Mótorhjólaheimurinn

1.9.16

Bifhjólaklúbbar Suðurnesja

MÓTORHJÓLAÁHUGI HEFUR MARGFALDAST

Öryggismál og grillaðar pulsur meðal fastra liða. Nærri eitt þúsund hjólskráð á Suðurnesjum


Mikil aukning hefur verið á bifhjólum á Suðurnesjum síðastliðin tíu ár. Árið 2015 voru 905 bifhjól skráð á Suðurnesjum samkvæmt Samgöngustofu en árið 1995 voru aðeins 102 bifhjól skráð. Bifhjólaklúbbar hafa myndast í kjölfarið þar sem einstaklingar sem eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á bifhjólum koma saman. Meðal bifhjólaklúbba á Suðurnesjum eru Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja, Grindjánar,Sons of Freedom og Lords & Ladies. Þann 27.apríl 2001 komu 46 áhugamenn um mótorhjól saman og stofnuðu Erni Bifhjólaklúbb Suðurnesja. Síðan þá hefur verið gefið út 405 félagsmerki og í dag eru rúmlega hundrað virkir meðlimir. Þó svo að klúbburinn hafi verið stofnaður árið 2001, þá á nafnið Ernir sem bifhjólaklúbbur sér lengri sögu. Á áttunda áratugnum stofnuðu nokkrir gagnfræðinemendur bifhjólaklúbb undir nafninu Ernir. Það mætti því segja að klúbburinn hafi verið endurvakinn árið 2001. Óskar Húnfjörð hefur verið formaður Arna síðastliðið ár og svaraði nokkrum spurningum. 

Hagsmunasamtök með öryggið í fyrirrúmi

„Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja eru hagsmunasamtök fyrir bifhjólafólk og leggur mikla áherslu á öryggismál. Klúbburinn er með forvarnardag einu sinni á ári þar sem lögreglan og Brunavarnir fara yfir öryggisreglur og ökuhæfni með félagsmeðlimum. Við erum að reyna að koma af stað nýju átaki að koma félagsmeðlimum í sýnilegri vesti svo auðveldara sé fyrir aðra bílstjóra að sjá okkur. Ég vona að við getum smitað þessa hugsun í aðra klúbba og til annars hjólafólks. Vegna
fjölda skráðra bifhjóla á Íslandi er það ekki síður mikilvægt að bílstjórar verði að gera ráð fyrir því að það séu bifhjól ávallt nálægt í umferðinni og geta verið á hverjum gatnamótum,“ segir Óskar.

Hópdýr 

Starfsemi klúbbsins felur í sér að halda utan um félagsmeðlimi, uppákomur og hefðir ásamt því að vera í forsvari út á við fyrir hönd félaga. Félagsheimili Arnanna er staðsett á Þjóðbraut nr. 722 á Ásbrú og heitir Arnarhreiðrið. Þar hittast félagsmeðlimir og fá sér kaffi eða grillaðar pylsur áður en farið er að hjóla. „Mótorhjólafólk er svona hópdýr eins og við köllum, það er gaman að hjóla saman og hjóla í hópkeyrslu. Við höfum ekki gert það í ár en það hefur í gegnum tíðina verið hefð að hjóla á fimmtudagskvöldum.
Þetta er hlutur sem við erum að reyna að koma í gang aftur en verður örugglega ekki fyrr en næsta sumar,“ segir Óskar. Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja er með opinn Facebook hóp þar sem settar eru reglulega inn upplýsingar um væntanlega viðburði og hjólatúra. Þar er einnig hægt að skoða myndir af fyrri viðburðum og ferðum. Til að verða meðlimur í klúbbnum þarf að fylla út umsóknareyðublað sem er á Facebook síðu þeirra og fer umsóknin fyrir stjórn.

Skipulagðar hópkeyrslur 

Ernir stendur fyrir skipulögðum hópkeyrslum við margs konar tilefni. Olíufélög skiptast á að bjóða í pylsupartý á  undan hópkeyrslum. „Mótorhjólafólk er mikið pylsufólk og því það er alltaf byrjað á því að grilla pylsur,“ segir Óskar. Þann 25.júní 2016 var Reykjanesdagur Arna á sama tíma og Sólseturshátíð í Garði. Reykjanesdagur Arna er haldinn í samvinnu við N1 á Ásbrú sem býður hjólafólki upp á pylsur og meðlæti áður en lagt er af stað í hópkeyrslu. Keyrt var í Garðinn og hjólunum stillt upp til sýnis. „Svo er stóri dagurinn okkar Ljósanótt. Þá stendur klúbburinn fyrir hópkeyrslu og þar getum við verið að fá fleiri hundruð hjól. Klúbburinn hefur staðið fyrir hópkeyrslu á Ljósanótt frá upphafi og er allt bifhjólafólk á landinu velkomið. Það er svo mikil stemning þegar svona margir  bifhjólamenn koma saman,“ segir Óskar.

 Hópkeyrsla á Ljósanótt 

Hópkeyrslan á Ljósanótt verður á laugardaginn 3. september. Fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í hópkeyrslunni er mæting klukkan  13.00 hjá Olís ÓB bílaplaninu í Njarðvík þar sem að sjálfsögðu verður boðið upp á grillaðar pylsur og meðlæti. Klukkan 14.00 verður tekinn smá upphitunarhringur um Reykjanesið, líklega í Garð, Sandgerði og Keflavík en það fer eftir veðri. Hringurinn endar á Olís ÓB bílaplaninu þar sem hjólunum verður stillt upp áður en lagt er af stað í hópkeyrsluna klukkan 15.00. Keyrt verður í gegnum Keflavík og niður Hafnargötuna og geta allir sem vilja sjá þennann stórkostlega flota af bifhjólum fylgst með. Hópkeyrslan endar á SBK planinu þar sem hjólunum verður stillt upp til sýnis fyrir almenning. Klúbburinn er í samvinnu vð lögregluna og munu þrjú lögreglumótorhjól stjórna umferð í kringum hópkeyrsluna. Hópkeyrslan hefur ætíð verið skemmtilegur liður af Ljósanótt og hvetur Ernir almenning til að mæta og fylgjast með.

