Sýnir færslur með efnisorðinu Fróðleikur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Fróðleikur. Sýna allar færslur

24.5.20

Rúntað og ræktað upp land

Á milli Sultartangalóns og Hrauneyjavegar vinna nokkur mótorhjólafélög að því að græða upp örfoka land og endurheimta forna birkiskóga. Í dag verður farið í hina árlega landgræðsluferð.


Vorið 2009 hóf Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir landgræðsluverkefni undir heitinu Hekluskógar. Tveimur árum síðar gengu fjögur mótorhjólafélög til viðbótar til liðs við verkefnið og hafa þau nú farið á hverju ári í landgræðsluferð þar sem sexhjól í eigu Gísla Einarssonar hefur reynst afar vel.


Árlegur viðburður



Gísli, sem er meðlimur Slóðavina, er einn þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu frá upphafi. „Ég er búinn að vera með nánast frá upphafi,“ segir hann. „Þetta er árlegur viðburður og er samvinnuverkefni nokkurra mótorhjólaklúbba, þar á meðal Slóðavina sem er ekki bara mótorhjólahópur, heldur ferðaklúbbur á mótorhjólum, fjórhjólum og beltahjólum og fleira. Hinir klúbbarnir sem eru með okkur eru allt mótorhjólaklúbbar.“
   Hin félögin sem koma að verkefninu eru BMW klúbburinn á Íslandi, Skutlur, Harley Owners Group Iceland og Gaflarar í Hafnarfirði. Hvert félag fyrir sig vinnur á 25 hektara svæði (500x500) og ber þar á áburð og gróðursetur trjáplöntur ár hvert. Að auki vinna Slóðavinir á 80 hektara svæði á Vaðöldu og Endurvinnslan hf. vinnur á 40 hektara svæði, samhliða mótorhjólafélögunum.
Við fengum úthlutað og byrjuðum á svæði sem heitir Vaðalda, sem er upphækkað svæði út frá lóninu hjá virkjuninni á Sultartanga. Svo breyttist það þegar við ákváðum að fá sérstakt svæði við þjóðveginn, sem er svona ca 5 kílómetrar að lengd og 500 metrar á breidd,“ skýrir Gísli frá.
   „Þar erum við að vinna að því að búa til skóg sem við ræktum með höndunum, með það fyrir augum að þetta gæti hugsanlega orðið einhvers konar mótorhjólakeyrslusvæði í framtíðinni, ef það er hægt að gera einhverjar skemmtilegar brautir þarna.“ Skógurinn sem félögin vinna að því að græða er í daglegu tali nefndur Mótorhjólaskógurinn.
   Alls er uppgræðslusvæðið tæplega 300 hektarar. Ýmsir aðilar hafa styrkt verkefnið, en stærsta styrkinn veitir N1 árlega, þar sem fyrirtækið lánar Slóðavinum vörubíl með krana til að flytja áburðinn og hífa sekkina í vegkantinn við reiti hvers félags.

Kærkomin hjálparhella 


„Ég kem alltaf með sexhjól á svæðið, sem er fjórhjól með palli, og það hjálpar okkur að dreifa áburði, það munar miklu að geta dreift áburði til að örva vöxtinn. Það er orðið fastur punktur í þessu og auðveldar alla vinnu.“
    Ábyrgðin er mikil. „Ég þarf alltaf að halda því gangandi til að vera öruggur að geta mætt með það, það er orðið fimmtán ára gamalt. Það virkar mjög vel í áburðardreifingu því það getur einn verið að keyra og einn setið aftan á pallinum og kastað áburðinum, svo getur maður líka borið í þau sem eru að kasta úr fötum eða skjólum og eru kannski búin að labba langt frá sekknum, þá getur maður skotist til þeirra með áburð.“
   Þá þarf líka að fara gætilega. „Það er alltaf að verða vandasamara að keyra á svæðinu, því það eru alltaf að koma fleiri plöntur, maður verður að passa sig á að keyra ekki á litlu trén.“
   Blaðamaður spyr Gísla hvort sexhjólið sé hálfgerð þungamiðja verkefnisins. „Það mætti kannski segja að það sé lykilþátttakandi í þessu verkefni.“
   Í dag verður farið af stað í landgræðsluferðina og lagt verður af stað frá Olís Norðlingaholti klukkan 8.45 og 9.00.

  Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook undir „Mótorhjólaskógurinn“.

