Sýnir færslur með efnisorðinu Ferðir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Ferðir. Sýna allar færslur

22.1.21

Ísland í augum ferðamanna á mótorhjólum.

Það var gríðalega sérstök tilfinning að standa á brún Dettifoss
 og finna kraftinn. Og reyndar átti það við um alla
fossana sem við skoðuðum

Á ári hverju í júlímánuði fer ég og vinir mínir í mótorhjólaferð, bara svona út í buskann.  Góður og sterkur vinahópur sem hjólar mikið saman og höfum heimsótt m.a. Indland, Nýja Sjáland, Ástralíu, Ameríku, Írland, og England.


Síðustu fimm árin höfum við passað upp á hvern annan og keyrt í gegnum Víetnam, Chile, Argentína, Perú og Tyrkland og Ladakh hérað.  Frelsið á vegum úti og gleðin og ánægjan við þessi ferðalög í gegnum ókunn lönd er ólýsanleg lífsreynsla og hvetur okkur til að halda áfram þessum ferðamáta ár eftir ár og skilja hversdagleikann og okkar heittelskuðu eftir heima.

Að þessu sinni eftir miklar umræður ákvað hópurinn að fara í norðurátt alla leið að heimskautsbaug, til Íslands!


Þessi strjálbýla og fallega eldfjallaeyja er á miðjum Atlantshafshryggnum milli Evrópu og Ameríku og er landslagið þar einstakt og hrikalelega fjölbreytt með hraunbreiðum snævi þöktum fjöllum, heitum laugum, jöklum og ströndum með svörtum sandi.

13.1.21

Ævintýraferð til Ekvador (3.Kafli)

Ferðasaga á mótorhjóli
Þriðji kafli.
Eftir Ragnar Hólm Gunnarsson 

Silfureyja

9. júní

Þegar ég leit út um gluggann á herberginu um morguninn sá ég bát í flæðarmálinu og fullt af fuglum í kring, stórum kvikindum, og fólk að bjástra við eitthvað. Það var sem sagt löndun í gangi. Þetta var svolítið öðruvísi en maður á að venjast, því báturinn var opinn, þó með mótor, og fisknum var mokað upp í kassa sem þeir báru svo á öxlunum inn í flutningabíl sem var á ströndinni. Tveir héldu bátnum og tveir báru sjó í bala upp í bílinn. Svo var þarna lítil ísframleiðsla í gám við hliðina á hostelinu. Gaman að sjá þetta svona í aksjón.


En ég skellti mér svo í skoðunarferð á silfureyju (Isla de la plata). Á leiðinni út í eyjuna, sem er 42 km frá landi og því góð klukkutíma bátsferð, rákumst við á höfrunga sem voru svo vinsamegir að stilla sér upp fyrir myndatöku 😁🐬. Á þessari eyju er hægt að komast í návígi við sérstaka bláfætta fugla og eyjan er líklega frægust fyrir þá. Þeir kölluðu þá "Blue footed boobies"😆👣. Við fórum í tveggja og hálfs tíma göngutúr um eyjuna með leiðsögn og fengum ýmsan fróðleik, eins og þann að ávextirnir af kaktus um inniheldur metamfetamín í litlu magni, en

Agndofa yfir Íslendingum



 „ Geggjað að sjá hversu margir hjálpa einhverjum sem þeir þekkja ekki“

Þýskur ferðamaður eyddi drjúgum hluta af sumarfríi sínu á síðasta ári að ferðast um Ísland á eigin mótorhjóli sem hann flutti til landsins. Hann varð þó fyrir því óláni undir lok ferðarinnar að hjólinu var stolið úr bílakjallara hótels sem hann dvaldi á og voru þó góð ráð dýr.

Þjófnaðurinn barst þá til eyrna Hjólhestahvíslarans, Bjartmars Leóssonar, sem hefur vakið þjóðarathygli fyrir baráttu sína við að endurheimta stolinn hjól. Bjartmar auglýsti stuldinn þegar í stað á Facebook og setti af stað átak til þess að finna hjól þýska ferðamannsins.

Viðtökurnar voru miklar. Alls var auglýsingu Bjartmars eftir hjólinu deilt 1.700 sinnum á nokkrum dögum og hvíslaranum fóru að berast ábendingar um stuldinn. Að lokum fannst hjólið, degi áður en hans átti bókað far af landi brott, og urðu fagnaðarfundir þegar Bjartmar og Þjóðverjinn hittust loks á lögreglustöðinni.

Flaug sá þýski síðan af landi brott daginn áður en þá hafði Bjartmar boðist til þess að skila hjólinu til Samskipa sama dag þar sem Þjóðverjinn hafði bókað flutning á hjólinu til heimalandsins.

