Sýnir færslur með efnisorðinu Lífstíll. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Lífstíll. Sýna allar færslur

13.1.21

Ævintýraferð til Ekvador (3.Kafli)

Ferðasaga á mótorhjóli
Þriðji kafli.
Eftir Ragnar Hólm Gunnarsson 

Silfureyja

9. júní

Þegar ég leit út um gluggann á herberginu um morguninn sá ég bát í flæðarmálinu og fullt af fuglum í kring, stórum kvikindum, og fólk að bjástra við eitthvað. Það var sem sagt löndun í gangi. Þetta var svolítið öðruvísi en maður á að venjast, því báturinn var opinn, þó með mótor, og fisknum var mokað upp í kassa sem þeir báru svo á öxlunum inn í flutningabíl sem var á ströndinni. Tveir héldu bátnum og tveir báru sjó í bala upp í bílinn. Svo var þarna lítil ísframleiðsla í gám við hliðina á hostelinu. Gaman að sjá þetta svona í aksjón.


En ég skellti mér svo í skoðunarferð á silfureyju (Isla de la plata). Á leiðinni út í eyjuna, sem er 42 km frá landi og því góð klukkutíma bátsferð, rákumst við á höfrunga sem voru svo vinsamegir að stilla sér upp fyrir myndatöku 😁🐬. Á þessari eyju er hægt að komast í návígi við sérstaka bláfætta fugla og eyjan er líklega frægust fyrir þá. Þeir kölluðu þá "Blue footed boobies"😆👣. Við fórum í tveggja og hálfs tíma göngutúr um eyjuna með leiðsögn og fengum ýmsan fróðleik, eins og þann að ávextirnir af kaktus um inniheldur metamfetamín í litlu magni, en

Agndofa yfir Íslendingum



 „ Geggjað að sjá hversu margir hjálpa einhverjum sem þeir þekkja ekki“

Þýskur ferðamaður eyddi drjúgum hluta af sumarfríi sínu á síðasta ári að ferðast um Ísland á eigin mótorhjóli sem hann flutti til landsins. Hann varð þó fyrir því óláni undir lok ferðarinnar að hjólinu var stolið úr bílakjallara hótels sem hann dvaldi á og voru þó góð ráð dýr.

Þjófnaðurinn barst þá til eyrna Hjólhestahvíslarans, Bjartmars Leóssonar, sem hefur vakið þjóðarathygli fyrir baráttu sína við að endurheimta stolinn hjól. Bjartmar auglýsti stuldinn þegar í stað á Facebook og setti af stað átak til þess að finna hjól þýska ferðamannsins.

Viðtökurnar voru miklar. Alls var auglýsingu Bjartmars eftir hjólinu deilt 1.700 sinnum á nokkrum dögum og hvíslaranum fóru að berast ábendingar um stuldinn. Að lokum fannst hjólið, degi áður en hans átti bókað far af landi brott, og urðu fagnaðarfundir þegar Bjartmar og Þjóðverjinn hittust loks á lögreglustöðinni.

Flaug sá þýski síðan af landi brott daginn áður en þá hafði Bjartmar boðist til þess að skila hjólinu til Samskipa sama dag þar sem Þjóðverjinn hafði bókað flutning á hjólinu til heimalandsins.

Allur þessi rússíbani átti sér stað í ágúst síðastliðnum. Greinilegt er að hjálpsemi Bjartmars og Íslendinga er Þjóðverjanum enn hugleikinn. Hann birti færslu á þýsku á Facebook, undir notendanafninu Haus Nummernschild, á-síðunni „Hjóladót Tapað, fundið eða stolið“ þar sem hann þakkaði Bjartmari sérstaklega fyrir hjálpina og birti mynd af þeim félögum með hjólið forláta. Þá þakkaði hann einnig öllum þeim sem að lögðu það á sig að deila færslunni um hjólið og stuðla þannig að fundi þess.

„Það var geggjað að sjá hversu margir hjálpa einhverjum sem þeir þekkja ekki einu sinni,“ skrifaði Þjóðverinn hrærður. Hjólhestahvíslarinn tók undir kveðjuna og sagðist ennfá gæsahúð við að hugsa til þessara daga.

12.01.2021

5.1.21

Bíl­skúr sem er á mörk­um þess að vera höll





Á flest­um heim­il­um er bíl­skúr­inn rými sem geng­ur illa að halda í röð og reglu, og sá staður sem helst er reynt að koma í veg fyr­ir að gest­ir fái að sjá. En þegar vin­ir og ætt­ingj­ar kíkja í heim­sókn til Guðmund­ar Árna Páls­son­ar og Maríu Höbbý setja þeir yf­ir­leitt stefn­una beint á bíl­skúr­inn, enda ein­stök upp­lif­un að koma þangað inn. Þau hjón­in hafa það m.a. fyr­ir sið að halda mikla veislu í bíl­skúrn­um á milli jóla og ný­árs og seg­ir Guðmund­ur að ef hann dragi það of lengi að bjóða fólki í gleðskap­inn fari marg­ir að ókyrr­ast og hafi sam­band að fyrra bragði ef ske kynni að gleymst hefði að bjóða þeim.

