Mótorhjólaheimurinn

6.1.20

Fengu að kynnast öllum hliðum Rússlands í mótorhjólaferð

Rætt við frændurna Unnar og Jón sem ferðuðust um Rússland í sumar

Síðastliðið sumar fóru frændurnir Unnar Bjartmarsson og Jón Helgason saman í mótorhjólaferð um Rússland. Þeir óku í fylgd með túlki og leiðsögumanni sem leiddi þá þúsund kílómetra um Úralfjöll á ekta rússneskum Úral-hjólum. Þar hittu þeir innfædda Rússa og fengu að kynnast þeirra lífi og aðstæðum um leið og þeir skoðuðu landið, heimsóttu söfn og fóru á mótorhjólamót. Blaðamaður Skessuhorns hitti frændurna Unnar og Jón á heimili Unnars á Kleppjárnsreykjum snemma föstudagsmorguns í lok nóvember og fékk að heyra allt um ferðina til Rússlands.

Meðfæddur áhugi á mótorhjólum

 Aðdraganda ferðarinnar má rekja 31 ár aftur í tímann þegar Jón var á leiðinni upp í Borgarfjörð frá Reykjavík. Hann tók mótorhjólið með sér í Akraborgina upp á Akranes þaðan sem hann ætlaði að hjóla upp í Hálsasveit. Hann hafði ekki sofið mikið nóttina áður og sofnaði því á leiðinni og var vakinn af háseta þegar nær allir voru farnir úr skipinu. „Hann spurði mig hvort ég ætti ekki mótorhjólið niðri í lest. Ég rauk á fætur og niður í lest að sækja hjólið. En ég var að drífa mig aðeins of mikið og næ á einhvern ótrúlegan hátt að missa lyklana ofan í tankinn á hjólinu. En þarna voru góðir menn sem hjálpuðu mér að hvolfa hjólinu og ná lyklunum út. Ég brunaði beint upp í Hálsasveit og næ í Unnar, sem var bara 12 ára gutti á þessum tíma, og tek hann með mér á rúntinn. Þetta var fyrsta ferðin okkar saman á hjóli,“ rifjar Jón upp. „En ferðirnar síðan hafa orðið ansi margar síðan,“ bætir Unnar við. Upp frá þessu hafa mótorhjól verið sameiginlegt áhugamál  þeirra frænda.

Byrjaði sem grín

Fyrir fimm árum var Jón á ferðinni á mótorhjóli um Ameríku og þar kviknaði hugmynd um að fara á fimm ára fresti í framandi mótorhjólaferð. Þegar heim var komið nefndi hann þessa hugmynd við Unnar og grínuðust þeir með að fara til Rússlands. Eftir því sem Unnar hugsaði meira um Rússlandsferð hætti grínið að vera grín og færðist yfir í alvöru. „Hann fór að impra á þessu við mig nokkru síðar og við ákváðum að skoða þetta aðeins og byrjuðum að leita á Facebook,“ segir Jón. Þar fundu þeir ferðaskrifstofu í Rússlandi sem býður upp á alls konar ferðir um landið, þar á meðal mótorhjólaferðir. „En við treystum ekki einhverri síðu á netinu og vorum eiginlega vissir um að þetta væri eitthvað plat til að ná peningum af fólki. Ég var svo á leiðinni frá
Keflavík að Mið-Fossum að skoða graðhest og tók upp par sem var á leiðinni á puttanum á Akranes til að gifta sig. Strákurinn var pólskur og íslenskur en stelpan frá Rússlandi. Ég rétti henni símann og spyr út í þessa ferðaskrifstofu, hvort þetta væri í alvöru eða bara plat. Hún skoðaði þetta smávegis og sagði svo að þetta væri mjög öruggt fyrirtæki. „Ef skrifstofan er skráð á rússneska já.is er það öruggt,“ sagði hún. Við ákváðum því að hafa samband og þá varð ekkert aftur snúið,“ segir Jón. Þá þurfti að ákveða tíma og var  niðurstaðan að fara í lok júlí. „Við vildum að sjálfsögðu fara á Úral-hjólum í Úralfjöll og ákváðum að fara á þessum tíma svo við gætum náð stóru mótorhjólamóti í leiðinni,“ útskýrir Unnar.

