Mótorhjólaheimurinn

24.3.20

Ferðasaga frá Óla (fengið af drullusokkavefnum)

  (Ath greinin er myndskreytt af myndum af viðkomandi Landsmóti 1993 ekki af ferðalöngunum.)   

Ferðasaga frá Óla.

Óli bruni á heiður skilið fyrir nennu sína við að senda okkur efni, karlinn hefur meiri að segja hætt störfum hjá slökkviliðinu, sennilega til þess að geta sinnt síðunni betur. En hér er löng, en skemmtileg ferðasaga af hringferð þeirra félaga um árið.

Hringurinn
Flest okkar hafa farið hringinn er það ekki, þ.e.a.s. að hjólað hringinn í kringum landið okkar. Eflaust fleiri sem hafa farið hringinn eftir að hann var nær allur malbikaður, nema einhverjir bútar þarna fyrir austan. En það eru ekki mörg ár síðan að aðeins hluti þessa vegar var með bundnu slitlagi og þá var gaman að lifa ekki rétt, svona að þræða holur og mis vel heflaða malarvegi, með tilheyrandi ryki og drullu þegar rigndi.
Fyrir nokkuð mörgum árum, svona í kringum árið 7, þá settumst við niður nokkrir félagar og ræddum um að nú ættum við sko að skella okkur á árlegt mót mótorhjólamanna, sem þá var haldið austanmegin á landinu. Við áttum allir frekar gömul hjól svo undirbúningur var nokkur bæði á hjólum og mönnum. Það þurfti að fara vel yfir allar gömlu græjurnar, þá meina ég hjólin, en við vorum fimm, allir svona á svipuðum aldri nema einn sem var nokkuð yngri. Við hittumst reglulega til að ræða þetta stórferðalag, en við vorum búnir að ákveða að fara norður um.
Hver og einn okkar eyddi mörgum kvöldstundum til eins og áður var sagt að undirbúa hjól. Það var skipt um olíu, kerti, hjólbarða ef með þurfti. Líka voru settir drullusokkar á frambretti á flest hjólin, einnig var farið í bókabúð og keypt einhverskonar glært plast sem notað er á bækur öllu jöfnu og það notað til að líma á sem flesta fleti til að verja græjurnar fyrir steinkasti. Það var meira að segja sett límband á framlugt til að verja hana fyrir einhverju !! Svo var eitt mörgum kvöldum með einum köldum til að skipuleggja allt, allavega var það sagt eða þannig sko.
Við ætluðum allir að gista í tjöldum í þessari ferð okkar og við vorum meðferðis með  a.m.k. fjögur tjöld !! Svo var það fatnaður sem átti að duga í þessar fimm nætur sem hugsað var að gista. Fyrst fyrir norðan, síðan þrjár nætur á mótinu og að lokum ein nótt ekki langt frá mótinu svona til að jafna sig fyrir heimferð. Einnig vorum við allir með eitthvað af verkfærum sem og algenga varahluti. Við vorum sko undirbúnir fyrir þetta alvöru ferðalag, en sumir okkar höfðu aldrei farið hringinn á mótorhjóli, aðrir voru búnir að því og þá meira segja áður en suðurlandið var brúað, en þá var hringurinn kláraður með skipi frá Hornafirði til Reykjavíkur.
Dagurinn rennur upp, við hittumst allir á einum stað við skúr nokkurn í vesturbæ Reykjavíkur, það var nokkuð mikil rigning þennan dag, svo það blasti við að það þyrfti að
vera í regngalla allavega þangað til rigningunni létti. Einn okkar var nú reyndar ekki mættur, en í raun þekktum við flestir hann ekki mikið, jú reyndar einn okkar meira en hinir. Þessi félagi okkar var svona ef segja má svo tímalaus.  Meðan við biðum kom í ljós að einn okkar átti ekki regnföt og taldi slíkt bara fyrir svona kerlingar með pung, leðrið hefði dugað til þessa dags !! Meðan við biðum þá var tækifærið notað og náð í auka regngalla. Sá tímalausi mætir að lokum og nú var rætt um hvort við ættum að fara Hvalfjörðinn eða bara vera aumingjar og taka Akraborgina. Sú reyndist raunin og við hófum ferðina á siglingu.
Við ókum frá borði á Akranesi og stefnan tekin á Borgarnes, en þar sem við eins og áður sagt var þá  við ókum gömlum hjólum þá var ákveðið að stöðva sem oftast til að hvíla þau, fjögur þeirra komu frá landi sem þekkt er fyrir gæða rafkerfi !!, en það fimmta frá landi sem þekkt er fyrir almenn góð gæði !!. Þess má geta að sá tímalausi hafði ákveðið að mynda alla ferðina með svona tökuvél, sem í þá daga var nú kannski ekki stór en heldur ekki lítil.  Þessari vél varð minn maður bara að halda á í annarri hendi, eða báðum þó hann væri að aka, fjölhæfur ungur maður.
Við áttum stutt stopp í Borgarnesi svona til að mæla olíu á vélum, nema þessi eini sem átti hjólið sem kom frá hinu landinu. Næsta stopp var svo Bifröst og þarna var olía mæld a.m.k. á þremur hjólum. Fengið sér smá snarl og kaffi, en einn okkar drakk nú að öllu jöfnu bara pilsner. Við vorum ekki búnir að aka lengi frá Bifröst þegar við ökum fram á vegafram- kvæmdir og eins og allir vita þá er alltaf hugsað til mótorhjólamanna við þessar framkvæmdir ekki rétt !! Einhvernvegin komust við yfir þessa malar og sandhauga, það var eins gott að við vorum á hjólum með mjög svo netta hjólbarða. Enn rigndi eins og hellt væri úr fötu, en við létum það ekki á okkur fá, nema einu hjólinu var illa við rigningu og svona lét vita af því.
