Mótorhjólaheimurinn

29.4.17

Fer oftast varlega (2017)

Það er eitthvað við mótorhjól,
hljóðin, 
lyktina og
stemninguna í 
kringum þau
 sem heillar 
mig mikið.

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir veit ekkert betra en að ferðast um ókunn lönd á mótorhjólinu með óljóst ferðaplan og lítið annað en hengirúm í farangrinum.

Ég tók prófið í lok sumars 2014, og keypti svo hjól vorið 2015. Núna á ég hjól af gerðinni Honda Shadow, en það væri gaman að skipta því út og eignast annað í staðinn sem ég gæti jafnvel dundað mér við að breyta. Enn sem komið er hjóla ég mest á götunni, en stefni á að æfa mig í motocrossi til þess að geta síðan farið í ferðalög hvert sem er,“ segir Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, mótorhjólakappi með meiru.
Ásrún er stödd í Taílandi þar sem hún nýtur þess að ferðast um á mótorhjólinu og borða góðan mat. „Á ferð minni núna í Taílandi hef ég notið þess að prófa hin ýmsu mótorhjól og farið í nokkrar ferðir um landið. Það sem stendur upp úr er vikuferð um norðurhluta landsins á hjóli af  gerðinni Kawasaki Versys. Þetta er í annað sinn sem ég hjóla hér en við mamma komum hingað þar síðustu jól og hjóluðum aðeins,“ segir Ásrún. Þetta er þó fjarri því hennar fyrsta mótorhjólaferð. „

Ég hef hjólað bæði heima, farið hringinn og styttri ferðir. Fyrsta ferðin mín var hringferð um Ísland með stoppi á Eistnaflugi og hún var einstaklega lærdómsrík. Ég fórmeð góðum hópi og lærði margt.Það fór þó ekki betur en svo að ég datt á fyrsta degi, á brú yfir Jökulsá. Ég slasaðist sem betur fer ekki og komst í Neskaupstað. Þó var hjólið heldur laskað en með góðri aðstoð komst ég allan hringinn reynslunni ríkari. Eftir þessa ferð varð ekki aftur snúið. Síðasta sumar fór ég ein í tveggja mánaða mótorhjólaferð um Evrópu. Ég heimsótti tíu lönd og hjólaði um 8.000 kílómetra, gisti í hengirúminu mínu, klifraði og kynntist fullt af áhugaverðu fólki. Vegirnir úti voru unaðslegir, sérstaklega í Þýskalandi og Austurríki, en fjallvegirnir í Frakklandi voru  ævintýralegir. Það var dásamlegt að hafa ekkert skýrt plan, lítið af farangri, hjóla bara þangað sem mig lysti og hengja svo upp hengirúmið góða þegar ég varð þreytt.“
Spurð hvað heilli mest við mótorhjólin segist Ásrún upplifa umhverfið á allt annan hátt á mótorhjóli en innilokuð í bíl. „Það er ótrúleg frelsistilfinning að keyra mótorhjól, þú ert svo nálægt umhverfinu og upplifunin af því öllu er mjög sterk. Það er eitthvað við mótorhjól, hljóðin, lyktina og stemninguna í kringum þau sem heillar mig mikið. Svo hefur það mikið að segja hversu mörgum góðum vinum ég hef kynnst í gegnum þau,“ segir hún og vill ekki kannast við að gefa óhóflega í. „Ég fer oftast varlega.“
Áttu einhver önnur áhugamál en mótorhjól? „Ég klifra flesta daga, finnst gaman að elda og dansa og fer í sveitina við hvert tækifæri. Mér finnst fátt betra en góð útilega, helst undir berum  himni, ekki verra að geta sofið í hengirúminu en nota þó tjaldið mikið. Það er svo gaman að vera úti allan sólarhringinn, og allt bragðast betur eftir góða fjallgöngu.“
Ragnheiður Tryggvadóttir heida@365.is 
Fréttablaðið 29.4.2017