Smá sjokk þegar járnhliðið lokaðist 

Unnar og Jón fóru til Rússlands í lok júlí þar sem starfsmaður ferðaskrifstofunnar tók á móti þeim og fylgdi um landið næstu níu daga. „Ef á að fara til Rússlands þarf maður boð frá innfæddum. Við fengum boð frá ferðaskrifstofunni og báru starfsmenn hennar því eiginlega ábyrgð á okkur þennan tíma. Þetta var frábær ferðaskrifstofa og við fengum alveg úrvals leiðsögumann og túlk með okkur og við mælum hiklaust með þeim,“ segir Unnar og Jón bætir því við að einu skiptin sem þeir voru einir í Rússlandi var í raun þegar þeir voru á flugvellinum. „Þar var líka  eina skiptið sem maður fann fyrir óöryggi og jafnvel smá sjokki. Þegar við vorum komnir í gegnum tollhliðið og búnir að fá stimpil í passann heyrðust rosaleg læti og húsið nötraði þegar risastóru járnhliði var slakað niður úr loftinu. Við vorum þarna í rými með um 15-20 tollahliðum og það var allt opið og maður sá vel yfir.
Svo lokaðist þetta hlið. Við litum hvor á annan og það var ekki laust við því að við værum stressaðir.
Þarna var þetta alræmda járnhlið,“ segir Jón og hlær. Þeir komust þó inn í landið án vandræða og segjast ekki hafa upplifað óöryggi eða hræðslu það sem eftir lifði ferðarinnar. „Það gekk allt smurt,  öll samskipti voru góð og við lentum aldrei í neinum leiðindum. Með okkur í för var líka þessi frábæri túlkur sem sagði okkur sögur og annað um Rússland,“ segir Unnar og bætir því við að túlkurinn hafi gert þessa ferð að mun ríkulegri en einfaldri mótorhjólaferð. „Þetta varð í raun líka menningarferð.“

Bjór er matur 

Í ferð þeirra frænda var allt innifalið og sögðu þeir það hafa komið verulega á óvart hversu vel var hugsað um þá. „Maður hafði svona hugmynd í kollinum um Rússland  og við bjuggumst við því að það myndi alls konar kostnaður leggjast á okkur í ferðinni sjálfri. Það var alls ekki svoleiðis, ég held að við höfum tekið veskið upp tvisvar alla ferðina en það var allt innifalið nema áfengi,“ segir Unnar. „Bjór var samt ekki áfengi,“ bætir Jón þá við og þeir hlæja og segja frá því að bjór hafi þarna ytra verið skilgreindur sem matur. „Við ætluðum að kaupa okkur bjór og þegar ég tók upp veskið var okkur sagt að þetta væri innifalið. Við spurðum hvort áfengi væri líka innifalið og þá hlógu Rússarnir bara og sögðu; „bjór er ekki áfengi, bjór er bara matur“,“ segir Jón.

Ekki sýnt allt

Á ferð sinni komu þeir víða við og sáu ýmislegt sem situr nú eftir og þá helst hvernig viðhorf Rússa er til lífsins. „Það eru svo margir í Rússlandi sem búa við svo slæmar aðstæður að líf þeirra snýst í raun einungis um að vinna og halda sér á lífi. Þeir eru ekkert að hugsa mikið um lífsgæði eða slíkt, enda ekki möguleiki á miklum lífsgæðum,“ segir Unnar. „Margir af þeim sem við hittum reyktu og drukku mikið og sögðust gera það því það væri engin ástæða til að gera það ekki. Þeir búast allir við því að fá krabbamein og deyja ungir hvort sem þeir reykja eða ekki,“ bætir hann við. „Þarna búa margir við bág kjör og þurfa að vinna við aðstæður sem ógna heilsu þeirra, eins og störf við námugröft. Það virðist líka hið eðlilegasta mál fyrir þá að eiga á hættu að missa útlim í vinnunni. Fólk fer bara alla daga í vinnuna vitandi að það gæti ógnað heilsu þess og útlimum, en neyðin er bara yfirsterkari,“ segir Jón. „Okkur grunaði samt að fátæktin væri meiri en það sem við sáum. Ég held að okkur hafi ekki verið sýnt allt,“ segir Unnar.

