Mótorhjólaheimurinn

29.4.20

Viðtal við Óskar á Skagaströnd



Óskar í frægum Kögurjakka sem hann á.

Viðtalið

 Maður er nefndur Óskar  Þór Kristinnsson á Skagaströnd.
Góður drengur, höfðingi heim að sækja þó hann búi ekki í skíðaskála, og búinn að vera viðloðandi mótormerar síðan ég var í sandkassanum. 
Svo vildi svo einkennilega til hér einn dag eigi fyrir svo all löngu að ég fékk móral yfir því að hafa ekki hugsað um málgagnið okkar í nokkra mánuði og greið því gæsina þ.e. Óskar morgun nokkurn eldsnemma eftir hádegi þegar hann var staddur á námskeiði í slæpingshætti í Rokkbælinu.  Þegar viðtalið hefst er hann nýbúinn að fá 8,5 í einkunn fyrir að sofa frameftir.


Sp, Óskar hvenær byrjaðir þú að hjóla og af hverju?

Ég byrjaði "68 keypti mér 450 Hondu, fjórgegnis sem var stærsta hjólið þá, 750 Hondan kom ekki fyrr en "79. Ég veit ekki hvers vegna , mig langaði bara í hjól en ekki bíl. Svo var líka maður heima á 250 Jamma þannig að ég vissi að hjól voru til,  maður sá hann stundum æða um allann bæ á blöðrunni í hvínandi botni, hávaðinn ærandi og tvígegnisbrælan hékk yfir götunum í marga daga á eftir.

Svo lá maður líka í playboy og þar voru gömlu bretarnir auglýstir, 
Triumph undir tré, menn með derhúfur, Sólarlagið og dama aftaná. Þetta fyrirtæki mitt þótti mjög furðulegt og ekki batnaði það þegar ég ætlaði að sleppa þvi að taka bílpróf, ætlaði bara að taka próf á hjólið, ég held að fólk hafi álitið að ég væri ekki með öllum mjalla. Líka vegna þess að maðurinn á 250 Jammanum var eitthvað upp á kant við bæjarbúa, hávaði ,hraðkstur , lögga og læti.

Ég hef hinsvegar alveg losnað við það enda hef ég ekkert gaman af því að keyra eins og brjálæðingur innanbæjar við ég bara rúnta í rólegheitunum, sýna mig og sjá aðra. 
Þegar það hellist yfir mig löngun til að keyra hratt þá fer ég bara út fyrir bæinn enda nóg af góðum vegum. Í dag er bara skrepp að fara til Akureyrar eða suður að hitta aðra mótorhjólamenn.

Annars hjóla ég mest einn, hef alltaf gert. Það var reyndar á tímabili maður á Triumph Tiger sem ég hjólaði með en annars voru engin hjól í nágrenninu. Ég vissi af einhverjum hjólum á Akureyri en þekkti það lið lítið, það var líka svo mikið mál að fara á milli.


Bús og bílar

Síðan seldi ég hjólið "72 og hellti mér út í bús og stóra bíla. Var alveg á kafi í því í nokkur ár. 
Þá þurfti líka að vinna fyrir hlutunum engin lán eða neitt. Ef mann langaði í stærri og flottari bíl, meira brennivín eða eitthvað þá þurfti maður að eiga fyrir því. Ég fékk mér ekki hjól aftur fyrr en "78 það var Kawasaki Z1000,  það fór til Akureyrar, Heiddi keypti hann. Næst komu 6 sílindrarnir CBX Hondan 1979 og 1300 Kawinn "81 ég vildi eiga stærsta 6 sílindra hjólið og á henn reyndar enn. 1987 kom svo plast tímabilið hjá mér CBR 1000 Honda til þess að fara hratt á, og núna Harleyinn á leiðinni, hann á að koma fyrir jól. 
Sumum finnst þetta reyndar vera svolítið skrítið að velta fyrir sér hvað ég ætla að gera við 3 hjól, ég geti varla verið á mikið fleiri en einu í einu. Mér finnst bara að maður þurfi að eiga til skiptana og eftir að ég hætti að eyða peningum í brennivín þá eyði ég bara í hjól í staðinn, maður man þó allavegana eftir þeim daginn eftir.

Sniglarnir


1984 fékk ég kort að sunnan. Það var dagsett 1. apríl , daginn sem sniglarnir voru stofnaðir formlega. Þetta var semsagt tilkynning um að verið væri að stofna Bifhjólasamtök og mér var boðið að vera með.
Mér fannst hugmyndin ekkert vitlaus svo ég kíldi á það, maður vissi líka að það voru svona félög um allan heim og því ekki hér. Reyndar er ég hálf ragur við félög en þetta var svo dásamlega laust í reipunum og leggur litlar kvaðir a mann. 
Maður leysir það bara af hendi sem maður er beðinn um, Redda eldivið fyrir landsmót og svoleiðis. En ef ég á að vera hreinskilinn þá er bara 50% af Sniglum sem ég hef engann áhuga á að þekkja. 
Ég þori ekki að fara hærra í prósentum, en það sem eftir er , hversu lítil prósenta sem er , það fólk vil ég alls ekki missa. Reyndar er þetta allt í mótun ennþá. Það voru engar inntökureglur í upphafi, hver sem vildi gat gengið í Sniglana en nú fer ekki hver sem er inno, og ef farið væri að lögum þá mætti strika helminginn út, þá sem ekki borga félagsgjöldin. Það er óréttlátt að þeir sem ekki borgi fái Sniglafréttir og bifblíu alveg eins og hinir sem borga.


Framtíðin


Það er skrítið hvernig þetta hefur breyst. Það má eiginlega segja að núna sé önnur kynslóð frá stríðlokum og hún á upphaf sitt í Eyjum þó núna sé allt dottið niður þar miðað við hvernig það var.

Og núna seinustu 2 árin hefur breiddin í hjólunum aukist alveg svakalega. Áður voru bara mótorhjól en núna eru plasthjól, chopperar og sófasett í löngum röðum.
Fyrir 2-3 árum var bara einn og einn sévitringur með ákveðna línu en nú eru það tvær línur. Hippalínan og tannkremstúbudeildin og mér sýnist sífellt fleiri vera færa sig í Easy Rider hópinn, kannski radarhræðsla eða þá að menn vaxa bara upp í þetta. Ég segi fyrir mig, ég gæti ekki bara átt Easy rider græju, ég yrði að hafa racerana líka. Ég sé fyrir mér 3 mismunandi deildir í framtíðinni. Reisarann og þá á ég við 100 súkkurnar og svoleiðis hjól sem ómögulegt er að keyra undir 150 km. hraða vegna þessa að það er svo leiðinlegt, Easy Rider deildina sem hangir í mannhæðar háu stýri og ætlar að fjúka af hjólinu ef farið er upp fyrir 80, og svo eldri borgara deildin á sófasettunum með steriógræjunum, litasjónvarpi, farangusrými fyrir 5 manna fjölskyldu.

Svo verður lausaliðið sem allaf er að fá sér hjól öðru hvoru en missir áhugann um leið og það fer að rigna og verður pínulítið kallt. Það verður líklega einhver ákveðinn kjarni sem fer á milli deilda, þó það hafi ímugust á hverri annari, því sannir mótorhjólamenn eru og verða alveg dásamlega skemmtilegt fólk.

Sniglafréttir 1988.
Mynd stolið frá Drullusokkum.