Fréttablaðið 
23. MAÍ 2020 

Allir vinna – nema mótorhjól

Fær ekki endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerðar á mótor­hjóli eins og eigendur bíla fá gegnum átakið „Allir vinna“


Benedikt Bjarnason er einn þeirra sem notar mótorhjólið sitt daglega eins og flestir nota bíla sína. Hann reyndi að fá endurgreidda viðgerð á mótorhjóli sínu í vikunni gegnum átakið „allir vinna“ en fékk höfnun hjá Ríkisskattstjóra. „Þetta snýst ekki um að fá endurgreiddar þessar 8.000 krónur fyrir mig til eða frá. Þetta snýst miklu frekar um að þarna er verið að útiloka hóp og þá einnig alla þá sem gera við mótorhjól frá þessari leið stjórnvalda,“ sagði Benedikt.
Benedikt hringdi í Ríkisskattstjóra og fékk þau svör að þetta næði ekki til mótorhjóla. „Ég hlýt að hafa misskilið allt saman. Ég þurfti greinilega ekkert að læra umferðarlögin. Ég tilheyri ekki umferðinni,“ sagði Benedikt í stöðufærslu sinni á Facebook. Benedikt notar mótorhjól sitt til og frá vinnu og er það í raun og veru hans eina farartæki. „Ég nota mótorhjólið sem mitt eina ökutæki í allavega átta mánuði á ári á hverjum degi. Við fjölskyldan erum þess vegna bara með einn bíl og ég fæ því far hjá konunni yfir vetrarmánuðina.“ Benedikt var ekki alveg sáttur við þessi svör og vildi gjarnan heyra rökin.
Blaðamaður Fréttablaðsins hafði samband við Ríkisskattstjóra og fékk þau svör að verið væri að vinna eftir orðalagi breytingartillögu laga um virðisaukaskatt, en þar stendur: „Á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skal endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðis­auka­skatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að skattinum barst erindið.“ Starfsmaður Ríkisskattstjóra sagði að verið væri að vinna eftir orðalagi greinarinnar sem alltaf er túlkað þröngt, og þar sem aðeins er talað um bíla í greininni fæst ekki endurgreiðsla fyrir mótorhjól.
Að mati Benedikts ættu lögin að ná til allra skráðra ökutækja til einkanota en ekki bara fólksbifreiða. „Var einhver nefndarmaður smeykur um að ég myndi umturna hjólinu mínu á kostnað skattborgara? Hvað ef ég á Skoda Favorit og læt sprauta hann í kanadísku fánalitunum? Sprautun á fólksbíl virðist vera í lagi, en ekki ef ég læt laga bilaða leiðslu frá rafgeymi í mótorhjólinu,“ sagði Benedikt að lokum.
Fréttablaðið
Fimmtudagur 21. maí 2020

20.5.20

Umferðin, holóttu vegirnir og hætturnar



ÖRYGGI – HEILSA – UMHVERFI


Nú er að koma betur í ljós þær miklu skemmdir á vegakerfinu eftir síðasta vetur og væntanlega dylst það engum að aldrei hafa vegir komið svona illa undan vetri. Það er kannski í grófara lagi að segja að allir vegir séu meira og minna ónýtir, en það er einfaldlega ekki fjarri lagi.

Það er sama hvert ekið er, alls staðar holur, ójöfnur og miklar skemmdir á vegum og af þessum sökum þarf að fara sérstaklega varlega.

Aldrei önnur eins sala á reiðhjólum


Aldrei hefur önnur eins sala verið á nýjum reiðhjólum og það sem af er ári, nánast allar reiðhjólabúðir hafa selt nú þegar öll hjól sín og beðið er eftir nýjum sendingum. Um síðustu áramót breyttust aðeins umferðarreglur og nú má ekki taka fram úr reiðhjóli nema að vera í 1,5 metra fjarlægð frá hjólinu við framúraksturinn.
jólinu við framúraksturinn. Hjólreiðafólk sem hjólar á þjóðvegum þar sem ætlast er til þess að þessi nýju lög séu virt verða að koma á móts við bílaumferðina og hjóla ekki hlið við hlið, sérstaklega ekki þar sem komið er að blindhæð eða blindhorn er á vegi og líka þegar hvít óbrotin lína er á miðjum veginum. Flest hjólreiðafólk er til fyrirmyndar í umferðinni, hjólar í áberandi klæðnaði, með blikkandi ljós framan og aftan, en það má gera betur. Best væri ef sú vinna kæmi innan frá sem fræðsla frá hjólreiðamanni til hjólreiðamanns.

Mótorhjólafólk er að átta sig á nauðsyn þess að vera sýnilegt


Fáir vita það að hönnun blindhornsvara í bílum er tilkomin vegna neikvæðrar greina í mótorhjólablöðum um ákveðna tegund bíla sem voru samkvæmt skoðanakönnun hættulegastir mótorhjólamönnum í umferðinni vegna þess að þeir skiptu um akrein án þess að gæta nægilega að sér og úr var slys eða banaslys. Fyrir fjörutíu árum þegar ég var að byrja minn mótorhjólaferil var það nánast óskrifuð lög að klæðast öllu svörtu, en með árunum hafa mótorhjólamenn lært af biturri reynslu að vera í sýnileikafatnaði við akstur bifhjóla, það skilur á milli lífs og dauða. Það sem var „töff“ er nú „púkó“ og nú má sjá heilu flokka mótorhjólafólks ferðast um í gulum vestum við aksturinn.