Ef les­end­ur skyldu eiga erfitt með að ímynda sér hvernig rúma má fjöl­menn­an gleðskap í ein­um bíl­skúr, þá hjálp­ar til að bíl­skúr Guðmund­ar og Maríu er senni­lega með þeim stærri sem finna má hér á landi: „Uppi er tvö­fald­ur bíl­skúr, um 60 fer­metr­ar að stærð, og hægt að færa öku­tæki með bíla­lyftu niður í kjall­ar­ann sem er um 150 fer­metr­ar,“ seg­ir Guðmund­ur. „
Kjall­ara­rýmið er brotið upp af burðar­veggj­um svo ég get ekki nýtt það allt und­ir bíla, en samt rúm­ast með góðu móti tveir bíl­ar niðri og tveir uppi, auk þess að ég er með rými fyr­ir mótor­hjól, pool-borð, pílu­spjald og stórt sjón­varp. Strák­arn­ir okk­ar og vin­ir þeirra eru dug­leg­ir að nota pool- og sjón­varpsaðstöðuna.“

Bíl­skúr­inn er slík undra­ver­öld að blaðamaður veit ekki hvar á að byrja. Guðmund­ur starfar sem múr­ari og hef­ur vandað sig við að skapa fal­lega um­gjörð utan um öku­tæk­in. Þannig eru all­ir vegg­ir flísa­lagðir og á gólf­um eru vandaðar am­er­ísk­ar bíl­skúrs-gólf­flís­ar. Þá eru vegg­irn­ir skreytt­ir með vara­hlut­um, ljós­mynd­um og vegg­spjöld­um og hef­ur Guðmund­ur það fyr­ir reglu þegar fjöl­skyld­an ferðast út í heim að kaupa eitt­hvað skemmti­legt fyr­ir skúr­inn.

Lyft­an í bíl­skúrn­um er síðan al­veg ein­stök, sér­smíðuð af fé­laga Guðmund­ar sem er stálsmiður. „Ég fékk skipa­smíðastofu til að teikna hana upp fyr­ir mig og síðan var hún sett sam­an úr laser-skorn­um pört­um,“ seg­ir Guðmund­ur og bend­ir á að hönn­un­in sé út­hugsuð og m.a. hægt að nota lyft­una sem nokk­urs kon­ar gryfju ef vinna þurfi í und­ir­vagni bíls. „Til viðbót­ar við lyft­una er lok sem leggst yfir opið í gólf­inu svo að nota megi stæðið hvort sem lyft­an er í efstu stöðu eða lægstu stöðu, og glu­ssa­tjakk­ar notaðir til að hreyfa bæði lok og lyftu.“ Tek­ur rétt rúm­lega tvær mín­út­ur að flytja öku­tæki úr kjall­ar­an­um upp í sjálf­an bíl­skúr­inn og er búnaður­inn ein­fald­ur í um­gengni, að sögn Guðmund­ar.

Kem­ur alltaf að bíl­skúrn­um eins og skilið var við hann


Guðmund­ur og María eru sam­rýnd hjón og kallaði það ekki á nein­ar samn­ingaviðræður að fá að hafa bíl­skúr­inn eins og hann er. Bæði eru hjú­in með bíla- og mótor­hjóla­dellu og áður en börn­in komu til sög­unn­ar mátti oft sjá þau Guðmund og Maríu á spani á mótor­hjóli um landið, hann við stýrið og hana aft­an á. Í dag eru þau lík­legri, þegar veðrið er gott á sumr­in, að halda af stað með hjól­hýsi í eft­ir­dragi eða ein­fald­lega taka rúnt um bæ­inn á ein­um af kögg­un­um sem þau hafa fjár­fest í. Á heim­il­inu eru tveir for­láta Ford Mu­stang, Chevr­olet Camaro og Porsche auk svo margra mótor­hjóla að Guðmund­ur þarf að hugsa sig um á meðan hann tel­ur þau fyr­ir blaðamann.


„Camar­oinn átti ég fyr­ir löngu og ók hon­um í sjö eða átta ár og seldi svo frá mér. Hann kom síðan aft­ur á markaðinn fyr­ir nokkru svo ég keypti hann til baka,“ seg­ir Guðmund­ur og upp­lýs­ir að til standi að taka gamla Chevr­olet­inn í gegn og end­ur­nýja með inn­vols­inu úr 2017 Camaro sem pantaður var frá Banda­ríkj­un­um. Áður hef­ur Guðmund­ur gert upp frá grunni for­láta 1969 Ford Mu­stang, og sam­hliða því að dytta að bíl­un­um hef­ur hann það fyr­ir áhuga­mál að gera við göm­ul mótor­hjól.


Spurður hvernig það fari sam­an við starf múr­ar­ans að verja löng­um stund­um í bíl­skúrn­um seg­ir Guðmund­ur að á þeim tím­um árs sem ró­legra sé í vinn­unni sé ágætt að geta komið að bíl­skúrn­um ná­kvæm­lega eins og var skilið við hann og haldið verk­efn­um þar áfram þar sem frá var horfið, enda eng­in hætta á að bíl­skúr­inn og vinnusvæðið fyll­ist af drasli. „Þegar ég lýk vinnu við eitt mótor­hjólið byrja ég á öðru, og svo hef­ur gamli Mu­stang­inn haldið mér við efnið, en hann fékk ég í hend­urn­ar í pört­um fyr­ir þrem­ur árum.“


Gam­an er að segja frá því að áhug­inn á bíl­um og mótor­hjól­um virðist ætla að smit­ast til drengj­anna þriggja sem Guðmund­ur og María eiga, þótt hann komi fram með öðrum hætti en hjá for­eldr­un­um. Elsti son­ur­inn er átján ára en hinir enn á grunn­skóla­aldri. „Þegar vin­ir þeirra koma í heim­sókn finnst strák­un­um gam­an að sýna þeim bíl­skúr­inn, en samt líta þeir meira á bíla sem sam­göngu­tæki en nokkuð annað. Haf­andi al­ist upp í þessu um­hverfi er ekki laust við að þeim þykir flott­ir bíl­ar sjálf­sagður hlut­ur og kannski ekki eins rosa­lega spenn­andi fyr­ir vikið. Ég fékk aft­ur á móti áhuga á bíl­um og mótor­hjól­um ung­ur að árum þegar ég ólst upp í Vest­manna­eyj­um og hef­ur áhug­inn bara auk­ist með aldr­in­um.“