Allur þessi rússíbani átti sér stað í ágúst síðastliðnum. Greinilegt er að hjálpsemi Bjartmars og Íslendinga er Þjóðverjanum enn hugleikinn. Hann birti færslu á þýsku á Facebook, undir notendanafninu Haus Nummernschild, á-síðunni „Hjóladót Tapað, fundið eða stolið“ þar sem hann þakkaði Bjartmari sérstaklega fyrir hjálpina og birti mynd af þeim félögum með hjólið forláta. Þá þakkaði hann einnig öllum þeim sem að lögðu það á sig að deila færslunni um hjólið og stuðla þannig að fundi þess.

„Það var geggjað að sjá hversu margir hjálpa einhverjum sem þeir þekkja ekki einu sinni,“ skrifaði Þjóðverinn hrærður. Hjólhestahvíslarinn tók undir kveðjuna og sagðist ennfá gæsahúð við að hugsa til þessara daga.

12.01.2021

12.1.21

Ævintýraferð til Ekvador (2 Kafli)

 Ferðasaga á mótorhjóli.

Annar kafli

Eftir Ragnar Hólm Gunnarsson

2. júní

Fruithaven og nágrenni

Fruithaven er félagsskapur fólks sem er hrávegan eða aðhyllist skylt mataræði. Matti er t.d. frutarian og borðar nánast eingöngu ávexti. Félagsskapurinn skipuleggur uppkaup á landi sem hefur verið rutt til akruyrkju og ræktar upp ávaxtaskóga. Landinu er skipt upp í svæði sem fá númer, t.d. erum við staddir á Fruithaven I en verið fleiri samsvarandi svæði eru í uppbyggingu. Hverju svæði er svo skipt upp í skika þar sem er samfélagssvæði og skikar fyrir einstaklinga. Á samfélagssvæðinu er aðstaða er fyrir ræktun græðlinga og þessháttar auk svæðis til ræktunar í þágu samfélagsins. Þar er einnig samfélagshús þar sem sjálfboðaliðar geta fengið herbergi til að búa í.


Ég hóf daginn á göngutúr um svæðið á meðan Matti fór í gegn um morgunrútínuna sína og hér koma nokkrar myndir af svæðinu. Samfélagshúsið er á myndinni fyrir neðan.

Í dag var stefnan tekin á ávaxtamarkaðina í Gualaquiza og El Pangui. Fyrsta mál á dagskrá var að koma hjólinu aftur yfir hengibrúnna. Það er ekki heiglum hent að keyra svona tryllitæki á þessum blautu og hálu moldarstígum og svo var að koma græjunni upp á brúna. Ég hélt að það yrði ekkert mál, en bleytan var til vandræða.

11.1.21

Ævintýraferð til Ekvador

 Ferðasaga á mótorhjóli.

Fyrsti kafli

Eftir Ragnar Hólm Gunnarsson

Ég ákvað á vormánuðum 2019 að heimsækja frumburðinn sem býr í Ekvador og nota tækifærið og skoða þessar framandi slóðir í leiðinni. Þegar sú ákvörðun hafði verið tekin hófst undirbúningur. Margt var skoðað og pælt en á endanum varð sá ferðamáti ofan á, sem ég hef alltaf verið spenntur fyrir, að vera á mótorhjóli.

______________________________________________________________

Undirbúningurinn

Mars, apríl og maí.

Það er að mörgu að huga þegar ferðast er til framandi landa. Það þarf að verja sig fyrir landlægum sjúkdómum og slíku og ég fór því í viðeigandi sprautur. Svo er að skipuleggja ferðalagið og ákveða ferðamáta. Ég skoðaði ótal youtube myndbönd um ferðalög í landinu og mér varð fljótlega ljóst hvaða ferðamáti höfðaði mest til mín. Það var bara himinn og haf á milli þess að horfa á þessar ferðalýsingar í rútum og bílum annarsvegar og á mótorhjólum hins vegar. Ég ákvað því að setja mig í samband við mótorhjólaleigur sem sjá um að skipuleggja mótorhjólaferðir í landinu. Ég endaði á að velja aðra af tveimur sem voru geinilega með mikla reynslu af svona ferðum og bjóða upp á bæði ferðir með leiðsögumanni og einnig ferðir þar sem ökumenn fá fyrirfram ákveðna leiðarlýsingu í GPS og öll gisting pöntuð fyrirfram. Hjólinu fylgdi sérstakur neyðarsími þar sem hægt var að hafa samband við einhvern hjá leigunni allan sólarhringinn ef á þyrfti að halda. Ég vildi þó ekki binda mig við fast ferðaplan allan tímann þannig að ég samdi við þá að þeir skipulegðu ferðina fyrstu þrjá dagana og ég sæi svo um restina sjálfur.


