Mótorhjólaheimurinn

5.5.18

Skutlur hjóla saman

Íris Sigurðardóttir Formaður Skutla

Kvenhjólaklúbburinn Skutlur samanstendur af fríðum flokki kvenna með ástríðu fyrir mótorhjólum
og ferðalögum. Þær hvetja allar hjólakonur til að taka þátt í alþjóðlega kvenhjóladeginum 5. maí.

Ég hef haft áhuga á mótorhjólum frá því ég man eftir mér og sem krakki heima í Eyjum horfði ég öfundaraugum á strákana á skellinöðrunum,“ segir mótorhjólaskutlan Íris Sigurðardóttir sem er formaður kvenhjólaklúbbsins Skutlur. Íris eignaðist sitt fyrsta hjól síðla árs 2005.
„Það var Honda Rebel 250 cc. Þá var ég ekkert að spá í þessi cc og vissi ekki hversu lítill mótorinn
var, en þetta þótti víst fínt byrjendahjól. Ég hjólaði einn rúnt um Hafnarfjörð en næsti rúntur var í Hondu-umboðið þar sem ég keypti mér nýja Hondu Shadow 750 cc og hjólaði á henni í eitt ár.  Sumarið 2007 keypti ég svo hjólið sem ég er enn á en það er Yamaha Roadstar Warrior, 1700 cc.“

Eins og adrenalínsprauta


Íris mælir með mótorhjólasportinu fyrir hvern sem er. „Það er kannski erfitt að lýsa tilfinningunni að vera á mótorhjóli en mér líður eins og ég hafi fengið adrenalínsprautu eftir góðan hjólatúr og það er besta geðlyfið, segja sumir,“ segir Íris og brosir. „Frelsið er algjört, spennan og góður  félagsskapurinn, en ég hef kynnst ógrynni af fólki í gegnum þetta sport og mikið af vinum okkar hjóna er hjólafólk. Þá upplifir maður náttúruna á allt annan hátt á hjóli en þegar maður situr í bíl. Maður fær rigningu og rok beint í fangið, og inn um vitin berst alls konar lykt, sum góð og önnur ekki, en það er hluti af þessu,“ segir Íris sem elskar að keyra mótorhjólið sitt í austfirskum og vestfirskum beygjum.
„Ókostir við mótorhjólasportið er að geta bara hjólað í takmarkaðan tíma úr árinu. Svo eru vegirnir okkar hættulegir á sumum svæðum, þar sem komnar eru miklar rákir í malbikið og eins þessar bætingar á malbikinu. Svo má ekki gleyma ferðamönnunum sem stoppa hingað og þangað úti í vegarkanti. Því þarf víða að fara mjög varlega.“ Konur á breiðum aldri og úr öllum stigum þjóðfélagsins keyra um á mótorhjólum.
„Konur sækjast eftir því sama og karlar þegar kemur að mótorhjóla sportinu en þær eru varkárar að
eðlisfari og hjóla því sumpart öðruvísi. Það má svo segja að þurfi til hálfgerða bilun að stunda þetta
sport á Íslandi og á ferðum okkar um landið höfum við lent í öllum veðrum og aðstæðum. Eitt skiptið
fengum við lögreglufylgd vegna ofsaveðurs en þá hafði lögreglan frétt af okkur á ferðinni og þótti
öruggast að fylgja okkur í náttstað. Við höfðum þá pantað gistingu í Bjarkarlundi en komumst ekki
lengra en að Laugum í Sælingsdal. Í annarri ferð óðu hjólin stórgrýti og drullu vegna vegaframkvæmda, en alltaf hefur þetta gengið stóráfallalaust fyrir sig,“ segir Íris.

Alþjóðlegur kvenhjóladagur
Það var Ásthildur Einarsdóttir sem stofnaði Skutlur haustið 2005. „Ásthildi fannst vanta félagsskap
kvenna á mótorhjólum og kallaði eftir mótorhjólakonum á Ingólfstorg þar sem þrettán konur mættu á
stofnfundinn, en aðeins ein úr upprunalega hópnum er eftir,“ útskýrir Íris sem verðið hefur formaður frá árinu 2007. „Félagsmenn eru nú fimmtán talsins og hittast alla þriðjudaga árið um kring. Á sumrin hjólum við en á veturna förum við í keilu, bíó og bogfimi, og höfum fengið til okkar kennarar í zumba, sjálfsvarnaríþróttum og myndlist. Þetta er algjörlega frábær hópur, samheldinn, fjölbreyttur, fjörugur og líflegur, og gefur alveg ótrúlega mikið af sér.“ Skutlur fóru í hjólaferð til Evrópu sumarið 2016 og voru þar 22 með mökum.
„Við sendum hjólin út með gámi og sóttum þau í Rotterdam. Í þeirri mögnuðu ferð fórum við til sex
landa á tíu dögum og fengum sól og gott veður mestallan tímann. Það var ótrúlega mikill munur að hjóla á svo flottum vegum og þurfa ekki að dúða sig fyrir kulda,“ segir Íris, sællar minningar.
Á laugardaginn eftir viku, þann 5. maí, er alþjóðlegi kvenhjóladagurinn. „Það var Vicki Gray sem kom þessum degi af stað árið 2006 til að vekja athygli á stækkandi hópi kvenna á mótorhjólum. Við höfum haldið upp á hann hér á landi frá árinu 2011 og ætlum að hittast næsta laugardag á Korputorgi
klukkan 11.45. Þaðan leggjum við af stað klukkan 12 og hjólum sem leið liggur vestur  vesturlandsveg,  tökum slaufuna til hægri inn á Reykjanesbraut í suður, beygjum svo inn á Vífilsstaðaveg til hægri og þaðan inn á Hafnarfjarðarveg. Við hjólum svo sem leið liggur að
félagsheimili okkar í Auðbrekku þar sem við grillum pulsur og eigum saman góða stund,“ upplýsir
Íris og hvetur allar hjólakonur til að koma og taka þátt í alþjóðlega kvenhjóladeginum með Skutlunum.
„Félagsskapurinn í hjólaheiminum er frábær og mikið samneyti við aðra klúbba og félög. Þar ríkir
mikil samheldni og félagslíf með frábæru fólki. Ég hvet fólk hiklaust til að láta hjóladrauma sína rætast. Það mun enginn sjá eftir því,“ segir Íris, full tilhlökkunar

Til að gerast meðlimur í Skutlum
er nóg að láta sjá sig, kynnast
hópnum, hjóla saman og sjá hvort
fílingurinn sé á báða bóga. Sjá nánar
á Facebook undir Skutlur kvenhjólaklúbbur.
Þórdís Lilja Gunnarsdóttir
thordisg@frettabladid.is