Morgunblaðið 18.2.2020

Ásgeir Ingvars­son

as­geiri@mbl.is


4.1.21

Hringfarinn

Þvert yfir Ameríku

Íslenskir heimildarþættir um ferðalög hjónanna Kristjáns Gíslasonar og Ásdísar Rósu Baldursdóttur. Kristján sem fór hringinn í kringum jörðina á mótorhjóli snýr aftur á hjólið og í þetta sinn er Ásdís Rósa konan hans með í för. Í tilefni af 40 ára brúðkaupsafmæli þeirra ferðuðust þau þvert yfir Bandaríkin um 18 fylki á fimm vikum. Á ferðalaginu upplifðu þau stórkostlega náttúru, sögufræga staði og fjölbreytta flóru mannfólksins. Á leiðinni tóku þau fjölda ljósmynda, myndbanda og héldu nákvæma dagbók sem hér er veitt innsýn í. 

4.12.20

Norðlensk Hjólamenning.

Tían Bifhjólaklúbbur Norðuramts
(Jæja Sniglafréttir á pappír eru komnar út og þá hlýt ég að geta birt greinina sem ég skrifaði í málgangnið).


Hvar hittast hjólamenn á Akureyri:
 Olís og Ráðhústorg. Eru yfirleitt söfnunarstaðirnir.

Á Akureyri voru mótorhjólin komin af stað um leið og fystu snjóa leysti.
Vorið var reyndar í svalari kantinum eftir snjóþungan vetur, en hjólarar margir hverjir létu sig samt hafa það og óku á þurru malbiki milli snjóruðninga lengi fram á vorið.
Covid setti einnig svip sinn á vorið en það virtist ekki há hjólamönnum mikið þeir héldu bara tveggja metrareglunni að mestu og hjóluðu milli kaffihúsa og sveitarfélaga í góðviðrisdögum í sumar.


1. mai hópkeyrsla 

Var plönuð á Akureyri af Tíunni eins og alltaf en út af Covid varð að fella hana niður. Í staðinn var bara farið út að hjóla helgina eftir og fór góður hópur í frábæra dagsferð austur fyrir heiði til Húsavíkur og um innsveitir Aðaldals.

Svo þegar róaðist um í Covid-ástandinumí sumar þá auglýsti Tían hópkeyrslu og fór hún fram 13 júní.
Hún var vel heppnuð, frábært veður og mikið af hjólum allstaðar af landinu.
Okkur fannst reyndar frekar dræm mæting heimamanna að þessu sinni. En túrinn var þrælskemmtilegur.
Tekinn var útsýnistúr um Akureyri og vakti það talsverða athygli bæjarbúa að sjá glæsta fylkingu mótorhjóla fara um bæinn.
Síðan var lengri leiðin í Lundskóg í Fnjóskadal tekin um Víkurskarð og svolgrað í sig veitingum þar, og þaðan var farið í gegnum Vaðlaheiðargöng og á Mótorhjólasafnið þar sem flestir löbbuðu hring þar inni.
Einhver hluti hópsins ætlaði svo að næra sig á Greifanum um kvöldið en daginn eftir var fjölskyldugrillhittingur hjólamanna og fjölskyldna þeirra í Kjarnaskógi í boði Tíunnar, og þar gátu aðkomuhjólarar kýlt í belginn áður en þeir keyrðu heim á leið eftir skemmtilega helgi.



Samstöðufundur við vegagerðina í lok júní.

Eftir hryllilegt mótorhjólaslys á Kjalarnesi skammt frá Hvalfjarðargöngunum þar sem tveir mótorhjólmenn létust og þótti sannað að að ástæðan væri sleipur nýlagður vegkafli, þá tóku mótorhjólamenn hér norðanlands að sjálfsögðu þátt í samstöðufundi með Sniglunum og heimsóttum höfuðstöðvar Vegagerðarinnar á Akureyri á sama tíma og mótorhjólamenn fyrir sunnan heimsóttu vegagerðina fyrir sunnan. Um 30 hjól mættu þar og mótmæltu með reyndar frekar stuttum fyrirvara.

Landsmót 

Spennan varðandi landsmót var gríðarleg þar sem ekki var vitað hvort við ættum halda mótið.

En það kom svo í ljós að það mátti og var landsmótið haldið að Laugarbakka í Miðfirði (rétt hjá Hvammstanga) og var þetta hin besta skemmtun.



Að segja frá landsmóti í stuttu máli er ekki hægt ,,,,
Nema bara segja Þetta var geðveikt gott mót og það er vitað að norðanmenn halda líka næsta mót í Húnaveri.


Hjóladagar Tíunnar eru stærsti viðburður hjólmanna á Akureyri


Það var sannarlega glaumur og gleði þessa helgina hjá okkur á Hjóladögum Tíunnar.

Dagskráin riðlaðist aðeins hjá okkur vegna veðurfarsins, en við slepptum spyrnunni upp á braut út af því, en við héldum Bjórkvöld um kvöldið á Mótorhjólasafninu með lifandi tónlist þar sem Trausti og Baldur héldu uppi fjörinu. Stóð gleðin fram á nótt og var mjög gaman.

