Mótorhjólaheimurinn

7.5.20

Nýjungar í rafhjóli frá Kawasaki

Það er ekkert leyndarmál að Kawasaki er að þróa nýtt rafmagnshjól og framleiðandinn hefur nýlega sett á netið myndbönd af hjólinu. 

Þau sýna hjólið í akstri og sundurtekið og gefa meiri hugmynd um hvernig endanleg útgáfa þess verður.
Það sem er athyglisvert er að hjólið virðist búið fjögurra gíra kassa og með keðju í stað beltis sem er algengast í rafhjólum. Skiptingin er líklegast hraðaskipting þar sem að það er engin kúpling.
Hjólið virðist að mestu byggt á grunni Z650-hjólsins en með meiri hlífum eins og sporthjól. Rafmótorinn er neðstur en rafgeymirinn er þar sem vélin er venjulega, og hleðslubúnaður þar sem bensíntankurinn var.
Rafmótorinn er sagður vera 26 hestöfl en engar upplýsingar eru enn þá um tog hans, en það eru tölur sem skipta meira máli í rafmótorum. Hjólið hefur fengið nafnið Endeavor en engar dagsetningar um frumsýningu þess eða hvenær það muni koma á markað eru fyrir hendi.

Fréttablaðið