Ég hafði sem ákveðið að ferðamátinn í Ekvador yrði mótorhjól, en það var aðeins einn galli á þeirri ákvörðun. Ég var ekki með mótorhjólapróf. Ég setti mig því í samband við kennara í mars og fékk þær upplýsingar að verkleg kennsla á mótorhjól hæfist ekki fyrr en í maí. Ég gæti hins vegar tekið bóklega námið og námskeið væru aðgengileg á netinu. Þegar ég sagði kennaranum frá áformum mínum sagði hann að við yrðum þá að drífa þetta af sem fyrst eftir að kennsla hæfist því það tæki allt að þrjár vikur að fá ökuskírteini!


Ökunámið gekk hratt og vel. Strax eftir prófið dreif ég mig og sótti um skírteini til að þurfa nú ekki að vera með bráðabirgðaskírteini á ferðalaginu. Ég var eitthvað að spyrjast fyrir um afgreiðslutímann þegar sú sem afgreiddi mig upplýsti mig um að

4.1.21

Hringfarinn

Þvert yfir Ameríku

Íslenskir heimildarþættir um ferðalög hjónanna Kristjáns Gíslasonar og Ásdísar Rósu Baldursdóttur. Kristján sem fór hringinn í kringum jörðina á mótorhjóli snýr aftur á hjólið og í þetta sinn er Ásdís Rósa konan hans með í för. Í tilefni af 40 ára brúðkaupsafmæli þeirra ferðuðust þau þvert yfir Bandaríkin um 18 fylki á fimm vikum. Á ferðalaginu upplifðu þau stórkostlega náttúru, sögufræga staði og fjölbreytta flóru mannfólksins. Á leiðinni tóku þau fjölda ljósmynda, myndbanda og héldu nákvæma dagbók sem hér er veitt innsýn í. 

19.12.20

Á Hondu C90 yfir Kanada um hávetur í 20-30 stiga frosti.

Að fara á mótorhjóli yfir Kanada þykir kannski ekki tiltökumál, en að gera það um miðjan vetur í miklu frosti búa í tjaldi og undir miklu áreiti frá Lögreglunni það er annað mál :) 

Þetta gerðu Ed og Rachel á C90 Hondunum sínum og lentu þau meðal annars í því að þau máttu ekki keyra í gegnum Quebec af því að þau voru á nagladekkjum ...

Fyrri Hluti 

Seinni hluti

1.12.20

Mótorhjólaferð um Suður-Afríku

 


Þegar ljóst varð í byrjun vetrar að okkar feðgum, Grími Axelsysni og Axel Eiríkssini, ásamt félögum í BMW- mótorhjólaklúbbi Íslands, stóð til boða að taka þátt í þaulskipulagðri mótorhjólaferð um Suður-Afríku með þýsku vinafélagi okkar var bara eitt svar-- við látum okkur ekki vanta.

Mikill undirbúningur liggur að baki slíkri ferð, bæði varðandi leyfi, útbúnað, alla tilhögun ferðarinnar og gistingu. Menn eru sammála um að maður þarf að vera í góð formi líkmalega. Einnig þarf að gæta þess að fá sprautur við hinum ýmsu framandi sjúkdómum og að tryggingar séu í lagi svo fátt eitt sé nefnt og allt þarf þetta að gerast tímanlega.

Ekki má gleyna að sækja um og hafa meðferðis alþjóðlegt ökuskírteini sem Félag íslenskra bifreiðaeiganda sér um útgáfu á með sinni alkunnu lipurð og þjónustulund. Við Íslendingarnir héldum nokkra undirbúningsfundi. Á þeim stilltum við saman strengi, útdeildum verkum, fórum yfir öryggisatriði, tryggingamál og hvað hver og einn ætti að taka með af hinu og þessu sem er mikilvægt að hafa með í ferðalag sem þetta og þegar ýmislegt getur farið úrskeiðis.

Sjö glaðir meðlimir úr BMW-mótorhjólaklúbbi Íslands mættu í Leifstöð að morgni dags þann 20.febrúar síðastliðinn. Flogið var til London og þaðan í 14 klukkustundir í beinu næturflugi til Höfðaborgar.
Á flugvellinum í Höfðaborg biðu hermenn okkar farþegana með hitamæla að vopni til að fyrirbyggja að Covid-19 snit væru að berast til landsins. Allir sluppu í gegn með eðlilegan líkamshita og því gaf fátt hindrað ævintýrið sem var að hefjast.

Þátttakendur voru alls 32 á BMW-mótorhjólum, ásamt tveimur Suður afrískum fararstjórum á mótorhjólum og trússbíll sem flutti birgðir af vatni, varahlutum sjúkragræjum og auka mótorhjól. Hjólin voru ný eða mjög nýleg og flest af

28.8.20

Rúntur í Fjallakaffi


Nokkrir félagar úr Tíunni skelltu sér í hjólarúnt um daginn austur fyrir fjall. Nánar tiltekið í nýbyggt Beitarhúsið í Möðrudal sem er við þjóðveg 1. 