Upp úr hádeginu á laugardeginum hafði stytt upp rigningunni og safnaðist í hópkeyrslu á Ráðhústogi. Ekinn var skemmtilegur hringur um bæinn og inn fjörðinn sem endaði svo á Mótorhjólasafninu, þar sem snæddir voru hamborgarar öllum að kostnaðarlausu og var þar einnig hoppukastali fyrir börnin.

Um kvöldið var svo slegið upp þvílíkri veislu í Sal Náttúrulæknigafélagsins þar sem hjólafólk víða að, þó mest heimamenn, skemmtu sér með mat og drykk fram á nótt.

Sérstakar þakkir til Sigríður Dagnýar, Formanns Tíunnar. Gunna , Þau svo sannarlega láta hlutina gerast.

Svo auðvitað Trausti og Baldur sem sáu um spilamensku bæði kvöldin þið stóðuð ykkur frábærlega.
Rúnar Eff tók nokkur lög, og Villi Vandræðaskáldi kom með sitt skemmtiatriði og ætlaði þakið að rifna af húsinu þvílík var skemmtunin hjá honum.

Pokerrun


Síðastliðin 3 ár hefur Tían haldið Pokerrun í ágúst.

Í ár var Pokerrun 3ja árið í röð hjá Tíunni og var það nokkuð vel heppnað.
Fyrstu tvö árin var þetta alvöru hjólatúr, 300km eða svo en í ár var ákveðið að stytta túrinn aðeins og var hann aðeins 160km rúntur.

Þátttakendur drógu spil í hverju stoppi til að mynda pókerhönd í lok ferðarinnar, og átti Sigurður Traustason á Suzuki GXSR 750 bestu spilin þegar uppi var staðið, en hann fékk röð frá ási og niður.
Hann sjálfur kunni ekkert í póker svo þetta kom honum virkilega á óvart þegar niðurstaðan kom í ljós. (Pókerkunnátta er ekki nauðsynleg í Pókerrun).
Fékk hann glæsilegan bikar og í honum var þáttökugjöld allra sem tóku þátt í pókerruninu en þeir sem lentu í öðru og þriðja sæti fengu líka verðlaun í sárabætur frá Bike Cave í Reykjavík.


Lokaorð:

Við lifum á undarlegum tímum, Covidfaraldur heldur heimsbyggðinni í hálfgerði gíslingu, en samt náðum við að halda viðburði sumarsins.
Við vorum heppinn að geta haldið Landsmót og ekki var það verra að það heppnaðist svona gríðalega vel. Reyndar heppnaðist það svo vel að við munum halda næsta landsmót líka 2021 og það í mekku okkar hjólamanna "Húnaveri" . Svo neglið niður fyrstu helgina í júlí, því þið þurfið að mæta á Landmót Bifhjólamanna á næsta ári. en eins og þið vitið þá byrjaði landsmót sem Landsmót Snigla og eiga þeir alltaf Landsmót í okkar hjörtum.

Viðburðir Tíunnar Bifhjólaklúbbs Norðuramts eru allir auglýstir á heimssíðu klúbbsins www.tian.is og erum við einnig á Facebook, Instagram og Twitter.

Kv. Víðir #527

13.11.20

Mótorhjólamyndin í kýrauganu



 Í grúski bílablaðamanns Fréttablaðsins um gömul mótorhjól, kemur stundum eitthvað skemmtilegt upp úr dýpi liðinna daga. Ég hafði rekist á frásögn um Ossian Westlund og „tvíhjólabifreið“ hans frá því um 1920 á yfirferð um netið og ákvað að setja mig í samband.

Afabarn hans, Súsanna Rós Westlund, varð fyrir svörum og fljótlega kom í ljós að mynd væri til af karlinum. „Sú mynd er í kýrauga úr messing, ótrúlega flott mynd,“ sagði hún. Fékk ég ljósmynd af myndinni senda og sá þá að um mjög gamalt hjól var að ræða. Hjólið á myndinni er Excelsior Model 7-C, skráð 8 hestöfl, eins og slegið var upp í auglýsingum fyrir hjólið. Í gömlum skráningarpappírum frá 1922 kemur fram að til hafi verið átta hestafla Excelsiorhjól fram til ársins 1921, með grindarnúmerið 96061. Það þýðir að það var framleitt 1914-15, sem passar við hjólið á myndinni og er því um elsta mótorhjól sem til er á mynd hérlendis að ræða.

Excelsior mótorhjólin voru hraðskreiðustu og áreiðanlegustu hjólin í Bandaríkjunum á sínum tíma og unnu meðal annars tvær fyrstu Cannonball þolaksturskeppnirnar. Excelsior V2 með 61 kúbiktommu vél eins og þetta, var fyrsta framleiðslumótorhjólið til að ná 100 mílna hraða árið 1912. Árið 1914 var hjólið komið með tveggja gíra kassa og blaðfjöðrun að framan eins og sést á þessu hjóli. Þriggja gíra kassi kom árið 1915 en því miður sjáum við ekki á myndinni hvort hann sé í hjólinu eða ekki. Árið 1921 keypti Excelsior Henderson merkið og þar með voru dagar þessa V2 mótors taldir.

Ossian Westlund veifar kumpánlega til ljósmyndarans gegnum kýraugað.
Súsanna sagði einnig að til væri gömul grein um afa hennar og mótorhjólið. 

Í Morgunblaðinu þann 13. mars 1931 er fjallað um Westlund. Þar er meðal annars minnst á bifhjólið og sögu tengda því. Við grípum niður í frásögn Morgunblaðsins um mótorhjólið. 

