Mótorhjólaheimurinn

10.5.20

Landsmót Snigla 1992

Landsmót 1992
Þegar sú hugmynd kom fram að halda Landsmót Snigla í Trékyllisvík, var ekki laust við að sumir hefðu efasemdir um staðinn. Það heyrðust fullyrðingar um ófæra vegi, fimbulkulda, votviðri og Hvítabirni. 
En svo fór Landsmótsnefndin í vettvangskönnun og kom til baka með fullan kuðung af góðum fréttum, mabik norður undir heimskautsbaug, eilíft sólskin og svo mikið logn að heimamenn þurfa að hlaupa í hringi með galopinn munn til að kafna ekki.
 Það var því með opnum huga sem ritstjóralindýrið pakkaði bæði niður lopapeysunni og stuttbuxunum. Og ofan á hrúguna batt ég forláta pumpu ættaða úr lödu, hún átti svo sannarlega eftir að koma sér vel í ferðinni.

I. Ferðin


Pumpan góða kom að góðum notum.
Um hádegisbilið á föstudaginn 3.júlí var lítill hópur að gera sig klárann til brottfarar. Það voru ég no.11 á Hondu CB 550F , Hjalli Grínverji no.563 og Gummi Phsyco no.561 á Hondu Magna V30, Vésteinn Útölusnigill no.499 og Sandra no.562 á Suzuki Savage og einn drullumallari, Gummi langi no.núll og nix á Hondu XR500.
Þegar svo átti að leggja af stað voru ekki allir tilbúnir, svo það voru bara ég og Magnan sem lögðum af stað kl 12:30.  Sólin skein og allt gekk vel upp í Hvalfjörð en þá sprakk á CB 550. Það voru snör hantök og  dekkið rifið undan og kom þá í ljós að bót hafði losnað.

Nýrri bót var skellt á í miklum flýti og öllu raðað saman aftur. En í æsingnum gerði ég gat á slönguna og þurfti nað rífa allt undan aftur. Svo var bætt á ný og djöflast á Lödupumpunni þar til naðran var ökuhæf og var ekki laust við að pumpan væri farin að hitna við átökin þegar loftið fékkst til að tolla í dekkinu,  Þegar við loks komumst aftur af stað þá vorum við búnir að tefjast um klukkutíma en samt bólaði ekkert á hinum sem seinni urðu úr bænum. Þau náðu okkur loks í Botnskála þegar við höfðum kílt belginn. Fórum við svo aftur af stað og gerðist ekkert markvert fyrr en í Hreðarvatsskála þar sem við rákumst á nokkar Skagasnigla á hjólum en samferð okkur var stutt því á Holtavörðuheiði  varð helvítis afturdekkið aftur vindlaust og var ekkert annað að gera en að bæta einu sinni enn.
 Þegar búið var rífa í sundur kom í ljós að ég hafi verið full æstur í Hvalfirðinum því bæturnar snéru báðar öfugt og höfðu dottið af.  Það var lagað og við þeyst á Brú á hóflega ólöglegum hraða.


Nú var komið kvöld og ferðin ekki hálfnuð. 
Á Brú hittum við stórpopparana og bifreiðasmiðina Skúla Gautason no.6 og Björgvin Ploder nr.32.
Því miður var biorithmi Skúla eitthvað ílla stilltur því á ferð þeirra yfir Dragháls hafði hann sofnað og vaknaði aftur faðmandi fósturjörðina með gat á vinstra hnénu. Hann komst þó óhaltur frá þessu og BMW ið var lítt  laskað. Á meðan Skúli stakk höfðinu ofan í kaffibolla til að losna úr þessu dauðadái þá útskyrði Björgvin Ploder fyrir okkur að svona nokkuð gerðist bara ef
menn ækju of hægt. En okkur var ekki til Z boðið svo við flýttum för í norðurátt. Þrátt fyrir möl og vegavinnu þá gekk allt að óskum að Hólmavík. Þar var áð um stund og þar rákumst við í fysta skipti á Belga nokkurn á Hondu CB750 Custom, með meiri farangur en bifhjóli er holt að bera. Einnig voru þarna norðanmenn á tveimur hjólum og sniglabandið á svörtum bíl. 
Það var lagt af stað frá Hólmavík í óskipulögðum hóp og fljótlega varð ég viðskila við ferðafélaga mína enda frétti ég síðar að þeir hafi tafist, Gummi langi dottið á hausinn rétt norðan við Hólmavík og Steini og Sandra lögðu sig á hliðina á eina mjúka blettinn sem hægt var að finna á leiðinni.  Belga greyjið flaug líka á hausinn og skemmdi kúplingu og fl. svo hann gat aðeins ekið í fyrsta og öðrum gír.   
Samkvæmt óstaðfestum fréttum þá varð Einar Jór fyrir því óhappi að detta á höfuðið en skemmdir urðu litlar (á höfðinu) Ástæðan fyrir þessum óhöppum er skiljanleg þeim sem þessa leið hefur farið.
Vegurinn er mjór, grýttur, holóttur, laus, ílla merktur, og hlykkjóttari en nefið á níræðri galdranorn. Enda var meðalhraðinn hjá mér 30-35km. á klst. og þótti mér nóg um að sjá náttúrulega snigla æða framúr mér.  En landslagið er stórkoslegt og ef það hefði ekki verið svona gott
veður þá er ég ekki viss um að áróðursmeistarar Landsmóts hefðu sloppið óskaddaðir frá því að hitta suma ferðalangana er á landsmót var komið.
 Í Djúpuvík var drepið niður standara örskamma stund og voru þar fyrir Akurnesingar þeir sem æddu sem hraðast fram úr okkur er sprakk á Holtavörðuheiðinni. 
Var kvennleggur hópsins orðinn fremur framlágur og var jafnvel talað um að Suzuki 600F væri til sölu á kostnaðarverði.   Sannaðist enn hið fornkveðna - "að sjaldan eru flatgræjur til fjallaferða."  Ég vildi ekki kaupa Suzuki, enda á Hondu, þeisti áfram og loksins eftir 11 tíma ferðalag var ég kominn til Trékyllisvíkur.