Gul blikkandi ljós í umferð


Í síðustu viku var ég að keyra um Landeyjar og sá þar nokkra bændur í vorverkum á dráttarvélum út á þjóðvegum, var ánægður með að flestir voru með gul blikkandi ljós á hægfara dráttarvélunum. Það minnti mig á að fyrir nokkru las ég ástralska reglugerð um gul blikkandi varúðarljós á ökutækjum, en sú reglugerð fannst mér nokkuð áhugaverð lesning. Þar sagði m.a.:   Blikkandi ljós í umferð má vera blikkandi ef ökutæki ekur á lægri hraða en almennur umferðarhraði er. 
Blikkljós á að slökkva sé ekið á sama hraða og önnur umferð.
Gul blikkandi ljós má nota ef hæð er óvenjuleg, breidd meiri en almenn breidd ökutækja, eða ekið með hættulegan farm. Ef verið er að vinna í vegkanti með gul blikkandi ljós má aldrei keyra framhjá þeim hraðar en á um 40 km hraða. Svona ítarleg lesning um gul blikkljós er ekki til hér á landi, eina sem segir er að þau skuli vera gul, en nánast allir hér á landi eru með appelsínugul ljós.

Smá aukalesning um þjófnað


Þjófnaður á ýmsum eigum fólks hefur verið viðvarandi vandamál í nokkur ár og sjaldgæft er að maður lesi fregnir af þýfi sem finnst. Því miður virðist eins og að þjófnaðarmálum sé að fjölga.
Á stuttu tímabili hef ég lesið um óæskilegar heimsóknir á sveitabýli þar sem verkfærum, reiðhjólum, bíl og fjórhjóli var stolið. Eitt besta ráðið er að koma upp myndavélakerfi og læsa vel húsum, hjólum og öðru sem fólk veit að hætta sé að vera stolið. Til eru lásar sem gefa frá sér skerandi hátíðnitón í 90–110 db. Svona lás hefur gagnast mér vel við að fæla frá óboðna gesti.

Bændablaðið | Miðvikudagur 20. maí 2020 

12.5.20

Tveggja strokka En­field-ferðahjól?

Hingað til hefur Raoyal Enfield aðeins framleitt gamaldags
eins strokks mótorhjól en á því kann að verða breyting innan skamms

Hið forn­fræga mótor­hjóla­merki Royal En­field mun setja þrjú ný mód­el á markað á næsta ári seg­ir í grein á mótor­hjóla­vefsíðunni Visor­down, en þar er vitnað í heim­ild­ar­mann inn­an umboðsins í Bretlandi.

Hjól­in þrjú munu nota nýj­ar vél­ar sem eru í þróun í augna­blik­inu. Hingað til hef­ur fram­leiðand­inn ind­verski aðeins fram­leitt eins strokks vél­ar af gam­aldags gerð, og þá einnig dísil­vél en nýju vél­arn­ar eru ný­tísku­leg­ar og er önn­ur þeirra tveggja strokka línu­vél. „Önnur vél­in er 410 rsm, eins strokks vél með yf­ir­liggj­andi knastás­um og hin er tveggja strokka línu­vél,“ sagði heim­ild­armaður­inn en vildi þó ekki láta uppi hversu stór línu­vél­in yrði. Mótor­hjólið með 410 rsm vél­inni verður svo­kallað Scrambler-hjól sem er vin­sæl út­gáfa í dag. Í síðustu viku sótti Royal En­field um einka­leyfi á nafn­inu Himalay­an fyr­ir mótor­hjól sem gef­ur vís­bend­ingu um að tveggja strokka hjólið sé ferðator­færu­hjól sem keppa mun við hjól eins og BMW F700GS og Triumph 800 Tiger. For­stjóri Royal En­field, Sidd­hartha Lal, hef­ur látið hafa eft­ir sér að merkið ætli að auka fram­leiðslu sína um 50% á næstu árum, meðal ann­ars með því að opna þró­un­ar­set­ur í Leicesters­hire í Bretlandi. Að sögn heim­ild­ar­manns­ins munu nýju hjól­in meðal ann­ars vera hönnuð þar. Royal En­field hef­ur náð til sín stór­um nöfn­um í mótor­hjóla­heim­in­um til að hjálpa sér að ná þessu marki, eins og fyrr­ver­andi aðal­hönnuði Ducati Pier­re Ter­blanche og þró­un­ar­stjóra Triumph Simon War­burt­on.
mbl.is
4.3.2015
njall@mbl.is

9.5.20

Flott hjól á frábæru verði


Flott hjól á frábæru verði

Lexmoto Tempest er léttkeyrandi töffari fyrir A1-flokk mótorhjóla sem er flokkur sem stundum vill gleymast.


Lexmoto er nýtt merki á Íslandi í mótorhjólaflórunni. Það má segja að það hafi vantað ódýr 125 rúmsentimetra mótorhjól á markaðinn til þess að bjarga mótorhjólamenningunni. Staðan er nefnilega sú að meðalaldur mótorhjólafólks hefur hækkað vegna þess að sportið er orðið dýrt og það hefur þau áhrif að ungt fólk hefur síður efni á því að fá sér mótorhjól. Þar spilar líka inn í að réttindin eru orðin margskipt, en A1-réttindi eins og þarf á Lexmoto-hjólin, er hægt að fá strax við 17 ára aldur. Hjólin eru flutt inn af skarkali.is og þar er hægt að nálgast frekar upplýsingar um hjólin.