Þar var auðvitað  troðið í sig alíslenskri vöfflu með rjóma og rabbabara sultu.

Hittu þeir þar fyrir nokkra félaga í öðrum Vélhjólaklúbb sem heitir Drekar en það er klúbbur staðsettur á Austfjörðum.   Slógust þeir svo í för með Tíufélugum til baka og varð þessi ferð hin mesta skemmtun enda veðrið á fjöllunum alveg dásamlegt.
Í Mývatnsveit var mývargurinn í miklu stuði þannig að menn voru sumir ekkert að fjarlægja hjálma meðan bensínstoppin voru þar. En það var miklu betra að koma við í Dalakofanum og þar hittum við enn fleiri mótorhjólamenn úr Tíunni sem voru að nýta sér veðurblíðuna.

Snilldardagur. Takk fyrir allir .



10.8.20

Þýskur ferðamaður endurheimti stolið mótorhjól á síðustu stundu


Mótorhjóli af gerðinni KTM 620 LC4 var stolið úr bílakjallara Hótels Kletts í síðustu viku. Er gripurinn í eigu þýsks ferðamanns. Átak fór í gang til að endurheimta hjólið á vegum meðlima Facebook-hópsins „Hjóladót, tapað, fundið eða stolið“ þar sem fremstur í flokki fer Bjartmar Leósson, en hann hefur fengið viðurnefnið hjólahvíslarinn vegna ötuls sjálfboðaliðastarfs við að endurheimta stolin hjól og önnur verðmæti.
Deilingarnar urðu alls 1.900 á þremur dögum. Hvort sem þær leiddu lögreglu á sporið eða ekki tókst að leysa málið, lögregla hafði uppi á hjólinu og kom því í hendur þýska ferðamannsins. „Ég leyfi mér að trúa því að Facebook-deilingarnar hafi sett smá skjálfta í þjófana,“ segir Bjartmar í stuttu spjalli við DV.
Að sögn Bjartmars lagði lögreglan mikla vinnu í að finna hjól Þjóðverjans og sagði hann lögreglu eiga hrós skilið fyrir framgöngu sína í málinu.
Það mátti ekki tæpara standa. Þjóðverjinn fór af landi brott í morgun en hjólið fannst í gær. Meðfylgjandi myndir sýna er hólinu var skilað í flutningagám hjá Samskipum.
DV ÁBS   10.08.2020





6.8.20

Átak í gangi til að endurheimta stolið mótorhjól þýsks ferðamanns


Mótorhjóli af gerðinni KTM 620 LC4 var stolið úr bílakjallara Hótels Kletts. Er gripurinn í eigu þýsks ferðamanns. Átak er í gangi til að endurheimta hjólið á vegum meðlima Facebook-hópsins „Hjóladót, tapað, fundið eða stolið“ þar sem fremstur í flokki fer Bjartmar Leósson, en hann hefur fengið viðurnefnið hjólahvíslarinn vegna ötuls sjálfboðaliðastarfs við að endurheimta stolin hjól og önnur verðmæti.

Eftir eina klukkustund hafði tilkynningu um þjófnaðinn verið deilt tæplega 400 sinnum.

„Þessu var stolið af þýskum túrista. Drullusúrt. Getum við sett DEILINGARMET ?? Stolið í gær úr bílakjallara hótel Kletts. Ef einhver sá sendibíl í grenndinni eða eitthvað grunsamlegt látið lögreglu vita,“ segir í tilkynningunni.

Skáningarnúmer hjólsins er VER MI 51

ÁBS  DV 6.8.2020


30.4.20

Landmannalaugaferð Snigla 1992

Landmannalaugar 92


Föstudaginn 4. september var farin hin árlega baðferð snigla í Landmannalaugar.

Þeir sem fóru voru : Heiddi, Bjöggi Plóder, Einar hestur, Mæja stykki, Stjáni sýra (með vindilinn í kjaftinum) , Dóri dráttur, Arnar standbæ og Hlöðver á jeppa og einnig einhverjar konur á litlum japönskum bíl með slappa kúplíngu.