II.  Á Landsmóti.

Það sem fyrsta blasti við rykblinduðum augum mínum var samansafn skítugra bifhjóla af öllum gerðum með beyglaðar framgjarðir og sprungna dempara sem hafði verið lagt fyrir utan svæðið.  
Það fannst mér undanlegt að meiga ekki hafa elskuna hjá sér til að ylja sér á fyrst konan verð eftir í kaupstað.
Er inná svæðið kom tók lítið betra við. Ofskipulagðir "tjaldstæðaverðir" ?! sögðu að maður ætti snúa tjaldinu í þessa átt en ekki hina og það ættu að vera götur í norður og suður og ekki tjalda bleiku tjaldi við hliðina á bláu. Það vantaði bara að þeir færu að banna manni að vera með háreysti eftir kl 22.
Ég sé ekki að þetta eigi mikið skylt við frelsishugmyndir bifhjólamanna og leyfi mér að gagnrýna þetta kommúnístaska skrifræði harðlega. Fuss og svei.

En þegar ég hafði tjaldað og komið mér fyrir, samkvæmt tilskipun lóðarskrárritara komst ég að því að samkomugestir voru í óða önn að drekkja sér og sorgum sínum í áfengi og kom það mér afar lítið á óvart.  Það leið heldur ekki á löngu þar til Sniglabandið hóf leik og fjörið hófst fyrir alvöru þar sem ég var aðalsöngvari hljómsveitarinnar KFUM & The Andskotans, þá varð ég að fara að gera raddæfingar og drekka hóstasaft frá Noregi og Finnlandi svo fljótlega var ég orðinn samkvæmishæfur.  Vegna fjarveru Gústa druslu (Gunna klúts) og andra húðmaurs (trommuslagara) þá var hljómsveitin frekar þunnskipuð en þá buðust frægir atvinnu session leikarar að sunnantil að hlaupa í skarðið.  Með Didda djöful á bassa og sigurð kollþrykktan á trommur hófum við leik og fljótlega krafðist Björgvin Ploder að fá að spila með svo við plöntuðum kollþrykktum við orgvélið. Ekki skal fjölyrt um frammistöðu en allir komust þó óbrjálaðir frá þessari uppákomu. 

Er tónleikum lauk var nóttin enn ung og tilvalið að kynna sér ástand samkomugesta og farskjóta þeirra.  Eitt það fyrsta sem ég rak augun í voru Skölli og Hallinn hans. Skölli brosti sínun breiðasta, og það er sko breitt skal ég segja ykkur en það sama var ekki hægt að segja um Harley gamla. 
Hann hafði gengið í gegnum ýmsar skipulagsbreytingar og bar þar mest á gjallhaugum sem skreyttu afturbrettið eftir að það hafði dottið í sundur og verið hraunað saman aftur.

Fleiri sögur af svaðilförum heyrði ég og fannst mér merkilegust frásögnin af hálf krassi Tóta litla. Hann missti hjólið það hressilega að farþeginn spíttist af en hjólið datt ekki.     Það skyldi þó ekki vera að forgangsröðin verði svona hjá honum  þ.e. henda kærustunni en bjarga hjólinu.