Samtengdar bremsur


 Í raun og veru fór reynsluaksturinn fram á þremur gerðum hjóla, Isca, Tempest og Tempest GT. Hér skal miðað við Tempest-hjólið en hjólin koma öll með sama loftkælda 125 rsm-mótor með beinni innspýtingu. Hámarksafl fyrir A1-flokk er 15 hestöfl en Lexmoto-hjólin eru aðeins gefin upp fyrir tæp 10 hestöfl. Miðað við það er hjólið samt furðu frísklegt í upptaki og þá sérstaklega Tempest útfærslurnar. Hjólið er fljótt upp gírana og þegar komið er í 80 km á klst. í fimmta gír er hjólið á 7.500 snúningum. Mætti því segja að það hefði gott af einum gír í viðbót. Þegar komið er á þjóðvegahraða verður vart við lítilsháttar titring í framenda sem er ekkert óeðlilegt í litlu hjóli með einfalt burðarvirki eins og þetta. Annað varðandi aksturinn sem rétt er að taka fram er að hjólið er búið samtengdum ABS-bremsum, sem virka þannig að báðar bremsur virka þegar stigið er á fótbremsuna. Ef henni er beitt snögglega leggst hjólið nokkuð á framfjöðrun og gott að vera viðbúinn þessu. Bremsur virka mjög vel og hemlalæsivörnin skilar sannarlega sínu og gerir þetta auðkeyranlega hjól enn öruggara.

Góður frágangur 

Þar sem hjólið er framleitt í Kína er rétt að huga að frágangi hjólsins, og satt best að segja kemur hann verulega á óvart. Maður hefði fyrirfram búist við að það væri tröppu neðar en sambærileg japönsk hjól en því er alls ekki þannig farið. Allur frágangur virkar traustur og hvergi missmíði að sjá. Sumt í búnaði hjólsins vekur líka athygli eins og ryðfrítt pústkerfi. Mælaborð er með hefðbundnum hraðamæli en einnig stafrænt og þar má sjá bensínstöðu og í hvaða gír hjólið er, sem er mikill kostur í 125-rsm hjóli. Það er meira að segja USB-hleðslutengi í Tempest-hjólinu sem gerir ökumanni kleift að tengja farsíma með leiðsögukerfi við hjólið.


Verðið óvenju gott


 Lexmoto er eins og áður sagði framleitt í Kína en hjólin eru mest seldu mótorhjólin í sínum flokki í Bretlandi. Ástæðan er einföld, þau eru talsvert ódýrari en samkeppnin svo munar jafnvel tugum prósenta. Það sama er uppi á teningnum hér, en ódýrasta Lexmoto-hjólið, YSB kostar aðeins 449.000 kr. en Tempest-hjólið er heldur ekki dýrt á 499.000 kr. Til samanburðar kostar Kawasaki Z125 899.000 kr. og Yamaha MT125 kostar 1.090.000 kr.

Njáll Gunnlaugsson
 Fréttablaðið 


Bjó til mótorhjól úr Britt & Stratton sláttuvél

Fyrirmyndin er Indian 1912 en mótorinn úr Sláttuvél

Í litlum skúr á Þingeyri er skrítið og skondið hjól sem vekur gjarnan mikla athygli þegar því er ekið um bæinn. Þetta mótorhjól er má segja afkvæmi reiðhjóls og sláttuvélar.

„Það er nú bara þannig að þegar mig langar í eitthvað þá smíða ég það frekar en að kaupa það. Það hentar betur þegar maður býr svona nálægt Norðurpólnum, “ segir Jón Sigurðsson þúsundþjalasmiður.  
„Fyrirmyndin er Indian hjól frá 1918. Grindin er af venjulegu reiðhjóli en ég lengdi hana til að koma mótornum fyrir. Hann er úr sláttuvél en ég þurfti bara að snúa honum á hlið. Svo setti ég svinghjól á mótorinn og mixaði einfalda kúplingu.  Stýrið tók ég líka af sláttuvélinni.“
Landinn á Rúv
06.02.2017

8.5.20

Prjónbekkur sem lokaverkefni


Hrannar Ingi smíðaði vagn til að æfa prjón á mótorhjóli sem lokaverkefni í Verkmenntaskólanum.



„Þetta byrjaði á YouTube-myndbandi sem ég sá af Rússum sem voru búnir að smíða svona græju,“ sagði Hrannar Ingi Óttarsson um tilurð þess að hann smíðaði vagn með mótorhjólagrind til prjónæfinga sem lokaverkefni sitt hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Verkstjórinn minn hló bara og sagði að ég væri ruglaður en var samt mjög opinn fyrir þessu og fannst þetta spennandi.“
   Hrannar Ingi fékk svo rennismið með sér í verkefnið og græjan fór smátt og smátt að verða til.     
 Smíðin er þó ekki einföld því að hjólið þarf bókstaflega að keyra í gír á föstu kefli og þarf því mótorhjólið að vera kyrfilega fast ofan á þessu öllu saman, en samt geta risið að framan. Knapinn stjórnar svo risinu með inngjöf og temprar það með afturbremsunni. Græjan hans Hrannars er því mjög góð til að sýna fólki hvað gerist við prjón á kraftmiklu hjóli og hvernig er best að ná stjórn á því aftur.