Þegar lagt var af stað úr bænum var klukkan um 19 og var stoppað fyrst hjá Arnari standbæ á Selfossi, en hann sagðist ekki koma fyrr en daginn eftir vegna anna. Þegar lagt var af stað frá Selfossi var klukkan farin að ganga 21 og var ekið all greitt að Vegamótum og tekið bensín. Um kl 22 var ekið upp að vegamótum Landmannaleiðar og hófst nú akstur í léttara lagi. Sem svo oft áður voru Bjöggi og Einar fremstir og þegar þeir voru búnir að purra u.þ.b. 10 km inn á Landmannaleið vildu þeir ekki trúa því sem fyrir ökuljós bar, því það ver nefnilega snjór og hálka, við þetta æstust þeir verulega og óku bara enn hraðar og stoppuðu ekki fyrr en þeir höfðu farið yfir fyrstu lækjarsprænuna, á eftir þeim voru Hjörtur , Mæja og Röggi en það vantaði Heidda og Steina. 
Það sem hráði var að Haraldur Heidda líkaði ílla aksturmáti eiganda síns og tók upp á því að reyna að flýta för þeirra félaga með því að starta stanslaust í hinni mestu óþökk eiganda síns og aftengdi Heiddi þá startarann og hélt inn í hríðina. 
 Þegar Heiddi og Steini voru komnir til hinna var haldið aftur af stað og nú var hálkan orðin all veruleg en enn var ekið áfram og nú á enn meiri ferð en áður og mátti sjá þriggja stafa tölur af og til á mælaborðinu þarna í hálkunni. Þennan aksturmáta líkaði Hallanum hans Heidda svo vel að afturendinn vildi ólmur taka framúr þeim fremri og endaði það með því að Heiddi fékk ótímabært sandbað.


Þegar komið var upp í Landmannalaugar var þar enginn snjór, en það var ákveðið að vera í skálanum í þetta sinn, en þegar við vorum að koma okkur fyrir inn í skálanum fréttum við af Stjána sýru, Ofurbaldri og Dóra drátt ,plús ljósku sem væru á leiðinni og færu þau sér hægt ( sennilega vegna þess að Stjáni hefur viljað halda glóðinni logandi í vindlinum).


Mest alla nóttina Notuðu Sniglar til að skola af sér sand og skít með sandi og skít í laugunum fram eftir morgni.


Daginn eftir átti að fara út að purra, en vegna slyddu og snjókomu var beðið til fimm um daginn með að fara út, en í millitíðinni kom Jón Páll á krossara er hann hafði fest kaup á daginn áður. Um fimm leytið gerði hins vegar hið besta veður og var farið út að purra um stund, en einna skemmtilegast var að leika sér í ánum eins og svo oft áður. Þegar líða tók á kvöldið byrjaði veðrið að vesna og þá kom Arnar standbæ og ungfrú Noregur. 
 Síðar um kvöldið gerði dæmigerða íslenska stórhríð með hávaða roki og var það hin mesta skemmtun að sjá túrhestana vera að koma inn í skálann eins og snjókalla með hálfniðurtekin tjöld og brotin í þokkabót. 
   Við þetta æstumst við Steini upp og ákváðum að fara í bæinn í þessu veðri og þar með búa til okkar eigin ævintýri. Eftir að hafa fundið hjólin í snjónum og klætt okkur vel var haldið af stað rúmlega 12 á miðnætti. Það var u.þ.b. 10 sm jafnfallinn snjór þegar við lögðum í hann en eftir um 5km akstur var snjórinn farinn að ná vel upp á mótor og var orðið vont að aka á veginum ( sem þarna er að mestu niðurgrafinn og fullur af snjó) svo við ókum mikið utanvegar, en eftir um 30 mín akstur sáum við ljós á bíl og var þar á ferð Skúli Gauta á svarta gamla bandwagon og var hann nýbúinn að snúa við vegna ófærðar fyrir þennan eðalvagn. Stoppuðum við litla stund hjá Skúla og þáðum þær veitingar sem voru í boði og héldum síðan áfram og átti nú ekki að stopp í bráð, en ég hef þótt líkegur til að detta og líklega datt ég enda Líklegur, en hjólið var líklega í lagi og var því haldið áfram og ekki stoppa fyrr en á Vegamótum.  Síðan var haldið á Selfoss og komið þangað rúmlega þrjú og fengum við okkur kaffi hjá tugtanum á Selfossi og héldum við svo heim til okkar kerlinga sem biðu okkar með heitt rúmið.


Að öðrum Sniglum er það að frétta að þeir fóru af stað um og eftir hádegi og var enn hin mesti snjór (svo mikill að japanski bíllinn sem Bryndís Plóder ók var að fara Sigölduleið). 

Allir komu þeir aftur eins og segir í kvæðinu og fóru allir á hausinn og það allt upp í þrisvar sinnum nema Einar hestur og Arnar standbæ ( það gæti orðið erfitt að slá þetta met). Af litla japanska bílnum hennar Bryndísar er það að frétta að hún fór Sigölduleið sem var mun snjólettari og fylgdi Jón Páll henni, en sökum kvennsemi sinnar og löngunar til að komast inn í bílinn þá flýtti hann sér að bræða úr hjólinu svo hann kæmist inn í bílinn (gamla trixið er að segjast vera bensínlaus Jón Páll).
Jón Páll flýtti sér svo mikið inn í bílinn að hann vissi ekki hvar hann var, og fór svo að hann fann ekki hjólið þegar hann hugðist sækja það seinna.