„Svo var það einn góðan veðurdag, að maður var á bifhjóli inn við Elliðaár. Hjólið datt í árnar. Það skemmdist. Eigandinn fjekk ekki gert við það og seldi það fyrir hálfvirði en Westlund keypti. Bifhjól eru merkilegir gripir. Það fanst Westlund. Hann plokkaði hjólið alt í sundur ögn fyrir ögn, og einkum þó hreyfilinn. Af því lærði hann margt. Margar tilraunir gerði hann. En að því kom að bifhjólið var sem nýtt og Westlund settist á bak, margfróðari um hreyfla og hjól, en er hann byrjaði. Ári seinna fór hann í skemmtiferð um Noreg og Svíþjóð á hjólinu. Hann seldi það í Málmey nokkur hundruð krónum dýrara en hann hafði keypt það.“

Í einkasafni í Helsingborg í Svíþjóð má meðal annars finna safn mótorhjóla sem nú er reyndar lokað, þar sem erfingjar eru að selja safnið. Meðal gripa þar er Excelsior mótorhjól af sömu árgerð, einnig með hliðarvagni og sams konar ljóskeri. 

Leiða má líkur að því að um sama hjól sé að ræða, en framtíðin mun vonandi leiða það í ljós.

Njáll Gunnlaugsson 
Fréttablaðið 4.11.2020

27.5.20

Hópkeyrsla Tíunnar frá Ráðhústorgi. FRESTAÐ


(Frestað)  Hópkeyrsla Tíunnar á Akureyri.

Allir eru velkomnir að mótorhjólast með.


Alls verða eknir 42 km fyrst um flest hverfi Akureyrarbæjar til að minna á að mótorhjólin eru komin á göturnar.  
Síðan verður tekin litli Eyjafjarðarhringurinn og endað inn í Kjarnaskógi þar sem Tían Bifhjólaklúbbur Norðuramts verður með fjölskyldudag og grillveislu þar sem Vitinn mathús grillar ofan í okkur. 
1500 kr á mann ,,, nema þú sért greiddur félagsmaður í Tíunni þá er það frítt. 

 Munið félagskirteini, það virkar sem greiðsla.
Munið eftir félagskirteinum.
Ganga í klúbbinn !


Varðandi hópaksturinn þá ber öllum hjólamönnum að virða umferðareglur, Við auðvitað reynum að stöðva umferð þar sem við getum en það er ekki alltaf hægt, og því verða menn að fara með aðgát því óvenju mörg gatnamót verða tekin í þessari keyrslu.

Hér að neðan er aksturplan hópkeyrslunar .





24.5.20

Rúntað og ræktað upp land

Á milli Sultartangalóns og Hrauneyjavegar vinna nokkur mótorhjólafélög að því að græða upp örfoka land og endurheimta forna birkiskóga. Í dag verður farið í hina árlega landgræðsluferð.


Vorið 2009 hóf Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir landgræðsluverkefni undir heitinu Hekluskógar. Tveimur árum síðar gengu fjögur mótorhjólafélög til viðbótar til liðs við verkefnið og hafa þau nú farið á hverju ári í landgræðsluferð þar sem sexhjól í eigu Gísla Einarssonar hefur reynst afar vel.


Árlegur viðburður



Gísli, sem er meðlimur Slóðavina, er einn þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu frá upphafi. „Ég er búinn að vera með nánast frá upphafi,“ segir hann. „Þetta er árlegur viðburður og er samvinnuverkefni nokkurra mótorhjólaklúbba, þar á meðal Slóðavina sem er ekki bara mótorhjólahópur, heldur ferðaklúbbur á mótorhjólum, fjórhjólum og beltahjólum og fleira. Hinir klúbbarnir sem eru með okkur eru allt mótorhjólaklúbbar.“
   Hin félögin sem koma að verkefninu eru BMW klúbburinn á Íslandi, Skutlur, Harley Owners Group Iceland og Gaflarar í Hafnarfirði. Hvert félag fyrir sig vinnur á 25 hektara svæði (500x500) og ber þar á áburð og gróðursetur trjáplöntur ár hvert. Að auki vinna Slóðavinir á 80 hektara svæði á Vaðöldu og Endurvinnslan hf. vinnur á 40 hektara svæði, samhliða mótorhjólafélögunum.
Við fengum úthlutað og byrjuðum á svæði sem heitir Vaðalda, sem er upphækkað svæði út frá lóninu hjá virkjuninni á Sultartanga. Svo breyttist það þegar við ákváðum að fá sérstakt svæði við þjóðveginn, sem er svona ca 5 kílómetrar að lengd og 500 metrar á breidd,“ skýrir Gísli frá.
   „Þar erum við að vinna að því að búa til skóg sem við ræktum með höndunum, með það fyrir augum að þetta gæti hugsanlega orðið einhvers konar mótorhjólakeyrslusvæði í framtíðinni, ef það er hægt að gera einhverjar skemmtilegar brautir þarna.“ Skógurinn sem félögin vinna að því að græða er í daglegu tali nefndur Mótorhjólaskógurinn.
   Alls er uppgræðslusvæðið tæplega 300 hektarar. Ýmsir aðilar hafa styrkt verkefnið, en stærsta styrkinn veitir N1 árlega, þar sem fyrirtækið lánar Slóðavinum vörubíl með krana til að flytja áburðinn og hífa sekkina í vegkantinn við reiti hvers félags.

