Mótorhjólaheimurinn

6.10.16

Leðurklæddir ljúflingar

 Pólskir mótorhjólakappar í Unknown Bikers láta gott af sér leiða.  Fluttu til Íslands til að vinna og segja gott að búa á Íslandi.


Félagar í mótorhjólaklúbbnum Unknown Bikers eru allir frá Póllandi og búsettir á Íslandi en segja það þó alls ekki skilyrði fyrir inngöngu í klúbbinn að vera pólskur að uppruna, heldur séu allir velkomnir.
 Í hópnum er mótorhjólafólk af Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, frá Akranesi, Ísafirði og víðar. Flestir hafa þeir ekið hringinn í kringum Ísland og sumir oftar en einu sinni. 
Blaðamaður Víkurfrétta hitti þá Arkadiusz Zarzycki, Tomasz Losiewicz, Damian Geriak, Wociech Julkiewicz og Marcin Dobrzynski á kaffihúsi á dögunum. Eins og mótorhjólaköppum er von og vísa voru þeir klæddir í leður frá toppi til táar og nokkrum kaffihúsagestum brá örlítið í brún við að sjá þá hópast inn á kaffihúsið.

Unknown Bikers mótorhjólaklúbbar eru starfræktir víða um heim en sá fyrsti var stofnaður í  Bandaríkjunum. „Við erum nú bara venjuleg fólk og keyrum saman, höldum partý og spjöllum,“ útskýrir Damien. Þeir hafa einnig látið gott af sér leiða og á dögunum gáfu þeir leikskólanum Hjallatúni bækur á pólsku til að nota við móðurmálskennslu barna af pólskum uppruna. Einn félagi þeirra úr klúbbnum er alvarlega veikur og hafa þeir stutt við bakið á honum og fjölskyldu hans.

Mun lægri laun í Póllandi

Allir fluttu félagarnir til Íslands vegna vinnu og hafa dvalið hér mis lengi. Þeir segja erfitt að fá góða, vel launaða vinnu í Póllandi og því hafi þeir ákveðið að flytja til Íslands með fjölskyldum sínum. „Í stórum bæjum og borgum í Póllandi er ástandið betra en á minni stöðum er þetta erfitt.
Pólland er öðruvísi og mikil skriffinnska og háir skattar sem fylgja því að ráða fólk til vinnu,“ segir Marcin. Arek bætir við að fyrir vinnu í eina klukkustund í Póllandi geti hann keypt þrjá lítra af bensíni en á Íslandi tíu lítra.
Þeir eru allir sammála um að hafa ekki aðeins flutt til Íslands til að vinna heldur líka til að njóta lífsins. Þeir sakna Póllands og fara þangað í heimsókn að minnsta kosti einu sinni á ári. Þeir eru sammála um að gott sé að búa á Íslandi og segja lítið mál að bindast þeim innfæddu vinarböndum.
Stundum hitta þeir félaga úr ýmsum öðrum mótorhjólaklúbbum. Pólland nýtur sífellt meiri vinsælda
sem áfangastaður íslenskra ferðamanna og stundum þegar félagar Unknown Bikers ferðast þangað eru fleiri Íslendingar um borð í flugvélunum en Pólverjar. Þeir leggja áherslu á að Pólland sé fallegt land þar sem margt er að skoða.

Hjóla um allt Ísland

Síðasta sumar fóru nokkrir meðlimir Unknown Bikers hringinn í kringum Ísland og óku þá 2430 kílómetra á einni viku. Eins og áður sagði býr einn meðlimanna á Ísafirði og kíktu þeir í
heimsókn til hans í leiðinni. Af uppáhalds stöðum á Íslandi nefna þeir Aldeyjarfoss, Barnafossa, Egilsstaði og Raufarhöfn. Þeir hafa allir átt mótorhjól síðan á unglingsárum. Marcin kom með sitt
hjól með sér með Norrænu þegar hann flutti til Íslands fyrir rúmlega þremur árum. „Það er svo gaman að vera á mótorhjóli, bara að hjóla eitthvert. Stundum á ég ekki bíl en ég á alltaf mótorhjól,“ segir hann. Arek á tvö mótorhjól á Íslandi og tvö í Póllandi. Þegar Wojtek seldi mótorhjólið sitt eitt sinn grét dóttir hans sig í svefn, svo ljóst er að mótorhjólin eru meira en bara farartæki hjá Unknown Bikers og þeirra nánustu.


Víkurfréttir 6.10.2016