Líklegur og fl..........
Sniglafréttir 92








Yfir 100 ára gömul ferðasaga.

 Formáli
Heimildamaður Sniglafrétta hafði tal af manni nokkrum sem áræðanlega er einn af elstu núlifandi manna er ferðast hefur á mótorhjóli. 

Hann heitir Óli Ísaksson og 91 árs. (núna 2020 væri hann 122 ára)

Það var haustið 1916 að ég fór að vinna hjá H.D umboðinu þá 18 ára.
Vorði eftir (2017) komu fyrstu HARLEY hjólin til landsins, og ég fór strax að prufa þessa nýju fáka og líkaði bara vel.
Þá voru auglýsingar lítið þekktar og voru því starfsmennirnir látnir aka um bæinn og sýna þessa mótorhesta.
Það var um mitt sumar að ég fékk hjól lánað til að skreppa á Eyrarbakka (þar ólst ég upp).
Ég tók daginn frekar snemma lagði af stað frá Reykjavík upp úr
 kl 8:00 og ók sem leið lá  í hlykkjum og skrykkjum að Kolviðarhóli (Kolviðarhóll er rétt neðan við Skíðaskálann í Hveradölum) Þar var veitingaskáli í gamla daga og var þar stoppað og drukkið kaffi.
Þvi næst var heiðin grýtt og hlykkjótt og skrambi erfið yfir að fara.  Næst var stoppað í Hveragerði fyrir kaffi og flatkökur.
Þá var bara láglendið eftir og þegar ég kom á Eyrarbakka var ég búinn að vera tæpa fjóra klukkutíma á leiðinni og þótti það OFSAAKSTUR.
Ég hef heyrt að menn fari þessa leið á 30 mínutum , er það satt ?..
Óli

P.S.
Þegar Óli fór að vinna á skrifstofu H.D. þurfti hann að sjálfsöögðu að vera í klæðskerasaumuðum jakkafötum og kostuðu þau 29 kr. En Óli átti bara 9 krónur og tók því víxil upp á 2x10 krónur í tvo mánuði.
    Árið 1917 þurftu menn að vera 21. árs til að taka ökupróf og var óli því próflaus í þessari ferð.
1919 tók svo Óli ökupróf og keyrir ennþá bíl og er ökuskirteinið hans nr. 86.........

Viðtalið tók Hjörtur Líklegur  no. 56
Sniglafréttir 1989




27.3.20

Hópkeyrsla Snigla 2016

Þar sem ekki er útséð með hópkeyrslur ársins.
 Þá er kanski gott að rifja upp þessa hópkeyrslu frá 1 maí 2016 .  Laugarvegurinn fullur af hjólum í rigningu . Samt fín mæting.

Skúrinn
Hringbraut 2016

24.3.20

Ferðasaga frá Óla (fengið af drullusokkavefnum)

  (Ath greinin er myndskreytt af myndum af viðkomandi Landsmóti 1993 ekki af ferðalöngunum.)   

Ferðasaga frá Óla.

Óli bruni á heiður skilið fyrir nennu sína við að senda okkur efni, karlinn hefur meiri að segja hætt störfum hjá slökkviliðinu, sennilega til þess að geta sinnt síðunni betur. En hér er löng, en skemmtileg ferðasaga af hringferð þeirra félaga um árið.