Tóti litli skýtur frúnni af.
Einnig sá ég þarna mörg hjól sem ekki hafa hentað til ferðalaga um slíkar torfærur t.d. Goldwing 1200 og FZR 1000 en ekki kom ég auga á fjallaracer Sonju Schwantz eða Suzuki blöðru Hjóla Völu og mér varð fljótlega ljóst að þær ágætu kvensur sem hæst hefðu hóað um ágæti vegar og staðar og jafnvel auglýst sitt fjallarace í sniglafréttum voru fullar af skröki og fölskum yfirlýsingum.
Af því má þann lærdóm draga að lítt er að marka blaður kvenna þessara.  Ég er allavega viss um það að þeir sem skemmdu hjá sér felgur og dempara hugra þeim þegjandi þörfina sem hrósuðu þessum vegum.  En skítt með það.
Leið nú nóttin við söng og varðeld og voru menn teitir vel. Tugtinn kíkti við og var til friðs, þó ekki fengust þeir til að blása í alkamælinn, þó svo það sárlega vantaði einhvern edrú til að núllstilla apparatið.  Mig fór að gruna ýmislegt um rakastig þessara lagana varða þó ekkert væri sannað um það að þeir væru fullir.  Ekki vildu þeir heldur bragða á súpunni þó þeir sniglabandsmenn hefðu mikið haft fyrir því að skerpa áhenni.
Blíða var og sól skein í heiði þó mið nótt væri.


III. Laugardagur.


Er ég reis úr rekkju eldsnemma fyrir hádegi kvöldið eftir þá skein sólin enn og hitamælirinn sýndi tveggja stafa tölu. Ég glotti breitt er ég tygjaði mig til sundlaugarfarar. En gleði mín var skammvinn því helvítis afturdekkið var enn vindlaust.
 Ég blessaði pumpukvikyndið fyrir að vera í lagi og pumpaði í.   Til öryggis tók ég hana með og hélt í norðurátt.  Ég kom fyrst við í Kaupfélaginu í Norðurfirði.  Þar var vöruúrval lítið en hákarlslykt stæk.  Var því viðdvöl stutt þar.
  Er í laugina Leif heppna kom, þá voru þar fyrir nokkrir Sniglar og þar mest á köfunaræfingum Steina Tótu. Hann hafði ekki haft með sér skýlu og ekki var hægt að leigja slíkar skjólflíkur af laugarvörðum.  Því var Steini frekar fáklæddur. 
Hress og endurnærður hélt ég til baka úr lauginni en gleymdi mér við aksturinn og tíndi pumpunni góðu. Þegar ég hafði leitað dágóða stund sá ég mann stöðva bíl og taka eitthvað upp úr götunni.  Ég sveif á hann og krafði hann um pumpuna og varð hann að láta hana af hendi. Flýtti ég nú för því að íþróttakeppni Snigla var að hefjast.

Snigl er skemmtileg íþrótt og voru því margir keppendur. Jón Málafærslumaður var einn þeirra þó hann væri of ölur til að komast á ráslínuna hjálparlaust.  Hann dó skömmu síðar,  Þeir rösku sveinar sem sáu um Sniglið voru því miður ekki mjög vel að sér í keppnisreglum og urðu því þó nokkrar tafir.  Það hefði líka verið stórsnjallt að hafa kynni með gjallarhorn eða hátalarakerfi til að glæða keppnina meira lífi. Það hefði varla verið ofverkið þeirra reglustikuðu manna sem skipulögðu tjaldstæðið að græja þeim málum.
Einar hestur sigraði í Sniglinu á nýju Íslandsmeti 1:07 mín. Hann hefur mjög breytt hraðasvið á hondunni allt frá 0,886 km/klst. upp í a.m.k. 160, samanber radarmælingar í Hvalfirði.
Í Snigli með farþega túlkaði Púkaló no.399 reglurnar frjálslega og hafði tvo farþega, en Súkkan varð svo afturþung að framdekkið rétt snerti jörð.  Varð Steinolíubrennarinn því stjórnlaus og datt tríóið snögglega úr keppni.  Steini Tótu no161 og Díana no.324 unnu keppnina með því að nota farþega stellingu ,þá er sýnd er á landsmótsmerkinu.
Nú var gert hlé á íþróttaiðkun því það var kominn matartími.  Borin voru fram grilluð þjóðvegalömb með grænfóðri og sósu.  Þetta var alveg svívirðulega gott og þakka ég kokkunum frá smáréttum vel fyrir mig.
 Eftir matinn var haldið áfram með íþróttirnar,  hreðjaglímu, haus á staur og reipitog. Ég veit það eitt að Stígur vann hausastaurkeppnina en hreðjaglímu veit ég ekkert um enda upptekin við hljómsveitaræfingu og að reyna þurka Klútinn af öllum þeim ókjörum af áfengi sem hann var búinn að hella í sinn druslulega belg.  Þess má geta þess í framhjáhlaupi að Andri trommari var einnig búinn að skila sér á staðinn en hann hafði tafist vegna þess að hjónaleysunum hafði tekist að hrasa á leiðinn og það á bíl !
Í reipitoginu var hart barist og fóru leikar þannig að Yamaha sigruðu Hondu í úrslitaviðureigninni. 