Ekki sterk matarmenning 

Aðspurðir hvort Rússarnir hafi ekki verið duglegir að gefa þeim eitthvað þjóðlegt og spennandi að borða neita þeir því og segja að viðhorf þeirra Rússa sem þeir hittu til matar sé mjög ólíkt okkar viðhorfum. „Við upplifðum enga sérstaka matarmenningu. Þeir borða bara til að lifa, ekki til að njóta. Þeim er alveg sama hvað þeir eru að borða svo lengi sem það er ekki alveg óætt,“ svarar Unnar. Maturinn var að þeirra sögn fremur bragðdaufur og lítið spennandi en þó alveg ætur. „Við gátum alveg borðað það sem var í boði. Skortur á matarmenningu hafði lítil áhrif á okkur, kaffimenningin, eða skortur á henni, hafði aftur á móti mun meiri áhrif,“ segir Jón og hlær. Þeir segja það hafa verið mjög erfitt að fá drekkanlegt kaffi í Rússlandi og að te hafi mun frekar verið á boðstólnum. „Ég keypti eitthvað instant kaffi í búð og hafði það með mér hvert sem ég fór og þá gat ég bara beðið um soðið vatn og búið til mitt eigið kaffi,“ segir Jón. Þeir eru þó sammála um að teið sem þeir drukku í Rússlandi hafi verið gott.

Urðu mjög meðvitaðir um fátæktina

Aðspurðir hvort þeir hafi lent í einhverjum sérstökum aðstæðum, horfa þeir hvor á annan og skella upp úr: „Salernisaðstaðan,“ segir Unnar og fær augljóslega smávegis hroll. „Við komum alveg á staði þar sem klósettin voru bara hola ofan í jörðina og það var frekar ógeðslegt,“ bætir hann við. Þá rifja þeir upp að á einum stað í ferðinni, þar sem þeir komu að svona klósetti, hafi verið lind rétt neðar við klósettin þar sem fólk baðaði sig. „Þetta var einhver heilög lind,“ segir Jón. „En klósettið þarna var bakvið svona timburvegg með voðalega fínni hvítri hurð en það var samt bara einn veggur. Það var líka hægt að ganga framhjá veggnum og þá var maður kominn inn á þetta salerni,“ bætir Jón við og hlær. Þeir segja þó að það hafi aldrei komið neitt menningarsjokk í ferð þeirra eða neinar sérstakar aðstæður sem standa öðru upp úr. „Að upplifa fátæktina var í raun það mesta sem við upplifðum og kalla mætti menningarsjokk. Það sem okkur þótti rosalega ódýrt var kannski eitthvað sem hinn almenni Rússi hefur aldrei efni á. Eins og aðgangur að mótorhjólamótinu sem við fórum á. Túlkurinn okkar lét okkur fá aðgangsarmböndin og sagði okkur að passa þau rosalega vel því þetta væri svo dýrt. Þetta kostaði um átta til níu þúsund krónur. Fyrir okkur er það ekki mikið fyrir svona helgi en fyrir þá er þetta kannski bara 10% af mánaðarlaunum,“ segir Unnar. „Svo var hægt að fá góðan vodka á svona 200 krónur en margir Rússar drukku frekar spíra úr apóteki því 200 krónur er of mikill peningur hjá innfæddum,“ bætir Jón við.

