalegri. Hún var kannski ekki alveg lóðrétt en það var óneitanlega á brattann að sækja.  Til er málsháttur hjá Sniglum sem segir eitthvað á þessa leið: "Ekkert mál, bara purra nógu hratt" og hann sannaðist einu sinni enn í þetta skitið. Brekkan var tekin með áhlaupi og hvert af öðru skutust hjólin upp á hafnarbakkann. 
Skipstjórinn fylgdist með af mikilli athygli og lét hvern sem heyra vildi, vita að hann væri búinn að sigla lengi og hefði margt séð, en elskulegra mótorhjólafólki hefði hann aldrei kynnst.

Þó ýmislegt hafi farið öðruvísi í upphafi ferðar en áætlað var, þá var það vara til þess að gera þessa helgi ógleymanlegri. Aldrei áður hafa jafnmörg hjól allstaðar að af landinu verið saman komin á einum stað og þegar Sniglar "Bifhjólasamtök" lýðveldisins aka í átt til höfuðborgar lýðveldisins finnst manni að þjóðhátíð þeirra Eyjamanna hafi líka verið þjóðhátið Sniglanna.
Grein frá 1986
Túrbó
Texti  Þormar #13
Myndir Árni Björgvinsson

29.5.86

Mótorhjól "Mótorhjólaklúbburinn Þytur"


Nú síðast í apríl hélt mótorhjólaklúbburinn Þytur, sem starfar í félagsmiðstöðinn í Garðalundi í Garðabæ , sýningu á mótorhjólum .

Á sýningunn i voru 30 til 40 hjól af öllum stærðum og gerdum , frá fimmtiu kúbikum og allt upp í tólf hundruð kúbik. Þar á meðal var hjól íslandsmeistarans í kvartmílu .
Báða sýningardagana kepptu núverandi og fyrrverandi íslandsmeistarar á braut sem var í tengslum við sýningarsvæðið . Vakti það mikla lukku . 
Markmiðið með sýningu Þyts var að vekja athygli fólks á því að mótorhjól eru ekki eingöngu leiktæki heldur má nota þau til íþrótta, einnig að mótorhjólaakstur er ekki eins hættulegur og menn halda ef
farið er eftir öllum reglum.

Vikan 22tbl. 29.5.1986

12.3.86

Fjölmenni á lögreglustöðinni:

SNIGLUNUM BODIÐ TIL SKRAFS OG RÁDAGERÐA



„Ég bjóst ekki við öllum þessum fjölda en undirtektir Sniglanna sýna að þeir hafa fullan hug á að eiga gott samstarf við lögregluna," sagði Óskar Ólason yfirlögregluþjónn í sámtali við DV. Lögreglan í Reykjavík bauð félögum í Bifhjólasamtökum lýðveldisins - Sniglunum - til fundar og kaffisamsætis í lögreglustöðinni nýverið. 
Þar mættu 63 félagar, karlar og konur, og nutu gestrisni lögreglunnar eina kvöldstund. Nokkurrar tortryggni hefur gætt undanfarið meðal borgaranna og raunar lögeglunnar líka í garð félaga í Bifhjólasamtökunum. Á fimmtudagskvöldum sjást þeir gjarnan aka um götur borgarinnar í hópum. Þau kvöld eru fundir hjá samtökunum. Með reynslu frá erlendum borgum í huga hefur mörgum staðið ógn af þessum ferðalögum. „Þetta er enginn óaldarlýður, öðru nær," sagði Óskar Ólason. „Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé og þau sögðu okkur líka að þeim þætti framkoma lögreglumanna lika misjöfn í garð þeirra. En ég held að það hefði átt að vera löngu búið að halda svona fund. 
Yfirleitt er ekki talað við þetta fólk fyrr en eitthvað hefur komið fyrir."
Á fundinum var rætt um öryggi í bifhjólaakstri og farið yfir skýrslur um slys. Á eftir skoðuðu  Sniglarnir húsakynni lögreglunnar og þáðu kaffi og með því.
-GK
Dagblaðið Vísir 12.03.1986

13.2.86

Hin ólæknandi mótorhjóladella

Áhugi á hraðskreiðum farartækjum er ekkert nýtt undir sólinni en viðtekin skoðun er meðal
almennings að yngri kynslóðin sé þar ein um hituna. Það er að vísu algengara að yngra fólkið hafi þennan áhuga en oftar en ekki minnkar hann síst með aldrinum. Og kvenkynið er lítið frábrugðið körlunum að þessu leyti.

Leikarinn Steve McQueen var þekktur fyrir hraðafíkn, einkum beindist áhuginn að kappakstursbílum og mótorhljólum. Hjónaband hans og leikkonunnar Ali MacGraw varð hrein martröð vegna þessa meðal annars,

14.1.86

Ók mótorhjóli í gegnum hurð.


Maður meiddist á höfði í gærmorgun þegar hann ók mótorhjóli í gegnum hurð í Heklu-portinu við Laugaveg. 