Kærkomin hjálparhella 


„Ég kem alltaf með sexhjól á svæðið, sem er fjórhjól með palli, og það hjálpar okkur að dreifa áburði, það munar miklu að geta dreift áburði til að örva vöxtinn. Það er orðið fastur punktur í þessu og auðveldar alla vinnu.“
    Ábyrgðin er mikil. „Ég þarf alltaf að halda því gangandi til að vera öruggur að geta mætt með það, það er orðið fimmtán ára gamalt. Það virkar mjög vel í áburðardreifingu því það getur einn verið að keyra og einn setið aftan á pallinum og kastað áburðinum, svo getur maður líka borið í þau sem eru að kasta úr fötum eða skjólum og eru kannski búin að labba langt frá sekknum, þá getur maður skotist til þeirra með áburð.“
   Þá þarf líka að fara gætilega. „Það er alltaf að verða vandasamara að keyra á svæðinu, því það eru alltaf að koma fleiri plöntur, maður verður að passa sig á að keyra ekki á litlu trén.“
   Blaðamaður spyr Gísla hvort sexhjólið sé hálfgerð þungamiðja verkefnisins. „Það mætti kannski segja að það sé lykilþátttakandi í þessu verkefni.“
   Í dag verður farið af stað í landgræðsluferðina og lagt verður af stað frá Olís Norðlingaholti klukkan 8.45 og 9.00.

  Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook undir „Mótorhjólaskógurinn“.

Fréttablaðið 
23. MAÍ 2020 

14.5.20

Tilboð til Tíumeðlima á Langaholti á Snæfellsnesi

Kæru meðlimir Tíunnar


Mótorhjóla-hjónaleysin Keli Vert og Rúna Björg á Gistihúsinu Langaholti á Snæfellsnesi elska mótorhjól og fólkið sem situr þau. Nokkuð hefur verið um það að hjólafólk og klúbbar hafi tekið sig saman í ferðir um Snæfellsnesið fagra með viðdvöl í gistingu og eða eftirminnilega matarupplifun á Langaholti, enda staðsetning hótelsins mjög hentug.


Langholt bíður bifhjólafólki eftirfarandi tilboð á gistingu út júní mánuð, morgunverður er innifalinn í öllum verðum.  

Tveggja manna herbergi í einan nótt       15.000 kr.
Eins manns herbergi í eina nótt                10.000 kr.
Nótt tvö og fleiri nætur bjóðum við svo á hálfvirði !!!
Tveggja manna herbergi í tvær nætur     22.500 kr. = seinni nóttin á 7.500 kr.
Eins manns herbergi í tvær nætur            15.000 kr. = seinni nóttin á 5.000 kr.

Sé um stærri hópa (10 manns eða fleiri) að ræða erum við svo ennfrekar tilbúin að setjast að
Keli Vert
samningaborðinu varðandi hópafslætti á matarverðum ofl. 
Áhugasamir sendi fyrirspurnir á langaholt@langaholt.is eða hringi í síma 435-6789
Skoðið endilega síðurnar okkar   https://langaholt.is/ Og https://www.facebook.com/langaholt/

Þeir sem vilja bóka á tilboðinu “geri grein fyrir sér” með nafni og tilgreini aðild sína að Tíunni !
 
Við þetta má bæta að hjólafólk fær sem fyrr alltaf frítt kaffi á Langaholti.

Rokk, ról og kærar hjólakveðjur

13.5.20

Skoðunardagur Fornbíladeildar B.A. og Tíunnar


Skoðunardagur fyrir Mótorhjól og Fornbíla verður þann 16 maí 2020 hjá Frumherja á Akureyri.

Mjög góður afsláttur af skoðuninni og grillað ofan í liðið ...

Tían og Fornbíladeildin hefur haldið þenna dag saman undan farin tvö ár og gengið frábærlega, og mun þetta samstarf halda áfram.
Mætum og eigum góðan dag saman.

Maður skynjar umhverfið betur

9.5.20

Bjó til mótorhjól úr Britt & Stratton sláttuvél

Fyrirmyndin er Indian 1912 en mótorinn úr Sláttuvél

Í litlum skúr á Þingeyri er skrítið og skondið hjól sem vekur gjarnan mikla athygli þegar því er ekið um bæinn. Þetta mótorhjól er má segja afkvæmi reiðhjóls og sláttuvélar.

„Það er nú bara þannig að þegar mig langar í eitthvað þá smíða ég það frekar en að kaupa það. Það hentar betur þegar maður býr svona nálægt Norðurpólnum, “ segir Jón Sigurðsson þúsundþjalasmiður.  
„Fyrirmyndin er Indian hjól frá 1918. Grindin er af venjulegu reiðhjóli en ég lengdi hana til að koma mótornum fyrir. Hann er úr sláttuvél en ég þurfti bara að snúa honum á hlið. Svo setti ég svinghjól á mótorinn og mixaði einfalda kúplingu.  Stýrið tók ég líka af sláttuvélinni.“
Landinn á Rúv
06.02.2017

8.5.20

Prjónbekkur sem lokaverkefni


Hrannar Ingi smíðaði vagn til að æfa prjón á mótorhjóli sem lokaverkefni í Verkmenntaskólanum.



„Þetta byrjaði á YouTube-myndbandi sem ég sá af Rússum sem voru búnir að smíða svona græju,“ sagði Hrannar Ingi Óttarsson um tilurð þess að hann smíðaði vagn með mótorhjólagrind til prjónæfinga sem lokaverkefni sitt hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Verkstjórinn minn hló bara og sagði að ég væri ruglaður en var samt mjög opinn fyrir þessu og fannst þetta spennandi.“
   Hrannar Ingi fékk svo rennismið með sér í verkefnið og græjan fór smátt og smátt að verða til.     
 Smíðin er þó ekki einföld því að hjólið þarf bókstaflega að keyra í gír á föstu kefli og þarf því mótorhjólið að vera kyrfilega fast ofan á þessu öllu saman, en samt geta risið að framan. Knapinn stjórnar svo risinu með inngjöf og temprar það með afturbremsunni. Græjan hans Hrannars er því mjög góð til að sýna fólki hvað gerist við prjón á kraftmiklu hjóli og hvernig er best að ná stjórn á því aftur.