Sumir eiga fleiri peninga en þeir geta notað

 Í Rússlandi upplifðu þeir frændur einnig hvernig þeir allra ríkustu lifa og einn daginn hittu þeir dreng á þrítugsaldri sem virtist eiga meiri peninga en hann gæti eytt. „Við hittum hann þarna einn daginn og
hann vildi endilega fá okkur í heimsókn aftur þremur dögum seinna. Hann taldi á fingrunum og sagði:
„Monday, Tuesday, third day. You come on third day.“ Við ákváðum að heimsækja hann aftur og bjuggumst bara við smá heimsókn. Við höfðum bara aldrei upplifað neitt þessu líkt,“ segir Jón. Í heimsókninni hjá ríka Rússanum gistu þeir á lúxushóteli þar sem þeir höfðu aðgang að fyrsta flokks heilsulind. „Hann hafði skipulagt rosalega safaríferð á ekta rússneskum jeppa. Þetta var rosaleg ferð og svo um kvöldið fengum við góðan mat og um nóttina fórum við í gufubað,“ segir Jón og Unnar
bætir þá við að þetta hafi verið mjög sérstök reynsla. „Já, gufubaðið um nóttina var rosalega spes,“ segir Jón og hlær. Þessi góði gestgjafi gerðist vinur þeirra á Facebook og hefur verið í stöðugu sambandi við þá síðan. „Hann er alltaf að senda okkur skilaboð og segist ætla að koma í heimsókn,“ segir Unnar. „Hann vill líka koma með mér á sjó í tvo daga. Ég er alltaf að reyna að útskýra fyrir honum að ég er sjómaður á togara og maður fer ekkert á togara í tvo daga. Nema hann sé rosalega vel
syndur,“ bætir Jón við og hlær.

Sáu einstaka bíla á safni

 Á ferðalaginu fóru þeir Unnar og Jón á ýmis söfn enda eru þeir miklir tækjadellumenn. Flest þessara safna hafi muni frá hernum, svo sem skriðdreka, vopn og annan búnað. „Við höfðum ekki mikinn áhuga á því en þegar við sáum gömul búnaðartæki, bíla og mótorhjól þá urðum við ánægðir,“ segir Unnar og hlær. Síðasta daginn í Rússlandi fóru þeir á herminjasafn sem er í einkaeigu. Eins og á hinum söfnunum skoðuðu þeir ýmsa muni frá hernum en þar var einnig nýleg fjögurra hæða bygging, þrjár hæðir með bílum og ein hæð með kappakstursbílum og mótorhjólum. „Á jarðhæðinni var að finna gamla alþjóðabíla frá síðustu öld. Eftir því sem maður fór ofar urðu bílarnir nýrri en svo á fjórðu og efstu hæð komum við að himnaríki! Þar var fullt af mótorhjólum. Bara að fara í helgarferð að skoða þetta safn er næg ástæða til að fljúga til Rússlands,“ segir Jón. „Þarna voru líka bílar sem eru svo sjaldgæfir að maður sér þá hvergi annars staðar. Sumir bílarnir voru kannski bara búnir til í tíu eintökum eða fimmtíu eða eitthvað svoleiðis. Það virðist engu máli skipta hvað þeir kosta, þarna eru fullt af svona bílum,“ segir Unnar. „Eigandinn er bara einhver maður sem á koparnámu og er moldríkur,“ bætir hann við.

Asía – Evrópa – Ameríka 

Allan tímann í Rússlandi óku þeir Unnar og Jón á flekaskilum Asíu og Evrópu. Þegar heim var komið ákváðu þeir að taka rúnt að flekaskilunum Evrópu og Ameríku. „Við byrjuðum daginn í Asíu og keyrðum á hjólum yfir til Evrópu þaðan sem við flugum svo heim til Íslands.
Að sjálfsögðu fórum við á hjólum í Leifsstöð og fannst okkur því upplagt að fara á þeim yfir  flekaskilin til Ameríku. Við keyrðum því á mótorhjólum frá Asíu, til Evrópu og að lokum yfir til Ameríku,“ segir Unnar og hlær. „Reyndar ekki á sömu hjólunum en það skiptir ekki öllu,“
bætir hann við. Aðspurðir hvort þeir séu farnir að skipuleggja næstu ferð sem á að fara í eftir fimm ár segja þeir það næst á dagskrá. „Við erum einmitt að fara á rjúpu núna á eftir og þá verður farið í að skipuleggja næstu ferð en við stefnum á að skoða Royal Enfield hjólaverksmiðjuna á Indlandi næst,“ segir Jón. „Og Himalaya fjöllin,“ bætir Unnar við áður en við kveðjum. Þeir frændur eru greinilega farnir að skipuleggja næstu ferð og við stefnum á að segja frá henni í Skessuhorni eftir fimm ár, eða svo.
Skessuhorn 19.12.2018
arg

 Tímarit.is