Lítið gerðist á leiðinni að Blönduós, en þar var tekið smá matahlé, þetta hefðbundna einn sveittur, franskar og sósa. Áfram var haldið eftir að mæla olíu og skoða ýmislegt annað, nema á þessu eina helvítis hjóli frá hinu landinu, reyndar verður að segja frá því að hin fjögur hjólin komu frá þremur verksmiðjum í landinu þar sem mótorhjólaiðnaður dó drottni sínum á vissu tímabili, en ein af þessum verksmiðjum stóð sig að öllu jöfnu betur en hinar tvær, því það hjól slapp alveg við olíuábætur, en svona til öryggis var olía mæld á því eins og hinum þremur. Enn rigndi og lánaði regngallinn virtist ekki alveg virka, af hverju, jú vegna þess að hann var hugsaður til notkunar við útivist t.d. göngu og hlaup, en ekki sem mótorhjóla regngalli, því var minn maður orðin nokkuð blautur, jafnvel fína leðrið hans hélt ekki vatni !!
Ekki langt frá Blönduós er brekka ein og fyrir neðan hana er nokkuð þekkt veiðiá sem og svæði þar sem nokkur hjólamót hafa verið haldin. Brekka þessi var þegar þessi saga gerist ómalbikuð og svona frekar gróf og með lækjarfarvegum eftir rigningar !! Við skröltum upp þessa brekku en stöðvum þegar henni líkur til að að spjalla, taka myndir og bulla. Þá fara að rúlla upp brekkuna hin ýmsu mótorhjól frá hinum ýmsu löndum, það stöðva allir og spjalla. Þarna var fólk frá Svíþjóð, Írlandi og Þýskalandi, já meira segja eitthvað um hitt kynið á eigin hjólum. Þegar þessi halarófa endar, þá heyrum við svona í fjarska drunur miklar og þær nálgast og nálgast og svo birtist orsök hljóðsins: Það er HardleyMovingDavidsonsoftail og þessari græjur ekur fullvaxin maður, með opin hjálm og einhverja leðurtutlu fyrir andlitinu, hann er í einhverju regndóti. Sumir kalla hann brems aðrir kyntröll eða eitthvað annað. Hann er einn á ferð og lætur vel af sér, finnst rigningin góð eins og segir í laginu, brosir og segir góðlátlega, eru þessar græjur ykkar bilaðar ??!!
För er fram haldið og það eru þessi hefðbundnu stopp frá Varmahlíð að Akureyri, já ég veit að stöðva fæstir frá Varmahlíð til Akureyrar ! En við gerum það til að taka myndir ! Enn rignir og nú hafa menn ákveðið að vera ekkert að liggja í tjaldi heldur fá sér gistingu á Edduhóteli sem er og var skóli á veturna og hótel á sumrin. En áður en haldið er á hótelið eru hjólin þvegin hátt og lágt og þá sérstaklega hjólið sem kemur frá hinu landinu. Það rignir enn og við trúum ekki okkar eigin augum, því okkur hefur verið sagt að það rigni nær aldrei þarna fyrir norðan. Kvöldið líður yfir spjalli um mótorhjól og veðrið sem og annað hefðbundið. Ákveðið er hvenær skuli vakna og borða morgunmat og síðan halda af stað og tími er ákveðin þ.e.a.s. nákvæmlega klukkan hvað skuli haldið af stað.
Næsti morgun, morgunmatur og svo farið að græja sig til ferðar, það rignir enn svo menn troða sér í regngalla og tuða um veðrið, ætlar aldrei að hætta að rigna á þessu skeri. Hjólin eru gangsett, þeim leyft að hitna og við sitjum þarna og bíðum eftir ja hverjum jú þeim tímalausa. Menn spyrja hvern annan hvar hann sé og í miðjum þessum umræðum þá birtist félagi vor í dyrunum og segir brosandi, nú er verið að leggja í hann, ég ætla fá mér morgunmat og svo er ég klár !!! Jæja menn drepa á hjólum og ræða aðeins um tímasetningar og að láta ekki bíða eftir sér !!
Nú er allt klárt og þá segir einn okkar, heyrðu ég þarf að skipta um olíu (getið hver) !! En hvað segja allir það eru ekki nema um 400 km frá Reykjavík og við erum búnir að vita af þessu ferðalagi í nokkra mánuði. Minn maður segir æ æ ég bara mátti ekki vera að því að skipta um olíu. Það rignir enn svo það er leitað að húsnæði til olíuskipta og það finnst, fín aðstaða og nú hefst vinna við olíuskipti fyrir restina af þessu stórferðalagi. Það gengur hálf brösulega útaf einhverju við að koma olíu á hjólið aftur, en allt hefst þetta og nú er allt klárt, menn galla sig aftur og nú er það Mývatn næst. En nei við erum varla búnir að setja í gang þegar olíuskipta- maðurinn segir: Heyrðu mig vantar filmu í vélina mína. Menn tuða eitthvað sýn á milli: Það var opið í gær og svo líka á leiðinni í olíuskiptin, en hvað við erum í fríi og hvaða máli skipta nokkrar mínútur til eða frá !!
Við stefnum á Mývatn og eins og elstu menn muna var vegurinn við Mývatn sérstaklega gerður með mótorhjólamenn í huga og þá aðallega til aksturs í rigningu. Þetta er svona blanda af brúnum leir, sandi, smá möl og svo einhverju límkenndu efni. Við þurfum að hafa okkur alla við að hreinlega fljúga ekki á hausinn. Þetta er eins og aka á svelli, bílar æða fram hjá okkur og þeir ausa drullu yfir okkur alla, við erum farnir að aka á miðjum vegi til að hægja á umferðinni á móti sem og að hleypa engum fram úr okkur. Þvílíkur drulluaustur, en við náum Mývatni og sjáum í hillingu þvottastæði, því hjólin voru hætt að kæla sig, allar kæliraufar voru fullar af drullu og við sjálfir erum drullugir frá toppi til táar.