 Bannað á götum úti 


Samkvæmt nýju umferðarlögunum er bannað að lyfta viljandi framdekki í akstri en þar sem mótorhjólið er kyrrstætt ætti það ekki að koma að sök í þessu tilviki. „Við ætlum að vera með hjólið á svæði Bílaklúbbs Akureyrar í sumar en það er æfingasvæði. Jafnvel sýnum við græjuna á hjóladögum í sumar og kíkjum jafnvel suður. Áður en það er gert þarf samt að setja öryggisbelti á hjólið sem er fest við stýrið svo að óvanir detti ekki af hjólinu,“ sagði Hrannar Ingi sem greinilega vill hafa
græjuna eins örugga og hægt er.
    Hrannar vildi koma á framfæri sérstöku þakklæti fyrir hjálpina sem hann fékk við smíðina hjá vinnufélögunum í Slippnum á Akureyri. Einnig var hann ánægður með að kennari hans skyldi gefa honum grænt ljós á svona verkefni sem ekki allir átta sig á hvað er. Svona græja sést ekki á hverjum degi þótt einhverjir hafi kannski séð svona í útlöndum.
 Hver veit nema við fáum að sjá meira af græjunni hans Hrannars í sumar einhvers staðar á landinu, ef COVID lofar.




Fréttablaðið
bls 20


6.5.20

Ætla með hjólin sín á sýninguna í Köln


Bikevík er nýtt fyrirtæki í Njarðvík sem sérhæfir sig í breytingum mótorhjóla. Blaðamaður Fréttablaðsins heimsótti það á dögunum til að skoða betur mótorhjólin sem það var um það bil að afhenda, en þau eru flest af BMW-gerð.


Arnar Steinn Sveinbjörnsson varð fyrir svörum. „Við byrjuðum á þessu fyrir um þremur árum síðan en fram að því hafði maður ekki haft tíma til að gera þetta, sem manni finnst svo skemmtilegt. Fyrsta hjólið sem Bikevík breytti var Kawasaki ER500 hjól sem var breytt á tveimur vikum og tókst bara vel,“ segir Arnar. Fljótlega þróaðist áhuginn á að breyta BMW-hjólum vegna áhuga á BMW-bílum og K-hjólin voru einföld að gerð og auðvelt að breyta þeim á ýmsa vegu. Hefur Bikevík breytt þeim meðal annars í Cafe Racer hjól og líka í Scrambler hjól. „Nýjasta BMW-hjólið sem breytt er í Cafe Racer hefur fengið töluverða athygli á heimasíðum sem sérhæfa sig í breyttum mótorhjólum og eins og annar mótorhjólasmiður orðaði það, var gaman að sjá eitthvað nýtt, en það gladdi okkur mikið,“ segir Arnar.

Hafa breytt 10 mótorhjólum 

Blaðamaður Fréttablaðsins fékk að prófa nokkra gripi og kom það á óvart hversu skemmtileg þau voru í akstri og í raun og veru léttari að keyra heldur en hjólin óbreytt. Fyrirtækið er nú búið að breyta 10 mótorhjólum og er meðal annars að klára Ducatimótorhjól sem vakið hefur athygli erlendis. „Einnig erum við að klára Triumph-mótorhjól svo að BMW er ekki lengur það eina sem við gerum þótt vissulega slái hjartað þar,“ segir Arnar. Bikevík áætlar að fara með öll hjólin sem það hefur breytt á Intermot-mótorhjólasýninguna í Köln í október. Eins er á teikniborðinu að breyta nýju Kawasaki-hjóli svo að spennandi verður að sjá hvað kemur næst á götuna frá Bikevík.
Fréttablaðið 

5.5.20

Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu

Hjörtur L. Jónsson og Ólafur í ísakstri.

Hjörtur Jónsson er einn af elstu meðlimum Sniglanna. „Ég er snigill númer 56, kom inn á fyrsta árinu, haustið 1984, og búinn að vera þar síðan. Ég var aðlaður rétt fyrir aldamótin, ’97 minnir mig. Var þá gerður að heiðursfélaga fyrir vel unnin störf fyrir félagið. Ég hef verið mikið í ýmsum viðburðastjórnum, sá um landsmót, sá um tíu ára afmæli Sniglanna, á sínum tíma héldu þeir kvartmílukeppnir og Enduro-keppnir, ég sá um þetta allt saman. Ég hef verið mikið í skipulagningu og viðburðastjórnun af ýmsu tagi og þess háttar.“