 Bannað á götum úti 


Samkvæmt nýju umferðarlögunum er bannað að lyfta viljandi framdekki í akstri en þar sem mótorhjólið er kyrrstætt ætti það ekki að koma að sök í þessu tilviki. „Við ætlum að vera með hjólið á svæði Bílaklúbbs Akureyrar í sumar en það er æfingasvæði. Jafnvel sýnum við græjuna á hjóladögum í sumar og kíkjum jafnvel suður. Áður en það er gert þarf samt að setja öryggisbelti á hjólið sem er fest við stýrið svo að óvanir detti ekki af hjólinu,“ sagði Hrannar Ingi sem greinilega vill hafa
græjuna eins örugga og hægt er.
    Hrannar vildi koma á framfæri sérstöku þakklæti fyrir hjálpina sem hann fékk við smíðina hjá vinnufélögunum í Slippnum á Akureyri. Einnig var hann ánægður með að kennari hans skyldi gefa honum grænt ljós á svona verkefni sem ekki allir átta sig á hvað er. Svona græja sést ekki á hverjum degi þótt einhverjir hafi kannski séð svona í útlöndum.
 Hver veit nema við fáum að sjá meira af græjunni hans Hrannars í sumar einhvers staðar á landinu, ef COVID lofar.




Fréttablaðið
bls 20


7.5.20

Nýjungar í rafhjóli frá Kawasaki

Það er ekkert leyndarmál að Kawasaki er að þróa nýtt rafmagnshjól og framleiðandinn hefur nýlega sett á netið myndbönd af hjólinu. 

Þau sýna hjólið í akstri og sundurtekið og gefa meiri hugmynd um hvernig endanleg útgáfa þess verður.
Það sem er athyglisvert er að hjólið virðist búið fjögurra gíra kassa og með keðju í stað beltis sem er algengast í rafhjólum. Skiptingin er líklegast hraðaskipting þar sem að það er engin kúpling.
Hjólið virðist að mestu byggt á grunni Z650-hjólsins en með meiri hlífum eins og sporthjól. Rafmótorinn er neðstur en rafgeymirinn er þar sem vélin er venjulega, og hleðslubúnaður þar sem bensíntankurinn var.
Rafmótorinn er sagður vera 26 hestöfl en engar upplýsingar eru enn þá um tog hans, en það eru tölur sem skipta meira máli í rafmótorum. Hjólið hefur fengið nafnið Endeavor en engar dagsetningar um frumsýningu þess eða hvenær það muni koma á markað eru fyrir hendi.

Fréttablaðið 

6.5.20

Ætla með hjólin sín á sýninguna í Köln


Bikevík er nýtt fyrirtæki í Njarðvík sem sérhæfir sig í breytingum mótorhjóla. Blaðamaður Fréttablaðsins heimsótti það á dögunum til að skoða betur mótorhjólin sem það var um það bil að afhenda, en þau eru flest af BMW-gerð.


Arnar Steinn Sveinbjörnsson varð fyrir svörum. „Við byrjuðum á þessu fyrir um þremur árum síðan en fram að því hafði maður ekki haft tíma til að gera þetta, sem manni finnst svo skemmtilegt. Fyrsta hjólið sem Bikevík breytti var Kawasaki ER500 hjól sem var breytt á tveimur vikum og tókst bara vel,“ segir Arnar. Fljótlega þróaðist áhuginn á að breyta BMW-hjólum vegna áhuga á BMW-bílum og K-hjólin voru einföld að gerð og auðvelt að breyta þeim á ýmsa vegu. Hefur Bikevík breytt þeim meðal annars í Cafe Racer hjól og líka í Scrambler hjól. „Nýjasta BMW-hjólið sem breytt er í Cafe Racer hefur fengið töluverða athygli á heimasíðum sem sérhæfa sig í breyttum mótorhjólum og eins og annar mótorhjólasmiður orðaði það, var gaman að sjá eitthvað nýtt, en það gladdi okkur mikið,“ segir Arnar.

Hafa breytt 10 mótorhjólum 

Blaðamaður Fréttablaðsins fékk að prófa nokkra gripi og kom það á óvart hversu skemmtileg þau voru í akstri og í raun og veru léttari að keyra heldur en hjólin óbreytt. Fyrirtækið er nú búið að breyta 10 mótorhjólum og er meðal annars að klára Ducatimótorhjól sem vakið hefur athygli erlendis. „Einnig erum við að klára Triumph-mótorhjól svo að BMW er ekki lengur það eina sem við gerum þótt vissulega slái hjartað þar,“ segir Arnar. Bikevík áætlar að fara með öll hjólin sem það hefur breytt á Intermot-mótorhjólasýninguna í Köln í október. Eins er á teikniborðinu að breyta nýju Kawasaki-hjóli svo að spennandi verður að sjá hvað kemur næst á götuna frá Bikevík.
Fréttablaðið 

5.5.20

Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu

Hjörtur L. Jónsson og Ólafur í ísakstri.