Hringurinn
Flest okkar hafa farið hringinn er það ekki, þ.e.a.s. að hjólað hringinn í kringum landið okkar. Eflaust fleiri sem hafa farið hringinn eftir að hann var nær allur malbikaður, nema einhverjir bútar þarna fyrir austan. En það eru ekki mörg ár síðan að aðeins hluti þessa vegar var með bundnu slitlagi og þá var gaman að lifa ekki rétt, svona að þræða holur og mis vel heflaða malarvegi, með tilheyrandi ryki og drullu þegar rigndi.
Fyrir nokkuð mörgum árum, svona í kringum árið 7, þá settumst við niður nokkrir félagar og ræddum um að nú ættum við sko að skella okkur á árlegt mót mótorhjólamanna, sem þá var haldið austanmegin á landinu. Við áttum allir frekar gömul hjól svo undirbúningur var nokkur bæði á hjólum og mönnum. Það þurfti að fara vel yfir allar gömlu græjurnar, þá meina ég hjólin, en við vorum fimm, allir svona á svipuðum aldri nema einn sem var nokkuð yngri. Við hittumst reglulega til að ræða þetta stórferðalag, en við vorum búnir að ákveða að fara norður um.
Hver og einn okkar eyddi mörgum kvöldstundum til eins og áður var sagt að undirbúa hjól. Það var skipt um olíu, kerti, hjólbarða ef með þurfti. Líka voru settir drullusokkar á frambretti á flest hjólin, einnig var farið í bókabúð og keypt einhverskonar glært plast sem notað er á bækur öllu jöfnu og það notað til að líma á sem flesta fleti til að verja græjurnar fyrir steinkasti. Það var meira að segja sett límband á framlugt til að verja hana fyrir einhverju !! Svo var eitt mörgum kvöldum með einum köldum til að skipuleggja allt, allavega var það sagt eða þannig sko.
Við ætluðum allir að gista í tjöldum í þessari ferð okkar og við vorum meðferðis með  a.m.k. fjögur tjöld !! Svo var það fatnaður sem átti að duga í þessar fimm nætur sem hugsað var að gista. Fyrst fyrir norðan, síðan þrjár nætur á mótinu og að lokum ein nótt ekki langt frá mótinu svona til að jafna sig fyrir heimferð. Einnig vorum við allir með eitthvað af verkfærum sem og algenga varahluti. Við vorum sko undirbúnir fyrir þetta alvöru ferðalag, en sumir okkar höfðu aldrei farið hringinn á mótorhjóli, aðrir voru búnir að því og þá meira segja áður en suðurlandið var brúað, en þá var hringurinn kláraður með skipi frá Hornafirði til Reykjavíkur.
Dagurinn rennur upp, við hittumst allir á einum stað við skúr nokkurn í vesturbæ Reykjavíkur, það var nokkuð mikil rigning þennan dag, svo það blasti við að það þyrfti að

17.2.20

Ævintýri í Laos 2020

Vietnam og Laos ásamt
 austurhluta Thailands

Mótorhjólamenn eru oft miklir ævintýramenn og það sannaðist enn og aftur er fimm vaskir Íslendingar fóru í mikinn ævintýra - mótorhjólatúr til Laos og Vietnam.

Tíuvefurinn fékk góðfúslegt leyfi hjá þeim félögum að birta facebook-dagbók og slatta af myndum frá ferðalaginu í þessu hrjóstuga og fallega landi.




Dagbókarfærslur Páls Geirs Bjarnasonar
Vietnam - Laos  2020


Dagur eitt að kvöldi kominn.
 Gist í þessu húsi á stultum.
Dagur 1.
Þá er það byrjað. 3200km ferð frá Víetnam gegnum Laos á hinum sögufræga Ho Chi Minh-Trail. Þetta verður eitthvað.

Dagur 2.
Í gær var hjólað frá Hanoi og áleiðis að landamærum Víetnam og Laos. Í dag fórum við yfir landamærin og borðuðum picknik á teppi útá bílastæði meðan beðið var eftir að verðirnir færi vandlega yfir alla pappíra og gögn. Á leiðinni kíkjum við á litla matprjónaverksmiðju. Veðrið í dag var fínt. Ca. 30 stiga hiti og sól. Dásamlegt landslag og fólkið svo glatt og vinsamlegt. Laos talsvert frábrugðið Víetnam.

7.1.20

Á tveimur hjólum í gegnum Kambódíu

Mótorhjólaferð Hallgríms Guðsteinssonar vélstjóra á framandi slóðir

Hallgrímur Guðsteinsson var sólbrúnn, eins og Íslendingur sem er nýkominn úr sólinni á Spáni, þegar blaðamaður Skessuhorns hitti hann að máli í Dularfullu búðinni á Akranesi. En Hallgrímur fann ekki sólina á Spáni, eins og holskefla af Íslendingum gerði um páskana. Hann fann sólina í Kambódíu í tíu daga mótorhjólaferð í byrjun mars. „Það var hugmynd að kíkja í einhverja ferð þarna austur frá,“ segir Hallgrímur með brosi á vör. Hann var einn í hópi níu manna úr mótorhjólaklúbbnum Sober Riders MC sem fór í ferðina til Kambódíu. Félagarnir keyptu ferðapakka af tælensku fyrirtæki, sem heitir Big Bike Tours og skipuleggur ferðir sem þessar fyrir erlenda ferðamenn.