Nú hefst einn allsherjar þvottur á hjólum sem og mönnum, sem og svona smá viðgerðir á einu hjólinu, skipt um öryggi og svo auðvitað athugað með stöðu á olíu, nema á eina hjólinu. Meðan við erum að klára þvott og viðgerðir, þá sjáum við tvo einstaklinga á reiðhjólum. Þeir líta út eins og geimverur, þau eru þakin einhverri brúnni húð, en það sést aðeins í augu og munn, ja allavega þegar þau opna munn. Við sjáum og heyrum að annar reiðhjólamannanna er grátandi og það kemur í ljós að þetta er kvenmaður. Við eins allir alvöru karlmenn myndu gera bjóðum fram aðstoð okkar, við smúlum hjólin þeirra og skolum af þessu pari drulluna og gráturinn minnkar og minnkar. Við spyrjum parið hvað sé að, konan stynur upp að hún telji alla íslenska ökumenn brjálaða, þeir taki ekki tillit til reiðhjólamanna, bara aki fram hjá þeim á ógnarhraða. Þau segjast vera hjóla hringinn og hafi komið með Norrænu, hjólað suður um og eigi nú ekki langt eftir. En konan segir: Nei þessu er lokið, ég hjóla ekki meira á þessu landi, með ónýta vegi og brjálaða ökumenn, við tökum rútuna að Norrænu segir hún. Þeim hafði verið sagt í Hollandi, þ.e. heimalandi sínu að Ísland væri besta land í heimi að hjóla á !!
Við kveðjum Mývatn sem og nýja vini, nú liggur fyrir að hjóla um algjör öræfi, engin byggð, aðeins eins bensínstöð og ekkert nema auðn. En við höldum ótrauðir áfram í rigningunni á okkar frábæru malarvegum. Nú hefur myndatökumaðurinn fest myndavélina á hjólið að aftan og ætlar að ná öðruvísi sýn á okkar ferðalag. En eins og öllum mótorhjólum frá þessu framleiðslulandi nema kannski HD, þá skelfur myndavélin svo mikið að við erum allir í þrívídd sem og allt umhverfi okkar. Hann tekur upp fyrri iðju og notar hendur sýnar, stundum aðra en mjög oft báðar hendur, hjólið virðist rata sína leið. Við stöðvum næst á síðustu bensínstöðinni þarna í óbyggðinni og það er bætt á bensíni og olía athuguð að sjálfsögðu.
Enn rignir og menn eru orðnir hálf vondaufir um að það stytti upp í þessari ferð, en við erum karlmenn og látum ekki smá bleytu hafa áhrif á okkur. Höldum ótrauðir áfram með smá hvíldar og viðgerðarhléum, ja sko eitt hjólið er með rafkerfi frá framleiðanda sem fann upp myrkrið segir sagan. Nú svo eru smá sprengingar og skot frá einu hjólinu, skýringin á því er örugglega að hjólið er með einum strokk meira en eðlilegt getur talist á hjóli sem kemur frá þessu framleiðslulandi og þar með þrír blöndungar frá fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í því að gera hjól illa gangfær. Þegar hér er komið við sögu þá er búið að uppnefna nær alla í hópnum. Sá tímalausi er kenndur við mexíkóska teiknimyndarfígúru, sá sem ekur hjólinu frá hinu landinu er kenndur við fugl, sprengju og hik hjólaeigandinn er nefndur eftir sprengju og rithöfundur er nefndur eftir dýrategund sem spangólar við fullt tungl. Við flestir skiljum ekkert í þessum uppnefningum og þá sérstaklega sá tímalausi.
Við sjáum áfangastað og hvað er að gerast það virðist ekki rigna þarna, það skín í sól á litlum blett yfir mótstað í fjarska. Við stefnum á flugvöll einn sem er í nágrenni við mótstað, en við höfðum ákveðið að senda hluta af búnaði okkar með flugi, svona til að létta undir með hjólum okkar, enda voru þau komin á miðjan aldur. Þarna ákveður sögumaður að gefa skít í allt sem heitir tjöld og tjaldveru, hann er blautur og kaldur, vill komast í bað og sofa í þurru rúmi. Hann tekur upp símann og hringir á hótel Eddu sem er aðeins nokkra metra frá mótstað, spyr um gistingu og jú það er til eitt sex manna herbergi fyrir svefnpokapláss.