Hjörtur Jónsson er einn af elstu meðlimum Sniglanna. „Ég er snigill númer 56, kom inn á fyrsta árinu, haustið 1984, og búinn að vera þar síðan. Ég var aðlaður rétt fyrir aldamótin, ’97 minnir mig. Var þá gerður að heiðursfélaga fyrir vel unnin störf fyrir félagið. Ég hef verið mikið í ýmsum viðburðastjórnum, sá um landsmót, sá um tíu ára afmæli Sniglanna, á sínum tíma héldu þeir kvartmílukeppnir og Enduro-keppnir, ég sá um þetta allt saman. Ég hef verið mikið í skipulagningu og viðburðastjórnun af ýmsu tagi og þess háttar.“

   Áhugi Hjartar kviknaði eftir kynni hans af skellinöðrum. „Ég keyrði fyrst skellinöðru ’72, tólf ára gamall. Svo eignast ég skellinöðru ’76 og síðan ’83 hef ég alltaf átt eitt eða fleiri mótorhjól. Þetta var alltaf draumur, maður sá þetta í blöðum og fannst þetta spennandi. En mér er sagt að þegar ég var smágutti, 3-4 ára, þá hafi ég grátið af hræðslu þegar þetta keyrði fram hjá.“
   Er eitthvað sem stendur upp úr eða er sérstaklega eftirminnilegt?
     „Vonda minningin kemur oft fyrst upp í hugann, þegar maður missti fyrsta mótorhjólafélagann í mótorhjólaslysi. Það situr lengst og er erfiðast að vinna í. Af öllum viðburðunum, þá var það ekki beint tengt Sniglunum en þegar mótorhjól á Íslandi áttu aldarafmæli árið 2005 var haldin stór hátíð á Sauðárkróki, Hundrað ára afmæli mótorhjólsins. Ég skipulagði hana og fékk til liðs við mig þrettán mótorhjólaklúbba til að standa að hátíðinni. Það er eitt af því sem gefur mér alltaf gæsahúð vegna þess hvað allt tókst vel, fyrir utan veðrið, það var hundleiðinlegt. Hátíðin fór með eindæmum vel fram og ekki einn einasti maður tekinn með fíkniefni eða brennivín eða fyrir hraðakstur.“ Dregið hefur verulega úr alvarlegum mótorhjólaslysum undanfarinn áratug og nefnir Hjörtur nokkur atriði sem hafa haft áhrif.
„Fyrstu tíu ár Snigla létust fimmtán í mótorhjólaslysum en næstu tíu ár létust aðeins sjö. En það má þakka því að gallarnir eru betri, hjólin betri, með betri bremsum og svoleiðis. Þetta eru alltaf að verða öruggari og öruggari farartæki. Svo er skítakuldi hér, hávaðarok og ausandi rigning og allir mótorhjólamenn eiga svo góða galla þannig að ef þeir fljúga á hausinn þá eru þeir ágætlega varðir.“

Prestur eða morðingi 

   Það ríkir mikil virðing milli mótorhjólamanna. „Mótorhjólamaður er alltaf mótorhjólamaður, þegar ég mæti honum þá veifa ég honum. Það er mikil virðing borin fyrir samherjanum, við heilsum alltaf. Þetta er svona úti um allan heim, þú veist ekkert hvort þú ert að mæta prestinum eða fjöldamorðingjanum.“
  Þá er lífsgleðin áberandi. „Það eru allir glaðir, það er enginn í fýlu. Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu. Mótorhjólafólk laðast hvert að öðru, líkur sækir líkan heim. Það er svo mikil vinátta í þessu samfélagi og samheldni, ef það bilar hjá einum þá hjálpast allir að við að koma honum áfram svo að allir komist heim.“
  Hjörtur hefur líka starfað sem leiðsögumaður. „Hálendi Íslands er stærsta paradísin af þeim öllum. Það er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég hef verið leiðsögumaður með túristum í fimmtán ár fyrir fyrirtæki sem leigir út hjól. Þekktasti maðurinn er væntanlega gítarleikarinn í Guns N' Roses, Richard Fortus. Við erum vinir á Facebook, ég fékk vinabeiðni og var ekki alveg að kveikja. Þetta eru 150 túristar sem ég er búinn að taka hringinn í kringum landið.“
  Óhætt er að fullyrða að Sniglarnir hafi mótað líf Hjartar sem kynntist konu sinni í samtökunum. „Það var á landshátíð Sniglanna árið 1987 í Húnaveri sem við duttum saman. Við vorum búin að þekkjast lengi. Hún er númer 248.“