   Áhugi Hjartar kviknaði eftir kynni hans af skellinöðrum. „Ég keyrði fyrst skellinöðru ’72, tólf ára gamall. Svo eignast ég skellinöðru ’76 og síðan ’83 hef ég alltaf átt eitt eða fleiri mótorhjól. Þetta var alltaf draumur, maður sá þetta í blöðum og fannst þetta spennandi. En mér er sagt að þegar ég var smágutti, 3-4 ára, þá hafi ég grátið af hræðslu þegar þetta keyrði fram hjá.“
   Er eitthvað sem stendur upp úr eða er sérstaklega eftirminnilegt?
     „Vonda minningin kemur oft fyrst upp í hugann, þegar maður missti fyrsta mótorhjólafélagann í mótorhjólaslysi. Það situr lengst og er erfiðast að vinna í. Af öllum viðburðunum, þá var það ekki beint tengt Sniglunum en þegar mótorhjól á Íslandi áttu aldarafmæli árið 2005 var haldin stór hátíð á Sauðárkróki, Hundrað ára afmæli mótorhjólsins. Ég skipulagði hana og fékk til liðs við mig þrettán mótorhjólaklúbba til að standa að hátíðinni. Það er eitt af því sem gefur mér alltaf gæsahúð vegna þess hvað allt tókst vel, fyrir utan veðrið, það var hundleiðinlegt. Hátíðin fór með eindæmum vel fram og ekki einn einasti maður tekinn með fíkniefni eða brennivín eða fyrir hraðakstur.“ Dregið hefur verulega úr alvarlegum mótorhjólaslysum undanfarinn áratug og nefnir Hjörtur nokkur atriði sem hafa haft áhrif.
„Fyrstu tíu ár Snigla létust fimmtán í mótorhjólaslysum en næstu tíu ár létust aðeins sjö. En það má þakka því að gallarnir eru betri, hjólin betri, með betri bremsum og svoleiðis. Þetta eru alltaf að verða öruggari og öruggari farartæki. Svo er skítakuldi hér, hávaðarok og ausandi rigning og allir mótorhjólamenn eiga svo góða galla þannig að ef þeir fljúga á hausinn þá eru þeir ágætlega varðir.“

Prestur eða morðingi 

   Það ríkir mikil virðing milli mótorhjólamanna. „Mótorhjólamaður er alltaf mótorhjólamaður, þegar ég mæti honum þá veifa ég honum. Það er mikil virðing borin fyrir samherjanum, við heilsum alltaf. Þetta er svona úti um allan heim, þú veist ekkert hvort þú ert að mæta prestinum eða fjöldamorðingjanum.“
  Þá er lífsgleðin áberandi. „Það eru allir glaðir, það er enginn í fýlu. Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu. Mótorhjólafólk laðast hvert að öðru, líkur sækir líkan heim. Það er svo mikil vinátta í þessu samfélagi og samheldni, ef það bilar hjá einum þá hjálpast allir að við að koma honum áfram svo að allir komist heim.“
  Hjörtur hefur líka starfað sem leiðsögumaður. „Hálendi Íslands er stærsta paradísin af þeim öllum. Það er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég hef verið leiðsögumaður með túristum í fimmtán ár fyrir fyrirtæki sem leigir út hjól. Þekktasti maðurinn er væntanlega gítarleikarinn í Guns N' Roses, Richard Fortus. Við erum vinir á Facebook, ég fékk vinabeiðni og var ekki alveg að kveikja. Þetta eru 150 túristar sem ég er búinn að taka hringinn í kringum landið.“
  Óhætt er að fullyrða að Sniglarnir hafi mótað líf Hjartar sem kynntist konu sinni í samtökunum. „Það var á landshátíð Sniglanna árið 1987 í Húnaveri sem við duttum saman. Við vorum búin að þekkjast lengi. Hún er númer 248.“


Fyrsta ferðin endaði ofan í skurði


Sonur Hjartar, Ólafur Hjartarson, er 23 ára og segja má að hann hafi alist upp innan um mótorhjól.
  „Fjölskyldan hefur alltaf verið í þessu, ég hef aldrei munað eftir öðru. Ég hef örugglega farið á mótorhjól þegar ég verið 2-3 ára en ég keyrði fyrst á sex ára afmælisdaginn minn. Það endaði ofan í skurði og ég fékk ör á kinnina.“
  Ólafur var með eina ósk þegar hann gekk til liðs við Sniglana. „Ég bað sérstaklega um að númerið mitt myndi enda á 56, af því að það er númerið hjá pabba. Það eru 2.400 manns á milli okkar.“
  Móðurafi Ólafs hjólar líka enn reglulega, orðinn 76 ára. „Foreldrar mínir kynntumst í gegnum Sniglana og svo er afi minn líka með hjól, honum datt það í hug þegar hann var sextugur. Hann var á skellinöðru í gamla daga, þroskaðist upp úr því en keypti sér svo Harley.“
   Feðgarnir Hjörtur og Ólafur hafa átt margar gæðastundir á hjólunum. „Ég hjóla allt árið, legg götuhjólinu kannski í nóvember en ég tek þá út torfæruhjólið og þá förum við pabbi að keyra á ís, eins og á Hafravatni og upp í fjöll.“
   Líkt og margir, nefnir Ólafur einnig frelsið sem helsta aðdráttaraflið. „Það er bara frelsið, það tala allir um þetta frelsi og svo er þetta persónulega bara drullugaman.“  


Fréttablaðið 5. MAÍ 2020 

4.5.20

Prjónmaskína á Akureyri

Eins og sjá má eru þarna viftur til að hjálpa til við að kæla hjólið.
og öryggisól til að varna því að hjólið fari of langt.
Um þessar mundir eru útskriftir hjá verknámsnemum í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Einn þessara nema Hrannar Ingi Óttarsson smíðaði ansi frumlegt útskriftarverkefni.

Eða eins og hann orðaði það :
Lokaverkefnið mitt í stálsmíði klárt. Margra mánaða vinna sem er búin að vera mjög krefjandi enn verulega skemmtileg. Sáttur með útkomuna og nú verð ég eflaust betri að prjóna á mótorhjóli.

Tían Bifhjólaklúbbur óskar Hrannari innlega til hamingju með þetta glæsilega tæki og hlökkum til að fá að prófa á næstu misserum,  en hann lofar að koma á einhverja af okkar viðburðum og leyfa okkur að skoða og prófa..


Hér að neðan er hægt að sjá hve mikil vinna fór í verkið :
















 Stórglæsilegt hjá Hrannari