Mótorhjólaheimurinn

3.9.19

Lexmoto mótorhjól.

Skarkali með Lexmoto mótorhjól


Vefverslunin Skarkali.is, sem hefur hingað til sérhæft sig í sölu á Spada-mótorhjólafatnaði, fékk nýverið umboð fyrir sölu á Lexmoto-mótorhjólum á Íslandi. Lexmoto-mótorhjólin eru framleidd í Kína fyrir breska fyrirtækið Llexiter ltd. Fyrirtækið. hefur selt kínversk mótorhjól frá árinu 1997, og því eignast trausta tengiliði hjá kínverskum mótorhjólaframleiðendum. Árið 2009 ákvað Llexiter ltd. að nýta þessi sambönd og láta framleiða fyrir sig mótorhjól undir eigin nafni. Lexmoto hafa verið með söluhæstu hjólum í Bretlandi undanfarin ár, enda búin að geta sér gott orð fyrir áreiðanleika og lágt verð. Einnig hefur Lexmoto unnið til verðlauna í Bretlandi og þar á meðal tvö ár í röð Motocycle franchise of the year, 2018 og 2019.

Yfirbygging í lágmarki 


Lexmoto-hjólin hafa flest 125cc rúmtak og eru A1 ökuprófsskyld, sem er ódýrasta bifhjólaprófið og hægt að eignast frá 17 ára aldri. Þrátt fyrir lítið rúmtak eru þau spræk af stað og geta náð 100-110 km hraða. Þau henta því vel á öllum vegum landsins þar sem einungis er 90 km hámarkshraði á Íslandi. Einnig verða fáanlegar nokkrar 50cc skutlur og skellinöðrur á hagstæðu verði. Öll hjólin koma með tveggja ára ábyrgð. Vefverslunin var opnuð í janúar síðastliðnum en fram til þessa hefur Skarkali selt Spada mótorhjólafatnað. Markmið Skarkala er að halda yfirbyggingu í algjöru lágmarki. Þannig getur verslunin boðið vörur á sérlega hagstæðu verði.