Steini Tótu og Heiddi í flugferð á Taufaxa.
Meðan þessu fór fram fóru Steini Tótu no.161 og Heiddi no. 10 í flugferð á ræskni því er Steini kom fljúgandi á mótið og Taufaxi nefndist,  Þetta er mótorknúinn svifdreki, tveggja manna far, Þeirra ferð byrjaði náttúrulega á því að fá lánaða pumpuna því loft tollir ílla í dekkjum á Ströndum.
Flugtak gekk vel og voru hnitaðir hringir yfir svæðinu. En strax í öðrum hring drapst á vélinni og varð mönnum að orði að nú væri Steini að stríða Heidda og ætlaði sennilega reka hann út til að snúa í gang.  En svo var ekki og fór nú að syrta í álinn hjá þeim köppum því jörðin nálgaðist hratt. 
Steini flugstjóri undirbjó nauðlendingu sem heppnaðist vel.  Upp brekku var lent , slædað létt í kúaskítnum og stoppað rétt við gaddavírsgirðingu með úrbrædda vél.  Var Taufaxi snarlega skírður upp og nefnist nú Hlunnfari. 


Það var komið að því að hljómsveitin KFUM & The Andskotans skyldi hefja leik fullskipuð + Siggi kollþrykktur á Hammond.  
Þrátt fyrir lítið blóðmagn í áfenginu í æðum Gunna klúts (sem hér eftir heitir Gústafus Drusla) heppnaðist giggið alveg ágætlega og voru öll mistök sem heyrðust rakin til hljóðmanna sniglabandsins sem að sjálfsögðu vildu ekki að við kafsigldum atvinnutónlistarmennina með yfirburðahæfileikum vorum.  Þetta er allavega álit Binna gítarleikara og ég fer ekki að rengja hann enda hef ég ekkert vit á tónlist.  Ég veit  þó að hægt hefði verið að spila Nice´N´Sleezy
 betur en gustafus Drusla gerði þetta kvöld.
Að leik loknum var loks hægt að fara að skemmta sér og höfðu menn við það ýmsar aðferðir. Sumir sungu við varðeldinn meðan aðrir fóru á hestbak eða dóu út á túni. Einstaka menn slógust  en það var ekkert að viti. Ég td. rökræddi við Belgann nýkrassaðann og kom þá í ljós að hann var í Greenpeace og hafði ekki hundsvit á menningu veiðiþjóða. Ég vona bara að sé búinn að skipta um skoðun eða þá forða sér úr landi svo hann breiði ekki úr lygi sína og kjaftæði meðal landsmanna.

Nú var farið að kula og sannaðist enn hið fornkveðna norðlenska máltæki að "oft er heitt í hádeginu en kólnar þegar kvölda tekur"  og var því mál til komið að sniglast í pokann, því löng ferð var fyrir höndum daginn eftir.

IIII   Heimferðin


Skölli
  Um ellefu leytið rak ég út trýnið og sá þá fátt fólk á ferli.   Einhverjir voru þó á fætur skriðnir og farnir að týna rusl.  Maður verður alltaf dálítið ánægður með Sniglana þegar maður sér hversu mikil snyrtimenni eru í samtökunum.  Eftir draslið var komið í bílinn hans jóa kolbeins þá fór ég að leita að pumpunni góðu sem flugdýrin höfðu fengið lánaða kvöldið áður.    Það tók drjúga stund svo ég komst ekki  af stað fyrr en korter fyrir eitt.  Það var hratt ekið og ákveðið og gekk ferðin áfallalítið nema hvað ég fékk grjót í skiptipinnann, sem bognaði !  Það var eisn gott að ég var vel skóaður.   Á leiðinni til Hólmavíkur rakt ég á Gunna Kyntröll , brems o.s.frv,, hann ók varlega enda höfuðið sennilega jafn viðkvæmt og Hallinn ín þessum holum og hristingi.
    Mér var hugsað til Skölla og hvernig honum gegni að láta Hallann hanga saman.

Ég hraðaði För minni og síðiustu hjólin sem ég sá voru þau Helgi heppni og annr til á Brú.  Veðrið hélst skaplega gott þar til í Hvalfirðinum, þá var komið hávaðarok og það svo mjög að Steikarvagninn góði hafði stlitnað aftur úr pickupnum og rúllað hálfa leið niður í fjöru.
Á Kjalarnesinu lamdi regnið mig eins og svipuhögg og það var greinilegt að ég var kominn aftur heim til Reykjavíkur.

EFTIRMÁLI
Þegar þetta er ritað viku eftir landsmót þá er afturdekkið enn vindlaust og pumpan biluð.

Ólafur Unnar jóhannsson
Mótorskussinn #11
Sniglafréttir 1992