Fyrsta ferðin endaði ofan í skurði


Sonur Hjartar, Ólafur Hjartarson, er 23 ára og segja má að hann hafi alist upp innan um mótorhjól.
  „Fjölskyldan hefur alltaf verið í þessu, ég hef aldrei munað eftir öðru. Ég hef örugglega farið á mótorhjól þegar ég verið 2-3 ára en ég keyrði fyrst á sex ára afmælisdaginn minn. Það endaði ofan í skurði og ég fékk ör á kinnina.“
  Ólafur var með eina ósk þegar hann gekk til liðs við Sniglana. „Ég bað sérstaklega um að númerið mitt myndi enda á 56, af því að það er númerið hjá pabba. Það eru 2.400 manns á milli okkar.“
  Móðurafi Ólafs hjólar líka enn reglulega, orðinn 76 ára. „Foreldrar mínir kynntumst í gegnum Sniglana og svo er afi minn líka með hjól, honum datt það í hug þegar hann var sextugur. Hann var á skellinöðru í gamla daga, þroskaðist upp úr því en keypti sér svo Harley.“
   Feðgarnir Hjörtur og Ólafur hafa átt margar gæðastundir á hjólunum. „Ég hjóla allt árið, legg götuhjólinu kannski í nóvember en ég tek þá út torfæruhjólið og þá förum við pabbi að keyra á ís, eins og á Hafravatni og upp í fjöll.“
   Líkt og margir, nefnir Ólafur einnig frelsið sem helsta aðdráttaraflið. „Það er bara frelsið, það tala allir um þetta frelsi og svo er þetta persónulega bara drullugaman.“  


Fréttablaðið 5. MAÍ 2020 

4.5.20

Prjónmaskína á Akureyri

Eins og sjá má eru þarna viftur til að hjálpa til við að kæla hjólið.
og öryggisól til að varna því að hjólið fari of langt.
Um þessar mundir eru útskriftir hjá verknámsnemum í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Einn þessara nema Hrannar Ingi Óttarsson smíðaði ansi frumlegt útskriftarverkefni.

Eða eins og hann orðaði það :
Lokaverkefnið mitt í stálsmíði klárt. Margra mánaða vinna sem er búin að vera mjög krefjandi enn verulega skemmtileg. Sáttur með útkomuna og nú verð ég eflaust betri að prjóna á mótorhjóli.

Tían Bifhjólaklúbbur óskar Hrannari innlega til hamingju með þetta glæsilega tæki og hlökkum til að fá að prófa á næstu misserum,  en hann lofar að koma á einhverja af okkar viðburðum og leyfa okkur að skoða og prófa..


Hér að neðan er hægt að sjá hve mikil vinna fór í verkið :
















 Stórglæsilegt hjá Hrannari

1.5.20

Royal Enfield mótorhjól

Royal Enfield mótorhjólin eiga sér 119 ára langa sögu, þar af 57 síðustu árin í Indlandi. 

Í framleiðslunni hefur lengstum verið haldið fast í gamlar hefðir. Það er eiginlega fyrst nú sem talsvert róttækar breytingar eru að eiga sér stað. Nýjar vélar eru komnar til skjalanna í stað gömlu steyptu og þungu vélanna sem hafa verið nánast eins síðust 60 árin. Þær nýju eru bæði eru hljóðlátari auk þess að eyða og menga mun minna en þær gömlu.
Nýju vélarnar eru enn sem fyrr aðeins eins strokks og enn eru þær að rúmtaki annars vegar 350 rúmsm og hins vegar 500 rúmsm. Afl þeirrar síðarnefndu er tæplega 30 hö.  sem kannski þykir ekki mikið. En Royal Enfield hjólin hafa aldrei verið og eru engin tryllitæki. Í byggingu þeirra er öll áherslan á einfaldleika, notagildi og mikla endingu.
Royal Enfield mótorhjólin hafa allt frá því að framleiðslan fluttist til Indlands frá Bretlandi fyrir 57 árum, átt tryggan heimamarkað á Indlandi þrátt fyrir harða samkeppni við japönsk mótorhjól og á seinni árum kínversk.  Sala hjólanna var jöfn og hægt vaxandi þar til nýju vélarnar komu til sögunnar 2010. Þá tók hún 40% stökk upp á við og fór í 74.600 mótorhjól árið 2011. Í framhaldinu er nú unnið að miklum endurbótum og endurnýjun í meginverksmiðjunni í Chennai en að þeim loknum verður hægt að auka framleiðsluna um helming.
Royal Enfield hjólin hafa síðan framleiðslan fluttist frá Bretlandi til Indlands, verið fyrst og fremst framleidd fyrir heimamarkaðinn. Lítilsháttar útflutningur hefur átt sér stað til Evrópu og Bandaríkjanna og fáein Royal Enfield hjól eru meira að segja skráð hér á landi. Á síðasta ári voru seldust einungis 3.200 hjól til annarra landa, en með vaxandi framleiðslu er ætlunin að efla útflutninginn og byggja upp sölu- og þjónustunet í Malasíu og á Filippseyjum og í Þýskalandi og Frakklandi.
04.12.2012

19.4.20

Norton selt til Indlands

 Norton Motorcycles, eitt af frægustu mótorhjólaframleiðendum breta var selt á dögunum til Indlands fyrir 16.milljón pund.
Fyrirtækið fór í greiðslustöðvun í janúar og voru 100 störf þar með í uppnámi.
Fyrirtækið TVS Motor tilkynnti svo að þeir hafi keypt Norton á föstudaginn og vonist þeir til að endurvekja það og stækka.

