Mótorhjólaheimurinn

17.8.17

55 BMW mótorhjól um Vestfirðina


BMW mótorhjólaklúbburinn á Íslandi er félagsskapur fólks sem ekur um á BMW mótorhjólum.
Klúbburinn var stofnaður þann 14. júní 2007 og fagnaði því 10 ára afmæli á þessu ári. Haldin var vegleg afmælisgrillveisla á Þingvöllum í sumar þar sem klúbbmeðlimir ásamt fjölskyldum komu saman og héldu upp á árin tíu. Í klúbbnum eru rétt tæplega 100 félagar sem allir eiga það sameiginlegt að eiga BMW mótorhjól og hafa mikinn áhuga á ferðalögum á mótorhjólum.
BMW mótorhjól eru talin henta vel til ferðalaga og eru sniðin að þörfum ferðalangsins. Þess vegna hefur verið lögð rík áhersla á ferðamennsku innan BMW mótorhjólaklúbbsins.

Ætla að skoða helstu náttúrugersemar Vestfjarða 

Á vegum klúbbsins eru farnar nokkrar skipulagðar ferðir á ári hverju, bæði í formi dagsferða um landið en einnig lengri ferðir þar sem gist er í tjöldum eða á gistiheimilum. Einnig hafa verið skipulagðar nokkrar utanlandsferðir á vegum klúbbsins.
Á afmælisárinu vill svo skemmtilega til að um 25 félagar úr þýska BMW GS Club International ætla
að koma með hjólin sín til Íslands og ferðast um landið í 2 vikur. Þeir munu slást í för með íslenska BMW mótorhjólaklúbbnum í fjögurra daga ferð um Vestfirði þar sem skoðaðar verða helstu náttúrugersemar Vestfjarða, allt frá Látrabjargi og alla leið norður á Strandir þar sem endað verður á heljarinnar kjötsúpuveislu og bryggjuballi að hætti Strandamanna. Um 30 meðlimir íslenska BMW
klúbbsins hafa boðað þátttöku sína í ferðina svo að þessi ferð verður stærsta hópferð BMW mótorhjólaklúbbsins fyrr og síðar, eða um 55 hjól.

Fréttablaðið
17.8.2017