Ég fæ verð og segi í símann ja allavega einn sem ætlar að gista og horfi á félaga mína og segi: Hvað viljið þið, þeir horfa á hvorn annan og svona tuða um kostnað og kerlingar sem þoli ekki smá rigningu og eitthvað fleira gáfulegt. En þeir gefa eftir og segja: Jæja ókey í þetta sinn. En ég fæ upplýsingar að við gætum fengið inn til okkar ókunnugan mann eða konu. Maður hugsar sá myndi ekki endast nóttina. Mætum á hótelið eftir að hafa skoðað mótsvæðið og rætt við nokkra hjólafélaga. Síðan tók við sturta og gufubað með einum köldum. Félagar mínir eru búnir að gleyma öllum tjaldferðum og dásama þessa hugmynd mína. Nú tekur við undirbúningur fyrir mótið og menn spyrja undirbúningur ? Já á þessum tíma voru þessi mót fyrir mótorhjólamenn á mótorhjólum sem kunnu að taka á því, engir tjaldvagnar eða húsbílar. Nei bara súpa og einn öl (í einu) og gleði og gaman.
Þessi mót eru að öðru leiti öll eins, skemmtanir, reynslupróf á getu manna í drykkju, aka hægt, hverjir eru sterkastir í reiptogi o.fl. o.fl. Það eru góðir skemmtikraftar, hljómsveitir og menn skemmta hvor öðrum á ýmsan máta. Þarna er nóg af hjólum til að skoða, hitta félaga og nýja vini, bulla um hjól, hvað best, hvað fer hraðast, hvaða er flottast og annað skemmtilegt. Menn eru þarna í allskonar ástandi, en þó þeir séu með gips á ýmsu stöðum, gangi um með hækjur með rækjur, þá stöðvar þá ekkert í að skemmta sér og öðrum. Menn hitta nýja vini, verða ástfangnir í tíu mínútur og allt sem fylgir þessum mótum, það er útilokað að láta sér leiðast. Dagarnir þarna líða hratt og vel, hver mínúta er notuð, ja allavega flestir, en sumir þurfa sofa meir en aðrir, svo er heilsa manna auðvitað misjöfn að morgni, en það tekur nú ekki langan tíma að laga það. Menn læra ýmislegt þarna t.d. hvernig á að nota klósettpappír til fullnustu. Ekki má gleyma að pissa á bungu og svo þá skemmtilegu aðferð við þá sem láta illa þ.e. að bara líma þá með límbandi við næsta staur. Við heyrum ýmis orðatiltæki t.d. að hjólamenn skoða steininn. En þessa daga mótsins skein sól í heiði og ekki dropi úr lofti.
Mótinu er lokið og nú skal ekið í næsta fjörð og gista þar eina nótt. Það er hefur örugglega verið fróðleg sýn að sjá félagana fjóra, já einn fór á undan okkur því konunni hans var farið að leiðast svo hann hjólaði einn suðurlandið til síns heima. En aftur að okkur fjórum já það hefur örugglega verið fróðlegt að fylgjast með okkur fjórum aka þessa í raun stuttu leið á áfangastað, því heilsufarið var svona svona, hjólum var ekki hallað í gegnum beygjur nei, þeim var stýrt eins og blikkbeljum og það var farið hægt yfir. Við komum á áfangastað og þarna fengum við lítið einbýlishús fyrir okkur. Nú var bara drukkið gos og eitthvað borðað, en ekki mikið. Menn sváfu hálf illa því engin "svefnmeðöl" voru með í för þarna. Nei nú var alvaran tekin við og langt ferðalag fyrir höndum á möl að mestu leiti.
Næsta morgun leggjum við þrír í hann, en einn okkar varð eftir og ætlaði að dvelja þarna í einhverja daga. Við erum aðeins hressari, en helvítis andskotans rigningin er mætt aftur og að auki blæs hann nokkuð. En það þíðir ekkert að væla við leggjum í hann. Ferðalagið gengur ágætlega með smá stoppum til að tékka á olíu og svona smá yfirferð á okkar græjum. Rétt vestan við Hornafjörð þá taka við vegaframkvæmdir sem ætla aldrei að taka enda. Þetta er góð reynsla í utanvegaakstri á götuhjólum. Það kemur einn og einn góður kafli, sá sem ekur margstrokka hjólinu er fremstur svo ég og sá tímalausi rekur lestina.



