Mótorhjólaheimurinn

8.1.21

Vetrargeymslan

 Hvað veldur því að fólk taki þá Ákvörðun að geyma hjólin sín úti á veturna? Er það virkilega svo að ekki sé möguleiki að finna 4-5 fermetra til að stinga greyjunum inn í c.a. 6 mánuði?  Er Harleyinn ekki lengur þetta sérstaka verðmæta mótorhjól  sem þarf að varðveita?

Maður hefur jú í gegnum árin séð ýmis faratæki og þar á meðal mótorhjól liggja hingað og þangað um bæina grotnandi niður í öllum veðrum og vindum. Kannski er maður svona samasaumaður að manni finnst að það þurfi að varðveita hvert og eitt mótorhjól á landinu, allt sé gull og ekkert megi leggjast til hvílu. Ófá hjólin eru því miður að fara í partamat eftir að þau hafa lent í miklu tjóni svo manni finnst það vera nógu mikil afföll. Það er nú bara einhvernveginn þannig að með árunum hefur áhuginn hjá manni á mótorhjólum sem betur fer vaxið og ekki ósjaldan að maður ræði gamla tíma við hjólafólk og það hvernig hjólamennskan var hér áður fyrr og hvernig hún verði í framtíðinni. Tala ég nú ekki um þegar það á að fara opna jafnvel tvö mótorhjólasöfn hér á landi, eitt fyrir norðan í minningu Heidda heitins og annað í þykkvabæ þar sem Dagrún #1 ræður ríkjum. Fyrir næstum 2 árum var 100 ára afmæli mótorhjólsins fagnað á íslandi, og nú oftar í tengslum við söfnin talar fólk um að varðveita þurfi hvert mótorhjól til að geyma söguna.

Fyrir nokkrum árum var ég dálkahöfundur á Sniglavefnum og skrifaði þá grein um geymslu á mótorhjóla á veturna. Þá hafði ég séð tvö hjól standa úti í snjónum í höfuðborginni (gamlann Yamaha Virago og gamla Hondu CMX að mig minnir). Var ég temmilega pirraður yfir að þessir eigendur skyldu gera þetta.

Og svo í þessu öllu saman hélt maður einhvernveginn að Harley Davidson væru bæði svo sérstök og verðmæt hjól, og að eigendur þessara hjóla væru orðnir það meðvitaðir mótorhjólaaðdáendur að maður myndi aldrei þurfa að horfa uppá eitt slíkt liggja undir skemmdum. 

Svo varð hinsvegar raunin þegar einn meðlimur H-Dc Ice hringdi í mig og sagði mér frá því að hann hefði séð eitt Harley úti í snjó við götu eina utan höfuðborgarinnar og væri allt að ryðga.  Ég trúði ekki mínum eigin eyrum og hélt kannski að hann væri að grínast í mér eða hefði kannski ruglast á Harley og einhverju  Jap....:o). Þetta varð ég bara að sjá. jú viti menn þarna stóð það, orðið mjög ílla farið og ofan á allt saman stóð það fyrir utan bílskúr!! Fjandinn hafi það, það má vera mjög vermætt það sem tekur  allt plássið í þessum skúr. Ég gat ekki setið á mér og smellti nokkrum myndum af því.

Já lesendur góðir, ég þekki eigandann af þessu hjóli en hann ætti klárlega að hugsa sig um hvort hann ætti yfir höfuð að eiga mótorhjól, hvað þá Haræey Davidson, það er allavega mín skoðun.

Varðveitum íslensku hjólin og söguna.
Sævar Bjarki Einarsson #2
Úr fréttabréfinu Hallinn 2007