Bræðralag á hjólum

Hallgrímur er menntaður vélstjóri en starfar sem vélvirki á verkstæði Norðuráls á Grundartanga.
Áður var hann sjómaður og svo er hann einnig áhugatónlistarmaður og spilar á bassa. Hann er nýlega fluttur á Akranes og kann vel við sig. Hann er einn af nokkrum félögum sem stofnuðu íslenska grein
af mótorhjólaklúbbnum Sober Riders MC, eða Edrú knapar, fyrir þrettán árum. Félagskapurinn er 
líflegur mótorhjólaklúbbur tileinkaður edrúmennsku. Höfuðstöðvar klúbbsins eru í Arizona í Bandaríkjunum, en hann var fyrst stofnaður þar árið 1994. Hallgrímur hefur farið í tvær mótorhjólaferðir til Bandaríkjanna til að heimsækja aðrar greinar Sober Riders MC. Á hverju ári eru haldnar hátíðir, eða „Run“, hjá mismunandi greinum Sober Riders MC. „Ég hef tvisvar tekið þátt í Run Sober Riders MC í San Diego. Það er gaman að kynnast bræðrum í Bandaríkjunum,“ segir Hallgrímur. Á Íslandi er haldið Run einu sinni á ári,það síðasta var í Borgarfirðinum.
Hvert Run ber nafn og það íslenska heitir „Run to the Midnight Sun“. „Það voru hátt í tuttugu bræður frá Bandaríkjunum á síðusta Run okkar hér á Íslandi. Við erum allir bræður í klúbbnum. Meira að segja konur. Það eru konur í klúbbnum, en þær eru bræður.“ Með í för til Kambódíu var einmitt einn af bandarískum bræðrum hans, en samskipti milli klúbbanna eru góð.

Vel skipulögð ferð

Hugmyndin að því að fara eitthvert annað en til Bandaríkjanna í mótorhjólaferð kviknaði af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi langaði félagana á Íslandi að reyna eitthvað nýtt. Í öðru lagi var æskilegt að fara á ódýrara svæði en áður hafði verið farið á. „Við skoðuðum helling af túrum þarna niður frá og enduðum á Big Bike Tours. Þeir eru með marga túra um Laos, Kambódíu og Víetnam. En við

6.1.20

Fengu að kynnast öllum hliðum Rússlands í mótorhjólaferð

Rætt við frændurna Unnar og Jón sem ferðuðust um Rússland í sumar

Síðastliðið sumar fóru frændurnir Unnar Bjartmarsson og Jón Helgason saman í mótorhjólaferð um Rússland. Þeir óku í fylgd með túlki og leiðsögumanni sem leiddi þá þúsund kílómetra um Úralfjöll á ekta rússneskum Úral-hjólum. Þar hittu þeir innfædda Rússa og fengu að kynnast þeirra lífi og aðstæðum um leið og þeir skoðuðu landið, heimsóttu söfn og fóru á mótorhjólamót. Blaðamaður Skessuhorns hitti frændurna Unnar og Jón á heimili Unnars á Kleppjárnsreykjum snemma föstudagsmorguns í lok nóvember og fékk að heyra allt um ferðina til Rússlands.

Meðfæddur áhugi á mótorhjólum

 Aðdraganda ferðarinnar má rekja 31 ár aftur í tímann þegar Jón var á leiðinni upp í Borgarfjörð frá Reykjavík. Hann tók mótorhjólið með sér í Akraborgina upp á Akranes þaðan sem hann ætlaði að hjóla upp í Hálsasveit. Hann hafði ekki sofið mikið nóttina áður og sofnaði því á leiðinni og var vakinn af háseta þegar nær allir voru farnir úr skipinu. „Hann spurði mig hvort ég ætti ekki mótorhjólið niðri í lest. Ég rauk á fætur og niður í lest að sækja hjólið. En ég var að drífa mig aðeins of mikið og næ á einhvern ótrúlegan hátt að missa lyklana ofan í tankinn á hjólinu. En þarna voru góðir menn sem hjálpuðu mér að hvolfa hjólinu og ná lyklunum út. Ég brunaði beint upp í Hálsasveit og næ í Unnar, sem var bara 12 ára gutti á þessum tíma, og tek hann með mér á rúntinn. Þetta var fyrsta ferðin okkar saman á hjóli,“ rifjar Jón upp. „En ferðirnar síðan hafa orðið ansi margar síðan,“ bætir Unnar við. Upp frá þessu hafa mótorhjól verið sameiginlegt áhugamál  þeirra frænda.

Byrjaði sem grín

Fyrir fimm árum var Jón á ferðinni á mótorhjóli um Ameríku og þar kviknaði hugmynd um að fara á fimm ára fresti í framandi mótorhjólaferð. Þegar heim var komið nefndi hann þessa hugmynd við Unnar og grínuðust þeir með að fara til Rússlands. Eftir því sem Unnar hugsaði meira um Rússlandsferð hætti grínið að vera grín og færðist yfir í alvöru. „Hann fór að impra á þessu við mig nokkru síðar og við ákváðum að skoða þetta aðeins og byrjuðum að leita á Facebook,“ segir Jón. Þar fundu þeir ferðaskrifstofu í Rússlandi sem býður upp á alls konar ferðir um landið, þar á meðal mótorhjólaferðir. „En við treystum ekki einhverri síðu á netinu og vorum eiginlega vissir um að þetta væri eitthvað plat til að ná peningum af fólki. Ég var svo á leiðinni frá