Það rignir og það er rok, við erum bara með eitt í huga ljúka þessu og þá sem fyrst. Nú kemur smá góður kafli og það er aðeins bætt við hraðan, það er ekið yfir brú en handan hennar taka við nýloknum vegaframkvæmdum, aðallega úr sandi. Ég sé að félagi minn hefur ekki tekið eftir þessu fyrr en of seint, engar merkingar og engin viðvörun. Hann gerir sitt besta til að halda hjólinu á réttum kili, en svo finnur hann að þetta er búið, hann muni falla. En hvað gera menn sem þykir vænt um hjólið sitt og ætla líka að klára túrinn, þeir bjarga hjólinu og leggjast bara undir það. Hjólið sleppur að mestu en rifbein þola illa svona meðferð, en minn maður talar ekkert um það fyrr en nokkrum dögum síðar.
Það rignir svo mikið og rokið er það hressilegt að þetta er eins og að vera í háþrýstiþvotti. Við sjáum ekki mikið allir með lokaða hjálma og þeir móðast stundum. Við stöðvum í Vík og reynum RainX, en eins og allir vita þá virkar það ekki nema skamma stund á plasti. Einhvern veginn náum við á Selfoss, blautir og hraktir, smá bensín og olíutékk, síðan skal þetta tekið í einum rykk. Heiðin bíður okkur velkomna með svartaþoku og rigningarúða, hvað höfum við gert almættinu spyr maður sjálfan sig. En brátt sjáum við ljósin í "stórborginni" það bíður okkar heitt bað og eitthvað að borða, ja allavega vonar maður það. Það er nú algjör lágmark eftir svona stórferðalag er það ekki. Við kveðjum hvorn annan og þessu ferðalagi er lokið og þá þegar á þeirri stundu erum við búnir að gleyma vosbúðinni og vegakerfinu. Nei það sem stendur eftir er frábært ferðalag á alvöru mótorhjólum með góðum félögum, minningin mun lifa með okkur til síðasta ferðalagsins.
Skráð af ferðalang nr. 5
p.s. söguhetjur voru: Haukur Richardsson, Torfi R. Hjálmarsson, Þröstur Víðisson, Pétur Andersen og Ólafur R. Magnússon