Maðurinn fékk að reyna kraftmikið mótorhjól. Hann hafði gott vald á hjólinu þar til innarlega i Heklu-portinu. Þá virðist maðurinn hafa „frosið" og skipti engum togum að hann ók hjólinu á fullri ferð í gegnum hurð eins og sést hér á myndinni. 

Hurðin mölbrotnaði. Maðurinn kastaðist af hjólinu með þeim afleiðingum að hann meiddist þó nokkuð á höfði.

-SOS/DV-mynd S.
Dagblaðið /Vísir 14. JANUAR 1986. 

24.10.85

Bílhjól

Skemmtilegirvinnu hestar nú líka með drifi á öllum!

 Sagt er að ekkert sé nýtt undir sólinni, en þá er ekki reiknað með landi hinnar rísandi sólar.
Sagt er að Japanar hafi ekki hæfileika til að fá hugmyndir, en ef litið er á varninginn sem til sölu er um allan heim, að ekki sé talað um það sem á leiðinni er, virðist þetta líka vera rangt.
Frá japönsku vélhjólasmiðjunum komu fyrir fáum árum þríhjól með blöðrudekk og lítilli tvígengisvél. Undir eins rann af stað mikið þríhjólaæði í Bandaríkjunum og Ástralíu. Ástralir sáu strax að þríhjólin voru meira en bara leikföng, og komu þau víða að góðu gagni á víðlendum býlum Ástrala.
Næst koma stærri vélar og svo afturfjöðrun í þríhjólin svipað og hannað hafði verið fyrir torfærukeppnishjól. Nokkur þríhjól bárust hingað og eru notuð til vinnu og skemmtunar, en erfitt er að fá þau skráð og nota með öryggi á almennum vegum. Þess vegna þurfa þeir sem ætla að nota þríhjól sér til gamans að eiga kerru og draga þau þangað sem aka á.
 Enn eitt skrefið var að bæta einu hjóli við. Fjögurra hjóla apparötin urðu nauðsynleg þeim sem vildu sýna þríhjólagæjunum hver væri meiri maður, og aftur fundust not. Þau mátti nota til dráttar.
  Og nú er það nýjasta komið: Fjögur hjól, fjöðrun á öllum og drif á öllum!
  Það vinsælasta er líklega frá Honda, og heitir TRX 350 4x4. Vélin er fjórgengis eins strokks og skilar 25 hestöflum í rólegheitum gegnum sjálfvirka kúplingu og 5 gíra gírkassa. Að auki er bakkgír eins og á alvöru bíl. Fjöðrun er framan og áftan, og splittað mismunadrif að framan. 011 drifsköft eru lokuð inni í húsum fylltum smurningu svo ekkert viðhald þarf á þeim frekar en kveikikerfi sem er innsiglað og varið þannig gegn vætu. Því ætti að vera hægt að göslast allan daginn í pyttum og mýrum án vandræða, enda eru allar 3 bremsuskálar líka lokaðar.
    Eins og á myndunum sést er einna helst gert ráð fyrir því að TRX apparatið (bílhjólið?) sé notað til vinnu, enda hefur það dráttarbeisli og farangursgrindur framan og aftan. Í rauninni er erfitt að segja til um hvaða ætt vélknúinna ökutækja þetta tilheyrir. Það er notað líkt og vélhjól, en getur vélhjól haft fjögur hjól og drif á þeim öllum? Flokkunin er það sem skiptir meginmáli varðandi innflutning, ef það lendir í sama flokki og þríhjólin, bifhjólaflokki, verður verðið mun hærra en áætluð 240.000. TRX 350 er nýkomið á markað erlendis og er von á einu til reynslu nú fljótlega. Ef vel tekst til gætu bændur hér fengið duglegan vinnuhest og fjölhæfan, tæki sem virðist líklegt til að komast nærri allt.

Blöðrudekkin eru víð og mikil (24 tommur, um 75 sm að ummáli) og loftþrýstingur í þeim er afar lítill. Gróft munstrið ætti að grípa svikalaust í allt sem undir er á ferðum ökumanns (reiðmanns!) um stokka og steina. Vegna blöðrudekkjanna og lítillar þyngdar (260 kg) skilja þessi tæki sjaldnast eftir sig nokkur spor. Má hæglega ímynda sér Hondu TRX í smalamennsku um heiðar eða annað snatt um sveitir án þess að fylgj a vegum eða ná hestum og beisla. Við TRX línuna og raunar þríhjólin líka er hægt að fá úrval tengitækja, yfirleitt litlar kerrur með blöðrudekk, jafnvel fjögurra hjóla. Þannig verður girðingarvinna á viðkvæmu landi ólíkt auðveldari en að bera allt efni á sér frá flutningatækjum sem ekki komast á staðinn. Smátæki í þessum dúr hafa kannski sumir séð á hrísökrum Asíu, en þau þjóna ekki hinum þúsund störfum sem eru TRX möguleg - þar með talið að skemmta eiganda sínum. Við ætlum að fylgjast með þegar fyrsta tækið kemur og fjalla betur um það þá. AA
NT
24.10.1985