Norton var stofnað 1898 og er mjög virt merki í mótorsport heiminum.
In a statement, TVS Motor's joint managing director Sudarshan Venu said: "This is a momentous time for us. Norton is an iconic British brand celebrated across the world, and presents us with an immense opportunity to scale globally.
"We will extend our full support for Norton to regain its full glory in the international motorcycle landscape."
He added they would "work closely" with Norton's employees and customers and the company would "retain its distinctive identity" while expanding in to new markets.
Norton Interpol
Norton byrjaði í Birmingham og fór fyrst að smíða mótorhjól 1902 og fór fljótt að keppa í keppnum  m.a. The Isle of Man TT. með ágætum árangri.
Þekktustu mótorhjólin þeirra eru Dominator og Commando, og notaði lögreglan í bretlandi 
Norton Interpol á áttunda áratugnum.
Fornhjólin þerrra eru mjög vinsælir söfnunargripir.
Gangi þeim vel í framtíðinni.

27.3.20

Hópkeyrsla Snigla 2016

Þar sem ekki er útséð með hópkeyrslur ársins.
 Þá er kanski gott að rifja upp þessa hópkeyrslu frá 1 maí 2016 .  Laugarvegurinn fullur af hjólum í rigningu . Samt fín mæting.

Skúrinn
Hringbraut 2016

9.3.20

Á völtum fótum

Árni Jakobsson
Árni Jakobsson var uppalinn Mývetningur sem gerðist bóndi , en missti fljótt heilsuna. Hann gaf út ævisöguna "Á völtum fótum" þar sem þessi mynd er að finna af honum á vélknúnu þríhjóli.

Úrdráttur úr bókinni. Á Völtum fótum (1963)

 Sumarið 1942 fék ég einn góðann veðurdag óvænta heimsókn þriggja góðkunnra Húsvíkinga. Þessir gestir voru frú Auður Aðalsteinsdóttir, Friðþjófur Pálsson símstjóri, maður hennar, og Helgi Kristjánsson, Kjötmatsmaður. Þessi góðu gestir komu færandi hendi, gáfu mér hjólastól eða handsnúið þríhjól. Allmargir Húsvíkingar höfðu skotið saman peningum til að kaupa hjólið, og vissi ég raunar aldrei nema um fáa þeirra, sem hlut áttu að máli. Ég varð allt í senn ,glaður og þakklátur yfir þessari höfðinlegu gjöf.
This invalid carriage was manufactured 
by R.A. Harding (Bath)
Mikill var sá munur að geta hjólað um göturnar í stað þess að dragast áfram á hækjunni og stafnum. Mér fannst næstum því sem ég hefði eignast töfra-klæði, eins og greinir frá í ævintýrum, þegar ég ók um sléttar göturnar. En fljótt þreyttust handleggir mínir og axlir við að knýja hjólið, þar sem á bratta var að sækja. Þurfti ég jafnan hjálp að halda , færi ég upp brekku. Oft gerðust unglingsdrengir til þess óbeðið að hjálpa mér, þegar svo stóð á. Þetta handsnúna hjól notaði ég til ársins 1955.

7.3.20

Ofurhugar reyna við tvö heimsmet á Íslandi

Yonatan og Reid kynntust ýmsu á 15
þúsund kílómetra ferðalagi sínu. 

Aðsend mynd.

Tveir ofurhugar ætla að reyna við tvö heimsmet á rafmagnseinhjóli á Íslandi í sumar. Slógu nýverið heimsmet á rafmótorhjóli með akstri um 48 fylki Bandaríkjanna. Annar þeirra er leiðsögumaður á Höfn og vill setjast að á Íslandi.rafmagnsmótorfákum.

Bandaríski fjallaleiðsögumaðurinn Mike Reid, sem hefur búið á Íslandi í fjögur ár, setti nýverið heimsmet ásamt félaga sínum, Ísraelanum Yonatan Belik. Þeir keyrðu um öll 48 samfelldu fylki Bandaríkjanna á rafmagnsmótorfákum. Þetta er þriðja heimsmet Reids, sem býr á Höfn í Hornafirði, og hyggjast þeir félagar setja tvö til viðbótar á Íslandi á þessu ári.„Þetta var brjálæði. Þetta voru 15 þúsund kílómetrar,“ segir Reid. „Bandaríkin eru svo stór og svo mörg veðrakerfi. Í köldustu veðrunum vorum við orðnir dofnir á höndum og fótum. Ég datt af hjólinu. Fólk hótaði að skjóta okkur. Svona er Ameríka.“
Eitt sinn lentu þeir í stormi í Nýju-Mexíkó, óttuðust ofkælingu og neyddust til að biðja ókunnuga um húsaskjól. Þarna voru stórir hundar og varúðarskilti. „Ég hélt að við yrðum skotnir þegar Yonatan fór

6.3.20

Stærstu hjólin

Í gær birti ég minnsta mótorhjólið í heimi sem hægt var að aka.


Hér í þessu myndbandi ber að líta allt það stærsta....

Margt skrítið í þessum heimi..