Grindjánar

Bifhjólaklúbburinn Grindjánar var stofnaður 28. ágúst 2006 í Grindavík. Hjónin Hrafnhildur Björgvinsdóttir og Davíð Friðriksson eru tvö af stofnmeðlimum Grindjána og hafa verið að hjóla í tugi ára. Hrafnhildur Björgvinsdóttir formaður Grindjána svaraði nokkrum spurningum.
Hrafnhildur hefur verið formaður frá stofnun klúbbsins og hjólað í 20 ár. „Maðurinn minn var byrjaður að hjóla. Ég var eiginlega á móti mótorhjólum en fór einu sinni með honum og þá var ekki aftur snúið. Við fluttum til Grindavíkur árið 2003 og keyptum okkur aftur bifhjól 2006. Við gengum fyrst í Erni en svo langaði okkur að stofna klúbb á þessu svæði. Við fórum hér út og sáum fólk sem var að hjóla og buðum þeim að koma sem höfðu áhuga á að stofna klúbb heim til okkar 28. ágúst 2006,“ segir Hrafnhildur. Þann dag komu saman ellefu einstaklingar og var bifhjólaklúbburinn Grindjánar þar með stofnaður. Af þessum ellefu stofnfélögum eru ennþá fimm í klúbbnum og eru Grindjánar 36 talsins í dag. Mest hafa verið 50 í klúbbnum, en þau eru með þak yfir meðlimafjölda að ekki eru teknir inn fleiri en 50 félagar. Þegar aðsóknin var sem mest var biðlisti. Gefin hafa verið
út 97 félagsmerki. Félagsmeðlimir Grindjána eru af öllum aldri, yngsti meðlimur er 20 ára og elsti 70 ára.

Hittast í Virkinu 

Á hverjum þriðjudegi klukkan 19.30 hittast Grindjánar í félagsheimilinu þeirra Virkinu og ef veður leyfir er hjólað. Starfsemi klúbbsins felst í því að hittast, hjóla og fara í hjólaferðir. Þau eru búin að fara í ótal ferðir síðan klúbburinn var stofnaður og hægt er að skoða myndir frá sumum ferðanna á Facebook síðu þeirra og heimasíðu þeirra www.grindjanar.com. „Við förum í dagsferðir en einnig er stundum gist. Við fórum fjögur saman hringinn í sumar og á landsmót bifhjólamanna,“ segir  Hrafnhildur og bætir því við að klúbburinn sé virkur allt árið um kring. „Við erum alltaf með fjóra fasta viðburði á veturna. Októberfest er fyrstu helgina í október, Jólagleðin fyrstu helgina í aðventu,
Þorragleði fyrstu helgina í febrúar og aðalfundur í apríl og yfirleitt vorgleði eftir á. Yfir sumartímann er Sjóarinn Síkáti okkar aðalviðburður. Þá stöndum við Grindjánar fyrir hópkeyrslu. Í sumar mættu 187 hjól í hópkeyrsluna, keyrt var í gegnum hátíðarsvæðið og endað fyrir utan Virkið þar sem við buðum öllum upp á pylsur og gos. Seinnipart laugardags og sunnudags  buðum við upp á svokallaða krakkakeyrslu. Þá fá krakkar að sitja aftan á hjólunum okkar á meðan við keyrum stuttan hring á lokuðu svæði. Þetta er í miklu uppáhaldi hjá börnunum. Við erum með fullt af hjálmum, beltum og öðrum öryggisbúnaði fyrir þau,“ segir Hrafnhildur. Aðspurð hvort Grindjánar ætli að taka þátt í hópkeyrslunni á Ljósanótt svarar Hrafnhildur játandi. „Við gerum það yfirleitt alltaf.“

10 ára afmæli Grindjána

 Grindjánar héldu upp á 10 ára afmælið sitt 27. ágúst með glæsibrag. Klúbburinn bauð alla velkomna í tertuhlaðborð og tilheyrandi í Virkinu. Bifhjólaklúbbar og hjólafólk víðsvegar um landið létu sjá sig. Meðal þeirra var hjólamaðurinn Matthías Axelsson sem kom alla leið frá Akureyri. „Hann er sennilega mesti hjólari á landinu, það er enginn sem hjólar jafn mikið og hann,“ sagði Gunnar Hafdal. Meðal þeirra bifhjólaklúbba sem mættu í veisluna voru Sober Riders, Unknown Bikers og Bikers Against Child Abuse. Það skorti ekki félagsmeðlimi frá öðrum bifhjólaklúbbum Suðurnesja, en merki Arna, Lords and Ladies og Sons of Freedom voru sýnileg. „Við erum rosalega ánægð með mætinguna. Við vissum ekki hverju við áttum von á en þetta er alveg æðislegt. Það voru rúmlega hundrað hjól hérna og 180 manns,“ sagði Hrafnhildur formaður Grindjána.
VÍKURFRÉTTIR fimmtudagur 1. september 2016