Mótorhjólaheimurinn

6.2.20

Mótorhjólasýning í Vor



Sýning á mótorhjólum haldin í vor

Þann 1.-2. maí næstkomandi verður stór mótorhjólasýning haldin í Laugardalshöll. Það eru Sniglarnir og Mótorhjólasafn Íslands sem standa að sýningunni í sameiningu. Mótorhjól í fortíð, nútíð og framtíð, er yfirskrift sýningarinnar.
Mótorhjól eru hlutir sem flestum þykir gaman að skoða og dást að. Talsvert hefur verið flutt inn af hjólum undanfarin ár og mikið gert upp af gömlum hjólum af hagleiksmönnum víða um land. „Okkur fannst orðið tímabært að halda stóra sýningu, en engin mótorhjólasýning hefur verið haldin síðan 2010,“ segir Steinmar Gunnarsson, formaður Snigla, um tilurð sýningarinnar. Að sögn Steinmars er hugmyndin með sýningunni að vekja athygli á öllum vélknúnum, tvíhjóla ökutækjum, hvort sem þau eru bensínknúin eða raf knúin. „Þarna munum við geta séð mótorhjólasöguna á Íslandi og jafnvel skyggnst inn í framtíðina líka. Þarna er líka hugmyndin að bjóða innflytjendum rafhjóla og mótorhjóla að vera með og að þeir aðilar taki virkan þátt. Það hefur orðið sprenging í breytingum á mótorhjólum líka, í svokallaða Kaffireisera og Scramblera og það viljum við að sjálfsögðu sýna líka,“ sagði Steimnar.
Búast má við allt að 200 hjólum á sýningunni af öllum stærðum og gerðum. „Við vonumst að sjálfsögðu til að sjá sem flesta svo að við getum haldið áfram að byggja upp Mótorhjólasafnið. Við viljum alls ekki missa gömul mótorhjól úr landi eins og hefur gerst með marga gamla bíla,“ segir Tómas Ingi. „Mótorhjólasafnið á Akureyri er sjálfseignarstofnun í eigu mótorhjólasamfélagsins og þjóðarinnar allrar og við eigum að viðhalda sögunni á meðan við getum.“ Eins og áður sagði verður sýningin haldin 1. maí, samhliða árlegri hópkeyrslu Bifhjólasamtaka Lýðveldisins. Mun sérstakt mótorhjólablað því fylgja Fréttablaðinu daginn áður þar sem nánar verður fjallað um það sem fyrir augu ber.
Njáll Gunnlaugsson
Fréttablaðið
6.febrúar 2020